Ferill 675. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1223 – 675. mál.



Svar



forsætisráðherra við fyrirspurn Péturs H. Blöndals um erlendar skuldir þjóðarinnar.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður gerð áætlunar um hvernig náð verði niður erlendum skuldum þjóðarinnar fyrir árið 2015, sbr. ályktun Alþingis frá 13. maí 1997 (431. mál 121. löggjafarþings)?

    Forsætisráðuneytið vísaði fyrirspurninni til fjármálaráðuneytis og hefur ráðuneytinu bor ist eftirfarandi greinargerð, dags. 16. apríl 1998:
    Vísað er til fyrirspurnar forsætisráðuneytisins um meðferð fjármálaráðherra á þingsálykt un um að ná niður erlendum skuldum. Með bréfi frá forsætisráðuneytinu dagsettu 1. desem ber 1997 var fjármálaráðuneytinu, fyrir hönd ríkisstjórnarinnar, falið að annast framkvæmd ályktunar Alþingis um að ná niður erlendum skuldum þjóðarinnar árið 2015. Hér á eftir er stuttlega gerð grein fyrir stöðu og framgangi málsins.
    Markmiðið um að draga úr erlendum skuldum felur fyrst og fremst í sér að efla beri sparn að í þjóðfélaginu, jafnt hjá opinberum aðilum og einkaaðilum. Þetta markmið fellur mjög vel að efnahags- og ríkisfjármálastefnu ríkisstjórnarinnar þar sem megináhersla hefur verið lögð á að treysta stöðu ríkisfjármála, auka þjóðhagslegan sparnað og halda aftur af þjóðarútgjöld um í því skyni að treysta stöðugleikann í efnahagslífinu. Í þingsályktuninni er jafnframt kveðið á um að stjórnvöld skuli stefna að því að ná erlendum skuldum niður árið 2015. Í þessu felst sú hugsun að æskilegt sé að stjórnvöld setji sér ákveðin og tímasett markmið og birti áætlun um það hvernig ná megi þessum markmiðum á tímabilinu.
    Viðfangsefnið er í stórum dráttum tvíþætt. Annars vegar gerir það kröfu um að ríkissjóður og aðrir opinberir aðilar setji sér markmið um að lækka skuldir. Hins vegar snýr það að því hvernig efla megi almennan sparnað í þjóðfélaginu og þannig hamla gegn auknum þjóðarút gjöldum.
    Það sem snýr beinlínis að ríkissjóði er því að setja fram áætlun um hvernig unnt sé að lækka skuldir á þessum tímabili. Þessi þáttur er rökrétt framhald af þeirri vinnu við gerð áætlunar í ríkisfjármálum til nokkurra ára sem unnin hefur verið í ráðuneytinu undanfarin ár og eðlilegt að byggt sé á þeim grunni, meðal annars samstarfi við Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka.
    Hinn þátturinn fjallar um það hvernig efla megi innlendan sparnað. Hér koma til sögunnar bæði beinar aðgerðir stjórnvalda, til dæmis í lífeyrismálum, skattamálum, sölu ríkisfyrir tækja o.fl. Einnig og ekki síður snýr þetta að því almenna efnahagsumhverfi sem þarf að vera til staðar til þess að stuðla að auknum sparnaði, þ.e. lánsfjármálum, peningamálastjórn o.fl. Mikilvægur þáttur þessarar athugunar eru spár um helstu þjóðhagsstærðir og framreikningar um tekjur og gjöld ríkisins til næstu 15 ára. Inn í þetta fléttast þannig óhjákvæmilega ýmsir mikilvægir þættir í útgjalda- og skattastefnu stjórnvalda. Í þessu sambandi er einnig hægt að byggja nokkuð á þeirri vinnu sem lögð hefur verið í skoðun á þróun samkeppnisstöðu Íslands næstu áratugina. Auk þess mun ýmislegt efni vegna kynslóðareikninga nýtast í þessari vinnu.
    Ráðuneytið hefur ákveðið að hefja athugun á grundvelli ályktunarinnar. Athugun sem þessi tekur óhjákvæmilega nokkurn tíma og hefur vinna ráðuneytisins miðað að því að ljúka fyrri áfanga verksins á þessu ári. Jafnframt er undirbúningur að síðari áfanganum hafinn.