Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:49:36 (2941)

1999-01-11 13:49:36# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), sjútvrh.
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:49]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Ég skil ekki alveg þá gagnrýni sem hér kemur fram. Annars vegar koma fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna og segja að það hafi hvergi nærri verið nægur tími fyrir sjútvn. til að fjalla um málið og hins vegar að tekinn hafi verið allt of mikill tími frá störfum þingmanna úti í kjördæmum og nær hefði verið að afgreiða málið fyrir helgi. Þessi gagnrýni gengur því ekki upp. Menn verða að halda sig við einhverja eina línu í þessari gagnrýni ef hún á að halda. (Gripið fram í: ... mikil diplómatía.)

En hitt er auðvitað lykilatriði sem hér hefur komið fram að fulltrúar stjórnarandstöðunnar hafa frá því að frv. kom fyrst fram fyrir jól lýst því yfir með stórum orðum og miklum hvernig þeir túlka frv., hvernig þeir telja að það eigi að vera öðruvísi og hvað þeir telja vera að. Þeir hafa ekkert dregið af sér í þeirri umræðu þannig að ekki ber á því í umræðunni að þeir hafi þurft meiri tíma til þess að kynna sér málið. Ber að skilja það svo að þessi umræða sé sett á fót áður en efnisleg umræða hefst vegna þess að fulltrúar stjórnarandstöðunnar telji sig þurfa að fá meiri tíma, kannski til morguns, til þess að ganga frá brtt. í ljósi þeirra stóru orða sem þeir hafa viðhaft? Eru þeir að biðja um að fá einn dag í viðbót til þess að skila brtt.? Ef það er ætlunin, þá geri þeir svo vel að koma hér upp og segja frá því og þá bregðast menn auðvitað við slíkri beiðni. (Gripið fram í: Var búið að boða nefndarfundi?)