Dagskrá fundarins

Miðvikudaginn 06. janúar 1999, kl. 13:52:51 (2926)

1999-01-06 13:52:51# 123. lþ. 50.95 fundur 196#B dagskrá fundarins# (aths. um störf þingsins), SighB
[prenta uppsett í dálka] 50. fundur, 123. lþ.

[13:52]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að skýra frá því að áður en tekin var ákvörðun um að kalla þing saman í dag að loknu jólaleyfi ræddi ég það sérstaklega við hæstv. sjútvrh. hvort ekki væri varlegra að taka sér einhverja daga í viðbót til þess að sjútvn. gæti fengið tíma til þess að ljúka því máli sem um er að ræða áður en þing kæmi saman. Hæstv. sjútvrh. sagði að það væri ekki hægt því að svo mikið lægi við að þingið yrði að koma saman á þessum degi til þess að afgreiða frv.

Sjútvn. hefur verið að störfum milli jóla og nýárs og líka á virkum dögum að ég held, a.m.k. meiri hluti hennar, eftir nýárið. Það er því mikill misskilningur hjá hv. þm., formanni þingflokks Framsfl., að nefndir þingsins geti ekki starfað nema þingfundir standi yfir. Það er rangt.

Nú kemur í ljós að þegar þingmenn eru komnir saman til þess að afgreiða þetta mikilvæga mál sem hæstv. sjútvrh. taldi að væri nauðsynlegt að afgreitt yrði á þessum degi að engin þingskjöl eru tilbúin. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. forseta: Er þess að vænta að meðal þeirra þingskjala sem dreift verður á eftir eða síðar í dag verði tillögur og álit frá sjútvn. um afgreiðslu málsins? Ef svo er ekki, mun því verða dreift á morgun? Ef svo er ekki, hvað getur hæstv. forseti þingsins sagt okkur um framhald þingstarfa vegna þess að samkvæmt áliti ríkisstjórnarinnar er þingið kallað saman í dag aðeins til þess að afgreiða þetta frv. hæstv. sjútvrh. Sé ekki ætlunin að afgreiða það mál í dag eða á morgun sé ég ekki ástæðu til þess að hafa þingfundi á þeim tíma heldur að gefa sjútvn. þann tíma sem hún þarf til þess að geta borið sig saman við hagsmunaaðila um þær lausnir sem kunna að vera í vændum.