Ferill 608. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 1411 – 608. mál.



Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Ástu B. Þorsteinsdóttur um skipan héraðsdómara, sýslu manna og forstöðumanna stofnana á vegum dómsmálaráðuneytis.

     1.      Hversu margir
       a.      héraðsdómarar,
       b.      sýslumenn eða
       c.      forstöðumenn stofnana á vegum dómsmálaráðuneytis
        hafa verið skipaðir í embætti frá árinu 1991 eða í tíð núverandi ráðherra?

    Alls hafa 49 héraðsdómarar verið skipaðir í tíð núverandi ráðherra, en þar af voru 35 skipaðir á grundvelli 2. mgr. 18. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, 17 sýslumenn hafa verið skipaðir og níu forstöðumenn stofnana.

     2.      Hversu margar konur voru meðal umsækjenda? — Óskað er eftir sundurliðun eftir embættum.
    Um stöðu héraðsdómara sóttu 47 konur og 112 karlar, en þar af óskuðu sjö konur og 27 karlar að njóta forgangsréttar til skipunar í embætti héraðsdómara skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 92/1989. Um stöðu sýslumanna sóttu sex konur og 131 karl og um stöðu forstöðumanna stofnana sóttu fjórar konur og 56 karlar.

     3.      Hversu margir þeirra sem skipaðir hafa verið eru konur? — Óskað er eftir sundurliðun eftir embættum.
    Í stöðu héraðsdómara voru skipaðar níu konur, en þar af hlutu sjö skipun skv. 2. mgr. 18. gr. laga nr. 92/1989. Ein kona var skipuð í stöðu sýslumanns og önnur í stöðu forstöðumanns stofnunar.

     4.      Hversu margar voru taldar hæfar af dómnefnd eða stöðunefnd? — Óskað er eftir sundurliðun eftir embættum.
    Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989, skal dómnefnd, sem dómsmálaráðherra skipar til fjögurra ára í senn, fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Í nefndinni sitja þrír menn og tilnefnir Hæsti réttur einn nefndarmann, dómarafélagið einn og Lögmannafélagið einn. Allar konur sem sótt hafa um stöðu héraðsdómara hafa verið taldar hæfar til að gegna því embætti að mati nefnd arinnar.
    Ekki er áskilið í lögum um að leitað skuli umsagnar um umsækjendur í stöðu sýslumanna.
    Þau embætti forstöðumanna stofnana sem falla undir fyrirspurnina eru biskup Íslands, for stjóri Fangelsismálastofnunar Íslands, forstjóri Landhelgisgæslu Íslands, forstöðumaður Fangelsisins á Litla-Hrauni, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, ríkislögreglustjóri, ríkissaksóknari og skólastjóri Lögregluskóla ríkisins.
    Um veitingu framangreindra embætta, utan eins, er ekki áskilið að leitað skuli umsagnar. Í 4. mgr. 6. gr. laga um almannavarnir, nr. 94/1962, segir að ráðherra skipi framkvæmdastjóra almannavarnaráðs, að fengnum tillögum þess. Ein kona var meðal umsækjenda, taldist hún hæf og hlaut skipun.

     5.      Hversu margar eru stöður
       a.      héraðsdómara og
       b.      hæstaréttardómara
        og hversu margar konur gegna þeim? — Óskað er eftir sundurliðun eftir embættis heiti.

    Stöður héraðsdómara eru 38 og eru átta konur héraðsdómarar.
    Stöður hæstaréttardómara eru níu og er ein kona hæstaréttardómari.

     6.      Hvert er kynjahlutfall þeirra sem útskrifast hafa úr lagadeild Háskóla Íslands frá 1991 til dagsins í dag? — Óskað er eftir sundurliðun fyrir hvert ár.
    Samkvæmt upplýsingum frá lagadeild Háskóla Íslands er kynjahlutfall útskrifaðra lög fræðinga frá og með árinu 1991 til og með árinu 1997 eftirfarandi:

konur karlar
1991
18 23
1992
21 16
1993
27 28
1994
23 24
1995
25 23
1996
24 19
1997
17 25