Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:39:39 (2934)

1999-01-11 13:39:39# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:39]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Hér er óttalegur vandræðagangur á ferðinni hjá stjórnarliðum. Þing var kallað saman sl. miðvikudag og þingheimur að sjútvn. undanskilinni hefur beðið eftir því að fá þetta mál á dagskrá og hefur orðið að búa við það að fylgjast með ferli þessa máls og þessum vandræðagangi dag frá degi í fjölmiðlum. Það voru ekki beinlínis góð skilaboð fyrir virðingu þingsins í heild þegar til að mynda einn umsagnaraðila í gærkvöld eða fyrrakvöld, eða hvenær sem það var, birtist alþjóð á tröppum eins af húsum þingsins beint af fundi sjútvn., maður sem stjórnarliðar hafa mjög gjarnan haldið hátt á lofti í umræðum um sjávarútvegsmál, og hafði það að orði að sjútvn. þingsins væri að bögglast við að sinna sérskoðunum einstakra nefndarmanna og búa í haginn fyrir einstakar útgerðir sem væru einstökum nefndarmönnum stjórnarliða þóknanlegar. Það er vandræðagangur á borð við þetta, herra forseti, sem stjórnarliðar hafa auðvitað búið sjálfum sér og hafa auðvitað við engan að sakast nema sjálfa sig. En það er ekki gott fyrir virðingu þingsins sem ég hygg að við séum öll sammála um að halda í heiðri.

Málið er auðvitað þannig að þingheimur hefði auðvitað verið fús og reiðubúinn til þess að takast á við önnur störf á þeim þremur þingdögum sem liðið hafa frá því að þing var kallað saman. Það er í nógu að snúast en hér var offorsið svo mikið að ekki mátti einu sinni líta til þess vinnulags heldur hafa menn einbeitt sér að því, sem Kristján Ragnarsson, formaður LÍÚ, hefur kannski eitthvað til síns máls, að búa til glænýtt mál sem tekur engan veginn á þeim stóru álitamálum sem við hófum að vinna við, þ.e. að bregðast við úrskurði Hæstaréttar. Hér eru menn á allt öðru farartæki og allt annarri leið.