Ferill 535. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 919 – 535. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um PCB og önnur þrávirk lífræn efni.

Flm.: Kristján Pálsson, Össur Skarphéðinsson, Árni M. Mathiesen.



    Alþingi ályktar að fela umhverfisráðherra að gera úttekt á hvar PCB og önnur þrávirk líf ræn efni er að finna hér á landi og í hve miklu magni. Jafnframt geri ráðherra tillögu um eyð ingu þeirra efna sem geta reynst skaðleg lífríkinu.

Greinargerð.


    Þrávirk lífræn efni, svonefnd klórkolefnissambönd, eru einhver eitruðustu efni sem þekkj ast í náttúrunni en eitt þekktasta efnið innan klórkolefnissambandanna er PCB. Þetta efni, PCB, hefur verið notað til ýmissa hluta en hér á landi helst á rafeinangrara, þétta og spennu breyta allt til þess að notkun PCB var bönnuð hér árið 1988.
    Ástæðan fyrir því að PCB var bannað er uppsöfnunaráhrif þess í lífríkinu og langur við verutími sem getur haft áhrif á ónæmiskerfi líkamans, valdið ófrjósemi og aukið líkur á krabbameini.
    Þó nokkurt magn var flutt inn af þessum efnum á árunum fyrir 1988 en ekki er vitað með vissu hve mikið. Ekki er heldur vitað hvar þessum efnum var fargað né í hve miklu magni, enda ekkert opinbert eftirlit með því hvernig einstaklingar og fyrirtæki, önnur en opinberir aðilar, eyddu því sem var í notkun þegar bannið tók gildi. Helst er talið að þessu hafi verið fargað á sorphaugum nálægt þéttbýlisstöðum.

Rannsóknir á lífrænum þrávirkum efnum í náttúrunni.
    
Ýmsar mælingar á magni þrávirkra lífrænna efna í dýrum hafa farið fram á síðustu árum af hálfu m.a. Rannsóknastofu í lyfjafræði á Álftanesi. Þær mælingar sýna að magn þessara efna í æðarfugli á Álftanesi er heldur meira en mælist í æðarfugli á Svalbarða og tífalt meira en mælist í æðarfugli í Kanada.
    Þegar rjúpnastofninn er hins vegar skoðaður er PCB-magn minnst hér á Íslandi miðað við rjúpnastofninn á Svalbarða og í Kanada. Munurinn á fæðuvali þessara fuglategunda liggur í því að æðarfuglinn lifir að mestu á skeldýrum úr fjöruborðinu en rjúpan lifir einkum á fræjum og lyngi. Þetta bendir ótvírætt til þess að skeldýr við strendur landsins séu menguð af þrávirkum lífrænum efnum þótt ekki sé um hættulega mengun að ræða enn sem komið er.
    Á Norðfirði og Fáskrúðsfirði var gerð rannsókn á magni PCB í kræklingi árið 1988 og mældist töluverð mengun af völdum PCB á stöðum þar sem upplýst hafði verið að efninu hefði verið fargað. Þessi mengun mældist allt að þrettán sinnum meiri en í viðmiðunarsýnum, teknum á svipuðum slóðum en fjarri förgunarstöðum.
    Í skýrslu um rannsóknina kemur fram að á sorphaugum Fáskrúðsfjarðar mun, líklega árið 1982, hafa verið fargað fjórum þéttum sem innihéldu um 10 lítra af PCB-olíu hver. Þéttarnir fundust ekki og er talið að þeir hafi verið urðaðir með öðru rusli. Á Norðfirði var talið að hellt hefði verið niður talsverðu magni af PCB-olíu í holræsi staðarins og þar að auki hefðu allt að 20 spennar verið urðaðir með öðru rusli.
    Niðurstöður mælinganna sýndu að í nánd við staði þar sem PCB-þéttar eru urðaðir var mengun allt að þrettán sinnum meiri en þar sem ekki eru bein áhrif frá PCB-förgun. Einnig vakti athygli að hæstu mæligildin voru þar sem mengandi efni komu frá sorphaugum en ekki þar sem PCB hafði verið hellt í holræsin.

Fyrirbyggjandi ráðstafanir.
    Í bréfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins frá 17. október 1988 til Hollustu verndar ríkisins, sem Guðmundur Bjarnason þáverandi heiðbrigðisráðherra undirritar, fer ráðuneytið fram á að fá „nákvæmar upplýsingar um það frá Hollustuvernd ríkisins hvar PCB-mengun sé að finna við strendur landsins, t.d. á sorphaugum og í hve miklu magni“.
    Ekkert varð úr þessari upplýsingaöflun vegna fjárskorts og engin hreinsun fór heldur fram á Norðfirði og Fáskrúðsfirði af sömu ástæðu þrátt fyrir að mælingar sýndu ótvírætt að um verulega mengun væri þar að ræða.
    Eins og kom fram í fjölstofnarannsóknum Hafrannsóknastofnunar árið 1996 mælist mikil mengun í sjófuglum við Íslandsstrendur en þó mjög misjafnlega mikil eftir stöðum. Kvika silfursmengunin var t.d. mun meiri í lunda við Vestmannaeyjar en í Skotlandi, mismunur sem ekki hefur fengist skýring á né hvers vegna öll þessi mengun mælist í fuglum hér við land.
    Mengun af þrávirkum efnum hefur eins og fyrr er getið mælst veruleg á nokkrum stöðum við strendur landsins og er það sterk vísbending um að slíka mengun sé að finna víðar um landið. Eðlilegt verður að teljast að þar sé tekinn af allur vafi, enda er ímynd landsins sem hreins og óspillts mjög mikilvæg og forsenda fyrir markaðsstöðu íslenskra sjávarafurða.
    Kanadamenn hafa gert úttekt hjá sér í þessu efni og fylgjast með stöðum þar sem PCB-efni er að finna á sorphaugum og víðar. Slíkir staðir eru vaktaðir í Kanada. Of seint getur verið að grípa til aðgerða þegar PCB og önnur slík efni fara að mælast í hættulegu magni í lífríkinu. Mengun úr jarðvegi getur verið mjög lengi að koma fram, jafnvel mörg ár eins og kemur fram í skýrslu Hollustverndar um mengunina á Reyðarfirði. Þar kemur einnig fram að mengun af völdum PCB í jarðvegi er mun verri en ef PCB væri hellt beint í sjóinn þótt ekki sé verið að mæla með því.
    Mikilvægt er í þessu sambandi að muna hið fornkveðna að það er of seint að birgja brunn inn þegar barnið er dottið ofan í.
    Hlutverk hins opinbera er að tryggja eftirlit og fyrirbyggjandi ráðstafanir á þessu sviði.