Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 443 – 343. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



I. KAFLI
Breytingar á lögum um fæðingarorlof,
nr. 57/1987, með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 2. gr. laganna bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
    Auk réttar foreldra skv. 1. mgr. á faðir rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Notfæri faðir sér ekki réttinn fellur hann niður.
    Réttur föður til fæðingarorlofs er bundinn því skilyrði að hann sé í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins.

2. gr.

    Í stað orðanna „hluta fæðingarorlofs“ í 3. málsl. 4. gr. laganna kemur: fæðingarorlof.

II. KAFLI
Breytingar á lögum um almannatryggingar,
nr. 117/1993, með síðari breytingum.
3. gr.

    F-liður 16. gr. laganna orðast svo: Faðir á rétt á greiðslu fæðingardagpeninga í stað móður ef hún óskar þess, enda leggi hann niður launaða vinnu á meðan. Foreldrar geta skipt með sér fæðingarorlofi, t.d. verið bæði í orlofi á sama tíma að fullu eða að hluta, þó þannig að greiðslur til þeirra sameiginlega nemi ekki meira en sex mánaða fæðingardagpeningum skv. c-lið.

4. gr.

    Á eftir 16. gr. kemur ný grein, 16. gr. a, svohljóðandi:
    Faðir á rétt á tveggja vikna fæðingarorlofi, sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Notfæri faðir sér ekki þennan rétt fellur hann niður.
    Réttur föður til fæðingarorlofs er bundinn því skilyrði að hann sé í hjúskap eða skráðri óvígðri sambúð með móður barnsins.
    Faðir í fæðingarorlofi á rétt á greiðslu fæðingarstyrks í hlutfalli við lengd orlofsins. Þá á hann rétt á hlutfallslegri greiðslu fæðingardagpeninga í samræmi við ákvæði d-liðar 16. gr.

5. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1998.



Ákvæði til bráðabirgða.


    Ákvæði laga þessara um rétt föður til fæðingarorlofs skulu gilda um feður barna sem fæðast 1. janúar 1998 eða síðar.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með frumvarpinu er lagt til það nýmæli að veita feðrum sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs, samtals tvær vikur sem taka má hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Greiðslur til feðra þessar tvær vikur verða þær sömu og til mæðra, hlutfallslega.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um I. kafla.

    Í I. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um fæðingarlof, nr. 57/1987, eins og þeim var breytt með lögum nr. 51/1997.

Um 1. gr.

    Hér er fjallað um sjálfstæðan rétt föður til tveggja vikna fæðingarorlofs. Faðir má taka þetta fæðingarorlof hvenær sem er fyrstu átta vikurnar eftir fæðingu eða heimkomu barns. Með heimkomu barns er bæði átt við heimkomu barns af fæðingarstofnun og heimkomu barns sem er ættleitt eða tekið í varanlegt fóstur. Mikilvægt þykir að binda töku fæðingarorlofs föður við fyrstu vikurnar sem barnið er á heimilinu, m.a. vegna tengslamyndunar milli föður og barns. Þar sem erfitt er að tryggja að faðir, sem ekki er í hjúskap eða sambúð með móður inni, geti nýtt sér eða nýti sér fæðingarorlofstímann til samvista við barnið er gert er ráð fyrir að þessi réttur sé háður því skilyrði að faðirinn sé í hjúskap eða skráðri sambúð með móður barnsins við upphaf töku fæðingarorlofs. Þessi réttur er sjálfstæður réttur föður þannig að notfæri hann sér ekki réttinn fellur hann niður. Hann getur því ekki færst yfir til móður til lengingar fæðingarorlofs hennar.

Um 2. gr.

    Hér er gerð nauðsynleg orðalagsbreyting á 4. gr. laga um fæðingarorlof sem leiðir af því að faðir á ekki lengur eingöngu kost á því að taka hluta af sex mánaða fæðingarorlofi heldur á hann sjálfstæðan rétt til fæðingarorlofs.

Um II. kafla.

    Í II. kafla frumvarpsins eru lagðar til nauðsynlegar breytingar á ákvæðum 16. gr. almanna tryggingalaga, nr. 117/1993, með síðari breytingum, vegna sjálfstæðs réttar föður til fæðingarorlofs.

Um 3. gr.

    Gerð er breyting á f-lið 16. gr. til að tryggja nægjanlegan sveigjanleika í skiptingu foreldra á fæðingarorlofi. Fellt er niður skilyrði um að móðirin ein verði að taka fyrsta mánuðinn eftir fæðingu. Þannig getur faðir t.d. nýtt sér rétt sinn til sjálfstæðs fæðingarorlofs strax eftir fæðingu og síðan geta foreldrarnir skipt á milli sín því orlofi sem eftir er.

Um 4. gr.

    Gert er ráð fyrir að á eftir 16. gr. komi ný grein sem verði 16. gr. a. Í þessari nýju grein er fjallað um sjálfstæðan rétt föður til fæðingarorlofs, skilyrði þess réttar og brottfall. Þá eru í greininni ákvæði um hvernig skuli greiða föður í þessu fæðingarorlofi. Lagt er til að sömu reglur gildi og um greiðslu til móður. Samkvæmt því fær faðir fæðingarstyrk í tvær vikur og fæðingardagpeninga eftir atvinnuþátttöku sinni, einnig í tvær vikur.

Um 5. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Hér er gert ráð fyrir að réttur feðra miðist við börn sem fæðast 1. janúar 1998 eða síðar, þ.e. eftir gildistöku laganna. Þar sem rétturinn er bundinn við fyrstu átta vikur eftir fæðingu barns og samkvæmt ákvæði 4. gr. laga um fæðingarorlof skal tilkynna atvinnurekanda um töku fæðingarorlofs með 21 dags fyrirvara þykir ekki fært að láta sjálfstæðan rétt föður til fæðingarorlofs taka til feðra barna sem fæðast fyrir gildistöku laganna.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.

    Samkvæmt frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga nr. 57/1987, um fæðingarorlof, og laga nr. 117/1993, um almannatryggingar. Ákvæði frumvarps um fæðingarorlof eiga við um alla þá sem eiga lögheimili á Íslandi og gegna launuðu starfi, en ákvæði laga um almanna tryggingar eiga við um greiðslur fæðingarstyrks og fæðingardagpeninga til annarra en þeirra sem samið hafa um slíkar greiðslur í kjarasamningum. Með frumvarpinu er lagt til að feðrum verði tryggður sjálfstæður réttur til hálfs mánaðar færðingarorlofs.
    Eingöngu er metinn kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins vegna þeirra sem lögin ná til, en ekki áhrif á kostnað atvinnulífsins vegna óhagræðis við afleysingar eða annars kostnaðar við fjarvistir starfsmanna vegna töku fæðingarorlofs. Á sama hátt er ekki gerð tilraun til að meta hugsanlegan ábata, eða áhrif á velferð barna eða fjölskyldna, eða áhrif á stöðu mismun andi hópa á vinnumarkaði.
    Samanlagt má gera ráð fyrir að árlegur kostnaður Tryggingastofnunar ríkisins af frum varpinu verði um 100 m.kr., miðað við að 90–95% karlmanna nýti sér tveggja vikna fæðingarorlof og fái fulla greiðslu frá Tryggingastofnun ríkisins. Er reiknað með um 4.500 fæðingum á ári og að þar af séu um 4.100 fæðingar hjá foreldrum sem eru giftir eða í staðfestri sambúð. Greiðsla fullra fæðingardagpeninga er 17.360 kr. í tvær vikur og fæðingarstyrkur í hálfan mánuð er 14.795 kr., eða samtals 32.155 kr. Loks er gert ráð fyrir að ákvæði laganna nái til um 85% fæðinga, en ríkisstjórnin hefur þegar tekið ákvörðun um að karlmenn í starfi hjá ríkinu fái rétt til hálfs mánaðar fæðingarorlofs frá næstu áramótum.
    Samtals má gera ráð fyrir að frumvarpið valdi 100 m.kr. árlegum kostnaðarauka fyrir ríkissjóð verði það að lögum. Má búast við að kostnaðurinn verði eitthvað minni fyrstu árin en aukist eftir því sem karlmenn nýta sér rétt sinn til töku fæðingarorlofs.