Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:43:57 (2921)

1999-01-06 13:43:57# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Starfsáætlun þingsins er auðvitað viðmiðunarplagg sem við öll höfum til hliðsjónar. Ég hlýt að vekja athygli á því að það tókst óvenjulega vel til með starfsáætlun þingsins fyrir jólin. Hún stóðst alveg upp á punkt og prik og man ég varla nokkur dæmi þess að starfsáætlun þingsins hafi staðist upp á punkt og prik eins og gerðist þá.

Hins vegar kom upp eitt mál sem er vitað um, bar óvænt að þinginu, bar óvænt að þjóðinni sem kallaði á lausn. Ég minnist þess sérstaklega þegar það mál var rætt í þinginu að stjórnarandstæðingar kröfðust þess að lausn yrði fundin fljótt, það væri skylda stjórnarmeirihlutans að finna fljótt lausn á því máli. Við því er auðvitað brugðist með því að þingið komi saman. Þingið er komið saman til starfa. Þingið ræðir saman víðar en hér. Þingið ræðir til að mynda saman á þingflokksfundum og í nefndum þingsins. Ekkert er óeðlilegt við það. Þingið er komið saman til þess að útkljá mikilvægt mál.