Ferill 490. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 834 – 490. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um umhverfisstefnu í ráðuneytum og ríkisstofnunum.

Flm.: Kristín Halldórsdóttir, Steingrímur J. Sigfússon,


Össur Skarphéðinsson, Guðný Guðbjörnsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að sjá til þess að öll ráðuneyti og stofnanir ríkisins marki sér stefnu í umhverfismálum. Hverju ráðuneyti og hverri ríkisstofnun verði skylt að setja fram áætlun þar sem kveðið verði á um aðgerðir til að ná settu marki. Ábyrgð armenn á hverjum stað geri umhverfisráðherra árlega grein fyrir stöðu mála. Innan árs frá samþykkt þessarar tillögu skal umhverfisráðherra leggja fram skýrslu á Alþingi um stöðu og þróun umhverfismála í ráðuneytum og stofnunum ríkisins.

Greinargerð.


    Skilningur og áhugi á umhverfisvernd hefur aukist mikið undanfarin ár hér á landi sem annars staðar í heiminum. Ljóst er hins vegar að marga skortir vitneskju og leiðbeiningar um hvernig þeir geti lagt sitt af mörkum til umhverfisverndar, hvort heldur er á heimili eða vinnustað. Það vantar fræðslu, upplýsingar og beinar tillögur eða fyrirmæli sem auðvelt er að tileinka sér og nýta í daglegu lífi. Umhverfisfræðsla er enn í molum þrátt fyrir samþykkt Alþingis í árslok 1988 þess efnis að ríkisstjórninni væri falið „að auka og samræma fræðslu um umhverfismál í skólum, m.a. í tengslum við endurskoðun á aðalnámskrá grunnskóla og þróun námsefnis fyrir framhaldsskóla, svo og fyrir almenning í samvinnu við opinbera aðila, fjölmiðla og félagasamtök.“ Fullyrða má að fræðsla um umhverfismál sé enn ómarkviss og máttlítil og brýnt að ráða bót þar á. Þess ber þó að geta að frjáls félagasamtök af ýmsu tagi hafa sýnt þessu málefni áhuga, haft frumkvæði að ýmiss konar umhverfisverkefnum og a.m.k. sum fengið styrki úr ríkissjóði til útgáfu fræðsluefnis sem ætla má að komið hafi ein staklingum, heimilum og vinnustöðum að notum. Má þar nefna Landvernd, Kvenfélagasam band Íslands, Neytendasamtökin, Norræna félagið, Ungmennafélag Íslands, Bandalag skáta o.fl.
    Einstök fyrirtæki hafa áttað sig á mikilvægi þess að marka sér stefnu í umhverfismálum og leggja sitt af mörkum til betra umhverfis. Það bætir ímynd þeirra út á við og skilar sér oft í beinum sparnaði og aukinni velvild í garð fyrirtækisins. Þessi hugsun virðist lítt eða ekki hafa skilað sér til ráðuneyta og ríkisstofnana, enda hagur þeirra af bættri ímynd e.t.v. ekki jafnaugljós. Markviss umhverfisstefna getur hins vegar skilað sparnaði í rekstri og betri líðan starfsmanna, auk þess sem ráðuneytum og ríkisstofnunum ber siðferðileg skylda til að sýna gott fordæmi í þessum efnum sem öðrum. Hér verða nefnd aðeins nokkur dæmi um atriði sem hafa ber í huga við mótun og framkvæmd umhverfisstefnu á vinnustöðum ríkisins.
    Pappírsnotkun er eitt það fyrsta sem hver vinnustaður hlýtur að huga að. Ýmsir töldu að símbréf og tölvutækni mundu draga úr pappírsnotkun en sú hefur alls ekki orðið raunin. Hóf leg pappírsnotkun dregur ekki aðeins úr rekstrarkostnaði heldur er einnig umhverfisvæn að gerð. Þess vegna þarf að huga að því hvers konar pappír er notaður og hvernig hann er not aður, hvort útprentun og ljósritun sé stillt í hóf, hvort dýrmætur pappír sé notaður undir minnispunkta eða hvort nýta má til þess afgangspappír, hvort pappírnum sé safnað til endur vinnslu o.s.frv. Einnig þarf að tryggja að t.d. dagblaðapappír sé safnað saman til endur vinnslu.
    Einnota vörur tíðkast enn á fjölmörgum vinnustöðum og hugsunin er sennilega fyrst og fremst sú að spara vinnu við þvott. Menn drekka úr einnota málum, borða af pappadiskum með plasthnífapörum, þurrka sér og af borðum með eldhúspappír, öllu er síðan fleygt og sorpið urðað eða brennt með ærnum tilkostnaði. Notkun margnota vara í stað einnota hæfir visthæfum vinnustað. Að sjálfsögðu er þar margnota umbúðum, flöskum, dósum og fernum skilað til endurvinnslu.
    Spilliefni eru notuð í einhverjum mæli á flestum vinnustöðum. Allir verða að vita hvernig þau ber að meðhöndla og hvert eigi að skila þeim að notkun lokinni. Sama er að segja um hreinsiefni, en oft eru notuð miklu sterkari efni en raunveruleg þörf er á. Því þarf að huga vel að notkun hreinsiefna, velja efni með viðurkenndri umhverfismerkingu og stilla notkun þeirra í hóf.
    Bílanotkun er stór liður í rekstri flestra vinnustaða og nú er flestum orðinn ljós drjúgur hlutur bílaumferðar í mengun andrúmsloftsins. Það er því margföld ástæða til að draga úr bílanotkun eftir því sem mögulegt er. Athuga þarf hvort sendiferðir eru tíðari en nauðsyn ber til, hvort bílar stofnunarinnar eru óþarflega eyðslufrekir, hvort unnt sé að nota rafknúna bíla o.s.frv.
    Þetta eru aðeins nokkur augljós dæmi um þætti sem til greina koma við mótun umhverfis stefnu, en hluti af slíkri stefnu er einnig fólginn í notalegu og heilsusamlegu vinnuumhverfi starfsmanna, s.s. reglum um reyklaust umhverfi o.fl. Ekki má heldur gleyma umhverfi vinnu staðarins, lóð og bílastæði.
    Mikilvægt er að ábyrgðarmaður umhverfisstefnu á hverjum stað sé raunverulegur ráða maður á staðnum og að hann fylgist vel með að stefnunni sé framfylgt. Allir starfsmenn, hærra sem lægra settir, þurfa að vita nákvæmlega um hvað málið snýst. Eðlilegast væri því að fela sérstökum verkefnisstjóra að fara á vettvang, kynna sér ástand mála á hverjum stað, setja fram tillögur í samstarfi við stjórnendur og kynna málið ítarlega fyrir öllum starfs mönnum.
    Með tillögu þessari er kveðið á um skyldu umhverfisráðuneytisins til að hafa forgöngu um mótun umhverfisstefnu í ráðuneytum og ríkisstofnunum. Með flutningi hennar er ekki dregið í efa að umhverfisráðuneytinu sé ábyrgðin ljós þar sem í verkefnaskrá ráðuneytisins fyrir þetta kjörtímabil stendur m.a.: „Í samvinnu við önnur ráðuneyti verður kannað hvernig ráðuneyti og stofnanir ríkisins geta gengið á undan með góðu fordæmi í umhverfismálum með því að auka nýtni og taka tillit til sjónarmiða umhverfisverndar í daglegum rekstri sínum. Mótuð verður umhverfisstefna í ríkisrekstri.“
    Þess ber að geta að nokkuð hefur þegar verið unnið í samræmi við þessa yfirlýsingu. Um hverfisráðherra lét útbúa bækling með leiðbeiningum og fól einum starfsmanna ráðuneytisins að hafa umsjón með framkvæmd umhverfisstefnu í ríkisrekstri. Tillögurnar voru samþykktar í ríkisstjórn í febrúar 1997 og stefnan síðan kynnt á fundi með fjölmiðlum um mitt síðasta ár. Árangur þessa er þó ekki meiri en svo að fæstir þeirra mörgu ríkisstarfsmanna sem fyrsti flutningsmaður spurði um þessi mál könnuðust við slíka stefnu á sínum vinnustað eða aðgerðir til að framfylgja henni. Augljóst er því að taka þarf þessi mál miklu fastari tökum. Krefja þarf ráðuneyti og ríkisstofnanir um sundurliðaða áætlun um aðgerðir til að ná mark miðum umhverfisstefnu og reglubundna skilagrein til umhverfisráðherra sem hann geri síðan grein fyrir í skýrslu til Alþingis. Það er efni þessarar tillögu.