Ferill 434. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 760 – 434. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum um ársreikninga, nr. 144/1994.

Flm.: Guðni Ágústsson.



1. gr.

    2. mgr. 48. gr. laganna orðast svo:
    Veita skal upplýsingar um heildarlaun, önnur starfskjör og ágóðahluta til stjórnarmanna félags, framkvæmdastjóra eða annarra stjórnenda fyrir störf í þágu þess. Sundurliða skal heildarlaun og önnur starfskjör þessara aðila. Þá skal veita upplýsingar um meðallaun starfsmanna eftir starfshópum, karla annars vegar og kvenna hins vegar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Markmið laga um ársreikninga er að gefin sé sönn og skýr mynd með jöfnu millibili af eignum og skuldum hlutafélags, fjárhagsstöðu þess og afkomu. Rekstrarreikningur verður að sama skapi að sýna heildartekjur og heildargjöld þannig sundurliðuð að reikningurinn gefi greinargóða mynd af rekstarafkomu hvers reikningsárs miðað við góða reikningsskilavenju. Í 43. gr. IV. félagaréttartilskipunar EB, sem gildi hefur hér á landi, kemur fram að í skýr ingum með ársreikningi skuli m.a. geta um þá fjárhæð sem veitt er á reikningsárinu í þóknun til stjórnarmanna hlutafélags, framkvæmdastjóra eða annarra stjórnenda fyrir störf þeirra. Eðlilegt er og sjálfsagt að skýrt komi fram í ársreikningi fyrirtækja hvaða laun eru greidd æðstu stjórnendum og stjórnarmönnum, sem og allar aðrar þóknanir. Þess vegna þarf að skýra nánar ákvæði 48. gr. laganna, en fram til þessa hefur nákvæm sundurliðun þessara þóknana verið talin óþörf. Að sama skapi og með hliðsjón af stöðu mála í jafnréttisumræðu er nauðsynlegt að hlutafélög upplýsi um raunveruleg laun og önnur starfskjör beggja kynja eftir starfshópum svo að auðveldara verði að ráða bót á misrétti á því sviði.