Ferill 635. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1091 – 635. mál.



Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 94/1962, um almannavarnir, með síðari breytingum.

Flm.: Ágúst Einarsson.



1. gr.


    4. gr. laganna orðast svo:
    Almannavarnaráð, sem dómsmálaráðherra skipar, stýrir starfsemi almannavarna og er til ráðuneytis um framkvæmd laga þessara. Í ráðinu eiga sæti forstjóri Landhelgisgæslunnar, landlæknir, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landssímans, vegamálastjóri og einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna samtaka: Slysavarnafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita. Ráðherra skipar einn þeirra formann ráðsins til þriggja ára í senn. Ráðherra getur sett almannavarnaráði starfsreglur með reglugerð.

2. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Í hverju lögsagnarumdæmi skal vera almannavarnanefnd. Nefndin kýs sér sjálf formann og varaformann.
    Í kaupstöðum skipar bæjarstjórn almannavarnanefnd. Í Reykjavík eiga sæti í nefndinni borgarlæknir, borgarstjóri, borgarverkfræðingur, lögreglustjóri, slökkviliðsstjóri, tveir menn sem borgarstjórn velur og einn fulltrúi frá hverjum eftirtalinna samtaka: Slysavarnafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita. Í öðrum kaupstöðum skal almannavarnanefnd skipuð bæjarstjóra, bæjarverkfræðingi eða bæjartækni fræðingi, héraðs- eða heilsugæslulækni, lögreglustjóra, slökkviliðsstjóra, tveimur mönnum sem bæjarstjórn velur og einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna samtaka: Slysavarnafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita.
    Í sýslum skal almannavarnanefnd skipuð lögreglustjóra, svo og byggingarfulltrúa, héraðs- eða heilsugæslulækni og slökkviliðsstjóra, sem sýslumaður tilnefnir, þremur mönnum til nefndum af hreppsnefndum í þremur fjölmennustu hreppum sýslunnar og einum fulltrúa frá hverjum eftirtalinna samtaka: Slysavarnafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita. Skipa má fleiri en eina almannavarnanefnd í sýslu í samræmi við samstarf um almannavarnir skv. 2. mgr. 7. gr.
    Í Reykjavík ræður borgarstjóri framkvæmdastjóra almannavarnanefndar. Á öðrum stöð um, þar sem eru fleiri en 5.000 íbúar, skal ráðinn framkvæmdastjóri, eftir atvikum í hluta starf, að fengnu samþykki viðkomandi sveitarstjórna.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hlutverk almannavarna er samkvæmt lögum að sjá um ráðstafanir sem koma í veg fyrir að almenningur verði fyrir tjóni af völdum hamfara eða annarrar vár.
    Frumvarpið felur í sér þá breytingu frá núgildandi lögum um almannavarnir að fjölgað er í almannavarnaráði um þrjá fulltrúa, þ.e. frá Slysavarnafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita. Jafnframt er fjölgað í einstökum almannavarnanefndum um þrjá fulltrúa, þ.e. frá Slysavarnafélagi Íslands, Rauða krossi Íslands og Landsbjörg – landssambandi björgunarsveita.
    Almannavarnaráð hefur með höndum heildarskipulag og stýrir starfsemi almannavarna og er ásamt ráðherra æðsta yfirstjórn almannavarna hérlendis. Almannavarnaráð stýrir fram kvæmdum á ýmsum sviðum, þar á meðal eru:
     1.      Fjarskipti milli umdæma.
     2.      Gagna- og upplýsingasöfnun um hættu.
     3.      Mælingar á geislavirkni.
     4.      Viðvörun og viðvörunarkerfi.
     5.      Leiðbeiningar og almenningsfræðsla.
     6.      Kennsla yfirmanna og leiðbeinenda.
     7.      Eftirlit og umsjón með ráðstöfunum á sviði almannavarna vegna æðstu stjórnar landsins og mikilvægra stofnana ríkisins.
     8.      Söfnun birgða og varsla þeirra.
     9.      Skipulagning og yfirstjórn flutnings fólks af hættusvæðum.
     10.      Yfirstjórn aðstoðar milli umdæma og aðstoðar ríkisstofnana.
     11.      Umsjón með almannavörnum í héraði.
    Almannavarnaráð skal einnig stuðla að athugunum á hættu, m.a. af ísalögum, eldgosum, jarðskjálftum, flóðum, snjóflóðum og skriðuföllum.
    Auk almannavarnaráðs eru starfandi í hverju lögsagnarumdæmi almannavarnanefndir. Í almannavarnanefndum eru nú helstu embættismenn viðkomandi sveitarfélags auk tveggja til þriggja annarra einstaklinga.
    Hlutverk almannavarnanefnda er samkvæmt lögum að skipuleggja og annast björgunar- og hjálparstörf vegna hættu eða tjóns sem skapast hefur af náttúruhamförum eða annarri vá. Almannavarnanefndum er þannig falin skipulagning og framkvæmd ýmissa ráðstafana innan umdæma þeirra samkvæmt nánari reglum sem ráðherra setur, þar á meðal eru:
     1.      Skipulagning og samræming hjálparstarfs og hjálparliða, þjálfun og búnaður.
     2.      Eftirlit með einkavörnum í íbúðarhúsum, atvinnufyrirtækjum og stofnunum.
     3.      Bygging, búnaður og rekstur opinberra öryggisbyrgja.
     4.      Stjórnstöðvar.
     5.      Fjarskiptakerfi.
     6.      Birgðasöfnun og rekstur birgðastöðva.
     7.      Undirbúningur og aðstoð vegna brottflutnings fólks og móttöku fólks af hættusvæði.
     8.      Aðrar ráðstafanir sem ráðherra ákveður, að fengnum tillögum almannavarnaráðs.
    Það er ljóst að mikilvægt er að vel takist til um skipulagningu starfs almannavarna. Mjög oft hefur reynt á almannavarnaráð og almannavarnanefndir hérlendis. Mikilvægir samstarfs aðilar almannavarnaráðs og almannavarnanefnda þegar háska ber að höndum eru Slysavarnafélagið, Rauði krossinn og hjálparsveitirnar. Þessi þrenn samtök vinna að björgun mannslífa og verðmæta í náttúruhamförum og búa yfir mjög yfirgripsmikilli þekkingu á sviði almannavarna og forvarnastarfs. Nú er kveðið á um það í reglugerð fyrir almannavarnaráð að þessi samtök eigi sameiginlega einn áheyrnarfulltrúa á fundum almannavarnaráðs . Að mati flutningsmanns er slíkt fyrirkomulag alls ekki nægjanlegt heldur er brýnt að þessir aðilar fái fulla aðild að almannavarnaráði og almannavarnanefndum. Fulltrúar þeirra geta gert mikið gagn með formlegri aðild að þessu stjórnkerfi auk þess sem slík skipun svarar betur til nútímans en fyrra fyrirkomulag.

    Slysavarnafélag Íslands, Rauði kross Íslands og Landsbjörg – landssamband björgunar sveita starfa um allt land þannig að vandalaust er að standa að tilnefningum í almannavarna nefndir eins og hér er lagt til. Einnig er algengt að þeir aðilar sem sveitarstjórnir kjósa sér staklega í almannavarnanefnd komi úr röðum einhverra þessara samtaka. Samtökin hafa nána samvinnu sín á milli og árangursríkt samstarf þeirra hefur bjargað fjölmörgum mannslífum.
    Samræming aðgerða er mjög mikilvæg. Slysavarnafélag Íslands, Rauði kross Íslands og Landsbjörg – landssamband björgunarsveita vinna einstaklega mikilvægt starf á sviði al mannavarna og því er þessi skipulagsbreyting nauðsynleg eins og samtökin hafa oft ályktað um á þingum sínum.
    Þess ber að geta að í frumvarpinu er lagt til að forstjóri Landssímans komi í stað póst- og símamálastjóra, en það embætti er ekki lengur til. Af samsetningu almannavarnaráðs er ljóst hvernig löggjafinn hugsar sér yfirstjórn almannavarna, þ.e. með þátttöku æðstu embættis manna á sviðum sem snerta almannavarnir. Það sama á við Slysavarnafélag Íslands, Rauða kross Íslands og Landsbjörg – landssamband björgunarsveita. Þessi samtök, félagsmenn þeirra og starfslið, eru óaðskiljanlegur þáttur í starfi almannavarna. Ekki eru lagðar til aðrar efnisbreytingar á lögum um almannavarnir en að kveða á um aðild fulltrúa þessara samtaka í stjórnkerfi almannavarna.
    Breytingin, sem hér er lögð til, mun efla og styrkja almannavarnir, er í takt við breyttar aðstæður og tryggir enn betur vönduð vinnubrögð við almannavarnir.