Ferill 344. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 858 – 344. mál.



Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Einars K. Guðfinnssonar um hlutafjáreign dótturfyrirtækja ríkisbankanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Í hvaða fyrirtækjum hafa dótturfyrirtæki ríkisbankanna keypt eignarhlut á síðustu fimm árum? Hvert var kaupverðið í hverju einstöku tilviki?
     2.      Hversu mikinn arð hafa dótturfyrirtæki bankanna fengið af þessum eignarhlutum? Í sundurliðun komi fram arðgreiðslur af einstökum eignarhlutum.
     3.      Í hvaða fyrirtækjum eiga dótturfyrirtæki bankanna nú eignarhlut? Hvert er nafnverð þeirra og bókfært verðmæti? Hversu stór hlutur er það af heildarhlutafé viðkomandi fyrirtækis þar sem um er að ræða hlutafélag?
     4.      Hver var ávöxtun hlutafjár eða annarra eignarhluta í eigu dótturfyrirtækja ríkisbankanna á síðasta ári? Í sundurliðun komi fram ávöxtun einstakra eignarhluta.
     5.      Hafa ríkisbankarnir og dótturfyrirtæki þeirra selt eignarhluti í fyrirtækjum á síðustu fimm árum? Ef svo er, hvenær fóru þær sölur fram, hvert var söluandvirðið og á hvaða gengi voru hlutabréfin eða aðrir eignarhlutir seldir?


    Óskað er upplýsinga um hlutafjáreign dótturfyrirtækja ríkisviðskiptabankanna, en í svari við fyrirspurn frá síðasta þingi (þskj. 773) var greint frá hlutafjáreign bankanna sjálfra. Í greinargerð með fyrirspurninni kemur fram að svara sé óskað til að fá fyllri vitneskju um raunveruleg eignatengsl ríkisviðskiptabankanna við hlutafélög.
    Mat ráðherra, að höfðu samráði við Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands, er að ekki sé unnt að veita umbeðnar upplýsingar. Rök fyrir þessari niðurstöðu eru eftirfarandi:
    Dótturfyrirtækjum bankanna má skipta í tvennt; annars vegar verðbréfa- og hlutabréfa sjóði (í tilviki Landsbankans er það reyndar dótturfélag Landsbréfa sem rekur sjóðina) og hins vegar eignarhalds- og eignaumsýslufélög. Í öllum tilvikum er um hlutafélög eða einka hlutafélög að ræða.
    Hafa ber í huga að hér er óskað upplýsinga um hlutafjáreign hlutafélaga sem eru dóttur fyrirtæki ríkisviðskiptabankanna, en ekki hlutafjáreign bankanna sjálfra. Minnt er á að í skýrslu forsætisráðherra um aðgang að upplýsingum um hlutafélög í eigu ríkisins sem lögð var fyrir Alþingi á þessu þingi (þskj. 25) kemur fram að réttur þingmanna með leyfi Alþingis til að krefja ráðherra upplýsinga skv. 54. gr. stjórnarskrárinnar og 49. gr. þingskapalaga nær aðeins til þeirra málefna sem talist geta opinber. Ráðherra sem fari með eignarhlut í hlutafé lagi beri að halda trúnað um upplýsingar sem honum eru veittar og skaðað geti hagsmuni fé lagsins. Þessi sjónarmið eiga hér við þótt ríkisviðskiptabankarnir fari með eignarhlut í um ræddum hlutafélögum.
    Landsbankinn á verðbréfafyrirtækið Landsbréf hf. Á vegum þess starfar dótturfyrirtækið Landsvaki ehf. sem rekur Landssjóð hf., Íslenska hlutabréfasjóðinn hf. og Íslenska fjársjóð inn hf. Þeir tveir síðastnefndu eru skráðir á Verðbréfaþingi Íslands. Búnaðarbankinn á Verð bréfasjóð Búnaðarbankans hf. og Hlutabréfasjóð Búnaðarbankans hf. Hinn síðarnefndi er skráður á Verðbréfaþingi Íslands. Meginhlutverk þessara félaga er að kaupa og selja verð bréf til ávöxtunar fyrir hluthafa og eigendur hlutdeildarskírteina. Öll þessi félög starfa á samkeppnismarkaði. Einnig gilda reglur um trúnaðarskyldur fyrirtækjanna, starfsmanna þeirra og stjórnenda gagnvart viðskiptamönnum, sbr. til hliðsjónar lög nr. 13/1996, um verð bréfaviðskipti, og lög nr. 10/1993, um verðbréfasjóði. Með hliðsjón af þessu telur ráðherra ekki eðlilegt að veita upplýsingar um kaup og sölu einstakra verðbréfa- og hlutabréfasjóða á hlutabréfum á síðustu fimm árum, arðgreiðslum í félögunum, ávöxtun hlutafjár eða nokkur þau önnur atriði sem beðið er um í fyrirspurninni, umfram þær upplýsingar sem fyrirtæki skráð á Verðbréfaþingi Íslands þurfa að veita og aðgengilegar eru á þeim vettvangi.
    Á vegum Landsbankans starfa þrjú eignarhalds- og eignaumsýslufélög, þ.e. Hömlur hf., Reginn hf. og Rekstrarfélagið hf. Hömlur hf. eiga og fara með eignarhluta í öðrum félögum til að tryggja fullnustu krafna Landsbankans eða dótturfyrirtækja hans og annast að öðru leyti eignaumsýslu og kaup og sölu eigna. Í samræmi við þetta gæta Hömlur hf. hagsmuna bankans við uppgjör erfiðra útlánamála með yfirtöku, rekstri og sölu eigna. Rekstrarfélagið hf. sér um og selur fasteignir sem bankinn hefur yfirtekið eða eignast á uppboðum eða við samninga um fullnustu krafna bankans. Reginn hf. sér um og selur hlutabréf og eignarhluta í félögum sem bankinn hefur yfirtekið til að tryggja fullnustu krafna bankans. Á vegum Bún-aðarbankans starfa tvö eignarhalds- og eignaumsýslufélög, þ.e. Grænibær hf. og Urður ehf. Grænibær hefur keypt af bankanum fullnustueignir sem erfiðlega hefur gengið að selja og séð um rekstur þeirra þar til þær hafa selst. Urður ehf. á og rekur íbúðarhúsnæði sem útibús stjórar bankans búa í.
    Samkvæmt 43. gr. laga nr. 113/1996, um viðskiptabanka og sparisjóði, eru bankinn og starfsmenn hans bundnir þagnarskyldu um allt það er varðar hagi viðskiptamanna sinna og önnur atriði sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu og leynt skulu fara samkvæmt lögum eða eðli máls nema að undangegnum úrskurði dómara. Jafnframt eru í lögum nr. 121/1989, um skráningu og meðferð persónuupplýsinga, lagðar hömlur við skráningu og meðferð upplýs inga um fjárhagsmálefni og lánstraust einstaklinga og lögaðila. Rétt er einnig að vekja athygli á þeirri reglu 5. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá sem í hlut á samþykki. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila. Þá er skv. 6. gr. sömu laga heimilt að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjast og um er að ræða upplýsingar um viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra.
    Líta verður svo á að reglur um þagnarskyldu bankanna um hagi viðskiptamanna hans og viðskipti við þá standi í vegi fyrir því að bankinn geti veitt upplýsingar um hvaða hlutabréf og eignarhluta þeir hafa yfirtekið og um yfirtökuverð þeirra. Á sama hátt er ekki eðlilegt að bankarnir veiti upplýsingar um bókfært verðmæti einstakra hlutabréfa eða eignarhluta í öðr um félögum, sem í mörgum tilvikum eru einnig viðskiptamenn bankans. Í samræmi við reglu 45. gr. laga um viðskiptabanka og sparisjóði hafa bankarnir leitast við að selja þessar eignir jafnskjótt og það hefur verið talið hagkvæmt. Í þeim fáu tilvikum sem um hefur verið að ræða hlutabréf sem hafa verið skráð á verðbréfamarkaði hefur söluverðið tekið mið af því, en í öðrum tilvikum hefur söluverðið tekið mið af því hvað bankastjórn hefur talið eðlilegt og ásættanlegt verð hverju sinni miðað við mat á eigninni og markaðsaðstæður. Bankarnir hafa gengið til slíkra samninga um sölu með það að leiðarljósi að virða trúnað við þá sem stofnað hafa til viðskipta við bankana og miklu skiptir að viðskiptamenn þeirra geti treyst því að svo verði áfram. Með hliðsjón af þessu og framangreindum lagaákvæðum sem gilda um starf-semi bankanna verður að telja að ekki sé heimilt að veita upplýsingar um söluverð þeirra hlutabréfa og eignarhluta í félögum sem dótturfyrirtæki bankanna selja sem vörslu- og um sýsluaðilar þessara eigna.