Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1169 – 503. mál.



Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um verndun líffræðilegrar fjöl breytni.

     1.      Til hvaða aðgerða hefur verið gripið hér á landi til að uppfylla skuldbindingar samningsins um líffræðilega fjölbreytni?
    
Ísland gerðist aðili að samningnum um líffræðilega fjölbreytni 11. september 1994 og tók samningurinn gildi hér á landi 10. desember sama ár. Markmið samningsins eru þrjú, þ.e. að tryggja líffræðilega fjölbreytni, að tryggja sjálfbæra nýtingu líffræðilegra auðlinda og að stuðla að sanngjarnri skiptingu þess hagnaðar sem hlýst af nýtingu erfðaauðlinda, sem og aðgangi að þeim og tækni til að nýta þær.
    Þegar hefur verið hafist handa við að koma fyrstu tveimur markmiðum samningsins í framkvæmd. Fyrst ber að nefna undirbúning og vinnu ráðuneytisins að framkvæmdaáætlun til aldamóta um sjálfbæra þróun í íslensku samfélagi og staðfestingu ríkisstjórnarinnar á þeirri áætlun og útgáfu hennar á síðastliðnu ári. Þrátt fyrir að framkvæmdaáætlunin snúi fyrst og fremst almennt að sjálfbærri þróun en ekki að sjálfbærri nýtingu líffræðilegra auð linda snerta margir þættir áætlunarinnar nýtingu líffræðilegra auðlinda landsins, sérstaklega hvað varðar landbúnað og sjávarútveg.
    Við gildistöku samningsins hér á landi var umsjón hans og framkvæmd falin Náttúru fræðistofnun Íslands. Frá upphafi hefur stofnunin sinnt aðildarríkjafundum samningsins og tekið virkan þátt í starfi vísindanefndar hans. Stofnunin hefur undanfarin þrjú ár unnið að endurskipulagningu og forgangsröðun þeirra verkefna sem henni eru falin með lögum í þeim tilgangi að afla betri og ítarlegri gagna um íslenska náttúru og líffræðilega fjölbreytni hér á landi. Upplýsingar um náttúruna og líffræðilega fjölbreytni er forsenda þess að mögulegt sé að skipuleggja og gera áætlanir um varðveislu og verndun líffræðilegrar fjölbreytni.
    Tillögur Náttúrufræðistofnunar Íslands um það hvernig staðið skuli að framkvæmd samn ingsins hafa verið til umfjöllunar og athugunar í ráðuneytinu og nýverið skipaði ráðuneytið, í samræmi við tillögur stofnunarinnar, samráðsnefnd um samninginn um líffræðilega fjöl breytni sem hefur m.a. það hlutverk að fylgjast með þróun samningsins og gera tillögur um framfylgd hans hér á landi. Í nefndinni eiga sæti, auk fulltrúa ráðuneytisins, fulltrúar frá ráðuneytum sjávarútvegs-, landbúnaðar-, og utanríkismála.

     2.      Hvaða aðgerðir hafa enn ekki komið til framkvæmda en eru fyrirhugaðar til að fullnægja ákvæðum samningsins?
    Hlutverk samráðsnefndarinnar sem áður er nefnd er að fara yfir ákvæði samningsins og gera tillögur til ráðuneytisins um það hvaða atriðum samningsins þurfi að hrinda í fram kvæmd á næstu mánuðum og til hvaða aðgerða nefndin telur nauðsynlegt að grípa til þess að fullnægja þeim ákvæðum.
    Að mati ráðuneytisins er nauðsynlegt í upphafi að fá mat á stöðu líffræðilegrar fjölbreytni hér á landi í samræmi við ákvæði 7. gr. samningsins og móta á grundvelli þess tillögur um markmið og leiðir. Setja þarf upp framkvæmdaáætlun í samræmi við þá niðurstöðu með tillögum um það hverjir eigi að vera ábyrgir fyrir hverjum þætti áætlunarinnar (sbr. 6. gr. samningsins). Jafnframt þarf að vera ljóst hvernig vöktun og mati á árangri verður háttað.

     3.      Hvernig hefur af Íslands hálfu verið unnið að framkvæmd á áætlun ráðstefnu umhverfisráðherra Evrópuríkja í Sofíu 1995 um umhverfi Evrópu (Environment of Europe)?
    Þátttaka Íslands í þessu starfi hefur verið í gegnum fastanefnd Bernarsamningsins og þátttöku í starfi samningsins sem snertir þessi mál, svo sem framkvæmdalið áætlunarinnar nr.11 um tegundir í hættu og svokallað Emerald Network verkefni. Að öðru leyti hefur Ísland ekki tekið þátt í áætlun Evrópuríkja um náttúru Evrópu.

     4.      Hvernig hefur verið staðið að framkvæmd greinar samningsins nr. 7. c. um að „greina ferli og þá flokka starfsemi sem hafa, eða eru líklegir til að hafa, veruleg skaðleg áhrif á vernd og sjálfbæra noktun líffræðilegrar fjölbreytni og vakta áhrif þeirra með sýna töku og annarri tækni“?
    Enn þá hefur ekki verið unnið að framkvæmd þessarar greinar samningsins hér á landi. Upplýsingaöflun Náttúrufræðistofnunar um náttúru Íslands og upplýsingar sem liggja fyrir hjá stofnunum annarra ráðuneyta á þessu sviði koma til með að verða grunnur að tillögum samráðsnefndar um líffræðilega fjölbreytni um framkvæmd þessarar greinar samningsins.

     5.      Hvernig hefur verið staðið að framkvæmd greinar 8. h. um vernd upprunalegs umhverfis þess efnis að „koma í veg fyrir að fluttar séu inn erlendar tegundir sem ógna vistkerfum, búsvæðum og tegundum, að öðrum kosti stjórna þeim og uppræta þær“?
    Á vegum landbúnaðarráðuneytisins hefur undanfarna mánuði verið starfandi plöntunefnd, sem skipuð er fulltrúum frá stofnunum á sviði landbúnaðar- og umhverfismála, til þess að gera tillögur að reglugerð um innflutning og ræktun framandi plöntutegunda. Nefndin hefur unnið að mótun tillagna um innflutning framandi plantna og flokkun þeirra með tilliti til notkunar hér á landi. Nefndin hefur ekki lokið störfum en tillögur hennar munu verða til umfjöllunar í landbúnaðarráðuneyti og umhverfisráðuneyti og þá verður metið hvernig tekið verður á framkvæmd þessa ákvæðis. Auk þess er nauðsynlegt að samráðsnefndin um samninginn fari yfir tillögurnar með tilliti til hans.
    Í tengslum við þetta starf hefur Náttúrufræðistofnun Íslands skilað tillögum til ráðuneytis ins um reglur varðandi innflutning og takmörkun útbreiðslu innfluttra framandi plantna. Tillögurnar eru nú til skoðunar í ráðuneytinu og má vænta þess að reglugerð um innflutning og notkun framandi plantna verði sett á þessu ári.