Ferill 427. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 752 – 427. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um samræmd gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum.

Flm.: Árni M. Mathiesen, Össur Skarphéðinsson, Sturla Böðvarsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra:
a.      að gera átak til að samræma gæði tölvubúnaðar í framhaldsskólum,
b.      að gera áætlun um samræmda endurnýjun á tölvubúnaði framhaldsskólanna í framtíðinni.

Greinargerð.


    Tölvubúnaður í framhaldsskólum landsins er mjög mismunandi. Ástæður þess eru eflaust margar, m.a. mismunandi fjárveitingar, mismunandi skilningur forsvarsmanna og það að skólar þar sem ráðist hefur verið í nýbyggingar hafa fengið nýjan tölvubúnað sem hluta af stofnkostnaði sínum. Í þessu felst ákveðin mismunun á milli skólanna og þar með nemenda, sérstaklega í ljósi þess hversu tölvur er orðnar mikilvægar bæði í starfi og leik.
    Þróun í tölvuheiminum er mjög hröð og því er nauðsynlegt að til sé stefna um endurnýjun búnaðar þannig að hún fari fram á skilvirkan og skipulegan hátt en ekki með höppum og glöppum eftir því hvað einstaka forsvarsmanni dettur í hug. Með flutningi þessarar tillögu vilja flutningsmenn nálgast það markmið að skapa og viðhalda sama umhverfi til tölvumennt unar fyrir alla nemendur framhaldsskólanna.