Ferill 631. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1087 – 631. mál.



Tillaga til þingsályktunar



um skattlagningu framlaga úr kjaradeilusjóðum.

Flm.: Sigríður Jóhannesdóttir, Svavar Gestsson, Steingrímur J. Sigfússon.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa nefnd til að kanna hvernig breyta eigi skattalögum til að framlög úr kjaradeilusjóðum verkalýðsfélaga verði ekki tvísköttuð eins og nú. Í nefndinni eigi sæti fulltrúar verkalýðshreyfingar og stjórnvalda og skili hún áliti fyrir 1. október 1998.

Greinargerð.


    Á undanförnum missirum hefur nokkuð borið á því að einstaklingar sem fengið hafa framlög úr kjaradeilusjóðum hafa leitað réttar síns fyrir dómstólum vegna meintrar tvískött unar þeirra. Ljóst er að framlög launþega í kjaradeilusjóði eru hluti af félagsgjöldum við komandi og eru meðhöndluð sem laun og skattlögð samkvæmt því. Þegar launþegi fær fram lag úr kjaradeilusjóði sem hann hefur áður greitt í af launum sínum er það framlag skattlagt eins og launatekjur og er það því tvískattað.
    Flutningsmenn telja þetta mikið óréttlæti og leggja til að kannað verði hvernig ráða megi bót á þessu. Virðast einkum tvær leiðir koma til greina, annars vegar að breyta lögum um tekjuskatt og eignarskatt á þann veg að framlög úr kjaradeilusjóðum séu sérstaklega undan þegin skatti eða hins vegar að undanþiggja sjálf framlögin í kjaradeilusjóðina skatti. Það væri sams konar aðferð og viðhöfð er við greiðslur í lífeyrissjóði en þær eru nú undanþegnar skatti. Var sú breyting gerð til þess að koma í veg fyrir tvísköttun lífeyrisgreiðslna. Virðist eðlilegt að líta á framlög úr kjaradeilusjóðum á sama hátt.