Ferill 300. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 374 – 300. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um blóðbankaþjónustu við þjóðarvá.

Flm.: Siv Friðleifsdóttir, Svavar Gestsson, Ásta B. Þorsteinsdóttir,


Árni R. Árnason, Guðný Guðbjörnsdóttir, Magnús Stefánsson,
Kristín Ástgeirsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela heilbrigðisráðherra að skipa nefnd sem hafi það verkefni að leggja fram tillögur um hvernig öryggi blóðbankaþjónustu skuli tryggt við stórslys og við þjóðarvá. Nefndin skal skipuð fulltrúum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis, Blóðbankans, Al mannavarna ríkisins, landlæknisembættisins, hjálparsveita og Rauða krossins.

Greinargerð.


    Engar skýrar reglur eru til um nauðsynlegar forsendur fyrir því að öryggi blóðbankaþjón ustu sé tryggt þegar stórfellt áfall ber að höndum, við þjóðarvá. Brýnt er að settar verði lág marksreglur þar að lútandi þar sem mikils magns blóðhluta getur orðið þörf á skömmum tíma við þjóðarvá og hópslys, t.d. flugslys.
    Í hópslysanefnd Almannavarna ríkisins var fyrir nokkrum árum vakin athygli á því að kanna þyrfti nauðsyn sérstakra ráðstafana í hópslysatilfellum þar sem verulegur hluti skráðra blóðgjafa kæmi úr röðum þeirra sem yrðu kallaðir út í slíkum tilfellum, svo sem lögreglu-, slökkviliðs- og björgunarsveitarmanna. Í framhaldi af því var samin á vegum hópslysanefnd ar greinargerð um hópslysablóðgjafir sem miðuðust við Reykjavík og nágrenni. Nýleg björg unaræfing, Samvörður '97, beindi augum manna að nauðsyn og lykilhlutverki blóðbanka þjónustu við alvarlegar aðstæður.
    Blóð notað til blóðgjafa er ein af forsendum nútímaheilbrigðisþjónustu. Þjóðfélagið gerir kröfu um að slösuðum, bráðsjúkum og öðrum sjúklingum sé sinnt. Blóðgjafir eru því í raun ein af undirstöðum heilbrigðisþjónustu.
    Hlutverk blóðbankaþjónustu er að nýta gjöf blóðgjafans með besta mögulegum hætti, skapa öryggi í starfsháttum við vinnslu og geymslu blóðhluta, tryggja gæði blóðhlutanna með réttum vinnubrögðum og sannreyna þau með gæðaeftirliti. Jafnframt er það hlutverk Blóð bankans að tryggja öryggi í aðföngum eða með öðrum orðum að tryggja nægilegan fjölda blóðgjafa á hverjum tíma.
    Fjöldi virkra blóðgjafa (skilgreint sem sá fjöldi einstaklinga sem hefur gefið blóð a.m.k. einu sinni á síðustu 2–3 árum) er nálægt 8–9.000. Þetta jafngildir því að u.þ.b. 5–6% þeirra einstaklinga sem eru á aldri blóðgjafa gefa blóð. U.þ.b. 3,5% þjóðarinnar eru virkir blóð gjafar. Þetta hlutfall er ekki ýkja frábrugðið því sem gerist víða erlendis, en þó lægra en meðal margra annarra þjóða.




Prentað upp.

    Ef þjóðarvá skapast þarf í fyrsta lagi að tryggja að húsakostur Blóðbankans standi af sér slíkar aðstæður.
    Í öðru lagi þarf að tryggja að rafmagn, vatn, tölvukostur og önnur stoðþjónusta sé til stað ar.
    Í þriðja lagi þarf skýrar og samræmdar reglur um lágmarksbirgðir hráefna (t.d. til vírus skimunar, blóðpoka, næringarlausnir o.fl.) hér á landi aukist blóðþörf skyndilega.
    Í fjórða lagi þarf að styrkja Blóðbankann í því starfi að tryggja nægilegan fjölda blóð gjafa sem hægt er að kalla til blóðgjafar.
    Í fimmta lagi þarf að tryggja nægilegan fjölda starfsmanna til blóðsöfnunar og stoðþjón ustu þegar þörf fyrir blóðsöfnun og blóðhlutavinnslu fjór- til tífaldast á skömmum tíma.
    Í sjötta lagi þarf að vera hægt að sinna blóðsöfnun á öruggan hátt utan Blóðbankans við þjóðarvá.
    Í sjöunda lagi þarf að gera samninga við nágrannalönd okkar um aðstoð á sviði blóð bankaþjónustu ef þess gerist þörf.
    Í áttunda lagi þarf að auka fræðslu meðal barna og unglinga um nauðsyn blóðgjafa, og á sama tíma reyna að tengja það átak baráttu fyrir heilsusamlegum lífsstíl.