Ferill 481. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 816 — 481. mál.



Frumvarp til laga



um stimpilgjald.

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



    

I. KAFLI
Almenn ákvæði.

Gjaldskylda.

1. gr.

    Greiða skal í ríkissjóð sérstakt gjald, stimpilgjald, af þeim skjölum sem um ræðir í III. kafla laga þessara.

2. gr.

    Stimpilskylda skjals stofnast á því tímamarki sem skjal er gefið út nema kveðið sé á um annað í lögum þessum. Ef tveir aðilar eða fleiri eiga að undirrita skjalið og þeir hafa eigi undirritað, samtímis þá telst þetta tímamark frá því er hinn fyrsti undirritaði.

3. gr.

    Eftirgreind skjöl eru ávallt stimpilskyld hér á landi:
1.              Afsöl fyrir fasteignum hér á landi og skipum, sem hér eru skrásett, svo og önnur skjöl er veita eða framselja réttindi yfir slíkum eignum.
2.              Vátryggingarskjöl, ef þau snerta einstaklinga eða lögaðila heimilisfasta hér á landi, fasteignir eða önnur verðmæti hér á landi.
3.              Víxlar, ef samþykki eða greiðsla fer fram hér á landi.
4.              Skjöl sem þinglýst er hér á landi eða eru grundvöllur fyrir skráningu í opinberar skrár hér á landi.

4. gr.

    Enda þótt skjal falli ekki undir ákvæði 3. gr. er það stimpilskylt ef einn aðili þess er heimilisfastur hér á landi.

5. gr.

    Stimpilskylda skjals fer eftir réttindum er það veitir en eigi heiti þess eða formi.
    Eftirrit af dómum, sáttum eða lögbókandagerðum, er skapar réttindi eða skyldur sem eigi hefur áður verið gert skjal um, stimplast eftir tegund og verðmæti þeirra skyldna og réttinda er um ræðir.

6. gr.

    Ef í sama skjali er falin fleiri en ein tegund gerninga eru báðar eða allar tegundir stimpil skyldar.

7. gr.

    Þegar skjal er gefið út í fleiri en einu eintaki er aðeins eitt þeirra stimpilskylt nema öðruvísi sé ákveðið sérstaklega.

8. gr.

    Áletrun á skjal sem áður er stimplað er eigi stimpilskyld svo framarlega sem áletrunin hefði ekki breytt stimpilgjaldinu ef hún hefði staðið í skjalinu frá byrjun. Ella skal greiða gjald fyrir áletrunina og skal gjaldið nema hækkun þeirri er orðið hefði ef hún hefði staðið í skjalinu frá byrjun, sbr. þó 3. mgr. 28. gr.
    Ákvæði 1. mgr. skal einnig gilda um það skjal sem ekki er stimpilskylt hér á landi, sbr. 3. eða 4. gr.

Ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds.

9. gr.

    Hver sá sem er aðili að réttarsambandi sem tengist stimpilskyldu skjali, svo og hver sá sem er handhafi slíks skjals, ber ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds af því.

Ákvörðun stimpilgjalds.

10. gr.

    Sé ekki annars getið í lögum þessum varðandi einstakar tegundir skjala gilda svofelldar almennar reglur um ákvörðun stimpilgjalds:
1.    Þegar stimpilgjald er hundraðshluti af fjárhæð skjals og gjaldið stendur eigi í heilu hundraði skal færa gjaldið upp í næsta heila hundrað ef um er að ræða 50 krónur eða meira en ella skal færa það niður í næsta heila hundrað.
         Stimpilgjald einstaks skjals má þó aldrei vera minna en 100 kr.
2.              Í stimpilskyldum skjölum skal jafnan getið þeirrar fjárhæðar sem stimpilskyldan er bundin við.
3.              Hljóði stimpilskylt skjal um árlegar tekjur eða gjöld sem áskilin eru eða lofað um ótiltekinn tíma eða fyrir ákveðið tímabil sem er 25 ár eða lengra, skal reikna stimpilgjaldið af árgjaldinu tuttugu og fimmföldu. Ef árabil er ákveðið innan við 25 ár telst stimpil gjaldið af árgjaldinu margfölduðu með ártölunni. Sé árgjaldið mismunandi skal taka meðalgjaldið.
         Stimpilgjald myndar ekki stofn til ákvörðunar stimpilgjalds.

11. gr.

    Ef skjal stofnar til réttinda eða skyldna sem meta má á mismunandi hátt telst stimpil gjaldið eftir hæstu fjárhæðinni.

12. gr.

    Ef veðréttur er stofnaður eða trygging sett fyrir væntanlegri eða óákveðinni skuld skal reikna stimpilgjaldið eftir þeirri upphæð sem frekast er ætlast til að tryggja.

13. gr.

    Nú kveður stimpilskylt skjal á um greiðslu í erlendri mynt og reiknast þá stimpilgjaldið eftir sölugengi þeirrar myntar hér á landi á þeim tíma er stimplun fer fram.
    Með sölugengi skv. 1. mgr. er átt við opinbert viðmiðunargengi sem skráð er af Seðla banka Íslands.

II. KAFLI
Um innheimtu stimpilgjalds, uppgjör, stimplun, endurgreiðslu gjaldsins o.fl.

Innheimta, uppgjör og stimplun.

14. gr.

    Greiðslu stimpilgjalds skal staðfesta með ástimplun stimpilmerkjavélar, notkun stimpil merkja, stimpils eða með annarri áletrun á hið stimpilskylda skjal.
    Fjármálaráðherra getur með reglugerð eða með öðrum fyrirmælum ákveðið gerð og búnað stimpla, stimpilmerkjavéla og stimpilmerkja og sett skilyði fyrir notkun stimpla og annarra áletrana.

15. gr.

    Stimpilskyld skjöl, sem gefin eru út hér á landi, skulu stimpluð áður en tveir mánuðir eru liðnir frá því tímamarki sem getið er um í 2. gr. nema eindagi sé fyrr, en þá skal stimplun fara fram fyrir eindaga.
    Stimpilskyld skjöl, sem gefin eru út erlendis, skal stimpla með sama fresti og innlend skjöl, talið frá þeim tíma er skjal kom hingað til lands, og skal sá er stimpla lætur votta á skjalið hvenær það var.

16. gr.

    Opinberir starfsmenn, sem fjármálaráðherra felur stimplun skjala, eru skyldir til að stimpla skjöl sem þeir gefa út eða afgreiða.
    Viðskiptabankar, sparisjóðir, verðbréfafyrirtæki, eignarleigur og aðrar fjármálastofnanir eru skyldar til að stimpla skjöl er um hendur þeirra fara. Skulu þessir aðilar inna stimplunina af hendi endurgjaldslaust.
    Fjármálaráðherra er heimilt að fela einstökum mönnum, félögum eða stofnunum rétt til stimplunar skjala, enda sé fullnægt þeim skilyrðum um reikningshald, bókfærslu gjaldsins og aðra framkvæmd sem hann kann að setja.
    Þeir aðilar, sem fengið hafa heimild ráðherra til þess að staðfesta greiðslu stimpilgjalds á annan hátt en þann að líma stimpilmerki á skjal, skulu gera viðkomandi innheimtumanni ríkissjóðs skil á innheimtu stimpilgjaldi fyrir 15. dag næsta mánaðar eftir að stimplunin á sér stað. Mánaðarlegum stimpilgjaldsskilum skal fylgja skýrsla á því formi sem ráðherra ákveður.
    Skili þeir aðilar sem um ræðir í 3. mgr. þessarar greinar ekki innheimtu stimpilgjaldi á gjalddaga skal þeim skylt að greiða dráttarvexti af hinni vangoldnu fjárhæð, talið frá og með gjalddaga í samræmi við III. kafla vaxtalaga, nr. 25/1987, með síðari breytingum.

Upplýsingaskylda og mat.

17. gr.

    Þeir sem hafa á hendi stimplun skjala skulu gæta þess að hin stimpilskylda fjárhæð hvers skjals sé rétt tilgreind og geta krafist allra nauðsynlegra skýringa af hálfu þeirra er stimplunar beiðast til þess að unnt sé að ákvarða stimpilgjaldið.
    Heimilt skal að áætla stimpilskylda fjárhæð ef gjaldandi sinnir ekki áskorun um að gefa skýringar skv. 1. mgr. eða hin tilgreinda stimpilskylda fjárhæð þykir ósennileg eða tor tryggileg.

Endurgreiðsla.

18. gr.

    Stimpilmerki eða aðra staðfestingu um greiðslu stimpilgjalds, sem færð hefur verið á fullgild skjöl, er óheimilt að má af þeim aftur.
    Sýslumanni er heimilt að endurgreiða stimpilgjaldið þegar skjal er ógilt með öllu að lögum eða eigi verður af því að það réttarástand skapist sem skjalið ráðgerði.
    Ef skjalið er af vangá stimplað of hátt skal endurgreiða það sem ofgreitt er, sbr. lög um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
    Endurgreiðsla samkvæmt þessari grein má því aðeins fara fram að beiðni um hana hafi borist sýslumanni áður en tvö ár eru liðin frá því atviki er beiðnin byggist á. Um fyrningu kröfu um endurgreiðslu fer samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda.
    Beiðni um endurgreiðslu skal fylgja frumrit þess skjals sem beiðnin varðar. Heimilt er að víkja frá þessu skilyrði ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

Fyrning.

19. gr.

    Krafa ríkissjóðs um stimpilgjald fyrnist ekki nema svo sé ástatt að opinber starfsmaður eigi sök á því að eigi var stimplað. Fyrnist krafan þá á fjórum árum. Krafa um stimpilgjald fellur þó niður þegar liðin eru fjögur ár frá þeim tíma er skjal var með öllu úr gildi.

III. KAFLI
Um stimpilgjald af einstökum skjölum.

Skjöl er varða eignayfirfærslur að fasteignum og skipum, óbein eignaréttindi o.fl.

20. gr.

    Fyrir stimplun afsalsbréfa fyrir fasteignum og skipum skal greiða 0,5% af verði við komandi eignar. Sama gildir um afsöl við aðfarargerðir, skipti og uppboð, svo og önnur skjöl um afhendingu fasteigna og skipa, svo sem kaupsamninga, makaskiptabréf, gjafabréf og þau erfðafestubréf sem veita rétt til að selja eða veðsetja.
    Þegar fasteign eða skipi er afsalað hlutafélagi eða sameignarfélagi og eigandinn gerist eignaraðili að félaginu eða eykur eignarhlut sinn í því lækkar stimpilgjaldið í hlutfalli við eignarhluta hans í félaginu.
    Þegar fasteign eða skipi er úthlutað félagsmanni í hlutafélagi eða sameignarfélagi við félagsslit greiðist stimpilgjald að því marki sem eignarhluti hans í eigninni verður meiri en eignarhluti hans var í félaginu.
    Ef fasteign eða skip er selt veðhafa við nauðungarsölu eða skv. 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, greiðist hálft gjald.
    Útdrættir úr skiptabókum eða öðrum embættisbókum eða vottorð embættismanna, félaga eða einstakra manna, er sýna eigendaskipti að fasteign eða skipi eða eru notuð sem afsöl, stimplast sem afsöl. Undanskildir stimpilgjaldi eru þó útdrættir úr skiptabók og önnur skjöl er sýna eignayfirfærslu fasteigna, er lagðar hafa verið út erfingjum sem arfur, maka upp í búshelming hans eða sambúðarmanni eða sambúðarkonu við sambúðarslit.

21. gr.

    Stimpilgjald af heimildarbréfum fyrir fasteignum ákvarðast eftir fasteignamati þeirra að leigulóð meðtalinni. Nú hefur fasteignamat ekki farið fram eða liggur ekki fyrir þegar bréf er stimplað og skal þá miða við kaupverð eignar teljist það sennilegt en ella skal miða við áætlað matsverð. Fjármálaráðherra getur að höfðu samráði við Fasteignamat ríkisins sett nánari reglur um áætlun slíks matsverðs.
    Stimpilgjald af heimildarbréfum fyrir skipum ákvarðast eftir því kaupverði sem sett er á eignina í bréfinu enda teljist það sennilegt, en sé þó aldrei lægri fjárhæð en nemur áhvíl andi veðskuldum. Nú telst kaupverð ekki sennilegt og skal þá heimilt að áætla það í samræmi við ákvæði 17. gr.

22. gr.

    Ef heimildarbréf er framselt ber að stimpla framsalið sem afsal.

23. gr.

    Fyrir stimplun leigusamninga um jarðir og lóðir, heimildarskjala um veiðiréttindi og aflaheimildir og skjala sem leggja kvaðir á annarra eign skal greiða 0,5% af áskilinni leigu eða endurgjaldi, sbr. þó 17. gr. Framsöl þessara réttinda eru stimpilskyld eftir sömu reglum. Erfðafestubréf sem eigi veita heimild til að selja eða veðsetja stimplast samkvæmt þessari grein.

Skilríki fyrir eignarhlutum í félögum.

24. gr.

    Fyrir stimplun hlutabréfa, sem gefin eru út af félögum með takmarkaða ábyrgð, skal greiða 0,5% af fjárhæð bréfanna. Hlutabréf, sem gefin eru út í stað eldri hlutabréfa, er sannanlega hafi verið stimpluð, og jöfnunarhlutabréf, sem gefin eru út í samræmi við ákvæði laga um tekjuskatt og eignarskatt, skulu þó undanþegin gjaldi fyrir stimplun, enda beri hvert einstakt hlutabréf með sér að um endurútgefið bréf eða jöfnunarhlutabréf sé að ræða. Þeir sem gjaldfrjálsrar stimplunar beiðast skulu sýna fram á að þau hlutabréf sem hin nýju hlutabréf leysa af hólmi hafi verið úr gildi felld eða að viðkomandi útgáfa jöfnunar hlutabréfa hafi ekki í för með sér raunverulega verðmætisaukningu hlutafjár í viðkomandi félagi. Gjaldfrjáls stimplun skal fara fram áður en tveir mánuðir eru liðnir frá útgáfu hluta bréfa þeirra sem um ræðir í þessari málsgrein. Að öðrum kosti ber að innheimta stimpilgjald af þeim í samræmi við ákvæði 1. málsl.
    Framsal hlutabréfa og jöfnunarhlutabréfa er stimpilfrjálst.

25. gr.

    Skilríki fyrir eignarhluta í félögum með takmarkaða ábyrgð, öðrum en hlutafélögum og einkahlutafélögum, skulu stimpluð á sama hátt og hlutabréf. Sama gildir um skilríki fyrir eignarhluta þeirra manna sem bera takmarkaða ábyrgð á skuldbindingum félags þar sem sumir félagsaðilar bera ótakmarkaða ábyrgð en aðrir takmarkaða.
    Framsal réttinda í félögum samkvæmt þessari grein er stimpilfrjálst.

26. gr.

    Stofnsamningar einkahlutafélaga og félaga með ótakmarkaða ábyrgð sem stunda atvinnu skulu stimplaðir með 0,5% af stofnfé en þó aldrei með lægri fjárhæð en 10.000 kr.
    Leggi félagi fram persónulega vinnu til félagsins, auk fjárframlags eða í stað þess, skal vinnan metin til samræmis við framlagt fé annarra félaga. Aldrei skal vinnuframlag þó metið lægra en fjárframlag þess félaga sem minnst fé leggur til félagsins.
    Framsal réttinda í félögum samkvæmt þessari grein er stimpilfrjálst.

Skuldabréf .

27. gr.

    Af skuldabréfum, öðrum en markaðsverðbréfum skv. 32. gr., skal greiða stimpilgjald af fjárhæð bréfanna miðað við lánstíma talið frá útgáfudegi bréfsins til síðasta gjalddaga sem hér segir:
    Lánstími allt að 12 mánuðum          0,2%
    Lánstími lengri en 12 mánuðir          1,1%
    Nú er gjalddagi óákveðinn eða bundinn við atvik sem ekki er vitað hvenær verður og skal þá líta svo á að lánstíminn sé lengri en 12 mánuðir.

28. gr.

    Nú er skuld, samkvæmt skuldabréfi sem fellur undir 27. gr., endurnýjuð með nýju bréfi og skal þá stimpla bréfið án gjaldtöku, enda sé öllum eftirtöldum skilyrðum fullnægt:
1.              Lánstíminn er ekki lengdur frá því sem upphaflega var ákveðið.
2.              Kröfuhafi er sá sami samkvæmt báðum bréfunum.
3.              Fyrra skuldabréf fellur úr gildi við útgáfu hins nýja.
4.              Í nýju skuldabréfi er tilgreint í stað hvaða eldra skuldabréfs það kemur.
5.              Skuld samkvæmt fyrra skuldabréfi er ekki gjaldfallin að öllu leyti eða að hluta og skuld samkvæmt nýju bréfi er ekki hærri en skuld samkvæmt eldra bréfi.
    Nú er einhverju af skilyrðum 1. mgr. ekki fullnægt og skal þá stimpla bréfið eða þann hluta þess sem það á við um í samræmi við ákvæði 27. gr.
    Nú er skuldabréfið ekki fellt úr gildi heldur skuldbreytt og skal þó greiða stimpilgjald af þeim hluta skuldar sem er í vanskilum þegar skuld er skuldbreytt eftir sömu reglu og getið er um í 27. gr.

Kaupsamningar um lausafjárkaup.

29. gr.

    Af kaupsamningum um lausafjárkaup þar sem veittur er gjaldfrestur skal greiða stimpilgjald af þeim hluta kaupverðs sem gjaldfrestur er veittur á eftir sömu reglum og getið er um í 27. og 28. gr.

Fjármögnunarleigusamningar og kaupleigusamningar.

30. gr.

    Af fjármögnunarleigusamningum og kaupleigusamningum um lausafé skal greiða stimpilgjald af samningsfjárhæð miðað við leigutíma sem hér greinir:
    Leigutími allt að 12 mánuðum          0,2%
    Leigutími lengri en 12 mánuðir          1,1%
    Nú er samningur um sama leigumun endurnýjaður eða gerður samningur um greiðslu vanskila af upphaflegum samningi og skal þá greiða stimpilgjald af þeim samningi eftir sömu reglu og getið er um í 28. gr.

Víxlar og ávísanir.

31. gr.

    Af víxlum, öðrum en markaðsverðbréfum skv. 32. gr., og samþykktum ávísunum, öðrum en tékkum, skal greiða stimpilgjald af fjárhæð skjalanna miðað við lánstíma talið frá útgáfudegi skjalanna til gjalddaga sem hér greinir:
    Lánstími allt að 12 mánuðum          0,2%
    Lánstími lengri en 12 mánuðir          1,1%
    Endurnýjaður víxill telst nýr víxill.
    Ef skjal fullnægir ekki kröfum laga um víxla stimplast það sem skuldabréf.

Markaðsverðbréf.

32. gr.

    Af skuldabréfum og víxlum sem eru markaðsverðbréf og skráð á Verðbréfaþingi Íslands eða öðrum skipulögðum verðbréfamarkaði sem starfar reglulega, er opinn almenningi og viðurkenndur með þeim hætti sem bankaeftirlit Seðlabanka Íslands metur gildan skal greiða stimpilgjald af fjárhæð skjalanna miðað við lánstímann talið frá útgáfudegi skjalanna til greiðsludags sem hér greinir:
    Lánstími allt að 12 mánuðum          0,15%
    Lánstími lengri en 12 mánuðir          0,50%
    Nú er gjalddagi óákveðinn eða bundinn við atvik sem ekki er vitað hvenær kemur fram og skal þá líta svo á að lánstíminn sé lengri en 12 mánuðir.

Aðrir lánssamningar.
33. gr.

    Fyrir stimplun annarra samninga um tiltekin lán skal greiða stimpilgjald eftir sömu reglum og getið er um í 27. og 28. gr.

Framsöl og skuldskeyting.

34. gr.

    Sé skuld framseld eða færð yfir á nafn annars aðila greiðist ekkert stimpilgjald.

Tryggingaráðstafanir.

35. gr.

    Fyrir stimplun tryggingarbréfa, skjala er varða fjárnáms-, kyrrsetningar- og löggeymslu gerðir og skjala er varða afhendingu handveðs skal greiða 0,5% af fjárhæð skjalsins.
    Nú er fjárnám endurupptekið og skal þá greiða hálft gjald.

Vátryggingasamingar.

36. gr.

    Greiða skal stimpilgjald af vátryggingasamningum og skal það vera 0,2% af iðgjaldi í hvert sinn sem iðgjald er greitt.

Kaupmálar.

37. gr.

    Fyrir stimplun kaupmála sem gerður er á undan stofnun hjúskapar greiðast 2.400 kr.
    Fyrir stimplun kaupmála, sem gerðir eru síðar, skal greiða 0,2% af þeirri fjárhæð sem verður séreign samkvæmt þeim.
    Fyrir stimplun kaupmála sem gerður er skv. 72. gr. hjúskaparlaga, nr. 31/1993, skal greiða 0,2% stimpilgjald af þeirri fjárhæð sem kaupmálinn tekur til.
    Verðmæti fasteigna samkvæmt þessari grein skal metið samkvæmt ákvæðum 21. gr. en frá verði þeirra þannig ákvörðuðu má draga eftirstöðvar áhvílandi veðskulda. Frá verði annarra eigna má draga eftirstöðvar áhvílandi þinglýstra skulda er á þeim hvíla.

IV. KAFLI
Stimpilfrjáls skjöl.

Afsalsbréf og fjárnám.

38. gr.

    Þegar kaupsamningur er stimplaður er afsalsbréf til sama kaupanda stimpilfrjálst. Sama gildir um fjárnám sem gert er á grundvelli kyrrsetningargerðar eða löggeymslu sem þegar hefur verið stimplað.

Stimpilfrelsi einstakra skjala.

39. gr.

    Eftirtalin skjöl eru stimpilfrjáls:
1.              Hlutdeildarskírteini sem gefin eru út af verðbréfasjóði sem hefur starfsleyfi samkvæmt lögum um verðbréfasjóði.
2.    Húsbréf, sbr. lög nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins.
3.              Skuldabréf sem gefin eru út af ríkissjóði til erlendra lánastofnana eða sem andlag markaðsverðbréfa.
4.              Skuldabréf og tryggingarbréf sem gefin eru út til Lánasjóðs íslenskra námsmanna samkvæmt lögum nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
5.     Húsaleigusamningar.
6.    Skjölum sem leggja höft eða bönd á skip eða loftfar við skráningu þess hérlendis, enda sé skráningin tímabundin og skipið eða loftfarið í eigu aðila sem ekki er heimilisfastur hér á landi.
7.     Líftryggingasamningar, sbr. III. kafla laga nr. 20/1954, um vátryggingasamninga.
8.     Afleiðusamningar.
9.    Verðbréf sem gefin eru út af aðila heimilsföstum erlendis og aðilar hér heimilsfastir kaupa, enda eru bréfin markaðsverðbréf eða keypt fyrir milligöngu verðbréfafyrirtækja eða verðbréfamiðlara og ákvæði 4. tölul. 3. gr. á ekki við um þau.
10.    Afsöl vegna skipa sem skráð eru í íslenska alþjóðlega skipaskrá. Sama gildir um skjöl sem leggja höft eða bönd á slíkt skip og gefin eru út vegna kaupa eða smíði skipsins, enda er skjölunum þinglýst á viðkomandi skip innan sex mánaða frá því skipið er fyrst skráð í slíka skrá.
11.    Skjöl sem leggja höft eða bönd á loftfar, enda hafi eigandi loftfarsins flugrekstrarleyfi og loftfarið er ætlað til nota í reglubundið áætlunarflug innan lands eða reglubundið áætlunarflug eða leiguflug á milli landa. Skilyrði stimpilfrelsis er að skjalið sé gefið út vegna kaupa á viðkomandi loftfari og því sé þinglýst innan sex mánuða frá því loftfarið er fyrst skráð hér á landi.

40. gr.

    Viðskiptabankar, sparisjóðir sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um viðskiptabanka og sparisjóði, verðbréfafyrirtæki sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um verðbréfa viðskipti, lánastofnanir sem skattskyldar eru skv. lögum nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, með síðari breytingum, lánastofnanir sem starfsleyfi hafa samkvæmt lögum um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði eða starfa á grundvelli sérlaga skulu undanþegnar stimpilgjaldi af fjárskuldbindingum sem þær kunna að taka á sig vegna starfsemi sinnar.
    

Félagslegar íbúðir.

41. gr.

    Eigi skal greiða stimpilgjald af skuldabréfum sem kaupendur félagslegra íbúða gefa út til Húsnæðisstofnunar ríkisins. Þó skal greiða stimpilgjald við kaup á almennum kaupleigu íbúðum.


V. KAFLI
Ýmis ákvæði.
42. gr.

    Þegar skjal er stimpilfrjálst vegna sambands þess við annað skjal skal í hinu stimpilfrjálsa skjali vísa til hins stimplaða og þess getið hversu hátt stimpilgjald hefur verið greitt af því. Ef þessu er eigi fylgt og eigi heldur er sannað að skjal, er stimpilfrelsinu veldur, sé löglega stimplað ber að stimpla hið síðara skjal eftir efni þess.
    Það breytir eigi stimpilskyldu skjals þótt það sé gefið út til tryggingar greiðslu á öðru stimpilskyldu skjali.

43. gr.

    Á samrit og staðfest eftirrit stimplaðra skjala skal rita hvernig aðalskjalið er stimplað, enda séu upplýsingar um gjaldtöku ekki varðveittar á annan hátt. Ef þessu er eigi fylgt og eigi er heldur sannað að frumritið sé löglega stimplað skal stimpla samritið eða eftirritið eins og væri það frumrit.

44. gr.

    Þegar stimpilskyld skjöl eru afhent til þinglýsingar eða annarrar skráningar er opinberum starfsmönnum sem hana annast skylt að athuga hvort þau séu stimpluð. Ef svo er ekki ber að heimta stimpilgjaldið þá þegar. Sama á við þegar stimpilskyld skjöl eru afhent aðilum, er heimild hafa til stimplunar, til meðferðar, svo sem til vörslu eða innheimtu.
    Þeir sem skv. 16. gr. annast stimplun skjala skulu hafa haldsrétt í stimpilskyldum skjölum til tryggingar því að gjaldið sé greitt.

45. gr.

    Ríkisskattstjóra er heimilt, samkvæmt umsókn aðila, að lækka stimpilgjald af tilteknu skjali með hliðsjón af því stimpilgjaldi sem hefur verið greitt af sama skjali erlendis.

46. gr.

    Ef stimpilskylt skjal er ekki stimplað innan tilskilins frests skulu þeir sem hafa á hendi stimplun skjala gera stimpilbeiðanda að greiða dráttarvexti í samræmi við III. kafla vaxta laga af hinni vangoldnu fjárhæð talið frá og með útgáfudegi skjalsins.
    Fjármálaráðherra er heimilt eftir atvikum að lækka eða láta niður falla dráttarvexti sam kvæmt þessari grein ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi.

Eftirlit.

47. gr.

    Ríkisskattstjóri skal hafa eftirlit með framkvæmd laga þessara og gæta þess að samræmi gæti við ákvörðun og innheimtu stimpilgjalds. Hann getur þó falið skattstjórum að annast einstaka þætti þessa eftirlits. Hann skal leiðbeina innheimtuaðilum og þeim sem leyfi hafa til stimplunar og skila eiga stimpilgjaldi í ríkissjóð, sbr. 16. gr. Þá skal hann setja þeim framkvæmdar- og verklagsreglur og kynna þeim úrskurði og dóma sem þýðingu kunna að hafa fyrir störf þeirra.
    Ríkisskattstjóri getur af sjálfsdáðum kannað skilagreinar þeirra sem um ræðir í 16. gr. og gögn sem að baki þeim búa og hvert það atriði er varðar framkvæmd laga þessara. Getur hann í því skyni krafist allra upplýsinga og gagna af þeim aðilum sem hann telur þörf vegna eftirlits með skattheimtu samkvæmt lögum þessum.


Kæra.

48. gr.

    Vill sá sem stimplunar beiðist ekki sætta sig við ákvörðun sýslumanns um gjaldtöku eða endurgreiðslu getur hann skotið henni undir úrskurð fjármálaráðherra innan þriggja mánaða frá því ákvörðun var tekin. Kæra skal vera skrifleg og studd nauðsynlegum gögnum.

Refsingar.

49. gr.

    Brot á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim varða sektum. Sömu refsingu skal sá sæta sem gefur rangar skýrslur um atriði er máli skiptir við ákvörðun stimpilgjalds, neitar ranglega að hafa skjal í vörslum sínum til þess að komast hjá stimpilgjaldi, ritar rangt vottorð á samrit eða eftirrit skjals um stimplun frumrits eða dagsetur skjal ranglega til að leyna broti á lögum þessum, nema um brot sé ræða sem varðar þyngri refsingu samkvæmt almennum hegningarlögum.
    Heimilt er að refsa fyrir brot á lögum þessum ef þau eru framin af ásetningi eða stórkostlegu gáleysi.
    Tilraun og hlutdeild í brotum á lögum þessum eru refsiverð, eftir því sem segir í III. kafla almennra hegningarlaga.
    Með brot á lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

Gildistaka o.fl.

50. gr.

    Fjármálaráðherra getur með reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

51. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Skulu skjöl sem afhent verða til stimplunar eftir þann tíma stimpluð eftir ákvæðum þessara laga. Frá sama tíma falla úr gildi lög nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum, 3. mgr. 12. gr. laga nr. 35/1966, um Lánasjóð sveitarfélaga, 2. málsl. 14. gr. laga nr. 100/1974, um Hitaveitu Suðurnesja, 6. gr. laga nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, 17. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna, 2. mgr. 16. gr. laga nr. 10/1993, um verðbréfasjóði, 78. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, 50. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði og 2. mgr. 17. gr. laga nr. 61/1997, um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Orðið „stimpilgjaldi“ í 80. gr. Orkulaga, nr. 58/1967, og 13. gr. laga nr. 66/1976, um Orkubú Vestfjarða, fellur brott. Orðið „stimpilgjöldum“ í 4. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, fellur brott. Orðin „stimpilgjöldum vegna lána sem fyrirtækið tekur eða vegna eignaafsala til fyrirtækisins“ í 16. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, falla brott.


Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.

Inngangur.
    
Í frumvarpi þessu er gert ráð fyrir umtalsverðum breytingum á álagningu stimpilgjalds frá því sem nú er. Breytingarnar fela í sér verulega lækkun á gjaldhlutfalli gagnvart almenn um verðbréfum. Jafnframt er gert ráð fyrir fækkun undanþága og meiri samræmingu en verið hefur milli einstakra gjaldflokka. Í þessu felst að nokkrir flokkar verðbréfa og fjár magnsviðskipta sem áður voru undanþegnir gjaldinu verða nú gjaldskyldir, en gjald á öðrum flokkum lækkar. Þá er tekið upp lægra gjald á skammtímabréfum.
    Samkvæmt gildandi lögum er algengasta gjaldhlutfall stimpilgjalds 1,5% af fjárhæð við komandi bréfs eða samnings, óháð lánstíma. Samkvæmt tillögum frumvarpsins lækkar þetta hlutfall í 0,2% á bréfum sem eru til skemmri tíma en eins árs, en verður 1,1% af lengri bréfum. Þetta tekur meðal annars til almennra skuldabréfa. Á móti vegur álagning stimpil gjalds á ýmis ríkisskuldabréf og ríkisvíxla, sem eru undanþegin gjaldskyldu samkvæmt gildandi lögum. Jafnframt hækkar gjald af fasteignaviðskiptum úr 0,4% í 0,5%. Gjald af hlutabréfum helst hins vegar óbreytt, 0,5%. Áfram verða þó nokkrir mikilvægir flokkar skuldabréfa undanþegnir stimpilgjaldi, svo sem húsbréf, námslán, hlutdeildarskírteini, líf tryggingasamningar og lán til félagslegra íbúða.
    Með þessum breytingum er stefnt að því að treysta samkeppnisstöðu íslenska fjármagns markaðarins gagnvart erlendum aðilum. Jafnframt er búist við að heildarveltan á markaðn um muni aukast og vaxta- og verðmyndun færast enn frekar út á markaðinn.

1.     Forsaga málsins.

    Þessar breytingar byggjast á tillögum nefndar sem fjármálaráðherra skipaði árið 1994 til þess að endurskoða lög nr. 36/1978, um stimpilgjald. Í erindisbréfi nefndarinnar kemur fram að lögin séu að stofni til frá 1921 og hafi ekki mikið breyst í áranna rás. Bent er sérstaklega á nokkur atriði sem þarfnist athugunar. Í fyrsta lagi er nefnt að frá því að lögin um stimpilgjald tóku gildi hafi orðið verulegar breytingar á fjármagnsmarkaði, þannig að í umferð eru margvísleg verðbréf og lánsform sem þekktust ekki þegar gildandi lög voru samþykkt, svo sem greiðslukortasamningar, hlutdeildarskírteini, fjármögnunarleigusamn ingar o.fl. Löngu sé orðið tímabært að laga lögin að breyttum aðstæðum og stuðla þannig að jafnræði milli einstakra tegunda verðbréfa. Í öðru lagi séu reglur um stimplun skulda- og tryggingarbréfa að mörgu leyti óeðlilegar þar sem þær eru að engu leyti bundnar lánstíma heldur reiknist eingöngu sem hlutfall af skuldarfjárhæð. Í þriðja lagi er bent á að það fyrirkomulag hefur verið gagnrýnt að hafa mismunandi stimpilgjald eftir því hvort skuld ber vexti eða ekki. Í fjórða lagi hafi reglur um endurútgáfu, skuldbreytingu og áritun um breytingu á afborgunarskilmálum verið gagnrýndar. Loks er á það bent að ýmsar aðrar reglur laganna, svo sem um stimplun kaupmála og vátryggingarsamninga, þyki úreltar. Nefndinni var falið það verkefni að semja frumvarp til nýrra laga um stimpilgjald og skyldi í þeirri vinnu gert ráð fyrir því að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjöldum yrðu svipaðar og verið hefur.
    Nefndin skilaði fjármálaráðherra drögum að frumvarpi til nýrra laga um stimpilgjald í mars 1995. Í bréfi nefndarinnar kom fram m.a. að hún teldi rétt að skoða ýmsa þætti frum varpsins nánar, m.a. í tengslum við fyrirhugaða upptöku fjármagnstekjuskatts í ársbyrjun 1997. Í framhaldi af því hefur nefndin yfirfarið frumvarpsdrögin frá 1995 og gert ýmsar breytingar á þeim. Jafnframt var gerð könnun á skiptingu stimpilgjalda eftir einstökum teg undum skjala en upplýsingar um þetta atriði liggja ekki fyrir hjá ríkisbókhaldi. Könnunin var gerð hjá tíu bankaútibúum og þremur sýslumannsembættum og var gerð þannig að skráð voru öll skjöl sem stimpluð voru á tilteknu tímabili og stimpilgjald innheimt.
    Frá árinu 1995 hafa þær breytingar helstar orðið á töku stimpilgjalda að í apríl 1996 var stimpilgjald af hlutdeildarskírteinum verðbréfasjóða fellt niður og um mitt þetta ár var fyrri framkvæmd varðandi innheimtu stimpilgjalds vegna skuldbreytinga breytt. Samkvæmt núverandi reglum á ekkert stimpilgjald að innheimta vegna eftirstöðva höfuðstóls við skuldbreytingu með áritun eða viðauka við eldra skuldabréf en hálft gjald þegar skuld er endurnýjuð með nýju bréfi og eldra bréf fellt úr gildi. Samkvæmt eldri framkvæmd átti hins vegar að taka fullt stimpilgjald af gjaldföllnum höfuðstól í þessum tilvikum.
    Hér á eftir er í fáum orðum gerð grein fyrir álagningu stimpilgjalds, m.a. með samanburði við önnur lönd. Einnig er fjallað um skiptingu tekna eftir einstökum gjaldflokkum, fyrir og eftir breytingu, og gerð grein fyrir meginatriðum frumvarpsins.

2.     Álagning stimpilgjalda hér á landi.
    Stimpilgjöld eiga uppruna sinn að rekja til Spánar á 16. öld, en strax á 17. öld tók voru þau tekin upp víða í Norðurálfu. Hérlendis var stimpilgjald fyrst lögfest 1918 að danskri fyrirmynd. Ný lög um stimpilgjald voru sett á árinu 1921 og giltu þau að stofni til allt til 1978. Að vísu voru margoft gerðar breytingar á þeim en þær lutu að einstökum afmörkuðum þáttum en ekki lögunum í heild. Heildarfrumvörp um stimpilgjald voru lögð fram á Alþingi bæði á árinu 1952 og 1953, en þau urðu ekki útrædd.
    Árið 1977 fór fram heildarendurskoðun á lögum um stimpilgjald, svo og ákvæðum um þinglýsingargjald samkvæmt lögum um aukatekjur ríkissjóðs, en innheimta þessara tveggja gjalda var samofin og flókin. Að lokinni endurskoðun var flutt heildstætt frumvarp um stimpilgjald, auk frumvarps til breytinga á lögum um aukatekjur ríkissjóðs er fól í sér afnám þinglýsingargjalds í þáverandi mynd, og voru þau bæði samþykkt.
    Í lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, sem enn eru í gildi, fólust viðamiklar breytingar. Fyrst og fremst lutu þær að því að laga ákvæði laganna að breyttum aðstæðum, einfalda þau og auðvelda framkvæmd. Umræddar breytingar náðu þó fyrst og fremst til ákvæða um gjaldtökuna sjálfa, þ.e. fyrirmæla um gjaldstofn og gjaldstig. Á hinn bóginn voru breytingar á gildissviði laganna óverulegar.
    Mikilvægasta breytingin, sem lög nr. 36/1978 fólu í sér, laut að stimplun eignarheimilda fyrir fasteignum. Fram að gildistöku þeirra hafði gjaldstofninn miðast við kaupverð ef það lá fyrir en annars við fasteignamat. Þar sem fasteignamatsverð var á þessum tíma alla jafna nokkru lægra en markaðsverð fasteigna völdu langflestir að þinglýsa ekki kaupsamningum heldur aðeins afsölum þar sem söluverð kom ekki fram. Þetta hafði hins vegar í för með sér verulega skerðingu á réttaröryggi fasteignakaupenda þar sem þeir áttu á hættu að skuld heimtumenn seljanda eða viðsemjendur hans útrýmdu eða skertu rétt kaupanda. Með vísan til þessa var því m.a. gerð sú breyting að jafnan skyldi miða gjaldstofn stimpilgjalds í fast eignaviðskiptum við fasteignamat. Gjaldið olli því ekki lengur að menn sæju sér hag í að draga að þinglýsa réttindum sínum á fasteignum samkvæmt kaupsamningum.
    Frá gildistöku laga nr. 36/1978 hafa verið gerðar nokkrar breytingar á einstökum ákvæð um þeirra og má í því sambandi nefna breytingar er lutu að samræmingu vegna gjaldmiðils breytingarinnar frá 1980, sbr. lög nr. 82/1982, svo og lækkun á stimpilgjaldi af hlutabréfum úr 2% í 0,5%, sbr. lög nr. 131/1989.
    Samkvæmt gildandi lögum eru öll verðbréf stimpilskyld óháð því hvort þau teljast mark aðsverðbréf eða ekki. Mikilvæg undantekning eru verðbréf ríkissjóðs sem eru stimpilfrjáls. Í kjölfar aukins frelsis í fjármagnsviðskiptum milli landa og opnun íslenska fjármagns markaðarins er mikilvægt að endurskoða álagningu stimpilgjalda og laga hana að því sem gengur og gerist í okkar helstu viðskiptalöndum.

3.     Samanburður við önnur lönd.
    Danmörk. Í Danmörku eru í gildi lög nr. 538/1993, um stimpilgjald (Bekendtgörelse af lov om stempelafgift). Lögin byggjast á talsvert eldri grunni, en fyrsta heildarlöggjöf um stimpilgjald í Danmörku er frá árinu 1861 og með lögum frá 1969 var þinglýsingagjald fellt undir stimpilgjald. Fram til ársins 1986 var stimpilgjald nær eingöngu lagt á í tekjuöflunar skyni, en eftir breytingar á lögunum á því ári var markmið með gjaldtökunni einnig að draga úr neyslu. Þannig báru kaupsamningar um ýmiss konar lausafé hærri stimpilgjöld en samsvarandi skjöl varðandi aðrar eignir. Þá skipti einnig máli hvort vara var staðgreidd eða hvort um lánsviðskipti var að ræða. Þessi lagaákvæði voru hins vegar felld út úr lögum árið 1993 og er stimpilgjald nú eingöngu lagt á í tekjuöflunarskyni, eins og fyrir lagabreytinguna 1986.
    Helstu stimpilskyld skjöl eru: skjöl sem varða eignayfirfærslu fasteigna, skipa og báta, skipasmíðaskírteini sem eru endanlegur grundvöllur skráningar nýbyggðra skipa, verktaka samningar um byggingu og hönnun fasteigna, skuldabréf og ýmsir lánssamningar, trygginga- og ábyrgðarskjöl, skjöl þar sem stofnast sjálfsvörsluveð í fasteign eða lausafé, handveðsbréf, víxlar, vátryggingaskírteini og vátryggingasamningar, happdrættismiðar, skjöl um framsal réttinda og yfirtöku skuldbindinga, svo sem skulda- og veðbréfa og réttinda samkvæmt líftryggingaskírteini, kaupmálar og erfðaskrár. Stimpilfrjáls eru m.a. viðskiptabækur, innlánsskírteini og slík skjöl sem gefin eru út af bönkum, sparisjóðum og hlutdeildarsjóðum.
    Helstu stimpilgjöld eru eftirfarandi: 0,6% af skjölum um eignayfirfærslu á húsnæði í einkaeign, 1,2% af skjölum um önnur fasteignakaup, 1,5% af veð- og tryggingabréfum í fasteignum, 0,3% af öðrum skjölum sem veita ábyrgð eða tryggingu, DKR 1,50 pr. DKR 5.000 af líftryggingafjárhæð, DKR 0,25 pr. DKR 5.000 af vátryggingafjárhæð annarra trygginga eða 12% af iðgjaldi.
    Við mótun íslenskra reglna um stimpilgjöld hefur fyrirmynda verið leitað að talsverðu leyti til danskra laga. Þetta sést við samanburð gildandi laga um stimpilgjöld, nr. 36/1978, við danska löggjöf. Frumvarp það, sem hér liggur fyrir, tekur einnig í nokkrum atriðum mið af dönsku lögunum. Hins vegar er gjaldhlutfallið hér á landi mun lægra.
    Noregur, Svíþjóð, Finnland. Í Noregi eru í gildi lög um stimpilgjald „Lov om dokumentavgift“ nr. 59/1975. Lögin eru ekki eins víðtæk eða ítarleg og dönsku lögin. Helstu stimpil gjöld eru 2,5% af skjölum um kaup eða leigu á fasteignum.
    Í Svíþjóð gilda um stimpilgjald lög nr. 1984:404 „om stampelskatt vid inskrivnings myndigheter.“ Lögin eru víðtækari en norsku lögin en ganga skemur en þau dönsku. Þannig eru færri skjalategundir stimpilskyldar samkvæmt sænsku lögunum en þeim dönsku. Helstu stimpilgjöld eru 1,5% af kaupsamningum um íbúðir og 2% af hlutabréfum.
    Í Finnlandi er stimpilskylda byggð á lögum frá 1943. Stimpilgjald er þar lagt á ýmsar tegundir löggerninga. Helstu stimpilgjöld eru annars vegar af skjölum vegna yfirfærslu fast eignaréttinda og eru þau breytileg með tilliti til eignarverðmætis, þ.e. 4% af skjölum að fjárhæð allt að FMK 70.000, 5% af skjölum að fjárhæð frá FMK 70.000–FMK 200.000, 6% af skjölum að fjárhæð yfir FMK 200.000 (frá 1991 hefur fólk á aldrinum 18–40 ára, sem kaupir sína fyrstu íbúð verið undanþegið stimpilgjaldi) og hins vegar 1,6% af framsali hlutabréfa, en gjald er ekki lagt á sölu hlutabréfa gegnum verðbréfamarkaði eða OTC–lista.
    Önnur OECD-ríki. Saga skatta á fjármagnsfærslur er nokkuð löng í ýmsum löndum OECD. Í upphafi voru þessir skattar í flestum tilvikum hugsaðir sem gjaldtaka fyrir veitta þjónustu, t.d. skráningu samninga, en aukið frelsi á fjármagnsmörkuðum hefur leitt til þess að dregið hefur úr þessari skattheimtu. Í vissum tilvikum hafa þessir skattar jafnvel verið aflagðir, t.d. í Þýskalandi og Sviss. Þess má hins vegar geta að stimpilgjöld af fasteigna viðskiptum voru nýlega hækkuð í Bretlandi.
    Innheimta stimpilgjalda hefur verið útfærð á marga vegu. Í flestum löndum hafa þau verið mishá eftir tegundum verðbréfa/færslna og eftir aðilum á fjármagnsmarkaðnum. Stimpilgjöld á skammtímaverðbréfum eru höfð lægri en á lengri verðbréfum þannig að raunskatturinn komi ekki í veg fyrir viðskipti með skammtímaverðbréf. Verðbréf útgefin af ríki og ríkisstofnunum eru oftast undanþegin stimpilgjöldum og í sumum OECD-löndum eru ákveðnir aðilar skattlagðir vægar en aðrir. Sum verðbréfaform hafa verið undanþegin stimpilgjöldum vegna örðugleika í framkvæmd, en erfitt getur reynst að ákvarða viðeigandi gjaldflokka eða innheimta gjaldið. Þetta á aðallega við um afleidd verðbréf (derivatives).

4.     Tekjur ríkissjóðs og áhrif breytinganna.

    Á undanförnum árum hafa tekjur af stimpilgjaldi numið 2,2–2,3 milljörðum kr., eða sem svarar til rúmlega 2% af skatttekjum ríkissjóðs.


Tekjur af stimpilgjaldi 1985
1996.


Í milljónum kr.          1985     1990     1991     1992     1993     1994     1995     1996

Tekjur af stimpilgjaldi          665     2.171     2.271     2.271     2.027     2.246     2.232     2.330
Sem % af skatttekjum ríkissjóðs          2,6     2,5     2,4     2,4     2,1     2,2     2,1     2,0


     Skipting tekna eftir innheimtuaðilum og tegund samninga. Innheimt stimpilgjöld hjá bönkum og sparisjóðum eru nær eingöngu vegna víxla og skuldabréfa. Þannig er um fimmt ungur stimpilgjalds hjá bönkum og sparisjóðum vegna víxla, en um 80% vegna skuldabréfa, þar af eru rúmlega 60% af bréfum til lengri tíma en eins árs. Hjá sýslumönnum skiptast tekjurnar þannig að rúm 25% þeirra eru vegna stimpilgjalds af eignayfirfærslum, tæp 10% vegna fjárnáma og tryggingabréfa og 60% vegna skuldabréfa. Um 65% þeirra skuldabréfa sem sýslumenn stimpla eru til lengri tíma en tíu ára.


Innheimtuaðilar stimpilgjalda árið 1996.


                   m.kr.     %

Sýslumenn, ríkisféhirðir          1.385     59,4
Bankar og sparisjóðir          730     31,3
Verðbréfasjóðir          85     3,8
Ríkisábyrgðasjóður, fjárfestingalánasjóðir          30     1,3
Tryggingafélög          80     3,4
Aðrir aðilar               20     0,9
SAMTALS               2.330     100,0


    Meginhluti þess stimpilgjalds sem innheimtur er hjá sýslumönnum og ríkisféhirði er vegna fasteignaveðbréfa til lengri tíma, kaupsamninga og afsala. Athuganir benda til þess að einungis óverulegur hluti stimpilgjalds hjá þessum embættum sé vegna skuldabréfa með skemmri lánstíma en eitt ár. Á hinn bóginn virðist um 12% innheimtra stimpilgjalda hjá bönkum og sparisjóðum vera af skuldabréfum með lánstíma allt að einu ári. Á grundvelli þess sem fram er komið og viðbótarupplýsinga frá einstökum innheimtuaðilum hefur tekjum af stimpilgjaldi verið skipt á eftirfarandi hátt eftir tegundum samninga. Rétt er að árétta að þetta er áætluð skipting, þar sem ekki eru tiltækar nákvæmar upplýsingar hjá innheimtuaðilum.

Innheimta stimpilgjalds 1996.


               Gildandi reglur     Frumvarp     Mismunur
              m.kr.     %     m.kr.     %     m.kr.     


Sýslumenn, ríkisféhirðir          1.331     
     1.136          195     
Skuldabréf          876     1,5     642     0,2/1,1     -234
Fasteignaviðskipti          285     0,4     356     0,5     71     
Aðrir eignaskiptasamningar          25     2,0     6     0,5     -19     
Fjárnám          110     1,5     81     0,5     -29     
Önnur stimpilskyld skjöl          35     0,5–1,5     51     0,2–1,1     16     

Bankar og sparisjóðir          730          588          -142     

Víxlar          195     0,25     156     0,2/1,1     -39     
Afurðalán          65     0,3     43     0,2/1,1     -22     
Skuldabréf án veðs og vaxta          30     0,5     66     0,2/1,1     36     
Almenn skuldabréf          440     1,5      323     0,2/1,1     -117     

Aðrir          215          266          51     

Hlutabréf          85     0,5     85     0,5     
Ríkisábyrgðasjóður, fjárfestingalánasjóðir     30     1,5     22     1,1     -8     
Tryggingafélög          80     breytil.     53     0,2     -27
Aðrir aðilar          20     0,5–1,5     7     0,2–1,1     -13
Eignarleigusamningar                    33     0,2/1,1     33
Kaupsamningar um lausafé                    55     0,2/1,1     55     
Leiga og sala aflakvóta                    11     0,5     11

Opinberir aðilar, markaðsútgáfur          54          206          152     

Spariskírteini                    50     0,5     50
Ríkisbréf                    26     0,5     26     
Ríkisvíxlar o.fl.*                    112     0,15/0,5     112     
Skuldabréfaútgáfa atvinnufyrirtækja          33     1,5     11      0,15/0,5     -22
Skuldabréfaútgáfa sveitafélaga          21     1,5     7      0,15/0,5     -14

SAMTALS          2.330          2.196          -134     

* Stimpilgjald samkvæmt frumvarpinu er 0,5% á lengri bréfum og 0,15% þegar lánstími er styttri en eitt ár.

     Áhrif breytinganna. Eins og fram kemur í töflunni er talið að tekjur ríkissjóðs af stimpilgjaldi lækki nokkuð við þessar breytingar. Einnig verður nokkur tilfærsla milli einstakra flokka. Nokkur óvissa er um áhrif þess að leggja lægra gjald á skammtímabréf en bréf til lengri tíma. Hér er þó ekki gert ráð fyrir að hún leiði til umtalsverðrar fjölgunar skammtíma bréfa á kostnað bréfa til lengri tíma. Einnig er óvíst um áhrif álagningar stimpilgjalds á ríkis bréf (sem eru undanþegin samkvæmt gildandi lögum) á ávöxtunarkröfu og þar með á gjalda hlið ríkissjóðs. Þó má ætla að vaxtakostnaður muni eitthvað aukast.
    Sem dæmi um áhrif einstakra breytinga má nefna að stimpilgjald af 1 millj. kr. almennu skuldabréfaláni til lengri tíma en eins árs lækkar úr 15.000 kr. í 11.000 kr., eða um 27%. Á hinn bóginn hækkar stimpilgjald af fasteignaviðskiptum úr 0,4% í 0,5%, eða sem nemur 1.000 kr. fyrir hverja 1 millj. kr. í íbúðakaupum. Samanlögð áhrif lægra stimpilgjalds af skuldabréfaláni og hækkun í fasteignaviðskiptum eru því ótvírætt til lækkunar. Enn fremur lækkar stimpilgjald af víxlum til skemmri tíma en eins árs úr 0,25% í 0,2% af fjárhæð víxils.

5.     Nánari skýringar á helstu atriðum frumvarpsins.
    a)          Stimpilgjald af skuldaskjölum verði tengt lánstíma. Samkvæmt gildandi lögum er stimpilgjald af skuldabréfum og tryggingarbréfum 1,5% þegar skuldin ber vexti eða er tryggð með veði eða ábyrgð en 0,5% ef annað eða hvorugt þessara skilyrða er uppfyllt. Þá er stimpilgjald af skuldabréfum og tryggingarbréfum vegna afurðarlána með veði í fram leiðsluvörum sjávarútvegs, landbúnaðar og iðnaðar ávallt 0,3% og skiptir þá ekki máli hvort bréfin bera vexti eða ekki. Af víxlum er stimpilgjaldið hins vegar 0,25% og er ástæða þess væntanlega sú að víxlar eru í eðli sínu skammtímaskuldbindingar. Gagnrýnt hefur verið að gjaldtaka af skuldabréfum og tryggingarbréfum sé mismunandi eftir því hvort skuld ber vexti eða ekki. Enn fremur er oft vandkvæðum bundið að skera úr um það hvort tryggingarbréf beri vexti og þar af leiðandi í hvorn gjaldflokkinn það fellur. Loks hefur verið á það bent að stimpilgjöld vegi mjög þungt í skammtímaviðskiptum á meðan áhrif þeirra eru óveruleg þegar um skuldbindingar til langs tíma er að ræða.
    Í III. kafla frumvarpsins er lagt til að stimpilgjald af almennum skuldabréfum og víxlum verði miðað við lánstímann þannig að gjaldið verði 0,2% ef lánstíminn er styttri en eitt ár, en ella 1,1% af fjárhæð skjalanna. Enn fremur er lagt til að stimpilgjald af kaupsamningum um lausafé sem kveða á um gjaldfresti að hluta eða öllu leyti og fjármögnunar- og kaupleigu samningum verði ákvarðað með sama hætti. Með slíkri reglu er dregið úr þýðingu láns formsins eða skilmála um tryggingar og vexti fyrir gjaldtökuna. Þá er lagt til að tekið verði sérstakt lægra stimpilgjald af markaðsverðbréfum, þ.e. 0,15% þegar lánstíminn er styttri en eitt ár, en ella 0,5%. Lækkun gjaldsins ætti að bæta samkeppnisstöðu innlendrar markaðs útgáfu gagnvart erlendri og ýta undir að bréf séu sett á markað. Til að gæta samræmis er lagt til að markaðsbréf útgefin af ríkissjóði verði stimpilskyld, en þau eru nú stimpilfrjáls samkvæmt almennum reglum.

    b) Stimpilgjald af eignarleigusamningum o.fl. Á undanförnum árum hefur fjölgað þeim leiðum sem menn hafa til þess að fjármagna tiltekin viðskipti. Lagt er til að tekið verði stimpilgjald af kaupsamningum um lausafé þegar veittur er gjaldfrestur og af eignarleigu samningum eftir sömu reglum og gilda munu um skuldabréf. Þessar tegundir samninga, sem eru í eðli sínu lánsskjöl, þekktust lítt eða ekkert þegar núgildandi lög um stimpilgjald tóku gildi. Er lagt til að þessir samningar verði gerðir stimpilskyldir til þess að stuðla að jafnræði milli þeirra og skuldabréfa og víxla og til þess að tryggja að stimpilgjaldið hafi ekki óeðlileg áhrif á það hvaða greiðsluform er valið.

         c) Undanþágur frá greiðslu stimpilgjalda. Lagt er til að hin almenna heimild fjármálaráðherra til að ákvarða hvort ríkissjóður greiði stimpilgjald, sem er í 35. gr. núgildandi laga, falli brott en í stað þess verði undanþágur tilgreindar þegar það þykir eiga við í lögum. Gert er þannig ráð fyrir að ríkið greiði framvegis stimpilgjald vegna t.d. kaupa á fasteignum á sama hátt og það greiðir virðisaukaskatt í viðskiptum eins og aðrir. Samhliða er lagt til að ýmis sérlagaákvæði sem undanþiggja tiltekna starfsemi stimpilgjaldi verði felld brott. Hér er fyrst og fremst um orku- og veitufyrirtæki að ræða en eðlilegt er að þessar stofnanir og fyrirtæki greiði stimpilgjald á sama hátt og ríkið mun gera verði tillögur frumvarpsins að lögum.
    Enn fremur er lagt til að ýmis lagaákvæði sem nú eru í sérlögum og kveða á um undanþágur verði framvegis í lögum um stimpilgjald. Núverandi fyrirkomulag hefur valdið erfiðleikum í framkvæmd og torveldað yfirsýn yfir það hvaða skjöl eru stimpilskyld og hver ekki. Eru þetta ákvæði sem nokkuð oft reynir á í framkvæmd hjá sýslumönnum, bönkum og öðrum innheimtumönnum stimpilgjalds. Hins vegar er gert ráð fyrir að ýmis ákvæði sem gilda á tiltölulega afmörkuðum sviðum og eru oft tímabundin í eðli sínu, verði áfram í sérlögum.
    Loks er lagt til að ákvæði um stimpilfrelsi skjala sem tengjast félagslegum íbúðum og eru í 78. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins, verði þrengd þannig að sérreglur fyrir framkvæmdaaðila verði afnumdar og afsöl fyrir félagslegum íbúðum verði stimpilskyld, en þau eru nú stimpilfrjáls.

    d) Vátryggingarsamningar. Samkvæmt gildandi reglum er stimpilgjaldið ýmist miðað við iðgjöld eða vátryggingarfjárhæð. Þar sem gjaldið miðast við iðgjöld er það í öllum til vikum nema einu 8% af iðgjaldi. Þetta á t.d. við um húseigendatryggingar. Stimpilgjald af heimilistryggingum og húftryggingum bifreiða miðast hins vegar við vátryggingarfjárhæð. Þá eru tilteknar tegundir trygginga undanþegnar stimpilgjaldi, m.a. brunatryggingar fast eigna, ábyrgðatryggingar bifreiða og atvinnuslysatryggingar launþega. Þannig eru mismun andi aðferðir við ákvörðun stimpilgjalda af vátryggingarsamningum sem valda erfiðleikum í framkvæmd þegar um samsettar tryggingar er að ræða auk þess sem ekkert samræmi er í gjaldtökunni. Eðlilegast er að miða stimpilgjaldið við iðgjaldið og er því lagt til að tekið verði 0,2% gjald af öllum iðgjöldum nema iðgjöldum vegna samninga um líftryggingar. Þess má geta að ekki er tekinn virðisaukaskattur af tryggingum. Á sínum tíma voru þær hins vegar almennt söluskattsskyldar.

    e) Stimpilgjald af aflaheimildum (veiðikvóta). Samkvæmt gildandi lögum er tekið stimpilgjald þegar aflaheimildir eru seldar með fiskiskipum þar sem litið er svo á að aflaheimildir séu hluti af fylgifé skips, en gjaldið reiknast af skipi og fylgifé. Til þess að gæta samræmis við gjaldtöku er lagt til að þegar aflaheimildir eða veiðikvóti er seldur sér eða leigður, verði tekið stimpilgjald af þeim samningum.

    f) Aðrar breytingar.
Lagt er til að það nægi til að gera skjal stimpilskylt hér á landi að annar aðili þess sé heimilisfastur hérlendis. Í mörgum tilvikum eru slík skjöl stimpilskyld hér á landi. Ákvæði þetta þykir hins vegar nauðsynlegt til að jafna samkeppnisstöðu innlendra lánastofnana gagnvart erlendum. Í V. kafla er jafnframt ákvæði sem ætlað er að koma í veg fyrir tvísköttun eða með öðrum orðum að girða fyrir að menn greiði bæði fullt stimpilgjald hér á landi og erlendis.
    Einnig er lagt til að stimpilgjald af eignayfirfærslum af fasteignum og skipum hækki úr 0,4% í 0,5% til að vega að hluta upp á móti lækkun stimpilgjalds af skuldabréfum. Þá eru lagðar til nokkrar breytingar á lögunum sem miða að því að kveða skýrar á um nokkur atriði sem nú byggjast á túlkun gildandi laga. Þannig er t.d. kveðið á um það berum orðum í 3. mgr. 28. gr. frumvarpsins að skuldbreytingarskjöl séu stimpilskyld og jafnframt er lagt til að skuldabréf sem fela í sér endurnýjun á skuld samkvæmt eldra bréfi verði gjaldfrjáls en nú er tekinn af slíkum bréfum helmingur af því gjaldi sem greitt er fyrir skuldabréf vegna nýrra lána. Í 39. gr. frumvarpsins kemur fram að húsaleigusamningar eru stimpilfrjálsir en það hefur hingað til verið byggt á orðum greinargerðar með eldri lögum. Þá eru lagðar til breytingar á reglum um stimplun kaupmála sem miða að því að gera núverandi reglur skýrari. Loks hafa verið gerðar ýmsar breytingar á uppsetningu og orðalagi núgildandi laga sem miða að því að eyða vafa og gera lögin nútímalegri.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.

Um 1. gr.

    Hér er kveðið á um gjaldskyldu. Samkvæmt ákvæðinu eru einungis þau skjöl stimpilskyld sem falla undir ákvæði III. kafla laganna en önnur skjöl eru stimpilfrjáls. Skjöl þurfa ekki að vera á pappír til að falla undir lögin heldur geta þau t.d. verið í rafrænu formi.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um hvenær gjaldskylda stofnast. Ákvæðið sækir fyrirmynd sína í 2. gr. dönsku stimpilgjaldalaganna en ekkert sambærilegt ákvæði er í núgildandi lögum. Hins vegar er kveðið á um það í 11. gr. laganna frá hvaða tímamarki frestur til þess að stimpla skjöl reiknast. Er því ekki um eiginlega efnisbreytingu að ræða.

Um 3. gr.

    Ákvæðið er að mestu leyti samhljóða 3. gr. núgildandi laga en í greininni er kveðið á um það hvenær skjöl eru stimpilskyld hérlendis. Við 2. tölul. er þó bætt ákvæði þess efnis að vátryggingarskjöl sem snerta einstaklinga búsetta hér á landi séu ávallt stimpilskyld hér á landi. Þetta leiðir til þess t.d. að slysatryggingar og starfsábyrðartryggingar sem teknar eru hjá erlendum vátryggingafélögum yrðu almennt stimpilskyldar hérlendis. Nú eru eingöngu slíkar tryggingar sem teknar eru hjá íslenskum vátryggingarfélögum stimpilskyldar og leiðir það óneitanlega til röskunar á samkeppnisstöðu þeirra gagnvart hinum erlendu félögum. Ákvæðinu er ætlað að bæta úr því. Jafnframt felst í ákvæðinu að vátryggingar vegna eigna hér á landi, t.d. ábyrgðartryggingar bifreiða, verða stimpilskyldar hér á landi þó svo vátryggjandinn sé ekki heimilisfastur hér á landi og skiptir þá engu máli hvar iðgjaldið er greitt. Samkvæmt núgildandi reglum eru eignatryggingar ekki stimpilskyldar hérlendis ef sannað er að iðgjaldið sé ekki greitt hérlendis.
    

Um 4. gr.

    Ákvæðið er byggt á núgildandi 4. gr. laganna en í því ákvæði felst að séu allir aðilar skjals heimilisfastir hér á landi er það stimpilskylt jafnvel þótt það sé gefið út erlendis. Hér er lögð til sú breyting að nægjanlegt sé að einn aðili sé heimilsfastur hér á landi til þess að það verði stimpilskylt hérlendis. Er þetta lagt til í því skyni að jafna samkeppnisstöðu íslenskra lánastofnana gagnvart erlendum.

Um 5. gr.

    Í 1. mgr. er kveðið á um það að það sé hinn efnislegi réttur sem í skjalinu felst sem máli skiptir við ákvörðun gjaldsins en ekki nafn þess eða form. Ákvæðið er óbreytt frá núgildandi lögum en því er mjög oft beitt við túlkun laganna.
    Ákvæði 2. mgr. er óbreytt að öðru leyti en því af endurriti að dómum er bætt við upptaln inguna í seinni málsgreininni.

Um 6. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða núgildandi 6. gr. en í henni felst að þegar í sama skjali er falin fleiri en ein tegund gerninga svo sem afsal veitt og veð sett eru báðar tegundirnar stimpilskyldar. Þessi regla er sambærileg við regluna í 1. mgr. 5. gr. um að það sé hinn efnislegi réttur sem máli skiptir fyrir stimpilskylduna en ekki form eða heiti skjalsins.

Um 7. gr.

    Greinin er samhljóða núgildandi 7. gr. laganna og þarfnast ekki skýringa.

Um 8. gr.

    Greinin er sambærileg við 8. gr. núgildandi laga en þó eru gerðar nokkrar breytingar á ákvæðinu í því skyni að gera það skýrara og eyða vafa varðandi túlkun þess.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hvernig fara eigi með ýmsar áletranir á áður stimpluð skjöl sem ætlað er að haldi gildi sínu þrátt fyrir áletranirnar. Dæmi um slíkar áletranir geta verið áletranir um breytingar á veði, ábyrgð eða vöxtum. Það leiðir af 1. mgr. 5. gr. að ekki skiptir máli hvort áletrunin er rituð í heild sinni á skjalið sjálft eða á annað skjal sem verður hluti af upphaflega skjalinu, þ.e. er eins konar viðbót eða viðauki við það. Áletranir eru stimpil frjálsar ef þær hefðu ekki breytt stimpilgjaldinu hefðu þær staðið í skjalinu frá byrjun. Þetta leiðir t.d. til þess að veðflutningar eru stimpilfrjálsir enda hefði það ekki breytt neinu fyrir gjaldtökuna þótt nýja veðið hefði verið valið í upphafi. Í 24. gr. gildandi laga er stimpilgjald af skuldabréfum sem bera vexti en eru án allra trygginga 0,5% en af bréfum sem bera vexti og eru tryggð með veði eða ábyrgð 1,5%. 8. gr. gildandi laga leiðir til þess að ef skuld samkvæmt bréfi sem ber vexti en er án allra trygginga er síðar áletrað um ábyrgð verður að greiða 1,0% stimpilgjald af höfuðstólnum til viðbótar við upphaflega gjaldið. Í 27. gr. frum varpsins er hins vegar lagt til að þessi munur verði afnumin og í stað þess miðist gjaldið við lánstímann. Verði 27. gr. að lögum kemur ekki til þess sem áður greinir og áletrun um lengingu lánstíma hefði engin áhrif.
    Í niðurlagi 1. mgr. er vísað í 3. mgr. 28. gr. en það er gert til þess að enginn vafi leiki á því að skuldbreyting vanskila getur ekki falið í sér stimpilfrjálsa áletrun heldur er slík skuldbreyting stimpilskyld að fullu eins og um nýtt lán væri að ræða.
    Í 2. mgr. er kveðið á um það að 1. mgr. skuli einnig gilda um skjöl sem ekki eru stimpilskyld hérlendis vegna reglnanna í 3. og 4. gr. en vafi hefur þótt leika á því hvort áletrun á slík skjöl gæti orðið stimpilskyld skv. 8. gr. gildandi laga. Þetta þýðir að þegar skjal, t.d. skuldabréf, sem er stimpilfrjálst hérlendis er framselt til aðila sem hér er heimilisfastur yrði að stimpla skjalið þegar framsalið fer fram. Telja verður eðlilegt að sams konar reglur gildi um áletranir á slík skjöl og þau skjöl sem áður hafa verið stimpluð.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um það hverjir bera ábyrgð á greiðslu stimpilgjalds. Sambæri legt ákvæði er í 3. mgr. 34. gr. núgildandi laga en ákvæðið er þó gert fyllra. Í ákvæðinu er mælt fyrir um að þeir sem eru aðilar að réttarsambandi sem stimpilskylt skjal varðar svo og handhafar slíkra skjala beri ábyrgð á greiðslu gjaldsins. Í mörgum tilvikum mundi það fara saman að vera handhafi skjals og aðili að réttarsambandi því sem skjalið varðar.

Um 10. gr.

    Í 2. gr. núgildandi laga eru settar almennar reglur um ákvörðun stimpilgjalds. Helsta breytingin sem hér er lögð til er að gjaldið standi á heilu hundraði og að það hækki og lækki miðað við 50 kr., en nú er miðað við að gjaldið standi á heilli krónu og að það hækki og lækki miðað við 50 aura. Þá er í ljósi verðþróunar á liðnum áratug lagt til að lágmarksgjaldið verði 100 kr. en nú er það 1 króna. Viðmiðun við krónu var tekin upp í kjölfar myntbreyt ingarinnar með lögum nr. 82/1980. Þá er lagt til það nýmæli að stimpilgjald myndi aldrei stofn til töku gjaldsins en samkvæmt núgildandi reglum er óhjákvæmilegt að taka stimpilgjald af stimpilgjaldi í þeim tilvikum þegar gjaldið er lánað.

Um 11. og 12. gr.

    11. gr. er samhljóða 9. gr. gildandi laga og kveður á um að ávallt skuli taka stimpilgjaldið af hæstu fjárhæðinni þegar skjal stofnar til réttinda sem meta má á mismunandi hátt. Þetta ákvæði er náskylt 12. gr. frumvarpsins en sú grein er samhljóða 25. gr. gildandi laga og fjallar um það hvernig ákvarða eigi gjaldið þegar trygging er sett fyrir óákveðinni skuld.

Um 13. gr.

    Hér er kveðið á um hvernig eigi að ákvarða stimpilgjaldið þegar hin stimpilskylda fjárhæð er tilgreind í erlendri mynt. Ákvæði 1. mgr. er óbreytt frá gildandi lögum en í 2. mgr. er nýmæli sem kveður á um við hvaða sölugengi er átt. Er þetta nauðsynlegt þar sem viðskiptabankar og sparisjóðir hafa nú nokkuð svigrúm til þess að ákvarða gengi.

Um 14. gr.

    Grein þessi samsvarar 10. gr. núgildandi laga en á greininni eru gerðar nokkrar breytingar vegna breyttrar framkvæmdar á gjaldtökunni. Gert er ráð fyrir því að aðalreglan verði sú að greiðslan sé staðfest með notkun stimpilmerkjavélar eða stimpilmerkja en jafn framt verði heimilt að gera það með öðrum hætti. Algengast er að stimpilgjaldið sé staðfest með notkun stimpilmerkjavélar en á undanförnum árum hafa annars konar áletranir verði notaðar í vaxandi mæli. Ráðuneytið hefur þannig heimilað nokkrum hlutafélögum og verð bréfafyrirtækjum, að fullnægðum ströngum skilyrðum, að prenta á hlutabréf að stimpilgjald hafi verið greitt. Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að ráðherra geti sett nánari reglur um gerð og búnað stimpilmerkjavéla og notkun stimpla og áletrunar.

Um 15. gr.

    Greinin samsvarar 11. gr. núgildandi laga og er gert ráð fyrir sama fresti til þess að stimpla skjöl og þar er gert. Í greininni er sett regla um það hvenær verður að vera búið að stimpla svo að ekki komi til greiðslu dráttarvaxta skv. 46. gr. en ekki er um eiginlegan greiðslufrest að ræða. Stimpla verður skjalið áður en tveir mánuðir eru liðnir frá útgáfu þess eða frá því það kom til landsins en fresturinn er styttri þegar eindagi skjalsins er fyrr. Þá verður að stimpla skjalið fyrir eindaga.

Um 16. gr.

    Í greininni er fjallað um skyldur þeirra er annast innheimtu stimpilgjalda. Í 1. mgr. er fjallað um skyldur opinberra starfsmanna en í 2. mgr. um skyldur banka og sparisjóða og annarra fjármálastofnana. Þeim er skylt að stimpla endurgjaldslaust þau skjöl sem um hendur þeirra fara. Þetta á t.d. við um skjöl vegna lánveitinga þeirra og skjöl sem þeir kaupa eða taka í innheimtu. Í 3. mgr. er loks kveðið á um heimild ráðherra til að veita öðrum en þeim sem getið er um í 1. og 2. mgr. leyfi til stimplunar skjala. Slík leyfi hafa t.d. verið veitt verðbréfafyrirtækjum og vátryggingafélögum. Ákvæðið er óbreytt frá 12. gr. núgildandi laga að öðru leyti en því að fellt er brott úr ákvæðinu heimild til handa fjármálaráðuneytinu að ákveða annan gjaldfrest en þann er tilgreindur er í 4. mgr. 16. gr. Er því við það miðað að frestur til þess að skila innheimtu stimpilgjaldi verði ávallt 15. dagur næsta mánaðar eftir að stimplun á sér stað en heimild til þess að ákveða annan gjalddaga hefur ekki verið nýtt.

Um 17. gr.

    1. mgr. 17. gr. samsvarar 1. málsl. 13. gr. en í 2. mgr. er að finna nýmæli sem kveður á um að heimilt sé að áætla fjárhæðina ef áskorun er ekki sinnt eða hin tilgreinda fjárhæð í skjalinu, svo sem endurgjald fyrir lóðarleigusamning, þykir ósennileg eða tortryggileg. Nokkur vafi hefur ríkt um það hvort heimilt væri að áætla stimpilskylda fjárhæð í slíkum tilvikum.

Um 18. gr.

    Hér er kveðið á um endurgreiðslu stimpilgjalda en sambærileg ákvæði eru nú í 14. gr. laganna. Ástæður fyrir endurgreiðslu eru einkum tvær. Annars vegar sú að skjalið öðlast ekki þau réttaráhrif sem ætlunin var þegar gjaldið var greitt, en hins vegar sú að skjalið er af vangá stimplað of hátt. Í 2. mgr. er lagt til að sýslumanni verði heimilt að endurgreiða stimpilgjöld þegar stimplað skjal er ógilt eða eigi verður af því það réttarástand sem ætlunin var í upphafi. Í gildandi lögum er endurgreiðsluheimildin hjá fjármálaráðuneytinu en með bréfi dags. 1. september 1993 fól ráðuneytið sýslumönnum að annast þessar endurgreiðslur og er því með þeirri breytingu sem hér er lögð til aðeins verið að lögfesta þá framkvæmd. Sýslumenn muni enn fremur geta endurgreitt stimpilgjald af skjölum sem af vangá eru stimpluð of hátt en um þær endurgreiðslur er fjallað í 3. mgr. Fjallað er um fresti til þess að óska eftir endurgreiðslu í 4. mgr. Samkvæmt núgildandi ákvæði er fresturinn að jafnaði tvö ár frá útgáfu skjalsins. Hér er hins vegar lagt til að beiðni verði að berast innan tveggja ára frá því að þau atvik sem beiðnin byggist á átti sér stað en að öðru leyti fari um endurgreiðslukröfu samkvæmt lögum um endurgreiðslu oftekinna skatta og gjalda. Í 5. mgr. er gerð sú krafa að beiðni um endurgreiðslu fylgi frumrit viðkomandi skjals en það er nauðsynlegt til þess að hægt sé að árita viðkomandi skjal um endurgreiðsluna og þannig koma í veg fyrir misnotkun endurgreiðsluheimildarinnar. Ef sérstakar málsbætur eru fyrir hendi er hins vegar heimilt að víkja frá þessu skilyrði.

Um 19. gr.

    Ákvæði um fyrningu er í 15. gr. gildandi laga. Greinin er óbreytt að öðru leyti en því að lagt er til að krafan fyrnist á fjórum árum frá því skjal féll úr gildi en nú er miðað við fimm ár. Fyrningarfresturinn verður þá í samræmi við fyrningarfresti í 4. gr. laga um endurgreiðslu oftekinna skatta, nr. 29/1995.

Um 20. gr.

    Kveðið er á um í 20. og 21. gr. um stimplun heimildarbréfa fyrir fasteignum og skipum. Í 20. gr. er fjallað um gjaldskylduna en í 21. gr. um gjaldstofninn.
    20. gr. frumvarpsins er sambærileg við 16. gr. núgildandi laga en í þessari grein frum varpsins eru lagðar til nokkrar breytingar á gildandi reglum.
    Í 1. málsl. 1. mgr. er lagt til að stimpilgjaldið hækki um 0,1%. Þá er lagt til að tekið verði stimpilgjald af afsalsgerningum vegna allra skipa en nú eru bátar undir 5 brúttósmálestum undanþegnir stimpilgjaldi en engin rök þykja fyrir því að gerður sé slíkur greinarmunur.
    Í 4. mgr. er lagt til að sömu reglur gildi um sölu eigna við nauðungarsölu annars vegar og ráðstöfun skiptastjóra á eign á grundvelli 129. gr. laga um gjaldþrotaskipti, nr. 21/1991, hins vegar. Í núgildandi lögum er aðeins kveðið á um sölu eigna á nauðungaruppboði en með lögjöfnun hefur ákvæðinu einnig verið beitt um ráðstöfun eigna skv. 129. gr. l. nr. 21/1991.
    Í 5. mgr. er lagt til að ekki verði tekið stimpilgjald við búskipti sambúðarfólks en skv. núgildandi 5. mgr. 16. gr. gildir sú undanþága eingöngu um búskipti hjóna. Enn fremur gildir undanþágan ekki ef samhliða búskiptunum er jafnframt um sölu að ræða. Lagt er til að þetta skilyrði verði fellt brott þar sem ætla má að í flestum tilvikum sé heildareignum bús skipt jafnt t.d. milli hjóna við skilnað jafnvel þótt annað þeirra kunni að fá fasteign búsins í sinn hlut.
    2. málsl. 1. mgr. er samhljóða núgildandi 2. málsl. 1. mgr. 16. gr. Enn fremur eru 2. og 3. mgr. sem fjalla um töku stimpilgjalda við eigendaskipti í tengslum við sameiningu og slit félaga samhljóða núgildandi ákvæðum þar um.

Um 21. gr.

    Hér er fjallað um gjaldstofn stimpilgjaldsins vegna eigendaskipta af fasteignum og skipum. Um þennan gjaldstofn er nú fjallað í 17. gr. laganna en hér eru lagðar til nokkrar breytingar.
    Í 1. mgr. er fjallað um gjaldstofninn vegna heimildarbréfa fyrir fasteignum. Meginreglan er sú að miða á við fasteignamat húss og lóðar. Í 2. málsl. 1. mgr. er sérregla sem fjallar um það hvernig eigi að ákvarða gjaldstofninn þegar fasteignamat hefur ekki farið fram. Samkvæmt gildandi reglum á að miða við áætlað fasteignamatsverð en kaupverð ef slík áætlun er sérstökum örðugleikum bundin. Fasteignamat ríkisins hefur sett reglur um matið sem stuðst er við hjá sýslumannsembættum. Þessi aðferð við ákvörðun gjaldstofnsins getur oft leitt til ósanngjarnrar niðurstöðu og er því lagt til að meginreglan verði sú að miða við kaupverð enda teljist það sennilegt. Sé svo ekki skal heimilt að miða við áætlað fasteigna matsverð.
    Í 2. mgr. er fjallað um gjaldstofninn vegna heimildarbréfa fyrir skipum. 1. málsl. 1. mgr. er samhljóða núgildandi 2. mgr. 17. gr. en 2. málsl. er nýmæli. Gjaldstofninn miðast við kaupverð skips, þar með talið öllu fylgifé, svo sem aflahlutdeild, enda teljist kaupverðið sennilegt en þó aldrei lægri fjárhæð en nemur áhvílandi veðskuldum. Í 2. málsl. er síðan að finna ákvæði sem heimilar að beita mati ef svo ber undir, en vafi er á því hvort það sé heimilt samkvæmt gildandi lögum.

Um 22. gr.

    Ákvæðið er samhljóða 19. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 23. gr.

    Hér er fjallað um stimpilskyldu ýmiss konar réttinda en með ákvæðinu eru gerðar nokkrar breytingar á núgildandi 20. gr. Lagt er til að gjaldið lækki úr 2,0% í 0,5% í því skyni að gæta samræmis við gjaldtöku vegna eignayfirfærslna af fasteignum og skipum en stundum getur verið erfitt að ákvarða hvort samningur felur í sér sölu á fasteign eða leigu á henni. Enn fremur er lagt til að til þess að gæta samræmis verði tekið stimpilgjald þegar aflahlutdeild er seld sér, eða leigð, en eins og fram kom í skýringu við 21. gr. telst aflahlutdeild fiskiskips til fylgifjár þess og því reiknast stimpilgjaldið af henni við sölu þess. Loks er lagt til að orðin „skyldur“ og „ítök“ verði felld brott úr greininni. Í þessu felst þó engin efnisbreyting þar sem ætla má að í flestum tilvikum væru slík réttindi talin fela í sér kvöð á viðkomandi eign.

Um 24. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um stimpilskyldu hlutabréfa og er greinin samhljóða 21. gr. núgildandi laga að því undanskildu að felld er brott heimild skv. 3. mgr. 21. gr. til þess að setja nánari reglur um framkvæmd greinarinnar. Slíkt ákvæði er óþarft þar sem almenn reglugerðarheimild er í 47. gr. frumvarpsins.
    Í 1. mgr. er lagt til að stimpilgjaldið verði 0,5%. Þess má geta að upphaflega var gjaldið 2,0% en með lögum nr. 131/1989 var það lækkað niður í 0,5%. Þá er í málgreininni fjallað um stimpilgjald af endurútgefnum hlutabréfum og jöfnunarhlutabréfum. Þessi bréf eru gjaldfrjáls enda sé sýnt fram á að útgáfa þeirra feli ekki í sér hlutafjáraukningu. Þau verður hins vegar að stimpla sérstökum gjaldfrelsis stimpli og verður sú stimplun að fara fram áður en tveir mánuðir eru liðnir frá útgáfu þeirra. Að öðrum kosti eru þau stimpilskyld að fullu. Í 2. mgr. er lagt til að framsal hlutabréfa og jöfnunarhlutabréfa verði stimpilfrjálst. Er það í samræmi við núverandi reglur.

Um 25. gr.

    Hér er fjallað um stimplun skilríkja fyrir eignarhluta í öðrum félögum en hlutafélögum en sams konar ákvæði er nú í 22. gr. laganna. Samkvæmt þessu ákvæði stimplast t.d. skilríki fyrir eignarhluta í samvinnufélögum og samlagsfélögum. Skilríki fyrir eignarhluta í þessum félögum skulu stimpluð á sama hátt og hlutabréf og framsal réttindanna í félögunum er stimpilfrjálst á sama hátt og hjá hlutafélögum.

Um 26. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stofnsamninga félaga með ótakmarkaða ábyrgð. Greinin samsvarar 23. gr. núgildandi laga en hér eru lagðar til nokkrar breytingar.
    Lagt er til í 1. mgr. að gjaldið lækki úr 2,0% í 0,5% til samræmis við þau gjöld sem félög greiða skv. 24. og 25. gr. Þá er lagt til að lágmarksgjald verði 10.000 kr. en nú er miðað við að ef félagssamningur kveður ekki á um nein fjárframlög skuli hann stimplaður með 100 kr. Lágmarksgjaldið mundi hins vegar gilda hvort sem stofnfjárframlagið væri tilgreint í samn ingnum eða ekki.
    2. og 3. mgr. eru efnislega samhljóða 2. og 3. mgr. 23. gr. núgildandi laga.

Um 27. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stimplun skuldabréfa en lagðar eru til verulegar breytingar á núverandi ákvæðum þar um. Samkvæmt núgildandi 24. gr. laganna er stimpilgjald af skuldabréfum og tryggingarbréfum 1,5% af fjárhæð bréfs þegar skuld ber vexti og er tryggð með veði eða ábyrgð. Ef svo er ekki er stimpilgjaldið 0,5%. Skuldabréf og tryggingarbréf vegna afurðarlána bera hins vegar alltaf 0,3% stimpilgjald.
    Lagt er til að í stað þess að ákvarða gjaldið á framangreindan hátt taki það mið af lánstímanum. Er lagt til að gjaldflokkarnir verði tveir, þ.e. 0,2% og 1,1%.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að þegar óvissa er um gjalddaga beri að líta svo á að lánið sé til lengri tíma en eins árs og falli það þar af leiðandi í hærri gjaldflokkinn. Er þetta í sam ræmi við regluna í 11. gr. sem kveður á um það að alltaf skuli miða við hæstu fjárhæðina ef skjal stofnar til réttinda sem meta má á mismunandi hátt.

Um 28. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stimpilgjöld af endurnýjuðum skuldabréfum og skuldbreyt ingarskjölum. Með endurnýjuðu bréfi er átt við það tilvik þegar fyrri lánssamningur er felldur úr gildi með vísan til nýs lánssamnings aðila en með skuldbreytingu er átt það það tilvik þegar eldri samningur heldur gildi sínu en honum er breytt með áletrun á bréfið sjálft eða sérstökum viðauka við það. Þessi undanþága mun gilda um almenn skuldabréf, kaup samninga um lausafé, eignarleigusamninga og lánssamninga sem falla undir 33. gr. en ekki t.d. víxla eða markaðsverðbréf.
    Í 26. gr. núgildandi laga er fjallað um stimpilgjald af skuld sem er endurnýjuð með nýju bréfi. Þetta ákvæði hefur valdið nokkrum erfiðleikum í framkvæmd á síðustu árum og er því talið upp með tæmandi hætti hvaða skilyrðum þarf að vera fullnægt til þess að ákvæðið eigi við.
    Í 2. mgr. kemur fram að ef einhverju skilyrði er ekki fullnægt skuli stimpla bréfið, eða þann hluta þess sem þetta á við um, að fullu eins og um nýtt bréf væri að ræða. Ef eldra bréf er t.d. að fjárhæð 1.000.000 kr. og nýja bréfið er að fjárhæð 700.000 kr. og þar af eru 200.000 kr. vegna vanskila á eldra bréfinu yrði innheimt fullt stimpilgjald af þessum hluta en ekkert gjald af 500.000 kr. enda fullnægir sá hluti öllum skilyrðum málsgreinarinnar, sbr. og megninreglu 6. gr. Þannig ber að líta svo á að í sama skjalinu séu tvenns konar gerningar sem hvor um sig er stimpilskyldur samkvæmt þeim reglum sem um viðkomandi gerning gilda. Loks er tekið fram berum orðum í 3. mgr. að þegar um skuldbreytingu á vanskilum er að ræða ber að taka fullt stimpilgjald af vanskilunum. Þetta kemur ekki fram berum orðum í núgildandi lögum en stimpilskylda þessara skjala hefur verið ráðin af ákvæðum 24. gr., sbr. 5. og 8. gr. laganna, og er nú framkvæmd þannig að fullt stimpilgjald er tekið af gjaldföllnum vöxtum, verðbótum, dráttarvöxtum og kostnaði en ekkert gjald er tekið af eftirstöðvum höfuðstóls.

Um 29. gr.

    Þessi grein er nýmæli og kveður á um það að greiða skuli sama stimpilgjald af kaupsamn ingum um lausafjárkaup, þar sem veittur er gjaldfrestur eins og af skuldabréfum. Gjaldið verður því 0,2% eða 1,1%.

Um 30. gr.

    Hér er fjallað um stimpilgjöld af kaupleigu- og fjármögnunarleigusamningum eða af svokallaðri eignarleigu. Ákvæðið er nýmæli. Með fjármögnunarleigu er átt við leigu á lausafé eða fasteign þar sem leigugjald ákvarðast með tilliti til þess að í lok lágmarks leigutíma hafi leigusali fengið í sinn hlut upphaflegt kaupverð auk vaxta og kostnaðar en leigutaki fær við lok þessa tíma rétt til áframhaldandi afnota en hann verður ekki sjálfkrafa eigandi hins leigða. Þegar um kaupleigu er að ræða verður leigutakinn hins vegar eigandi í lok lágmarksleigutíma en að öðru leyti eru skilmálar þessara samninga svipaðir. Sérstökum eignarleigufyrirtækjum er einum heimilt að stunda eignarleigu, sbr. lög nr. 123/1993, um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að sams konar regla gildi um töku stimpilgjalds af samningum um vanskil á eignarleigusamningum og um skuldabréf. Sé skilyrðum 28. gr. fullnægt ber því að taka 1/ 2 stimpilgjald af þeim. Að öðrum kosti væru slíkir samningar stimpilskyldir að fullu. Sama gildir ef upphaflegur samningur um leigu hlutarins er endurnýjaður.

Um 31. gr.

    Um stimpilgjald af víxlum er nú fjallað í 27. gr. laganna og er gjaldið 0,25%. Sú staðreynd að gjaldið er mun lægra af víxlum en skuldabréfum byggist væntanlega á því að víxlar séu í flestum tilvikum til skamms tíma. Hér er lagt til að um víxla gildi sams konar reglur og um skuldabréf, þ.e. að lánstíminn ráði alfarið gjaldinu. Með því er komið í veg fyrir að stimpilgjaldið ráði því hvaða lánsform verður fyrir valinu. 2. og 3. mgr. eru samhljóða núgildandi 2. og 3. mgr. 27. gr.

Um 32. gr.

    Hér er lagt til að af skuldabréf og víxlar sem skráð eru á Verðbréfaþingi Íslands eða öðrum skipulögðum verðbréfamarkaði verði tekið stimpilgjald sem er mun lægra en það gjald sem lagt er til að verði tekið almennt af lánsskjölum. Með markaðsverðbréfi er átt við framseljanleg skuldabréf og víxla sem boðin eru einstaklingum og lögaðilum til kaups, þar sem öll helstu einkenni skjalanna í hverjum flokki eru hin sömu þar á meðal nafn útgefanda, útgáfudagur, grunnvísitala, lánstími, gjalddagar, endurgreiðsluform og uppsagnarákvæði eftir því sem við getur átt.

Um 33. gr.

    Hér er fjallað um stimpilgjald af öðrum lánsamningum en þeim sem 27.–32. gr. fjallar um og er ákvæðið nýmæli. Nokkuð hefur borið á því að undanförnu að gerðir hafa verið samningar um lántökur þar sem lánveitandi lofar að lána og lántaki lofar að taka að láni tiltekna fjárhæð. Þeir hafa hins vegar ekki fullnægt þeim formskilyrðum sem gerðar eru til skuldabréfa og því hafa þeir verið stimpilfrjálsir. Svo sem kunnugt er felur skuldabréf í sér skriflega og einhliða yfirlýsingu útgefanda um skyldu hans til að greiða öðrum peninga. Skuldabréf felur þannig í sér bæði skuldaviðurkenningu og greiðsluloforð. Þessir samningar eru að öðru leyti líkir hefðbundnum skuldabréfum og til að gæta samræmis er því lagt til að þeir verði gerðir stimpilskyldir.

Um 34. gr.

    Um skuldskeytingu er í núgildandi lögum fjallað í 2. málsl. 26. gr. en um framsal í 29. gr. Hér er lagt til að þessi ákvæði verði sameinuð í eina grein en ekki er um efnisbreytingar að
ræða. Undir þetta ákvæði mundu bæði falla kröfur samkvæmt skuldbréfum og víxlum en einnig lausafjárkaupsamningar skv. 29. gr. og eignaleigusamningar skv. 30. gr.

Um 35. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stimpilgjald af gerningum vegna tryggingaráðstafana. Sam kvæmt núgildandi lögum um stimpilgjald eru tryggingarbréf, kyrrsetningar-, löggeymslu- og fjárnámsgerðir stimplaðar skv. 1. mgr. 24. gr. laganna. Stimpilgjaldið er í flestum tilvikum 1,5% og er því hér lögð til veruleg lækkun gjaldsins. Til þess að gæta samræmis varðandi gjaldtöku af tryggingaráðstöfunum er hins vegar lagt til að skjöl er snerta afhendingu handveðs verði stimpilskyld með sama hætti og tryggingarbréf. Er þetta gert að danskri fyrirmynd en skv. 61. gr. dönsku laganna um stimpilgjald eru slíkir samningar stimpilskyldir. Með nýjum lögum um samningsveð hefur veðandlögum fjölgað. Þannig er t.d. í 33. gr. þeirra laga gert ráð fyrir að hægt sé að veita veð í vörubirgðum. Skilríki um slíka veðsetningu verða stimpilskyld samkvæmt þessari grein.

Um 36. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stimpilgjald af vátryggingarsamningum og er lagt til að gjaldið verði 0,2% af iðgjaldi.
    Um stimpilgjald af vátryggingarskjölum er fjallað í 30. gr. núgildandi laga og reglugerð nr. 219/1978, sbr. reglugerð nr. 412/1984. Gjaldið er nú ýmist miðað við iðgjald eða vá tryggingarfjárhæð en um fjárhæð stimpilgjaldsins af einstökum tegundum vátrygginga er fjallað í reglugerðinni. Gjaldið getur verið misjafnlega hátt og nokkrar tegundir samninga eru undanþegnir stimpilgjaldi. Hér er hins vegar lagt til að tekið verði eitt tiltölulega lágt gjald af öllum vátryggingum en ekki er gert ráð fyrir undanþágum frá gjaldtöku í IV. kafla frumvarpsins.

Um 37. gr.

    Í þessari grein er fjallað um stimpilgjald af kaupmálum en sambærilegt ákvæði er nú í 31. gr. núgildandi laga.
    Í 1. mgr. er lagt til að stimpilgjald vegna kaupmála sem gerðir eru fyrir hjúskap hækki úr 50 kr. í 2.400 kr.
    Í 2. mgr. er fjallað um stimpilgjald af kaupmálum sem gerðir eru eftir hjúskaparstofnun og er ákvæðið samhjóða núgildandi 1. málsl. 2. mgr. 31. gr., að öðru leyti en því að lagt er til að gjaldið lækki um 0,2%. Gjaldið er 0,4% af þeirri fjárhæð sem verður séreign sam kvæmt kaupmálanum. Gjaldstofninn miðast við þær eignir sem kaupmálinn tekur til en ef áður hefur verið gerður kaupmáli um viðkomandi eignir yrði einnig að taka tillit til hans. Þetta þýðir að þegar gerður er nýr kaupmáli vegna verðmæta sem koma í stað séreignar yrði að taka tillit til eldri kaupmála og eingöngu innheimta stimpilgjald að því marki sem hin nýja eign er verðmætari en séreignin.
    Í 3. mgr. felst það nýmæli að tekin eru af öll tvímæli um það að kaupmálar sem gerðir eru vegna gjafa milli hjóna skulu stimplast samkvæmt þessari grein.
    Í 4. mgr. er fjallað um ákvörðun gjaldstofnsins og er ákvæðið efnislega samhljóða núgild andi 2. málsl. 2. mgr. 31. gr.

Um 38. gr.

    1. málsl. er samhljóða 18. gr. núgildandi laga en 2. málsl. er nýmæli, en sanngjarnt þykir að þegar gert er fjárnám á grundvelli dóms sem staðfestir löggeymslu eða kyrrsetningargerð sem áður hefur verið stimpluð þá sé fjárnámið stimpilfrjálst.

Um 39. gr.

    Hér er kveðið á um stimpilfrelsi einstakra skjala. Ákvæði um stimpilfrelsi skjala sem gefin eru út af ríkissjóði er nú byggt á 35. gr. laganna um stimpilgjald. Um stimpilfrelsi lána frá Lánasjóði íslenskra námsmanna er nú fjallað í lögum nr. 21/1992.
    Í 4. tölul. er kveðið á um stimpilfrelsi námslána. Efnislega samhljóða ákvæði er nú í 17. gr. laga nr. 21/1992, um Lánasjóð íslenskra námsmanna.
    Í 5. tölul. er tekið fram berum orðum að húsaleigusamningar séu stimpilfrjálsir en sam kvæmt gildandi lögum verður það einungis ráðið af greinargerð með eldri lögum um stimpil gjald og lögum um húsaleigu að svo sé.
    Í 6. tölul. er kveðið á um að skjöl sem leggja höft eða bönd á skip eða loftfar við skráningu hérlendis séu stimpilfrjáls. Á undanförnum árum hefur sambærileg heimild oft verið í fjárlögum og þá tekið til tiltekinna fyrirtækja en heppilegra þykir að hafa almennt ákvæði um þetta í lögum um stimpilgjald.
    Í 7. tölul. er fjallað um stimpilfrelsi líftryggingasamninga og er þar bæði átt við líftrygg ingar með dánaráhættu og sparilíftryggingar.
    Í 8. tölul. er fjallað um stimpilfrelsi afleiðusamninga en ákvæðið er sett til að taka af allan vafa um að slíkir samningar eru stimpilfrjálsir en vafasamt er hvort þeir væru ella taldir falla undir III. kafla.
    Í 9. tölul. er fjallað um stimpilsfrelsi tiltekinna bréfa sem erlendir aðilar gefa út. Slík skjöl eru ekki stimpilskyld samkvæmt núgildandi reglum en yrðu það skv. 4. gr. yrði undanþágan ekki gerð.
    Í 10. tölul. er fjallað um skip sem skráð eru í íslenska alþjóðlega skipaskrá. Verði slík skrá tekin upp verða afsöl vegna slíkra skipa stimpilfrjáls. Sama gildir um lánsskjöl og tryggingabréf sem þinglýst er á slík skip og tengjast fjármögnun þeirra.
    Í 11. tölul. er fjallað um stimpilfrelsi skjala sem leggja höft eða bönd á loftför en þar mundi einkum vera um að ræða skuldabréf og tryggingarbréf. Ákvæðið er sambærilegt við ákvæði 10. tölul. sem fjallar um skip og tekur eingöngu til þeirra sem stunda flugrekstur í atvinnuskyni í reglubundnu áætlunarflugi innan lands eða milli landa eða leiguflugi milli landa. Í fjárlögum á undanförnum árum hafa verið nokkrar slíkar heimildir og er þessu ákvæði ætlað að ná til sömu aðila. Jafnframt er sett það skilyrði að skjöl þau sem hér um ræðir tengist fjármögnun vélakaupanna og þeim sé þinglýst innan sex mánuða frá skráningu loftfarsins. Þessu ákvæði, og sambærilegu ákvæði í 10. tölul., er ætlað að koma í veg fyrir að þeir aðilar sem hér um ræðir geti þinglýst skjölum vegna almennra viðskiptaskulda sem ekki tengjast slíkum fjárfestingum á loftfar eða skip í því skyni að komast hjá því að greiða stimpilgjald af slíkum skjölum.

Um 40. gr.

    Hér er kveðið á um stimpilfrelsi skuldbindinga sem hvíla á aðilum sem fást við lána starfsemi. Sambærileg ákvæði eru nú í 50. gr. laga nr. 43/1993, um viðskiptabanka og spari sjóði, og 6. gr. laga nr. 65/1982, um skattskyldu lánastofnana, með síðari breytingum. Hefur sú leið verið valin hér að taka mið af 6. gr. laga nr. 65/1982 við samningu þessa ákvæðis. Í þessu felst þó engin efnisbreyting önnur en sú sem leiðir af 35. gr. frumvarpsins þar sem lagt er til að skjöl sem veita handveðsrétt verði stimpilskyld, en þessi skjöl eru meðal þeirra skjala sem talin eru upp í áðurnefndri 50. gr. laga nr. 113/1996. Undanþága samkvæmt þessari grein nær ekki til hlutabréfa sem framangreindir aðilar gefa út.
    Í mörgum tilvikum uppfylla þeir sjóðir sem ákvæðið tekur til fleiri en eitt af þeim skilyrðum sem talin eru upp í greininni, t.d. Lánasjóður sveitarfélaga. Sem dæmi um sjóð sem starfar á grundvelli sérlaga, auk Lánasjóðs sveitafélaga er Nýsköpunarsjóður atvinnu lífsins. Hins vegar má nefna að eignarleigufyrirtæki eru dæmi um fyrirtæki sem falla ekki undir lög nr. 65/1982 en hafa starfsleyfi samkvæmt lögum nr. 123/1993.

Um 41. gr.

    Um stimpilskyldu skjala, er varða félagslegar íbúðir, er nú fjallað í 78. gr. laga nr. 97/1993, um Húsnæðisstofnun ríkisins. Lagt er til að þær undanþágur frá stimpilskyldu sem er að finna í þeim lögum verði þrengdar þannig að afsöl vegna félagslegra íbúða verði stimpilskyld á sama hátt og afsöl vegna annarra íbúða, sbr. 16. gr. núgildandi laga og 20. gr. frumvarpsins. Afsöl vegna félagslegra íbúða eru nú stimpilfrjáls skv. 1. mgr. 78. gr. laganna. Þá er lagt til að ákvæði um stimpilfrelsi lánssamninga sem Húsnæðisstofnun gerir við framkvæmdaaðila vegna byggingar eða kaupa á félagslegum íbúðum, svo og skuldabréfa sem þeir síðarnefndu gefa út til stofnunarinnar í verklok, verði fellt niður, enda þykja þau ákvæði ekki lengur eiga við. Ákvæði 2. mgr. er hins vegar samhljóða 3. mgr. 78. gr. laga nr. 97/1993.

Um 42. gr.

    Í grein þessari er fjallað um þegar skjal er stimpilfrjálst vegna sambands þess við annað skjal. Þá skal í stimpilfrjálsa skjalinu vísa til þess stimplaða og geta jafnframt um fjárhæð stimpilgjaldsins. Greinin er efnislega samhljóða 32. gr. gildandi laga.

Um 43. gr.

    Hér er fjallað um samband aðalskjals og samrita og staðfestra eftirrita aðalskjals. Greinin er samhljóða 33. gr. gildandi laga, þó með því nýmæli að óþarft er að geta um stimplunina á samriti eða staðfestu eftirriti ef þinglýsingadagbók geymir upplýsingar um greiðslu gjald anna, eins og nú er algengast.

Um 44. gr.

    Greinin fjallar um skyldu opinberra starfsmanna að hafa eftirlit með því að stimpilskyld skjöl séu stimpluð þegar komið er með þau til þinglýsingar og hvernig við skuli brugðist ef misbrestur er á. 1. mgr. er samhljóða 2. mgr. 34. gr. gildandi laga, en 2. mgr. er nýmæli, þar sem mælt er fyrir um haldsrétt þess sem stimplun annast í stimpilskyldu skjali, til tryggingar því að gjaldið sé greitt. Sambærilega reglu er t.d. að finna í dönsku lögunum.

Um 45. gr.

    Greininni er ætlað að koma í veg fyrir tvísköttun í þeim tilvikum þegar greiða þarf stimpilgjald í fleiri en einu landi af sama skjalinu. Sambærilegt ákvæði er í 3. mgr. 117. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt.

Um 46. gr.

    Hér er kveðið á um hverju það varði ef stimpilgjald er ekki greitt á réttum tíma. Í 1. mgr. er að finna nýmæli þar sem mælt er fyrir um að beita skuli dráttarvöxtum í samræmi við III. kafla vaxtalaga af hinni vangoldnu fjárhæð, talið frá og með útgáfudegi skjalsins, í stað þess að beita stimpilgjaldsálagi eins og núgildandi lög gera ráð fyrir. Er þetta í samræmi við þá almennu reglu að beita dráttarvöxtum þegar vanskil verða á fjárskuldbindingum.
    Í 2. mgr. er ákvæði sem heimilar fjármálaráðherra að lækka eða fella niður dráttarvexti ef sérstakar málsbætur eru. Er ákvæðið í samræmi við 2. mgr. 36. gr. gildandi laga.

Um 47. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um eftirlit og er lagt til að ríkisskattstjóri hafi það með höndum en hann geti falið skattstjórum að annast einstaka þætti eftirlitsins. Samkvæmt núgildandi lögum fer fjármálaráðuneytið með eftirlitið en bankar og sparisjóðir og aðrir þeir sem innheimta stimpilgjöld, aðrir en sýslumenn, hafa skilað stimpilgjaldinu til ríkisféhirðis. Ríkisendurskoðun hefur síðan eftirlit með innheimtu sýslumanna á stimpilgjaldi. Ákvæði núverandi laga um eftirlitið eru hins vegar ekki nægjanlega skýr og er því lagt til að ríkisskattstjóri fari með eftirlitið og að heimildir hans til eftirlits verði sambærilegar og þegar um aðra skatta er að ræða.

Um 48. gr.

    Greinin fjallar um heimild til að kæra ákvörðun sýslumanns um gjaldtöku eða endur greiðslu á stimpilgjaldi til ráðherra. Ákvæðið er svipað ákvæði 13. gr. núgildandi laga en kærufrestur hefur verið lengdur í þrjá mánuði, í stað tveggja, í samræmi við 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um kærufrest.

Um 49. gr.

    Greinin fjallar um refsingar fyrir brot á lögunum. Hún samsvarar 37. gr. núgildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 50. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 51. gr.

    Lögin eiga að koma til framkvæmda 1. janúar 1999. Jafnframt falli úr gildi lög um stimpilgjald, nr. 36/1978, nokkur sérlagaákvæði sem tekin hafa verið upp í IV. kafla frum varpsins, svo og nokkrar undanþágur sem tilteknir aðilar hafa frá greiðslu stimpilgjalda. Skjöl sem verða afhent til stimplunar eftir 1. janúar 1999 skulu stimpluð eftir nýju lögunum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um stimpilgjald.

    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á álagningu og innheimtu stimpilgjalds hér á landi, sem miða að því að aðlaga hana að breyttum aðstæðum á fjármagnsmarkaði og sam ræma gjaldtöku á einstakar tegundir verðbréfa. Þessar breytingar snúa því að tekjuöflun ríkissjóðs. Miðað við gildandi lög verður nokkur áherslubreyting varðandi ákvæði um eftirlit með gjaldtökunni en ekki er talið að það leiði til umtalsverðra útgjalda fyrir ríkissjóð og fyrirhugar fjármálaráðuneytið að komið verði á breyttu fyrirkomulagi að þessu leyti innan útgjaldaramma gildandi fjárlaga.