Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:47:27 (2940)

1999-01-11 13:47:27# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:47]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það sem skiptir máli fyrir önnumkafna menn og þar með talda þingmenn er að geta skipulagt vinnutíma sinn sæmilega. Það var það sem ég hef gert hér athugasemdir við og tengt við það hvernig mál hafa gengið fram bæði í sjútvn. og í þinginu. Ég bið hæstv. forseta að úrskurða hvort það falli ekki undir störf þingsins að ræða hvernig dagskrá hefur verið háttað hér, hvað hér hefur verið gert eða öllu heldur ekki gert í kjölfar þess að þingmenn voru kallaðir saman á miðvikudaginn.

Ég tel mig hafa rætt um störf þingsins og það er langur vegur frá því að gera athugasemdir við dagskrá og tilhögun þingstarfa og nefndarstarfa og yfir í pólitískar árásir af því tagi sem hæstv. forsrh. kom með og einhvern tíma hefði röggsamur forseti gert athugasemd af minna tilefni við mann sem þannig fór með málfrelsi í umræðum um störf þingsins. Og að vera að gera það sérstaklega að umræðuefni að stjórnarandstaðan hafi ekki komið með tillögur þegar á dagskrá átti að vera stjfrv., eða hvað? Er þetta ekki stjfrv. sem hér er á dagskrá? Er þá ekki eðlilegt að umræðan beinist að því en ekki öðrum hlutum sem ekki eru á dagskrá og ekki átti að ræða hér eins og tillögum eða frv. frá stjórnarandstöðunni?

Þingið var kvatt saman á miðvikudaginn og hæstv. sjútvrh. hafði haft um það þau orð að svo mikið lægi við og hann vildi helst að málið yrði afgreitt á tveimur dögum, þeim degi og hinum næsta, þ.e. á sl. miðvikudegi og fimmtudegi. Nú er helgin liðin og ljóst er að við verðum hér væntanlega fram á miðvikudag. Það er helginni og fjórum virkum dögum meira en þingmenn voru látnir halda þegar þeir voru kallaðir hingað saman. Þann tíma geta menn ekki skipulagt til fundahalda eða ferðalaga í fjarlægum landshlutum. Það er það sem ég hef verið að gagnrýna, herra forseti, þ.e. þá sóun á tíma okkar þingmanna sem felst í þessum óvönduðu vinnubrögðum og ráðslagi hvað verkstjórn varðar sem við höfum hér mátt horfa upp á.