Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF Word Perfect.

Þingskjal 1439, 122. löggjafarþing 543. mál: búfjárhald (forðagæsla, merking o.fl.).
Lög nr. 51 3. júní 1998.

Lög um breytingu á lögum nr. 46/1991, um búfjárhald, með síðari breytingum.


1. gr.

     Við 5. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra er heimilt að ákveða að eigendum búfjár sé skylt að merkja allt búfé sitt eftir viðurkenndu merkingar- og skráningarkerfi samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð.

2. gr.

     10. gr. laganna orðast svo:
     Búfjáreftirlitsmanni er skylt að fara minnst tvær ferðir um umdæmi sitt á hverjum vetri til eftirlits með fóðrun og ásetningi búfjár. Skal fyrri ferðinni lokið fyrir 1. desember og hinni síðari fyrir lok aprílmánaðar. Skal hann sannreyna tölur um fjölda ásetts búfjár og líta eftir húsakosti þess, fóðrun og hirðingu. Ákvæði reglugerða skv. 7. gr. geta samt mælt fyrir um aðrar dagsetningar fyrir skráningu á fjölda búfjár af einstökum tegundum. Búfjáreftirlitsmaður skal skrá magn, tegundir, gæði og geymsluaðstöðu alls fóðurs hjá hverjum búfjáreiganda og einnig áform hans um fóðuröflun. Jafnframt skulu gróffóðurbirgðir mældar og skráðar, svo og uppskera korns, kartaflna, rófna, gulróta og annars grænmetis samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð. Búfjáreftirlitsmaður skal einnig fylgjast með beitilandi í byggð á starfssvæði sínu. Telji hann meðferð þess ábótavant skal hann tilkynna sveitarstjórn og landgræðslustjóra það án tafar.
     Nú meinar ábúandi lögbýlis eða búfjáreigandi utan lögbýlis búfjáreftirlitsmanni aðgang að gripahúsum og/eða beitilöndum þannig að ekki verði komið við eftirliti og upplýsingaöflun samkvæmt lögum þessum. Skal þá búfjáreftirlitsmaður tilkynna sveitarstjórn það án tafar. Takist sveitarstjórn ekki að leiða málið til lykta skal hún innan viku senda skriflega tilkynningu um það til landbúnaðarráðherra sem þá er skylt að láta fara fram sérstaka skoðun á viðkomandi stað. Skylt er lögreglu að fara með búfjáreftirlitsmanni til skoðunar og eftirlits sem þannig er ákveðið. Óheimilt er að fara í þessum tilgangi inn í gripahús án leyfis ábúanda nema að fengnum dómsúrskurði. Ábúandi lögbýlis eða búfjáreigandi utan lögbýlis er hlut á að máli ber allan kostnað af þessum ráðstöfunum.
     Þar sem gripir eru í hagagöngu skal eigandi ætíð tilgreina aðila, samþykktan af sveitarstjórn, sem er ábyrgur fyrir eftirliti og umsjá með þeim gripum. Landeigandi er ábyrgur fyrir því að fullnægjandi upplýsingar séu fyrir hendi um fjölda og eigendur gripa sem eru í hagagöngu á landi hans.
     Niðurstöður hausteftirlits um fjölda búfjár, fóðurforða, fyrningar og fóðurþörf skráir búfjáreftirlitsmaður á eyðublað sem Bændasamtök Íslands láta í té ásamt reglum um framkvæmd forðagæslu. Ábúandi viðkomandi lögbýlis, búfjáreftirlitsmaður og trúnaðarmaður búnaðarsambands skulu undirrita skýrslu þessa og skal hún send Bændasamtökum Íslands sem fyrst að lokinni haustskoðun. Bændasamtök Íslands hafa yfirstjórn með framkvæmd forðagæslu og annast úrvinnslu á niðurstöðum um búfjárfjölda, fóðurforða og uppskeru korns, kartaflna, rófna, gulróta og annars grænmetis. Upplýsingar úr skýrslum þessum skulu vera heimilar til afnota Framleiðsluráði landbúnaðarins, Hagstofu Íslands, Hagþjónustu landbúnaðarins og öðrum opinberum aðilum að fengnu leyfi landbúnaðarráðuneytisins.
     Leiki rökstuddur grunur á að talningu búfjár hafi verið ábótavant er landbúnaðarráðherra heimilt að ákveða sérstaka talningu búfjár.

3. gr.

     Eftirfarandi breytingar verða á 11. gr. laganna:
  1. Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Sveitarstjórn er heimilt að krefjast veðs í þeim fénaði til tryggingar greiðslu alls kostnaðar af þessum ráðstöfunum.
  2. Við 3. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Telji búfjáreftirlitsmaður, trúnaðarmaður búnaðarsambands og héraðsdýralæknir úrbætur ekki þola neina bið getur lögreglustjóri fyrirvaralaust tekið búfé úr vörslu eiganda eða umráðamanns og ráðstafað búfénu án tafar með þeim hætti sem framangreindir aðilar telja best tryggja velferð þess.


4. gr.

     Við 12. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
     Landbúnaðarráðherra setur með reglugerð nánari ákvæði um framkvæmd forðagæslu, eftirlit og talningu búfjár.

5. gr.

     Heiti laganna verður: Lög um búfjárhald, forðagæslu o.fl.

6. gr.

     Lög þessi öðlast þegar gildi.

Samþykkt á Alþingi 28. maí 1998.