Ferill 263. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.
122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 330 – 263. mál.
Frumvarp til lagaum ráðstafanir í sjávarútvegsmálum .

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Ragnar Arnalds, Hjörleifur Guttormsson.I. KAFLI

Breyting á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Veiðiheimild eða veiðiréttur er af notaréttur handhafans.

2. gr.

    6. mgr. 10. gr. laganna orðast svo:
    Ráðherra getur ákveðið með reglugerð að fiskur undir tiltekinni stærð teljist ekki eða aðeins að hluta með í aflamarki. Þá er ráðherra heimilt, í því skyni að draga úr hættu á úrkasti, að setja reglur um löndun tiltekins meðafla utan aflamarks. Fær þá útgerð aðeins greitt sem nemur áætluðum beinum útlögðum kostnaði, en andvirði meðaflans að öðru leyti skal renna til öryggismála sjómanna og hafrannsókna.

3. gr.

    11. gr. laganna orðast svo:
    Sé rekstri skips hætt, sbr. 2. mgr. 5.gr., skal úthluta nýju eða nýkeyptu skipi í eigu sama aðila aflahlutdeild hins eldra skips, enda sé um sambærilegt skip að ræða. Farist skip skal útgerð þess halda aflamarki skipsins í 12 mánuði talið frá upphafi næsta mánaðar eftir að skip fórst enda þótt nýtt eða nýkeypt skip hafi ekki komið í þess stað innan þess tíma.
    Heimilt er að færa aflahlutdeild milli skipa sömu útgerðar, enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess að mati Fiskistofu.
    Aflahlutdeild verður aðeins framseld á viðurkenndum markaði eða kaupþingi er lýtur reglum er viðskiptaráðherra setur að höfðu samráði við sjávarútvegsráðherra.
    Fiskistofa skal staðfesta að kaupandi aflahlutdeildar eigi skip sem fullnægi öllum skilyrðum til að aflahlutdeildin sé færð á það, þar með talið um veiðigetu.
    

4. gr.

    12. gr. laganna orðast svo:
    Heimilt er að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar að fengnu samþykki Fiskistofu.
    Heimilt er að skipta á aflamarki milli skipa, óháð því hverjir eru eigendur þeirra eða hvort skipin koma úr sömu verstöð, enda sé um jöfn skipti að ræða að mati Fiskistofu, sem annast skráningu slíkra skipta. Annar flutningur aflamarks milli skipa en að ofan greinir er óheimill.
    Nú nýtir skip ekki aflamark sitt á fiskveiðiárinu. Skal þá að teknu tilliti til ákvæða 10. gr., um heimildir til geymslu aflamarks milli fiskveiðiára, fyrna aflahlutdeild skipsins á næsta fiskveiðiári í viðkomandi tegund sem nemur tíu hundraðshlutum hins ónýtta aflamarks. Heimilt er að víkja frá ákvæði þessarar málsgreinar tefjist skip frá veiðum fjóra mánuði eða lengur vegna tjóns eða meiri háttar bilunar, svo og ef tafir verða frá veiðum vegna endurnýj unar skips. Sjávarútvegsráðherra setur nánari reglur um framkvæmd þessa ákvæðis.
    Fyrndar veiðiheimildir bætast við heildaraflamark viðkomandi tegundar á hinu nýbyrjaða fiskveiðiári og koma til úthlutunar í samræmi við aflahlutdeild einstakra skipa.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 18. gr. laganna.
     1.      Við greinina bætist ný málsgrein er orðast svo:
                  Sjávarútvegsráðherra er í samráði við fjármálaráðherra rétt að leyfa, eftir samkomu lagi við heildarsamtök sjávarútvegsins um tilhögun, gjaldtöku samkvæmt þessari grein, skv. 4.–6. gr. l. nr. 92/1994, um Þróunarsjóð sjávarútvegsins, svo og vegna mögulegrar þátttöku sjávarútvegsins í greiðslu kostnaðar vegna rannsóknar- og þróunarstofnana og starfsemi sem tengjast sjávarútvegi.
     2.      Greinin verður sérstakur kafli, IV. kafli, Eftirlits- og auðlindagjöld, og breytast númer annarra kafla til samræmis við það.

6. gr.

    Við lögin bætast ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:

I.


    Þrátt fyrir ákvæði 8. mgr. 6. gr. skulu sóknardagar þeirra báta, er stunda veiðar með hand færum og línu, vera 35 á fiskveiðiárinu 1997–98. Dagafjöldinn skal þó teljast fullnýttur er samanlagður þorskafli báts hefur náð 60 lestum.
    Þrátt fyrir ákvæði 10. mgr. 6. gr. skulu sóknardagar þeirra báta, er stunda veiðar með handfærum eingöngu, vera 50 á fiskveiðiárinu 1997–98.

II.

    Sjávarútvegsráðherra skal, í samráði við nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka og samtaka helstu hagsmunaaðila, taka fyrirkomulag fiskveiðistjórnar báta- og smábátaflotans til heildarendurskoðunar. Markmið þeirrar endurskoðunar skal vera að móta eitt samræmt heildstætt stjórnkerfi fyrir smábáta og minni báta sem stunda dagróðra á grunnslóð, svo og að ákveða stærðarmörk í þessu sambandi. Sjávarútvegsráðherra skal leggja tillögur um nýtt fiskveiðistjórnkerfi fyrir grunnslóðarflotann fyrir Alþingi eigi síðar en 15. apríl 1998.

III.

    Frá leyfðum heildarafla þorsks, áður en honum er skipt á grundvelli aflahlutdeildar, sbr. 7. gr., er frá og með fiskveiðiárinu 1998–99 heimilt að draga allt að 7.000 lestir til ráðstöf unar í byggðarlög sem misst hafa umtalsverðan hluta veiðiheimilda sinna og þar sem fisk veiðar og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs.
    Sjávarútvegsráðherra skal í samráði við Byggðastofnun setja nánari reglur um máls meðferð. Reglurnar skulu m.a. fela í sér möguleika til að úthluta veiðiheimildum til allt að þriggja ára til að gera viðkomandi byggðarlögum kleift að efla útgerð á nýjan leik og laða til sín samstarfsaðila á því sviði.

IV.

    Þrátt fyrir kröfur 2. mgr. 5. gr. um úreldingu sambærilegs skips er heimilt að veita veiði leyfi allt að 10% stærra skipi en úrelt er ef nýja skipið er byggt samkvæmt nútímakröfum um fullkomnustu aðstöðu fyrir áhöfn. Ef endurnýjað er í slíku skipi sem ætlað er til veiða á uppsjávarfiskum og búið tækni til kælingar og hágæðameðferðar hráefnis má stærð hins nýja skips vera allt að 25% meiri en þess sem úrelt er. Ráðherra er heimilt að rýmka framangreind mörk í allt að 25% í fyrra tilvikinu og allt að 40% í því síðara ef hið nýja skip er smíðað í innlendri skipasmíðastöð.
    Samhliða þeirri breytingu sem 1. mgr. mælir fyrir um skal ráðherra láta fara fram heildar endurskoðun á þeim reglum sem gilda um úreldingu fiskiskipa og skulu niðurstöður hennar lagðar fyrir Alþingi haustið 1998. Jafnframt falla ákvæði 1. mgr. úr gildi í árslok 1998.

II. KAFLI

Breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.

7. gr.

    Við 2. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Ráðherra skal með reglubundnum hætti endurskoða þau ákvæði er gilda um meðferð úrgangs frá vinnsluskipum. Markmiðið verði að skylt sé að færa að landi allan fiskúrgang sem telst þjóðhagslega hagkvæmt að nýta.

8. gr.

    Við 5. gr. laganna bætist nýr málsliður er verður 2. málsl. og orðast svo: Afla sem ekki er landað til vinnslu innan lands hjá sama fyrirtæki og stundar veiðarnar skal bjóða til sölu á viðurkenndum fiskmarkaði þannig að innlendri fiskvinnslu standi jafnan til boða að vinna fiskinn.

III. KAFLI

Breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt,

nr. 75/1981, með síðari breytingum.
9. gr.

    Við 13. gr. laganna bætist ný málsgrein er verður 2. mgr. og orðast svo:
    Ákvæði 1. mgr. gildir ekki um söluhagnað af viðskiptum með aflahlutdeild, sbr. 11. gr. l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða.

10. gr.

    Við lögin bætist ný grein, 72. gr. A, er orðast svo:
    Af söluhagnaði af viðskiptum með aflahlutdeild sbr. 11. gr. l. nr. 38/1990, um stjórn fisk veiða, skal auk tekjuskatts samkvæmt 72. gr. reikna sérstakan tekjuskatt sem skal vera 50% að teknu tilliti til stofnverðs og fyrninga, sbr. þó 2. mgr. 13. gr.

IV. KAFLI
Gildistaka.
11. gr.

    Lög þessi öðlist þegar gildi. Þó skulu ákvæði 3. og 4 gr. gilda í fyrsta sinn fyrir fiskveiði árið sem hefst 1. september 1999.

Greinargerð.

    Frumvarp það um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum sem hér er flutt tekur á nokkrum veiga miklum göllum sem flutningsmaður telur að séu á núverandi stjórnkerfi fiskveiða, svo og á umgengni okkar um auðlindina og á skattalegri meðferð hagnaðar sem myndast í viðskiptum með veiðiheimildir. Efni frumvarpsins er nánar skýrt í umfjöllun um einstakar greinar en hér á eftir verða raktar helstu breytingar sem frumvarpið hefur í för með sér.
    I. kafli frumvarpsins snýr að breytingu á lögum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Felur hann í sér eftirfarandi:
     1.      Sett er inn í 1. gr. laganna til viðbótar þeim ákvæðum sem þar eru um sameign þjóðarinnar á auðlindinni sú skilgreining á veiðirétti og veiðiheimildum að um sé að ræða afnotarétt.
     2.      Sett er inn í lögin heimild til að útfæra reglur um svokallaðan meðafla, þ.e. löndun tiltekins meðafla utan aflamarks.
     3.      Sett er sú regla um viðskipti með aflahlutdeild að aflahlutdeild megi einungis færa milli skipa sömu útgerðar, auk þess sem eldri reglur um aflahlutdeild skipa við endurnýjun eða þegar skip ferst halda sér. Utan tilfærslna með aflahlutdeild innan sömu útgerðar verður aflahlutdeild aðeins framseld á viðurkenndum markaði eða kaupþingi. Komið er þannig í veg fyrir að útgerðarmenn geti verslað með aflahlutdeild, þ.e. varanlega veiði heimild, í viðskiptum innbyrðis.
     4.      Sett er sú regla að einungis er heimilt að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar og heimilt að skipta á sléttu eða á jöfnu á aflamarki enda samþykki Fiskistofa skiptin. Annar flutningur aflamarks, þ.e. leiga veiðiheimilda innan árs, en þessi verði óheimill.
     5.      Útfærð er svonefnd fyrningarregla. Hún felur í sér að tiltekinn hluti ónýttra veiðiheimilda eða ónýtts aflamarks innan fiskveiðiárs, að teknu tilliti til heimilda til geymslu og undanþáguákvæða er varða frátafir frá veiðum vegna meiri háttar tjóns eða bilana og endurnýjunar skipa, skal fyrndur við úthlutun til skipsins á næsta fiskveiðiári. Þær veiðiheimildir sem þannig skila sér á nýjan leik inn í sameiginlegan pott skulu bætast við heildaraflamark viðkomandi tegundar á hinu nýbyrjaða fiskveiðiári og þeim úthlutað í samræmi við aflahlutdeild einstakra skipa.
     6.      Lögð er til sú breyting á ákvæðum laganna um gjaldtöku vegna eftirlits og stjórnunar að á undan 18. gr. komi ný kaflafyrirsögn, Eftirlits- og auðlindagjöld. Auk þess bætist við greinina ný málsgrein sem feli sjávarútvegsráðherra í samráði við fjármálaráðherra að leita eftir samkomulagi við heildarsamtök sjávarútvegsins um tilhögun gjaldtöku af sjávarútveginum, samkvæmt ákvæðum laga um stjórn fiskveiða, ákvæðum laga um þróunarsjóð sjávarútvegsins og mögulegri þátttöku sjávarútvegsins í greiðslu kostnaðar við rannsóknar- og þróunarstofnanir og starfsemi sem tengist sjávarútvegi.
     7.      Ákvæði til bráðabirgða I tengist úthlutun á sóknardögum eða róðrardögum sóknardagabáta á nýhöfnu fiskveiðiári. Lagt er til að settur verði lágmarksdagafjöldi fyrir handfæra- og línubáta, hvorn hóp um sig, og þá sem eingöngu róa með handfæri. Verði dagafjöldi handfæra- og línubátanna 35 en dagafjöldi hinna síðarnefndu 50. Jafnframt verði sett hámark á þann þorskafla sem hver handfæra- eða línubátur má flytja að landi. Telst hver bátur hafa nýtt dagafjölda sinn til fulls er afli hefur náð 60 lestum þótt færri daga hafi verið róið en 35 eða það margfeldi þeirrar tölu sem álagsstuðlar kveða á um.
     8.      Ákvæði til bráðabirgða II er um að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd með fulltrúum allra þingflokka og samtaka helstu hagsmunaaðila sem endurskoði í heild sinni fiskveiði stjórnkerfi báta og smábátaflotans sem sækir á grunnslóðina.
     9.      Ákvæði er um ákveðinn viðlagasjóð upp á 7.000 lestir til ráðstöfunar í byggðarlög sem misst hafa umtalsverðan hluta veiðiheimilda sinna og þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla eru uppistaða atvinnulífs.
     10.      Endurflutt er ákvæði úr eldra frumvarpi sem flutningsmaður hefur flutt um breytingar á úreldingarreglum fiskiskipa og endurskoðun þeirra mála.
    Í öðrum kafla frumvarpsins er fjallað um breyting á lögum um umgengni um nytjastofna sjávar, nr. 57/1996.
     11.      Lögð er til viðbót við 2. gr. laganna sem takmarkar nokkuð svigrúm ráðherra til að veita undanþágur frá því ákvæði að vinnsluskip komi með allan fiskúrgang að landi. Ákvæðið felur ráðherra að útfæra slíkar reglur með það að markmiði að skylt sé að færa að landi allan fiskúrgang sem talist geti þjóðhagslega hagkvæmt að nýta. Með því er átt við að jafnvel þó að sú nýting skili viðkomandi vinnsluskipi ekki arði geti verið rétt að leggja þá kvöð á vinnsluskipin að hirða úrgang.
     12.      Þá er lögð til sú breyting á 5. gr. laganna, er fjallar um vigtun sjávarafla, að allur afli sem ekki fer beint til vinnslu innan lands hjá sama aðila skuli boðinn til sölu á viður kenndum innlendum fiskmarkaði. Þetta tryggir aðgang innlendrar fiskvinnslu að öllu hráefni sem ekki fer beint til vinnslu auk þess sem það hefur lengi verið krafa sjómanna að verðlagning ákvarðist á slíkum markaði.
    Þriðji kafli frumvarpsins fjallar um breyting á lögum um tekjuskatt og eignaskatt, nr. 75/1981.
     13.      Lagt er til að greiða skuli sérstakan tekjuskatt af söluhagnaði sem verða kann í viðskiptum með varanlegar veiðiheimildir eða aflahlutdeild. Heimildir til að færa hagnaðinn yfir á aðrar eignir eða fresta honum milli ára skv. 13. gr. eru afnumdar. Hagnaðurinn myndar því skattskyldar tekjur á söluárinu. Með nýrri grein, 72. gr. A, sem fjallar um tekjuskatt lögaðila, er lagður sérstakur 50% skattur á allan söluhagnað í viðskiptum með aflahlut deild óháð afkomu viðkomandi fyrirtækis að öðru leyti. 50% skatthlutfallið er því lág marksskattur sem allir sem selja varanlegar veiðiheimildir verða að greiða af söluhagn aði veiðiheimilda. Sé jafnframt um að ræða fyrirtæki sem greiðir tekjuskatt mundu 33% bætast við þannig að í tilvikum þar sem ekki væri ójafnað tap hjá fyrirtækinu væri sölu hagnaður veiðiheimildanna að mestu leyti gerður upptækur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    1. gr. frumvarpsins felur í sér viðbót við 1. gr. laga um stjórn fiskveiða þar sem skilgrein ingu á sjálfum veiðiréttinum er bætt við ákvæðin um sameign þjóðarinnar, þ.e. að veiðirétt urinn, veiðiheimildirnar, aflamarkið eða aflahlutdeildin sé afnotaréttur handhafans, þess sem úthlutað fær. Afnotaréttareðli veiðiheimildanna á svo að endurspeglast í löggjöfinni sjálfri og lúta aðrar breytingar í frumvarpinu að því. Er þar ekki síst átt við svonefnt fyrningar ákvæði á ónýttu aflamarki, sbr. 4. gr. frumvarpsins um breytingu á 12. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Í 2. gr. er annars vegar breytt orðalagi sem lýtur að heimildum ráðherra til að undanskilja undirmálsfisk. Ákvæðið eins og það er í gildandi lögum heimilar einungis að tiltekinn hluti undirmálsfisks megi teljast utan aflamarks en með breytingartillögunni er þetta rýmkað þannig að ráðherra getur samkvæmt reglunum ákveðið að allur fiskur undir tiltekinni stærð eða hluti hans teljist ekki með í aflamarki. Þá er í seinni málslið breytingartillögunnar opnað fyrir heimild til að setja reglur um löndun tiltekins meðafla utan aflamarks. Þar yrði að sjálf sögðu að setja ákveðin mörk og skilgreina hver meðafli gæti að hámarki orðið eftir því hvaða veiðar væru stundaðar, með hliðsjón af hvaða veiðarfærum o.s.frv. Stemma yrði stigu við því að útgerðir gætu í stórum stíl nýtt sér þetta til að færa afla, langt umfram veiðiheimildir í einstökum tegundum, að landi sem meðafla. Þannig mætti hugsa sér að meðafli gæti að há marki orðið 10–15% af aflamarki skips í viðkomandi tegund og að löndun meðaflans væri háð takmörkunum, svo sem þeim að veiðar beindust aðallega að öðrum tegundum á þeim tíma sem meðaflanum væri landað. Þá þarf að tryggja að greiðslur til útgerðar vegna áætlaðs kostnaðar við að hirða aflann séu aldrei hærri en svo að ekki sé eftirsóknarvert fyrir útgerð ina að stunda veiðarnar af öðrum ástæðum en þeim einum að brjóta ekki ákvæði um að færa allan afla að landi og draga úr hættunni á úrkasti. Þá ætti ráðstöfun andvirðis meðaflans að frádregnum kostnaði til þarfra málefna, svo sem öryggismála sjómanna og hafrannsókn, að verka hvetjandi á útgerðarmenn og sjómenn til að koma með aflann að landi. Ljóst er að mik ið er í húfi að útfæra reglu af þessu tagi ef hún mætti verða til að draga úr þeim meginannmarka aflamarkskerfisins að það auki hættu á úrkasti. Með því drægi úr þeirri sóun sem fólgin er í úrkastinu og réttar upplýsingar fást um raunverulegt veiðálag.

Um 3. gr.

    Greinin felur í sér að 11. gr. laganna orðast upp á nýtt en hún fjallar um meðferð aflahlut deildar, þ.e. varanlegra veiðiheimilda og hvernig þær séu skráðar á skip, hvaða reglur gildi um færslu þeirra milli skipa svo og um framsal á aflahlutdeild. Í 1. mgr. eru staðfestar óbreyttar reglur um úthlutun til nýs eða nýkeypts skips eigu í sama aðila, svo og um meðferð aflahlutdeildar af skipum sem farist hafa. Í 2. mgr. er kveðið á um að heimilt sé að færa afla hlutdeild milli skipa sömu útgerðar enda leiði flutningurinn ekki til þess að veiðiheimildir þess skips sem flutt er til verði bersýnilega umfram veiðigetu þess að mati Fiskistofu. Í 3. mgr. er nýmæli sem kveður á um að fyrir utan þær heimildir sem fyrri málsgreinar greinar innar opna geti aflahlutdeild aðeins færst milli skipa ef um framsal milli útgerða er að ræða á viðurkenndum markaði eða kaupþingi. Viðskiptaráðherra skal setja sérstakar reglur að höfðu samráði við sjávarútvegsráðherra um markaðinn eða kaupþingið og gætu þar reglur um verðbréfaþing gilt eftir því sem við getur átt. Með þessu móti er komið í veg fyrir milli liðalaus viðskipti útgerðarmanna með aflahlutdeild. Aflahlutdeild er skilin frá skipi við sölu þess og verður að fara um markað eða kaupþing. Með því verður verðgildi aflahlutdeild arinnar sýnilegt og það auðveldar skattalega meðferð veiðiheimildanna og skattlagningu söluhagnaðar, sbr. 9. og 10. gr.

Um 4. gr.

    Greinin felur í sér talsverðar breytingar á ákvæðum 12. gr. laganna um meðferð aflamarks og heimildir til að færa aflamark milli skipa. 1. mgr. er sambærileg við þá reglu sem er í gild andi lögum að heimilt sé að færa aflamark milli skipa sömu útgerðar. Þá segir í 2. mgr. að heimilt sé að skipta á sléttu á aflamarki innan fiskveiðiárs óháð því hverjir séu eigendur skipa eða hvort þau komi úr sömu verstöð enda sé um jöfn skipti að ræða að mati Fiskistofu. Í síðari málslið 2. mgr. er hins vegar með ótvíræðum hætti tekið af skarið um að annar flutn ingur aflamarks milli skipa en sá sem að framan greinir sé óheimill. Leiga á veiðiheimildum innan fiskveiðiársins er þar með bönnuð og allt sem þeirri leigustarfsemi hefur fylgt mundi þar með heyra fortíðinni til. Í 3. mgr. er á ferð nýmæli en þar er útfærð svonefnd fyrningar regla ónýttra veiðiheimilda, þ.e. að tiltekinn hluti, eða 10% af ónýttu aflamarki innan fisk veiðiárs að teknu tilliti til heimilda til geymslu aflamarks milli fiskveiðiára og með undan þágum vegna meiri háttar frátafa frá veiðum, skuli fyrnast frá viðkomandi skipi. Þessi regla er mikilvæg í því sambandi að ítreka svonefnt afnotaréttareðli veiðiheimildanna, sbr. 1. gr. frumvarpsins, og reglan mundi smátt og smátt færa veiðiheimildir frá þeim sem ekki nýta veiðiheimildir sínar til hinna sem það gera. Þetta gerist þannig að hið fyrnda aflamark skal bætast við heildaraflamark viðkomandi tegundar á nýbyrjuðu fiskveiðiári og koma til úthlut unar í samræmi við aflahlutdeild einstakra skipa.

Um 5. gr.

    Greinin fjallar um breytingar á 18. gr. laganna. Þar er lagt til að ný kaflafyrirsögn, Eftir lits- og auðlindagjöld, komi á undan 18. gr. Einnig að við greinina bætist ákvæði þar sem sjávarútvegsráðherra er í samráði við fjármálaráðherra falið að leita eftir samkomulagi við heildarsamtök sjávarútvegsins um tilhögun gjaldtöku eða kostnaðarþátttöku sjávarútvegsins vegna ýmiss konar eftirlitsstarfsemi, rannsókna- og þróunarstarfsemi og fleiri slíkra hluta sem sjávarútvegurinn eftir atvikum tæki að sér að greiða. Um yrði að ræða sameiningu á þeim gjöldum sem sjávarútvegurinn greiðir nú þegar svo sem veiðieftirlitsgjald, gjöld til Þróunarsjóðs o.fl. Í slíkum samningi yrðu útfærðar hugmyndir um að sjávarútvegurinn taki í vaxandi mæli þátt í greiðslu kostnaðar vegna umhverfismála og rannsókna- og þróunar starfsemi sem tengjast sjávarútveginum.

Um 6. gr.

     Um ákvæði til bráðabirgða I og II.
    Ákvæði til bráðabirgða I felur í sér að sett er gólf í sóknardaga krókabáta á nýbyrjuðu fiskveiðiári.
    Ákvæðin skýra sig efnislega sjálf en þau ber að skoða í samhengi við ákvæði til bráða birgða II. Það ákvæði felur í sér að sjávarútvegsráðherra skuli skipa nefnd með fulltrúum allra þingflokka og samtaka helstu hagsmunaaðila til að taka fyrirkomulag fiskveiðistjórnun ar báta og smábátaflotans til heildarendurskoðunar. Markmið þessarar endurskoðunar skal vera það að móta heildstætt stjórnkerfi fyrir smábáta og minni báta sem stunda dagróðra á grunnslóð. Einnig skal nefndin gera tillögur um stærðarmörk í þessu sambandi, þ.e. hversu langt upp í bátaflotann yrði farið í stærð þegar skilgreindur yrði dagróðra- eða grunnslóðar floti. Slíkt kerfi þarf að taka mið af eðli þeirrar sóknar sem um er að ræða, hugmynda um að taka tillit til vistvænna veiðarfæra og réttar þessa flota að grunnslóðinni svo og hagsmuna aðliggjandi byggðarlaga og fleiri þátta. Brýnt er að hraða þessu verki og er því lagt til að sjávarútvegsráðherra leggi tillögur um nýtt fiskveiðistjórnkerfi fyrir grunnslóðarflotann fyrir Alþingi eigi síðar en 15. apríl 1998.
    
     Um ákvæði til bráðabirgða III.
    Ákvæðið felur í sér að heimilt skuli frá og með næsta fiskveiðiári að draga allt að 7.000 lestir frá áður en úthlutað er leyfðum heildarafla þorsks til byggðarlaga sem misst hafa um talsverðan hluta veiðiheimilda sinna og þar sem fiskveiðar og fiskvinnsla eru uppistaða at vinnulífs. Þetta ákvæði er hugsað sem viðlagasjóður eða pottur sem mögulegt sé að grípa til vegna byggðarlaga þar sem mjög verulegur hluti veiðiheimilda hefur horfið á braut og til að auðvelda þeim að koma upp útgerð á nýjan leik og laða til sín samstarfsaðila á því sviði með meiri veiðiheimildir. Ákvæðið gæti falið í sér að úthlutað væri til allt að þriggja ára án endurgjalds tilteknum veiðiheimildum sem byggðarlögin gætu síðan nýtt í framangreindum tilgangi samkvæmt nánari reglum.
    
    Um ákvæði til bráðabirgða IV.
    Ákvæðið felur í sér nokkra rýmkun á núgildandi úreldingarreglum þar sem tekið er tillit til þess viðbótarrýmis sem nútímaaðstaða fyrir áhöfn kallar á. Enn fremur eru rýmkaðar regl ur um úreldingu þegar um er að ræða endurnýjun á skipum sem ætluð eru til veiða á upp sjávarfiskum og búin eru tækni til kælingar og hágæðameðferðar hráefnis. Ljóst er að burð argeta skipa minnkar verulega frá því sem áður var þegar lestar eru einangraðar og slíkum búnaði komið fyrir. Það er því beinlínis ósanngjarnt að útgerðaraðilum sé gert erfitt um vik að endurnýja skip sín, hvort heldur er til að bæta aðstöðu fyrir áhöfn eða bæta meðferð hrá efnis með þeim hætti sem núgildandi reglur segja fyrir um. Þá eru og ákvæði um að ráðherra sé heimilt að rýmka sérstaklega úreldingarkröfuna ef nýtt skip er smíðað í innlendri skipa smíðastöð. Loks er í síðari málsgrein bráðabirgðaákvæðisins kveðið á um að ráðherra skuli láta fara fram heildarendurskoðun á þeim reglum sem gilda um úreldingu fiskiskipa. Brýnt er að hraða því verki og er því lagt til að niðurstöður séu lagðar fyrir Alþingi haustið 1998.

    Um 7. gr.

     Greinin felur í sér breyting á 2. gr. laga um umgengni um nytjastofna sjávar sem mælir fyrir um að ráðherra skuli reglulega endurskoða þau ákvæði er gilda um meðferð úrgangs á vinnsluskipum. Skal markmið slíkrar endurskoðunar vera að skylt sé jafnan að færa að landi allan fiskúrgang sem teljist þjóðhagslega hagkvæmt að nýta. Horfið var fyrir nokkru frá því að skylda vinnsluskip að undangengnum ákveðnum aðlögunartíma til að koma með allan úr gang að landi eins og ætlunin hafði verið. Var því þá borið við að engar leiðir hefðu fundist til að gera nýtingu slíks úrgangs arðbæran. Ljóst er að þá var fyrst og fremst átt við að slík nýting skilaði viðkomandi vinnsluskipi ekki beinum arði en ekki hitt að um þjóðhagslegan arð gæti ekki eftir sem áður verið að ræða af slíkri nýtingu. Innan sanngjarnra marka hlýtur að teljast eðlilegt að leggja þá kvöð á fiskiskipin að færa allt sem þeim er heimilað að taka úr fiskstofnunum að landi svo fremi sem nýting þess geti orðið þjóðhagslega hagkvæm í heildarsamhengi.

Um 8. gr.

    Greinin felur í sér þá reglu að allur óunninn afli sem ekki er landað beint til vinnslu innan lands hjá sama aðila og útgerðina stundar skuli boðinn til sölu á viðurkenndum innlendum fiskmarkaði. Getur þá hvort sem heldur er verið um að ræða gólfmarkað eða fjarskiptamark að. Slík regla tryggir aðgang innlendrar fiskvinnslu að öllum óunnum afla og um leið ætti að myndast virkur markaður sem gefið getur viðmiðunarverð sem hafa má til hliðsjónar í samn ingum við sjómenn.

Um 9. gr.

    Í greininni er lögð til breyting á 13. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, sem felur í sér að ákvæði 1. mgr. 13. gr. um meðferð söluhagnaðar skuli ekki gilda ef um söluhagnað af viðskiptum með aflahlutdeild er að ræða, þ.e. ekki er heimilt að færa sölu hagnaðinn yfir á aðrar eignir eða fresta honum eins og ella væri mögulegt samkvæmt ákvæð um 13. gr.

Um 10. gr.

    Greinin er nýmæli og felur í sér að af öllum söluhagnaði af viðskiptum með aflahlutdeild skuli greiða, auk tekjuskatts samkvæmt núgildandi 72. gr, sérstakan tekjuskatt sem skuli vera 50%. Hér er um að ræða grunnskatt sem greiddur yrði af öllum söluhagnaði án tillits til skattgreiðslna viðkomandi fyrirtækis að öðru leyti, þ.e. án tillits til þess hvort viðkomandi fyrirtæki greiddi jafnframt tekjuskatt af hagnaði. Slík ákvæði eins og lögð eru til í 9. og 10. gr. sýna mögulega útfærslu á því að gera að miklu eða verulegu leyti upptækan söluhagnað af viðskiptum með varanlegar veiðiheimildir enda aldrei ætlunin að fiskveiðistjórnkerfið og kerfið sem sett var á til að takmarka sókn í fiskstofna færi að mynda hagnað hjá fyrirtækjum í sjávarútvegi í sjálfu sér. Verði engu að síður um slíkan hagnað að ræða er bæði rétt og skylt að hann sé að verulegu leyti skattlagður. Hér er valin sú leið að skattleggja hagnað sem kann að hafa myndast vegna fiskveiðistjórnkerfisins hjá aðilum sem eru að selja frá sér afnotarétt sinn í stað þess að hugmyndir um veiðileyfagjöld ganga út á að skattleggja þá sem halda áfram að nýta sinn rétt og starfa í greininni.

Um 11. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.