Ferill 343. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 604 – 343. mál.



Nefndarálit



um frv. til l. um breytingu lagaákvæða um fæðingarorlof.

Frá heilbrigðis- og trygginganefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Guðríði Þorsteinsdóttur og Ragnhildi Arnljótsdóttur frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, Ingólf V. Gíslason frá karlanefnd Jafnréttisráðs og Elsu S. Þorkelsdóttur framkvæmdastjóra skrifstofu jafnréttismála. Frá Alþýðusambandi Íslands komu Ari Skúlason og Halldór Grönvold.
    Umsögn barst nefndinni frá skrifstofu jafnréttismála.
    Með frumvarpi þessu er lögð til sú grundvallarbreyting á íslenskum lögum að feðrum er tryggður sjálfstæður réttur til tveggja vikna fæðingarorlofs á fyrstu átta vikunum eftir fæðingu eða heimkomu barns. Nefndin er sammála þessari tillögu en jafnframt telur hún rétt að gera nokkrar breytingar á frumvarpinu.
    Í fyrsta lagi telur nefndin að eðlilegt sé að auka rétt feðra við fjölburafæðingar, alvarlegan sjúkleika barns eða alvarleg veikindi móður. Í öðru lagi telur nefndin rétt að móður sé áfram tryggður forgangsréttur til fyrsta mánaðar fæðingarorlofs. Hefur nefndin þar sérstaklega í huga heilsufar móður í kjölfar barnsburðar enda telst það ekki mismunun samkvæmt lögum um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, nr. 28/1991, að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar eða barnsburðar. Þess skal getið að þessi forgangsréttur móður raskar ekki sjálfstæðum rétti föður til tveggja vikna fæðingarorlofs skv. 1. gr., sbr. 4. gr. frumvarpsins. Í þriðja lagi leggur nefndin til að ákvæði til bráðabirgða í frumvarpinu verði breytt á þann veg að lögin komi til með að taka til þeirra feðra sem geta nýtt sér rétt samkvæmt því við lögfestingu þess í stað þess að það taki einungis til feðra barna sem fæðast eftir 1. janúar 1998.
    Hvað varðar rétt feðra til töku fæðingarorlofs á fyrstu átta vikunum eftir fæðingu eða heim komu barns, sbr. 1. og 4. gr. frumvarpsins, telur nefndin rétt að kveðið verði nánar á um út færslu ákvæðanna í reglugerð, sér í lagi varðandi þær aðstæður sem kunna að koma upp ef barn eða móðir þurfa eftir heimkomu að snúa aftur á sjúkrahús.
    Að lokum vill nefndin láta í ljós þá skoðun sína að stefnt skuli að heildarendurskoðun ákvæða laga um fæðingarorlof hér á landi.




Prentað upp.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.

Alþingi, 16. des. 1997.



Össur Skarphéðinsson,


form., frsm.


Siv Friðleifsdóttir.



Sigríður Anna Þórðardóttir.




Guðmundur Hallvarðsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.



Margrét Frímannsdóttir,


með fyrirvara.



Lára Margrét Ragnarsdóttir.



Guðni Ágústsson.



Sólveig Pétursdóttir.