Ferill 549. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 934 – 549. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um að rita sögu landnáms og búsetu Íslendinga á Grænlandi og landafunda í Vesturheimi.

Flm.: Steingrímur J. Sigfússon, Árni Johnsen, Birna Sigurjónsdóttir,


Ísólfur Gylfi Pálmason, Kristín Ástgeirsdóttir, Össur Skarphéðinsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd sem ráði sérfræðinga til að annast ritun sögu landnáms Íslendinga á Grænlandi, búsetu þeirra þar og hinna merku landafunda í Vesturheimi. Stefnt skal að því að sagan komi út um aldamótin og tengist hátíðahöldum í tilefni þeirra og afmælis landafunda Íslendinga í Ameríku.
    Nefndin hafi heimild til að ráða sér starfsmenn til gagnasöfnunar og söguritunarinnar. Nefndin hafi allt að 15 milljónir króna til ráðstöfunar í þessu skyni á árinu 1998 og síðan fjárveitingar samkvæmt fjárlögum eftir því sem þarf til að ljúka verkefninu.

Greinargerð.


    Ekki hefur verið gerð nein alvarleg tilraun til þess að skrifa með heildstæðum hætti og að gengilegum fyrir almenning sögu hins merka landnáms Íslendinga á Grænlandi á söguöld og búsetu þeirra þar. Margvíslegar heimildir er þó að finna bæði skriflegar og í fornminjum um þetta landnám og aldalanga búsetu Íslendinga eða norrænna manna á Grænlandi. Hvað ritað ar heimildir snertir er mikill fengur að samantekt dr. Ólafs Halldórssonar sem birtist í bók inni „Grænland í miðaldaritum“. Einnig má nefna rit Björns Þorsteinssonar sagnfræðings, svo og nýlegt rit Helga Guðmundssonar prófessors. Nokkuð hefur verið unnið að rannsókn um og um þessi mál ritað af hálfu Grænlendinga og Dana en á skortir að við Íslendingar höf um sýnt þessum merka hluta af sögu okkar nægilega ræktarsemi. Þessum kafla í Íslandssög unni er ekki nægur gaumur gefinn í kennslubókum. Nokkur vakning varð þó í þessu sambandi þegar haldið var hátíðlegt að 1000 ár væru liðin frá komu Eiríks rauða til Grænlands á sínum tíma.
     Nú er á nýjan leik tilefni til að varpa ljósi á þessa sögu og reyna að efla tilfinningu fyrir henni í vitund þjóðarinnar.
    Með því að nýta þær heimildir sem til eru, fyrst og síðast Íslendingasögurnar en einnig upplýsingar sem fyrir liggja eða fá má með fornleifarannsóknum, úr bréfa- og skjalasöfnum o.fl., má bregða skýrara ljósi á þetta tímabil, landnámið sjálft og líf og störf Íslendinganna á Grænlandi. Margt bendir til að samskiptin við byggðirnar á Grænlandi og verslun með varning sem þaðan barst hafi haft meiri áhrif á Íslandi og íslenskt efnahagslíf á þjóðveldisöld en hingað til hefur verið talið. Athyglin hefur reyndar í mjög miklum mæli beinst að endalok um búsetu norrænna manna á Grænlandi og þeirri dulúð sem það mál umlykur. Í minna mæli hefur viðfangsefnið verið sjálf búsetan og þær aldir sem liðu frá því að Eiríkur rauði og hans fólk tók sér bólfestu á Grænlandi og allt fram yfir aldamótin 1400 þegar búseta stóð enn sannanlega með nokkrum blóma á Grænlandi. Búseta norrænna manna á Grænlandi hefur að öllum líkindum staðið í hartnær hálft árþúsund og spannar þar af leiðandi mjög afdrifarík tímabil í sögu íslensku þjóðarinnar eða allt frá því fyrir kristnitöku og fram á 15. öld.
    Spyrja má hver sé tilgangurinn með söguritun af þessu tagi og hvort slíkar bækur komi ekki til með að rykfalla uppi í hillum. Því er til að svara að forsenda þess að unnt sé að upp lýsa fólk með trúverðugum hætti um efni af þessu tagi er að frumheimildir séu kannaðar og gögn dregin saman og úr þeim unnið skipulega og vísindalega. Slíka undirstöðuvinnu vantar í þessu tilviki. Á grundvelli hennar og vandaðrar söguritunar má síðan matreiða afmarkaða þætti og hagnýta á margvíslegan hátt. Má þar nefna gerð aðgengilegs kennsluefnis til nota í skólum, upplýsingamiðlun og fræðslu til almennings, gerð kvikmynda og sjónvarpsefnis, efni til nota í landkynningu og til hagnýtingar í ferðaþjónustu o.s.frv. Síðast en ekki síst skiptir hér máli að við sýnum sögunni ræktarsemi og þessum merka kafla sem einnig tengist samskiptum okkar við næstu nágranna okkar á Grænlandi.
    Ástæðulaust er að fara út í deilur um það hér hvort norrænir menn á Grænlandi voru Ís lendingar eða Grænlendingar. Arfleifðin er sameiginleg báðum þjóðunum og ljóst er að á Grænlandi er einnig mikill áhugi á því að fræðast um þennan þátt í búsetusögu landsins. Reyndar hafa Grænlendingar þegar ákveðið að sýna hinu norræna landnámi og minjum um það aukna ræktarsemi, m.a. með uppbyggingu í Brattahlíð, bæ Eiríks rauða. Þessi mál hafa einnig verið á dagskrá í vestnorrænu samstarfi og má rekja þangað ákveðið frumkvæði að því að halda hinum sameiginlega menningararfi á þessu sviði til haga og hafa hann í heiðri.
    Fundur Vínlands og siglingaafrek kappa á borð við Leif heppna Eiríksson, Þorfinn karls efni og Guðríði Þorbjarnardóttur yrðu að sjálfsögðu vænn kafli í hinni merku sögu landnáms- og siglinga í vestur frá Íslandi.
    Í haust samþykkti Alþingi að vísa til ríkisstjórnarinnar með jákvæðri umsögn tillögu Svavars Gestssonar um að minnast landafundanna sérstaklega. Hefur ríkisstjórnin einnig skipað nefnd um þessi mál. Tillagan dregur fram sérstakan þátt málsins og hana bera að skoða í samhengi og sem viðbót við það sem þegar er í undirbúningi af hálfu stjórnvalda. Vel gæti komið til greina að fela svonefndri landafundanefnd að hafa yfirumsjón með verkinu.