Vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:55:33 (2945)

1999-01-11 13:55:33# 123. lþ. 52.91 fundur 199#B vinna í sjávarútvegsnefnd að frumvarpi um stjórn fiskveiða# (aths. um störf þingsins), SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:55]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Ég tel að það hafi verið rétt í upphafi þessarar umræðu eða fyrir umræðuna að ræða störf þingsins og þann tíma sem sjútvn. hafði til þess að vinna frv. tvö. Það var eðlilegt í ljósi þess að einungis annað frv. er komið aftur inn í þingið. Hitt liggur eftir í nefndinni vegna þess að málin fengu ekki næga skoðun og umfjöllun --- ég þarf ekki að rökstyðja það frekar hér --- og í ljósi þess að ekki gafst tími til þess að fara yfir þær umsagnir sem fyrir liggja.

Með þessu er ég ekki að gagnrýna forustu nefndarinnar. Hún þurfti að vinna undir mikilli tímapressu eins og aðrir. Ég er að gagnrýna það hvernig pressað hefur verið á það að nefndin skilaði málinu hingað inn aftur án þess að hafa til þess nægilegt ráðrúm. Herra forseti. Það er ósæmandi að gera kröfu til þess að mál sem er jafnstórt og þetta sé afgreitt hingað inn aftur á þennan hátt.

Vegna þeirra ummæla sem hér hafa fallið um kröfu stjórnarandstöðunnar um hraða máls er rétt að það komi fram að stjórnarandstaðan vildi strax og dómur Hæstaréttar féll að gengið yrði í að vinna út frá dómi Hæstaréttar og það kom strax fram hvað stjórnarandstaðan vildi og við það stendur hún enn. Krafa stjórnarandstöðunnar hefur alltaf og allan tímann verið sú sama. Við teljum að það þurfi að fara yfir alla löggjöfina í ljósi dóms Hæstaréttar, ekki að gera það eins og gert er nú, að taka út einstök atriði, plástra, klína, klippa og klístra. Það er ekki sú aðferð sem þarf að beita þegar mál eru af þeirri stærð sem við fjöllum um núna.