Ferill 570. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 975 – 570. mál.



Skýrsla



Íslandsdeildar VES-þingsins fyrir árið 1997.

1. Inngangur.
    Vestur-Evrópusambandið (VES) er varnarbandalag Vestur-Evrópuríkja og var stofnað með Brüssel-sáttmálanum árið 1948. Eftir stofnun NATO árið 1949 lá VES nánast í dvala í rúma fjóra áratugi, þar til sambandinu var falin útfærsla og framkvæmd varnarmálahluta sameiginlegrar utanríkis- og öryggismálastefnu ESB, með Maastricht-sáttmálanum árið 1991. Síðan þá hefur VES eflst verulega og gegnir nú stóru hlutverki í öryggismálum Evrópu. Sambandinu er einkum ætlað að sinna tvenns konar verkefnum, að annast samræm ingu á fyrirhuguðum varnarmálahluta ESB og jafnframt eru samtökin Evrópustoð NATO, þ.e. vettvangur evrópskra NATO-ríkja. Af þessum sökum er litið á VES sem hlekkinn á milli NATO og utanríkis- og varnarmálaarms ESB.
    VES-þingið er þingmannasamkunda sambandsins. Sem fyrr var framtíð sambandsins sjálfs ofarlega á baugi í umræðum á þinginu, en fyrir ríkjaráðstefnu ESB sem lauk í júní sl., lá tillaga um innlimun VES í Evrópusambandið. Þeirri tillögu var hafnað á ríkjaráðstefn unni,einkum vegna harðrar andstöðu breskra, írskra og danskra stjórnvalda. Stofnanatengsl samtakanna tveggja voru engu síður styrkt. Staða auka- og áheyrnaraðila VES, staða sam starfsríkja Mið- og Austur-Evrópu með tilliti til fyrirhugaðrar stækkunnar NATO, sem og mögulegt samstarf VES við Rússland, voru auk þess á meðal helstu umræðuefna í VES-þing inu árið 1997.

2. Markmið og skipulag VES-þingsins.
    VES-þingið var stofnað árið 1954 þegar verulegar breytingar voru gerðar á stofnsáttmála VES, m.a. til þess að veita Ítalíu og Þýskalandi aðild að sambandinu. Aðildarríki þingsins eru nú tíu talsins og eru þau jafnframt öll aðildarríki ESB og NATO. Aukaaðild að þinginu eiga þau evrópsku aðildarríki NATO sem ekki eiga aðild að ESB, Ísland, Noregur og Tyrk land. Áheyrnaraðild að VES-þinginu eiga þau ESB-ríki sem fylgt hafa hlutleysisstefnu í utanríkismálum, auk Danmerkur. Loks hafa tíu ríki Mið- og Austur-Evrópu gert samstarfs samninga við VES.
    Aðild að VES þinginu eiga eftirfarandi ríki:
Aðildarríki:    Belgía, Bretland, Frakkland, Grikkland, Holland, Ítalía, Lúxemborg, Portúgal, Spánn og Þýskaland.
Aukaaðild:    Ísland, Noregur og Tyrkland.
Áheyrnaraðild:    Austurríki, Danmörk, Finnland, Írland og Svíþjóð.
Samstarfsríki:    Búlgaría, Eistland, Lettland, Litáen, Pólland, Rúmenía, Tékkland, Slóvakía, Ungverjaland og Slóvenía.
    Þingið hefur aðsetur í París. Tveir þingfundir eru haldnir árlega, í júní og desember. Hlut verk þess er að fjalla um málefni er falla undir starfssvið VES, þ.e. öryggis- og varnarmál. Þingið fjallar auk þess um ársskýrslu VES og fjárhagsáætlun. Það fjallar um málefni efst á baugi í nefndum þingsins, ályktar um skýrslur nefnda, gerir tillögur til ráðherraráðsins og beinir til þess fyrirspurnum. Skjöl þingsins eru gefin út á ensku og frönsku en umræður fara fram á tungumálum aðildarríkjanna. Fastanefndir VES-þingsins eru sex: varnarmálanefnd, stjórnmálanefnd, tækni- og geimvísindanefnd, fjármála- og stjórnsýslunefnd, þingskapanefnd og nefnd um almannatengsl. Íslandsdeildin á eitt sæti í hverri nefnd. Varamenn í landsdeild um mega taka aðalsæti í nefndum. Á þinginu starfa auk fastanefnda forsætisnefnd (Pres idential Committee) og stjórnarnefnd (Standing Committee). Þessar nefndir taka ákvarðanir á milli þinga, sú fyrrnefnda einkum hvað varðar skipulagningu og stjórn þingsins, sú síðar nefnda á pólitíska sviðinu. Venja er að formenn landsdeilda sitji í þessum nefndum. Í for sætisnefnd sitja enn fremur forseti þingsins, níu varaforsetar þess (einn frá hverju hinna að ildarríkjanna), nefndaformenn og þeir fyrrverandi forsetar þingsins sem enn kunna að eiga þar sæti. Í stjórnarnefnd sitja allt að þrír fulltrúar til viðbótar frá hverju aðildarríki, alls 30 manns til viðbótar við forsætisnefnd. Ísland á einn fulltrúa í hvorri nefnd. Nefndir þingsins halda alla jafna 4–5 fundi á ári utan þingfundanna.
    Samkvæmt starfsreglum VES-þingsins (gr. 17.1) á Alþingi í krafti aukaaðildar sinnar rétt á að senda þrjá fulltrúa á fundi VES-þingsins. Þá mega varamenn landsdeilda taka aðalsæti í nefndum en geta einungis sótt þingfundina sem áheyrnarfulltrúar. Aukaaðilar geta sam kvæmt núverandi reglum þingsins tekið mikinn þátt í störfum þess og hafa málfrelsi á þingfundum. Þeir hafa þó ekki full réttindi, ekki atkvæðis- eða tillögurétt á þingfundum og geta ekki tekið þátt í kosningu framkvæmdastjórnar þingsins eða umfjöllun um ársskýrslu VES. Þeir hafa heldur ekki rétt til að tala sitt eigið tungumál á fundunum. Á hinn bóginn hafa aukaaðilar rétt til að taka til máls og greiða atkvæði í nefndum, gera breytingartillögur og taka þátt í nefndastarfi á annan hátt. Þannig geta aukaaðilar haft áhrif á þær tillögur og skýrslur sem ræddar eru á þingfundum, þegar þær eru í mótun í nefndum. Aukaðilar geta einnig beint fyrirspurnum til ráðherraráðs.

3. Stofnun Íslandsdeildar VES-þingsins.
    Vegna aðildar Íslands að NATO stóð Alþingi lengi til boða að senda áheyrnarfulltrúa á fundi VES-þingsins. Alþingi þekktist boð VES-þingsins árið 1993, en árið áður hafði Ísland fengið aukaaðild að VES sem þó tók ekki formlega gildi fyrr en 6. mars árið 1995. Í umboði forsætisnefndar tilnefndu Íslandsdeild Norður-Atlantshafsþingsins og síðar Íslandsdeild Evr ópuráðsþingsins áheyrnarfulltrúa á desemberfund VES-þingsins árin 1994 og 1995. Í kjölfar þess að Ísland hlaut formlega aukaaðild að Vestur-Evrópusambandinu í mars 1995 sam þykkti forsætisnefnd á fundi í maí 1995 að stofna Íslandsdeild VES-þingsins. Tilnefnd af þingflokkunum til setu í Íslandsdeildinni voru Lára Margrét Ragnarsdóttir, Sjálfstæðisflokki, Össur Skarphéðinsson, Alþýðuflokki, og Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, sem aðal menn, og Kristján Pálsson og Guðmundur Hallvarðsson, Sjálfstæðisflokki, og Ásta R. Jó hannesdóttir, Þjóðvaka, sem varamenn. Á fyrsta fundi Íslandsdeildarinnar 8. júní 1995 var Lára Margrét Ragnarsdóttir kjörin formaður og Össur Skarphéðinsson varaformaður. Sú breyting varð árið 1997 að Ásta R. Jóhannesdóttir gekk til liðs við Alþýðuflokkinn í lok desember, en þingflokkar Þjóðvaka og Jafnaðarmanna sameinuðust á árinu. Þá tók Auðunn Atlason um mitt ár við starfi Gústafs Adolfs Skúlasonar sem ritari nefndarinnar.
    Skipan Íslandsdeildarinnar í nefndir er sem hér segir:
Forsætis-, stjórnar- og stjórnmálanefnd     Lára Margrét Ragnarsdóttir
Varamaður             Össur Skarphéðinsson
Varnarmálanefnd     Össur Skarphéðinsson
Varamaður             Kristján Pálsson
Nefnd um almannatengsl     Össur Skarphéðinsson
Tækni- og geimvísinda-, fjármála- og
    stjórnsýslu- og þingskapanefnd
    Siv Friðleifsdóttir

4. Starfsemi á árinu.
    VES-þingið kemur sem fyrr segir saman tvisvar á ári til reglulegra þingfunda, í júní og desember, auk þess sem nefndir þingsins halda fundi nokkrum sinnum á ári utan þingfunda. Á árinu tók Íslandsdeildin þátt í þingfundunum í júní og desember, en hún hefur ekki hlotið fjárveitingu til að sækja nefndafundi utan þingfundanna og setur það starfi hennar afar þröngar skorður. Til dæmis gat Íslandsdeildin sakir fjárskorts ekki sótt fund stjórnmála- og varnarmálanefndar í ágúst þar sem fjallað var um öryggi á norðurslóðum og hlýtur að teljast bagalegt að rödd Íslands heyrðist ekki í þeim umræðum. Á vegum VES-þingsins eru til umræðu mikilvæg hagsmunamál jafnt Íslands sem Evrópu allrar í öryggis- og varnarmálum og því æskilegt að geta fylgst með þróun mála í nefndastarfinu og fylgt málum eftir, á milli þess sem þingið kemur saman á hálfs árs fresti.

a.    I. hluti 43. fundar VES-þingsins.
    Dagana 2.–5. júní sl. var haldinn I. hluti 43. fundar VES-þingsins í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Össur Skarphéðinsson, varaformaður Íslandsdeildarinnar, Siv Friðleifsdóttir og Kristján Pálsson, auk Elínar Flygenring, forstöðumanns alþjóðasviðs Alþingis.
    Eftirfarandi gestir ávörpuðu þingið: José Cutileiro, framkvæmdastjóri VES, Martti Ahtisaari, forseti Finnlands, og António Guterres, forsætisráðherra Portúgals. Til stóð að Helmut Kohl, kanslari Þýskalands, og Emma Bonino, einn af framkvæmdastjórum Evrópu sambandsins, mundu ávarpa þingið en þau boðuðu forföll vegna pólitískra átaka heima fyrir.     Á fundinum voru lagðar fram og ræddar skýrslur um eftirfarandi málefni:
Maastricht II: tillögur VES-þingsins um Evópusamvinnu í öryggis- og varnarmálum.
Öryggisvandamál samfara stækkun NATO og annarra evrópskra stofnana til austurs.
Framlag VES til eflingar friðar í Mið-Afríku.
Framkvæmdahlutverk VES.
Barátta gegn útbreiðslu jarðsprengna.
Evrópusamstarf um brynvagna.
Notkun gervitungla við náttúruamfarir.
Breytingar á starfsreglum sem heimila forseta þingsins setu á nefndafundum.
Samvinna þjóðþinga í Mið-Evrópu.
Skýrslur um fjárlög ársins 1997.
    Í umræðum um stækkun NATO tók Össur Skarphéðinsson til máls og taldi að þetta ár yrði í minnum haft vegna mikilla breytinga á öryggismálum Evrópu. Stækkun NATO og Evrópu sambandsins þýddi ekki einungis stórfellda breytingu á öryggismynstri Evrópu heldur einnig stækkun VES. Nú væri tækifæri til að ræða hvort ekki ætti að gera aukaðila eins og Ísland að fullgildum aðilum sambandsins. Draga mætti þær ályktanir af því hversu mikill áhugi væri á aðild að NATO að þjóðum í Mið- og Austur-Evrópu fyndist öryggi sínu enn ógnað af Rússlandi. Öll rök leiddu til þess að Eystrasaltsríkin þrjú ættu að verða á meðal þeirra fyrstu til að fá inngöngu í NATO. Mikilvægt væri að efla stöðu þessara ríkja innan VES og veita þeim inngöngu í ESB. Það kæmi þó ekki í stað aðildar að NATO, sagði Össur. Össur talaði einnig í umræðum um jarðsprengjur og studdi tillögur um útrýmingu þeirra. Hann sagði jákvætt að Bretar hefðu skipt um skoðun eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum þar í landi.
    Siv Friðleifsdóttir og Kristján Pálsson tóku til máls í umræðum um Maastricht II (ríkja ráðstefnu ESB) og tillögur VES-þingsins um öryggis- og varnarmál í því sambandi. Kristján lagði áherslu á framtíð VES og ræddi hvort innlima ætti stofnunina í ESB. Kristján sagði spurninguna vera hvort samvinna í öryggis- og varnarmálum mundi aukast eða minnka við þann samruna. Fyrir fyrrverandi austantjaldslönd væri VES afar mikilvægt og ætti að hjálpa þeim á leið að vestrænu frjálsræði. Það gæti dregið úr öryggi í Evrópu ef VES yrði hluti af ESB, sagði Kristján. Mikilvægt væri fyrir VES að einfalda skipulag stofnunarinnar því almenningur skildi ekki uppbyggingu hennar til hlítar. VES ætti að veita evrópsku NATO-ríkjunum fulla aðild og veita ætti áheyrnaraðilum og samstarfsríkjum aukaaðild því það mundi auka öryggi í Evrópu. Sjálfstæði VES væri afar mikilvægt í þessu tilliti og ætti stofn unin að hafa frumkvæði að því.
    Siv Friðleifsdóttir lagði áherslu á mikilvægi þess að tryggja öryggi í Evrópu og taldi VES nauðsynlegt í því samhengi. Rétta leiðin væri hins vegar ekki að færa VES undir ESB. Hver yrði staða aukaaðila VES ef sameiginleg varnar- og öryggimálastefna væri eingöngu í hönd um ESB í framtíðinni? Ellefu ESB-ríki hefðu ákveðið innan ramma NATO að öryggis- og varnarmál álfunnar ættu að þróast innan Atlantshafsbandalagsins. Á Íslandi væri litið já kvætt á samstarf Bandaríkjanna og Evrópu í varnarmálum og talið jákvætt að styrkja VES sem Evrópustoð NATO.
    Allnokkur umræða varð um skýrsluna um Maastricht II og voru skiptar skoðanir á því hvort færa ætti VES undir Evrópusambandið. Þau ríki sem einkum lögðust gegn því voru ESB-ríkin Bretland og Írland ásamt aukaaðildarríkjunum að VES, Noregi, Íslandi og Tyrklandi. Í skýrslunni var rætt um þátttöku allra ríkja í VES — án tillits til hvers konar aðild um væri að ræða — að sameiginlegri utanríkisstefnu Evrópu. Þessum áhersluatriðum var hins vegar breytt í meðförum stjórnmálanefndarinnar og einungis talað um að ríki með fulla aðild að VES skuli móta stefnuna ásamt aðildarríkjum ESB. Þannig var skýrslan lögð fyrir þingið og samþykkt.
    Auk hefðbundinna þingfunda sótti Íslandsdeildin fundi í málefnanefndum VES-þingsins, Össur Skarphéðinsson í stjórnmálanefnd, Kristján Pálsson í varnarmálanefnd og Siv Friðleifsdóttir í vísinda- og tækninefnd.

b. II. hluti 43. fundar VES-þingsins.
    Dagana 1.–4. desember sl. var haldinn II. hluti 43. fundar VES-þingsins í París. Fundinn sóttu af hálfu Íslandsdeildarinnar Lára Margrét Ragnarsdóttir, formaður Íslandsdeildarinnar, Siv Friðleifsdóttir og Kristján Pálsson, auk Auðuns Atlasonar ritara.
    Eftirfarandi gestir ávörpuðu þingið: Klaus Kinkel, utanríkisráðherra Þýskalands og frá farandi formaður ráðherraráðs Vestur-Evrópusambandsins, José Cutileiro, framkvæmda stjóri VES, Dimitri Simitris, forsætisráðherra Grikklands, en Grikkland tekur senn við for mennsku í ráðherraráði VES og Javier Solana, framkvæmdastjóri Atlantshafsbandalagsins.
    Á þinginu voru lagðar fram og ræddar skýrslur um eftirfarandi málefni:
Hlutverk Evrópu í því að hindra átök á Balkanskaga.
Staða VES eftir Amsterdam-sáttmálann.
Hermálanefnd Vestur-Evrópusambandsins.
Staða afvopnunarmála (einkum fækkun kjarnorkuvopna).
Samstarf Evrópu við Bandaríkin um varnir með lang- og skammdrægum kjarnaflaugum.
Samvinna Evrópu í hergagnaiðnaði.
Stjórnmálaástand í Mið-Asíu og Kákasus og áhrif þess á evrópsk öryggismál.
Upplýsingabæklingur um VES.
Leiðtogafundur NATO í Madríd og þróun samskipta VES við ríki Mið- og Austur-Evrópu.
Skýrslur um fjárlög ársins 1997.
    Á öðrum degi þingsins var breski þingmaðurinn Terry Davies kjörinn varaforseti VES-þingsins, en hann er jafnframt formaður flokkahóps sósíaldemókrata í þinginu. Þá var kosið í embætti skrifstofustjóra VES-þingsins, en ráðningartími Henry Burgelin, fráfarandi skrif stofustjóra, rennur út í júní 1998. Í framboði voru Colin Cameron, aðstoðarskrifstofustjóri VES-þingsins, Arnold Jacomet, yfirmaður stjórnmáladeildar VES í Brüssel, Roger Loutz, yfirmaður rekstrar- og fjárreiðudeildar VES-þingsins og tveir embættismenn úr stjórnkerfi Frakklands. Frambjóðendur kynntu sig og svöruðu spurningum í nefndum á fyrsta degi þingsins. Var kosið á milli þeirra. Bretinn Colin Cameron sigraði í þeirri kosningu með afgerandi meiri hluta atkvæða og tekur við starfinu um mitt ár 1998.
    Miklar umræður spunnust á öðrum degi þingsins um stöðu VES eftir þær breytingar sem gerðar voru á Evrópusambandinu á leiðtogafundi þess í Amsterdam í júní sl., og áhrif þeirra breytinga á VES. Lára Margrét Ragnarsdóttir kvaddi sér hljóðs í þeim umræðum og fagnaði þeirri niðurstöðu í Amsterdam að VES hafi ekki verið innlimað í ESB, en tillaga þess efnis lá fyrir leiðtogafundinum. Lára Margrét sagði hins vegar greinilegt, að Evrópusambandið hefði styrkt umtalsvert stofnanir hinnar sameiginlegu utanríkis- og öryggismálastefnu sinnar (CFSP). Ný skrifstofa yrði sett á laggirnar til að sinna þessum málaflokki sérstaklega og líkur væru á að aðgerðir ESB í utanríkis- og öryggismálum verði skilvirkari og skjótari í framtíðinni, með sveigjanlegri ákvarðanatöku (möguleika á jákvæðri hjásetu). Lára Margrét sagði þessar breytingar hafa bein áhrif á Vestur-Evrópusambandið, enda segir í Amsterdam-sáttmálanum að ESB geti fært sér VES í nyt til að framfylgja stefnu sinni í varnarmálum (grein J.7.3). Með styrkingu CFSP væri því líklegra að ESB mundi skipa VES fyrir verkum í auknum mæli, sagði Lára Margrét.
    Lára Margrét benti á að VES væri hlekkurinn á milli ESB og NATO og ætti í tvíhliða samskiptum við báðar þessar stofnanir. Með styrkingu ESB raskaðist hins vegar þetta jafn vægi og því væri hætta á að samskipti VES og ESB yrðu einhliða, þ.e. að ESB hefði bæði tögl og hagldir í samskiptum sínum við VES. Yrði þessi raunin, sagði Lára Margrét, spryttu upp tvö vandamál. Annars vegar yrðu þau VES-ríki sem ekki eru í ESB (aukaaðilar, sam starfsríki) útilokuð frá raunverulegum áhrifum í samtökunum og hin samevrópski styrkur VES úr sögunni. Hins vegar mundu þau ESB-ríki sem fylgja hlutleysisstefnu og ekki eru í NATO og einungis áheyrnaraðildar í VES (Svíþjóð, Finnland, Austurríki, Írland) fá forræði yfir VES án þess að vera fullgildir aðilar að samtökunum. Lára Margrét hvatti því til styrk ingar á VES í þeim tilgangi að tryggja sjálfstæði samtakanna, tryggja tengsl VES við NATO og koma í veg fyrir útilokun ríkja Mið- og Austur-Evrópu, sem og aukaaðildarríkjanna Íslands, Noregs og Tyrklands, frá ákvörðunum í VES.
    Á lokadegi þingsins var til umræðu skýrsla spænska þingmannsins Martinez Casân um áhrif fyrirhugaðrar stækkunar Atlantshafsbandalagsins á samskipti VES við samstarfsríki sín í Mið- og Austur-Evrópu. Í ályktun byggðri á skýrslunni fólst m.a. áskorun til ráðherra ráðs VES þess efnis að bjóða Póllandi, Tékklandi og Ungverjalandi fulla aðild að samtökun um, líkt og NATO. Nokkra athygli vakti á þinginu að Eystrasaltslöndin voru ekki nefnd sér staklega í ályktuninni sem verðandi aðildarríki, en hins vegar minnst sérstaklega á Búlgaríu, Slóvakíu, Slóveníu og Rúmeníu í því sambandi.
    Kristján Pálsson tók þátt í umræðunum um skýrslu Casâns og benti m.a. á að styrkur VES fælist í því að innan samtakanna störfuðu ríki Vestur- og Austur-Evrópu að öryggismálum álfunnar. Þannig gegndi VES mikilvægu hlutverki fyrir stöðugleika í Evrópu, þar sem hinum nýfrjálsu ríkjum Mið- og Austur-Evrópu hafi ekki enn verið veitt innganga í NATO eða Evrópusambandið. Kristján gerði viðkvæma stöðu Eystrasaltsríkjanna að umtalsefni og lýsti yfir stuðningi við breytingartillögu þess efnis að styðja bæri Eystrasaltsríkin í viðleitni þeirra við að tengjast evrópskum stofnunum. Þannig yrði komið í veg fyrir að VES-þingið sendi önnur skilaboð en ráðherrafundur NATO í sumar. Hann ítrekaði þá stefnu íslenskra stjórnvalda að þessi ríki þyrftu á stuðningi Vesturlanda að halda til að tryggja öryggi sitt. Að því lúta bæði söguleg og landfræðileg rök, sagði Kristján. Í því tilliti yrðu VES og NATO að vera samstíga. Fjölmargir aðrir ræðumenn studdu málstað Eystrasaltsríkjanna í þeim líflegu umræðum sem á eftir fóru og var áðurnefnd breytingartillaga samþykkt, án mótatkvæða.
    Auk hefðbundinna þingfunda sótti Íslandsdeildin fundi í málefnanefndum VES-þingsins, Lára Margrét Ragnarsdóttir í stjórnmálanefnd, Kristján Pálsson í varnarmálanefnd og Siv Friðleifsdóttir í vísinda- og tækninefnd.

5. VES og Amsterdamsáttmálinn.
    Eftir rúmlega tveggja ára undirbúningsvinnu, 129 daga viðræður og tveggja sólarhringa linnulausa samningalotu lauk ríkjaráðstefnu Evrópusambandsins með undirritun Amsterdam-sáttmálans 17. júní. Eitt af helstu átakamálum ráðstefnunnar var hugmyndin um innlimun VES í ESB. Stjórnvöld í Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu, Belgíu, Lúxemborg og á Spáni lögðu fram sameiginlega tillögu þess efnis á vormánuðum. Tillagan gerði ráð fyrir innlimun VES í ESB í þremur skrefum. Í fyrsta skrefi yrðu starfsreglur ESB og VES samræmdar og sam eiginleg varnarstefna skilgreind, í öðru skrefi mundi VES taka við skipunum frá ESB um hernaðaraðgerðir og í þriðja skrefi yrðu stofnanir VES felldar inn í stofnanakerfi Evrópu sambandsins. Þessi tillaga var felld í Amsterdam. Ástæðan var einkum hörð andstaða danskra, írskra og breskra stjórnvalda, sem vilja að samstarf í utanríkis- og varnarmálum verði alfarið hefðbundið milliríkjasamstarf og hafna hugmyndum um yfirþjóðlegt eðli slíkrar samvinnu. Þessi ríki höfnuðu tillögunni, en samhljóða ákvarðanir þarf til í ráðherraráði ESB til að gera breytingar á grundvallarlögum sambandsins. Eigi að síður voru teknar ákvarðanir um hina sameiginlegu utanríkis- og varnarmálastefnu ESB (CFSP) í Amsterdam, sem snerta framtíð VES, bæði beint og óbeint. Breytingarnar sem voru gerðar á greinum um CFSP miða allar að styrkingu hinnar sameiginlegu utanríkisstefnu.
    Í fyrsta lagi er fastar kveðið að orði um tengsl VES og ESB í Amsterdam-sáttmálanum, m.a. um að ESB geti „notfært sér VES“ til að framfylgja ákvörðunum í varnarmálum (grein J.7.3.). Þá eru hin svonefndu Petersberg-verkefni VES (mannúðaraðgerðir, friðargæsla, að gerðir til að koma á friði, aðgerðir í brýnum háska) felld undir verkefnasvið CFSP. Það þýðir að ESB mun að öllum líkindum álykta í auknum mæli um mál sem hingað til hafa verið á starfssviði VES, og fela VES að framfylgja þeim ályktunum.
    Í öðru lagi var ákveðið í Amsterdam að styrkja verulega stofnanaþátt hinnar sameiginlegu utanríkisstefnu. Komið verður á fót sérstakri skrifstofu CFSP sem mun undirbúa og útfæra sameiginlega stefnu ESB í utanríkis- og varnarmálum (Policy Planning and Early Warning Unit). Líklegt má telja að þessi styrking málefnalegs undirbúnings CFSP muni leiða til skýr ari stefnu og samræmdari, en hingað til hefur brunnið við að CFSP sé einungis minnsti sam nefnari stefnu aðildarríkjanna fimmtán.
    Í þriðja lagi var bætt inn í Amsterdam-sáttmálann nýrri tegund ákvarðanatöku í utanríkis málum, svokallaðri „jákvæðu hjásetu“. Þessi aðferð kveður á um að einstök ríki geti setið hjá við einstakar ákvarðanir. Þannig standa þau ekki að viðkomandi ákvörðun eða aðgerð, en skuldbinda sig jafnframt til þess að gera ekkert sem hindrar önnur ríki í að hrinda tiltek inni ákvörðun í framkvæmd. Á þennan hátt er mögulegt að koma í veg fyrir að ríki neyðist til að beita neitunarvaldi vilji þau ekki standa að ákvörðun (eins og t.d. hlutlausu ESB-ríkin). Eins er búist við að ákvarðanir verði teknar skjótar í framtíðinni, þar eð ekki er þörf á sam hljóða ákvörðunum í öllum málum. Neitunarvald er þó enn fyrir hendi og er ákvörðun þá skotið til leiðtogaráðs ESB til einróma samþykktar.
    Þessar breytingar munu ef að líkum lætur styrkja innviði hinnar sameiginlegu utanríkis- og varnarmálastefnu ESB. Að því gefnu að engar slíkar breytingar verði gerðar á stofnunum eða ákvörðunartökuferlum VES má álykta að styrking CFSP kunni að bitna á sjálfstæði VES þar eð áhrif ESB á starfsemi VES muni aukast enn frekar. Sterkari stefnumótun í utanríkis- og varnarmálum ESB þýðir óneitanlega veikara Vestur-Evrópusamband í samskiptum sam bandanna tveggja. Þá má geta þess að í stefnuplaggi framkvæmdastjórnar ESB frá því í júlí — Agenda 2000 — er hernaðarleg styrking VES og nánari tengsl þess við ESB skilgreind sem eitt af meginverkefnum Evrópusambandsins á komandi árum.
    Á hinn bóginn verður að teljast harla ólíklegt að af formlegri innlimun VES í ESB verði í nánustu framtíð. Slíkt krefst einróma samþykkis í ráðherraráðinu og auk þess mögulegra stjórnarskrárbreytinga í einstökum aðildarríkjum. Aukinheldur bendir fátt bendir til þess að Danmörk og Bretland breyti afstöðu sinni til VES í bráð, þótt óhætt sé að fullyrða að stuðn ingsmenn hugmyndarinnar um sameiningu VES og ESB hafi síður en svo lagt árar í bát.
    VES mun því halda áfram að gegna sjálfstæðu hlutverki í öryggismálum Evrópu. Samtök unum er mikið í mun að treysta stöðu sína sem milliliðs á milli ESB og NATO og aðstoða ríki Mið- og Austur-Evrópu á leið sinni inn í hið evrópska öryggismálakerfi. Mikilvægt er fyrir íslenska hagsmuni að fylgjast grannt með þróun mála á vettvangi VES og taka þátt í mótun evrópskrar öryggisstefnu.

6. Framtíðarstarf VES.    
    Vestur-Evrópusambandið fagnar 50 ára afmæli sínu 17. mars næstkomandi, en Brüssel-sáttmálinn var undirritaður þann dag árið 1948. Mikil gerjun á sér stað í öryggismálum Evr ópu og umræða um aukið samstarf NATO og VES er stöðugt í gangi. Með aukinni Evrópu samvinnu má teljast líklegt að VES muni fá aukið hlutverk — í samvinnu við NATO — í vörnum álfunnar, og einkum hvað varðar björgunaraðgerðir og friðargæslu (Petersberg-verk efnin). Aðildin að NATO hefur nær allan lýðveldistímann verið kjarni íslenskra utanríkis- og varnarmála. Á þeim vettvangi hafa íslensk stjórnvöld ávallt lagt sitt af mörkum og fylgst vel með þróun mála. Á sama hátt ber Alþingi skylda til að vera virkt í starfi VES. Þannig er mögulegt að gæta hagsmuna Íslands í varnar- og öryggismálum, bæði austan hafs og vestan.

Alþingi, 12. mars 1998.



Lára Margrét Ragnarsdóttir,


form.


Össur Skarphéðinsson,


varaform.


Siv Friðleifsdóttir.




Kristján Pálsson.



Ásta R. Jóhannesdóttir.



Guðmundur Hallvarðsson.