Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:33:29 (2931)

1999-01-11 13:33:29# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Nú er ljóst að sá tími sem sjútvn. hafði til að vinna frumvörpin tvö var allt of skammur og sú ákvörðun að kalla þingið saman til að fjalla um þetta stóra mál strax 6. janúar var fullkomlega misráðin. Sá hraði sem hefur orðið að vera á vinnu nefndarinnar undir þessari tímapressu hefur m.a. leitt til þess að ekki hefur verið ráðrúm til að hafa samráð eða leita upplýsinga sem þarf að gera þegar stórmál þessarar gerðar er leitt til lykta.

Frv. um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands, grásleppumálið svokallaða, liggur eftir í nefndinni þar sem ekki hefur verið tími til að hyggja nægjanlega að þeim álitaefnum sem hafa komið upp. Hvorki frv. ríkisstjórnarinnar né þau atriði sem fram koma í brtt. meiri hlutans hafa fengið næga skoðun og umfjöllun í nefndinni og samkomulag Landssambands smábátaeigenda og ráðherra, sem hefur mikið verið vitnað til, hefur heldur ekki verið kynnt þar né gefist ráðrúm til að fara yfir þær umsagnir sem fyrir liggja. Aðilar sem komu á fund nefndarinnar milli umræðna voru vanbúnir og af fjórum svokölluðum sérfræðingum ráðherra var einungis einn sem hafði tíma til að hitta nefndina á milli umræðna til að fara yfir þau álitaefni sem þá voru til umfjöllunar. Nú síðast kemur fram gagnrýni utan frá á spillingu innan nefndarinnar því að ekki er hægt að kalla það annað þegar sagt er, og ef það er satt, að einstöku meirihlutamenn séu með brtt. sínum að krækja fyrir mál einstakra útgerða. Ég hlýt að spyrja, herra forseti, miðað við þessi vinnubrögð vegna þess að hér eru miklir hagsmunir bæði atvinnulegir og fjárhagslegir í húfi: Vill Alþingi ekki vita hvað það er að gera?

Þegar málið, sem hér verður til umfjöllunar í dag, var tekið út úr nefndinni, bókaði ég að það væri ekki nægilega unnið og það er því miður svo. Það er Alþingi ekki sæmandi, herra forseti, að ganga svona frá málum og viturlegast væri að byrja málið aftur frá upphafi og gefa nefndinni kost á að skila vandaðri vinnu inn í þingið.