Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 13:58:34 (2947)

1999-01-11 13:58:34# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[13:58]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Frá því að 343. máli var vísað til nefndarinnar, laust fyrir jólahlé, hefur nefndin haldið allmarga fundi, fengið fjölmarga gesti á fund sinn og enn fremur fengið send skrifleg álit margra aðila. Það fer ekki á milli mála þegar stjórn fiskveiða er til umfjöllunar að þar eru álitamálin mörg og margar skoðanir uppi um hvert þeirra. Verður seint gengið svo frá breytingum að allir ljúki þar upp einum munni.

Það tel ég mig geta fullyrt að þetta verður ekki í síðasta sinn sem gerðar verða breytingar á þessum lögum og eitthvað munu skoðanir verða skiptar áfram. Nokkuð langt er enn í land að finna upp hina fullkomnu löggjöf um stjórn fiskveiða.

Mikil vinna var lögð í athugun á umræddu þingmáli og vandað til verksins svo sem kostur var. Brýna nauðsyn bar til þess að hraða málinu svo sem kostur er þar sem Hæstiréttur hafði með dómi sínum fellt brott hin almennu ákvæði fyrir veitingu leyfa í atvinnuskyni og ekki hefur verið hægt að afgreiða umsóknir um ný leyfi síðan. Hafa borist fjölmargar umsóknir til sjútvrn. sem eðlilegt er að fái afgreiðslu hið fyrsta.

[14:00]

Hafa ber í huga að frv. er viðbrögð við dómi Hæstaréttar frá 3. desember sl. og því rétt að lagabreytingar umfram það sem þarf til að mæta dómnum verði í lágmarki. Meginviðfangsefni nefndarinnar var að sjálfsögðu að kynna sér dóm Hæstaréttar og fá álit færustu lögfræðinga á honum. Sérstaklega var athugað hvort dómurinn viki að 7. gr. laganna um stjórn fiskveiða en því hefur mjög verið haldið fram og þá að sjálf aflahlutdeildarúthlutunin færi í bága við umræddan dóm.

Það var samdóma álit þeirra sérfræðinga sem nefndin kallaði á sinn fund að dómurinn tæki aðeins til 5. gr. laganna. Á það var bent að svo virtist sem málið hefði einungis verið höfðað til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins um að synja áfrýjanda um veiðileyfi en ekki til viðurkenningar á rétti áfrýjanda til að fá tilteknar veiðiheimildir í sinn hlut. Þessu til stuðnings er rétt að fram komi að áfrýjandi hafi hvergi í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti vísað til 7. gr. laganna og beinlínis afmarkað kröfu sína við 5. gr. Því var ekki lagt í dóm Hæstaréttar ágreiningsefni sem varðaði 7. gr. laganna. Almennt gildir um dómstóla að þeir úrskurða um ágreiningsefni sem fyrir þá er lagt en ekki annað.

Ef ógilda á 7. gr. laganna verður beinlínis að tilgreina hana í dómnum. Þá hefði Hæstiréttur þurft að taka afstöðu til atvinnuréttinda þeirra sem fyrir eru og skýra stjórnarskrárvernd atvinnuréttindanna. Í þessu samhengi er rétt að undirstrika það sem fram kom í nefndinni, að dómstólar hafa aldrei vefengt að atvinnuréttindi njóti verndar. Það er afar þýðingarmikið að skýra stöðu atvinnuréttinda í sjávarútvegi, ekki síst þegar fram undan er endurskoðun laganna. Sjútvn. hefur farið þess á leit við Lagastofnun Háskóla Íslands að taka saman álitsgerð um það efni. Þess er vænst að hún verði tilbúin í næsta mánuði. Þess er farið á leit við Lagastofnunina að skýrð verði hver atvinnuréttindi útvegsmanna eru með hliðsjón af 1. mgr. 72. gr. og 1. mgr. 75. gr. stjórnarskrárinnar. Enn fremur er óskað eftir því að stofnunin gefi álit sitt á því hvort aðrir sem starfa við sjávarútveg, t.d. sjómenn og fiskverkafólk, eigi stjórnarskrárvarinn atvinnurétt í greininni.

Að öllu samanlögðu er það ótvíræð niðurstaða meiri hluta sjútvn. að dómur Hæstaréttar raski á engan hátt 7. gr. laganna né grundvelli hennar og því séu það nægjanleg viðbrögð að gera breytingar á 5. gr. eins og frv. ríkisstjórnarinnar kveður á um. Hvað varðar 7. gr. þá má þess vænta að fyrir Hæstarétt verði lagt að kveða upp úr um gildi hennar. Þá kemur í ljós afstaða réttarins. Skal engu um það spáð hvernig sá dómur muni falla enda er dómstóla að dæma en ekki stjórnmálamanna.

Meiri hluti sjútvn. setti sér það markmið í upphafi að gera lágmarksbreytingar á gildandi lögum. Eftir viðræður við sérfræðinga sem komu á fund nefndarinnar lá fyrir að unnt væri að viðhalda sóknardagakerfi smábáta án viðamikilla breytinga, en um 320 bátar af um 800 smábátum hafa róið samkvæmt því. Var því horfið frá þeirri tillögu í frv. að fella allar veiðar smábáta inn í aflahlutdeildarkerfi og gefa þeim kost á að velja á milli þess að vera áfram í sóknardagakerfi eða fara í aflahlutdeildarkerfi. Núverandi aflamarkskerfi verður því áfram aðskilið frá krókakerfinu en það kerfi verður einfaldað og mun skiptast í tvö kerfi í stað þriggja áður. Veiðar samkvæmt krókakerfi munu áfram takmarkast við línu og handfæri og í því verða ekki heimilaðar netaveiðar.

Núverandi fiskveiðistjórnun verður í öllum aðalatriðum óbreytt þótt bæði þorskaflahámarkið og dagakerfið í krókakerfinu taki nokkrum breytingum. Í þorksaflahámarkinu hefur verið heimilt að veiða án takmarkana aðrar tegundir en þorsk. Þetta verður afnumið að loknum aðlögunartíma og þá verða veiðar þorskaflabáta í ýsu, ufsa og steinbít takmarkaðar við tiltekinn afla sem byggður er á reynslu bátsins. Þar með verða leikreglur samræmdar við aflamarkskerfið en nokkurrar óánægju hefur gætt um mismunandi reglur að þessu leyti.

Rétt er að taka fram að ekki er nauðsynlegt að gera þessa breytingu vegna dómsins. Verði þetta ákvæði óbreytt munu allir bátar minni en 6 brúttótonn, sem fá veiðileyfi hér eftir, geta skráð sig inn í þennan útgerðarflokk, útvegað sér lítils háttar kvóta í þorski og hafið veiðar á öðrum tegundum án nokkurra takmarkana. Það mun rýra rétt þeirra sem fyrir eru í þorskaflahámarkskerfinu en ganga á rétt núverandi aflamarksbáta. Óhjákvæmilegt þykir að reisa skorður við veiðum að þessu leyti.

Veiðar samkvæmt sóknardögum verða takmarkaðar við tímabilið 1. apríl til 30. september ár hvert. Þær verða bundnar við handfæri. Fram til þessa hafa slíkar veiðar haft sóknarréttindi sem ekki hafa verið aðskilin veiðileyfinu. Því hefur eina leiðin til þess að hefja veiðar í þessum flokki útgerðar verið að kaupa sér bát sem þegar er í því kerfi. Sérfræðingar okkar meta það svo að í því fyrirkomulagi sé of mikil aðgangshindrun nýrra báta inn í sóknarkerfið að ekki standist dóm Hæstaréttar. Aðgangur inn í kerfið þarf að vera svipaður og í aflamarkskerfinu. Með öðrum orðum verða nýir aðilar að geta keypt sér réttindi líkt og í aflamarkskerfinu. Í brtt. meiri hlutans eru því sóknarréttindin skilgreind og gerð framseljanleg, þó með allnokkrum takmörkunum. Þannig verður óheimilt að framselja fleiri daga en svarar til veiðireynslu hvers báts undanfarin tvö ár. Það má búast við því að um allmarga báta gildi að þeir hafi rétt til að róa og nýta fleiri daga en þeir hafa heimild til að framselja.

Álit sérfræðinga okkar er að Hæstiréttur sé með dómi sínum að opna fiskveiðikerfið fyrir nýjum bátum og að löggjafinn verði að bregðast við því. Þannig geti bátur valið í hvaða kerfi hann er skráður en uppfylla verður almenn skilyrði um stærð og veiðarfæri. Þó er talið heimilt að setja almennar reglur til takmörkunar á fjölgun skipa í flotanum. Þær reglur verða að ná yfir alla og þar verður gæta málefnalegra sjónarmiða, jafnræðisreglunnar og að ekki sé of langt gengið í að skerða atvinnuréttindi þeirra sem fyrir eru. Þannig væri t.d., í samræmi við dóm Hæstaréttar, heimilt að setja reglur um búnað og ásigkomulag skipa. Svo dæmi sé nefnt er talið að hægt sé að setja það skilyrði að skip sem fái veiðileyfi séu yngri en þriggja ára.

Að sinni eru ekki tillögur sem miða að því að halda aftur af stærð fiskiskipaflotans. Ég leyni hins vegar ekki því sjónarmiði mínu að óhjákvæmilegt sé að stjórnvöld á hverjum tíma geti takmarkað stærð og afkastagetu flotans. Nauðsynlegt er að þau hafi úrræði til að grípa til slíkra aðgerða. Mikill fjölgun aflaheimildarlausra skipa leiðir einungis til vaxandi eftirspurnar og hækkandi verðs á aflamarki og aflahlutdeild. Ég tel ekki á það bætandi enda þeirrar skoðunar að verð á veiðiheimildum sé komið langt upp fyrir það sem eðlilegur rekstur getur borið og hafi einkennst af spákaupmennsku og óraunsæjum áætlunum. Það er mikið áhyggjuefni hversu bankakerfið virðist endalaust tilbúið að fjármagna kaup á bátum og veiðiheimildum langt upp fyrir það verð sem eðlilegt má teljast. Það er mikið athugunarefni hver þáttur bankanna hefur verið í því að spenna upp verðið á kvótanum og að hve miklu leyti sú þróun hefur þann tilgang einan að verja hagsmuni bankanna sem lánveitenda.

Þessi þróun undafarinna ára á að mínu viti mestan þátt í því að skapa óróa um núverandi fiskveiðistjórnarkerfi. Ég vil nefna sem dæmi að verð á varanlegum kvóta í þorskaflahámarkskerfinu er um 450 kr. á kíló en sérfræðingar Byggðastofnunar telja ekki rekstrargrundvöll fyrir því að lána meira en 250--280 kr. á kíló og er þá meðtalið verð bátsins.

Niðurstaða meiri hluta sjútvn. er að leggja til að lögin verði endurskoðuð á næstu tveimur árum og að sjútvrh. skipi nefnd á breiðum grundvelli til þeirra verka. Núgildandi lög eru að stofni til nokkuð gömul og á þeim hafa árlega verið gerðar verulegar breytingar. Er nauðsynlegt að skrifa nýjan lagatexta og gæta samræmis í einstökum ákvæðum laganna auk þess sem engin launung er á því að óánægju hefur gætt með ýmsar hliðarverkanir kerfisins. Þær tengjast einkum framsali veiðiheimilda. Þar hefur mest borið á umræðu um hagnað einstakra útvegsmanna við sölu á veiðiheimildum og afleita stöðu einstakra byggðarlaga við þær aðstæður að veiðiheimildir eru seldar burt. Er á það bent að fiskvinnslufólk og sjómenn geti staðið uppi atvinnulaust nánast fyrirvaralaust og að verðmæti eigna þess falli verulega.

Þessi sjónarmið er óhjákvæmilegt að taka til athugunar við endurskoðun laganna. Meiri hluti nefndarinnar leggur hins vegar til að þegar verði teknar frá aflaheimildir sem ráðstafað verði til byggðarlaga í samráði við sveitarstjórnir sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi. Ætlast er til að aflaheimildirnar verði notaðar til þess að stuðla að varanlegri lausn á vanda í atvinnumálum umræddra byggðarlaga. Gert er ráð fyrir að Byggðastofnun verði falið þetta verkefni og hefur stofnunin rúmar heimildir til að móta reglur um framkvæmdina. Með þessari ákvörðun undirstrika stjórnarflokkarnir þann ásetning sinn að gera íbúum í sjávarplássum landsbyggðarinnar kleift að nýta áfram þá auðlind sem er grundvöllur byggðarinnar þótt tímabundið geti blikur verið á lofti í einstökum byggðarlögum.

Leikreglur þurfa að vera þannig að dugmiklir menn geti hafið atvinnurekstur og náð árangri og þannig geti atvinnulíf blómstrað á nýjan leik. Ég hika ekki við að segja að hér er um að ræða eina stærstu aðgerð í byggðamálum á kjörtímabilinu. Fleiri atriði þarfnast endurskoðunar og má þar nefna að samræma þarf samkeppnisskilyrði innan greinarinnar, sérstaklega hef ég í huga athugun á aðstöðu landvinnslunnar í samanburði við sjóvinnsluna, ekki síst þar sem fyrir liggur að útflutningsverðmæti frá landvinnslu er verulega hærra en frá sjóvinnslunni og getur munað um allt að 40%.

Ég vil hins vegar leggja þunga áherslu á að endurskoðun laganna er ætlað að þróa gildandi fyrirkomulag sem hefur um margt reynst vel og nægir að nefna að sjávarútvegurinn hefur á undanförnum árum niðurskurðar í þorksveiðum eftir sem áður skilað miklum verðmætum í þjóðarbúið. Mér er til efs að nokkur önnur atvinnugrein hefði náð viðlíka árangri. Stöðugleiki er nauðsynlegur í þessari atvinnugrein enda þurfa stjórnendur fyrirtækja oft að taka ákvörðun til langs tíma. Þeir þurfa að geta treyst því að löggjafinn raski ekki forsendum ákvörðunar þeirra fyrirvaralaust. Nauðsynlegt er að þróa kerfið áfram en varast byltingarkenndar breytingar.

Herra forseti. Ég vil þá víkja að nál. meiri hluta sjútvn. sem birt er á þskj. 656, en það er svohljóðandi:

,,Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Ara Edwald, aðstoðarmann sjávarútvegsráðherra, og Kristján Skarphéðinsson og Árna Kolbeinsson frá sjávarútvegsráðuneyti, en Árni mætti einnig sem fulltrúi í sérfræðinganefnd sjávarútvegsráðherra. Þá komu á fund nefndarinnar Eiríkur Tómasson, Þorgeir Örlygsson og Baldur Guðlaugsson úr sérfræðinganefnd sjávarútvegsráðherra, Hólmgeir Jónsson og Sævar Gunnarsson frá Sjómannasambandi Íslands, Ágúst H. Elíasson, Arnar Sigurmundsson og Gunnar Tómasson frá Samtökum fiskvinnslustöðva, Björn Jónsson og Kristján Ragnarsson frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og Hinrik Greipsson frá Þróunarsjóði sjávarútvegsins. Einnig komu á fund nefndarinnar Benedikt Valsson og Guðjón A. Kristjánsson frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Hilmar Baldursson, Yngvi Harðarson, Jón Árnason og Arnar Kristjánsson frá Landssambandi útgerðarmanna kvótalítilla skipa, Sturla Erlendsson, Jón Steinn Elíasson, Kristján Guðmundsson og Óskar Þór Karlsson frá Samtökum fiskvinnslu án útgerðar og Árni Múli Jónasson, Þórður Ásgeirsson, Snorri Pálmason og Guðmundur Kristmundsson frá Fiskistofu. Loks komu á fund nefndarinnar Örn Pálsson og Arthur Bogason frá Landssambandi smábátaeigenda, Sigurður Líndal prófessor, Magnús Jóhannesson og Halldór Þorgeirsson frá umhverfisráðuneyti, Helgi Laxdal frá Vélstjórafélagi Íslands Júlíus Magnússon, Bragi Sigurðsson, Þórður Ásgeirsson og Sigurður Kristjánsson frá svæðisfélaginu Kletti, Norðurlandi eystra, Friðrik Már Baldursson og Ásgeir Daníelsson frá Þjóðhagsstofnun og Guðmundur Malmquist og Bjarki Bragason frá Byggðastofnun.

[14:15]

Umsagnir um málið bárust nefndinni frá Þjóðhagsstofnun, Verslunarráði Íslands, Strandveiðifélaginu Króki, Vélstjórafélagi Íslands, Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Sjómannasambandi Íslands, Vinnumálasambandinu, Samtökum fiskvinnslu án útgerðar, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, Landssamtökum útgerðarmanna kvótalítilla skipa, Fjórðungssambandi Vestfirðinga, Hafrannsóknastofnun, ASÍ og Landssambandi smábátaeigenda.

Í dómi Hæstaréttar 3. desember sl. í máli nr. 145/1998: Valdimar Jóhannesson gegn íslenska ríkinu var dæmd ógild sú ákvörðun sjávarútvegsráðuneytisins 10. desember 1996 að hafna umsókn Valdimars um almennt og sérstakt veiðileyfi. Kemur fram í forsendum dómsins að ákvæði 5. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, sé í andstöðu við jafnræðisreglu 1. mgr. 65. gr. stjórnarskrárinnar og þau sjónarmið um jafnræði sem gæta þarf við takmörkun á atvinnufrelsi skv. 1. mgr. 75. gr. hennar að því leyti sem leyfi til veiða í fiskveiðilandhelgi Íslands séu til frambúðar bundin við skip sem haldið var til veiða á ákveðnum tíma.

Í ljósi dóms þessa þótti nauðsynlegt að leggja til breytingar á lögum um stjórn fiskveiða og skipaði sjávarútvegsráðherra nefnd sérfræðinga sem skilaði til hans tillögum að breytingum. Í framhaldi af því lagði ríkisstjórnin fram frumvarp þetta. Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt með umfangsmiklum breytingum sem gerðar eru tillögur um í sérstöku þingskjali. Þær helstu eru eftirfarandi:

1. Meiri hlutinn leggur til að einungis verði heimilt að veita fiskiskipi eina gerð veiðileyfis, þ.e. veiðileyfi með almennu aflamarki, veiðileyfi með aflamarki sem úthlutað verði samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II (krókaaflamarki), veiðileyfi með sóknardögum eða leyfi með þorskaflahámarki, sem falla mun úr gildi að loknum aðlögunartíma 1. september 2000.

2. Meiri hlutinn leggur til að frá og með 1. september 2000 skuli bátar fá leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum að nánari skilyrðum uppfylltum. Verða þeir sem þá leið velja að tilkynna Fiskistofu um það val sitt fyrir 1. mars 1999. Heimilt verði að flytja sóknardaga innan hvers fiskveiðiárs eða varanlega milli báta sem leyfi hafa til veiða í handfærakerfi með dagatakmörkunum. Þó verði óheimilt að flytja hlutfallslega fleiri sóknardaga frá báti umfram þá daga sem fluttir hafa verið til báts en nemur hlutfallslegri nýtingu bátsins á úthlutuðum sóknardögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998. Skuli í því sambandi miðað við meðaltal af sóknardaganýtingu fiskveiðiáranna. Verði sóknardagar fluttir frá báti skuli þeir sóknardagar sem báturinn hefur eftir flutninginn ekki vera fleiri en mismunur þess fjölda sóknardaga sem heimilt var að flytja frá bátnum og þeirra sóknardaga sem fluttir voru, að teknu tilliti til sóknardaga sem fluttir hafa verið til bátsins. Verði sóknardagar fluttir til stærri báts í brúttótonnum talið en sá sem sóknardagar verði fluttir af skuli skerða flutta sóknardaga í hlutfalli við stærðarmun bátanna og broti sleppt. Á sama hátt skuli skerða sóknardagafjölda báts sem er stækkaður. Þá skuli með sama hætti fjölga sóknardögum sem fluttir eru til minni báts. Í öllum tilvikum verði skylt að tilkynna Fiskistofu um flutning sóknardaganna. Þá leggur meiri hlutinn til að óheimilt verði að veita nýjum bátum sem eru 6 brúttótonn eða stærri leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum. Einnig leggur meiri hlutinn til að óheimilt verði að stækka bát sem hefur leyfi til handfæraveiða með dagatakmörkunum þannig að hann verði 6 brúttótonn eða stærri. Meiri hlutinn leggur til að sameiginlegur þorskafli þessara báta verði á hverju fiskveiðiári sama hlutfall af 13,75% af heildarþorskafla hvers fiskveiðiárs og nam samanlagðri hlutdeild þessara báta í 21.000 lestum miðað við reiknað þorskaflahámark skv. 2. gr. laga nr. 83/1995, auk aflaheimilda sem úthlutað skal samkvæmt ákvæði til bráðabirgða II. Leyfilegur fjöldi sóknardaga slíkra báta á hverju fiskveiðiári verði ákveðinn fyrir hvert fiskveiðiár með því að reikna meðalþorskafla á hvern leyfðan sóknardag næstliðins fiskveiðiárs og deila þeirri tölu í hámarksþorskafla þessara báta á fiskveiðiárinu. Skuli sóknardögum fækka eða fjölga um heila daga og broti sleppt. Þó leggur meiri hlutinn til að sóknardögum skuli aldrei fækka meira en 25% milli fiskveiðiára. Meiri hlutinn leggur til að á yfirstandandandi fiskveiðiári og því næsta verði þeim er þessa leið velja heimilt að stunda veiðar í 23 daga, án takmarkana á heildarafla.

3. Meiri hlutinn leggur til að heimilt verði að flytja aflamark milli skipa sem nú stunda veiðar með dagatakmörkunum án undangenginna viðskipta á Kvótaþingi. Þá leggur meiri hlutinn til að einungis verði heimilt að framselja aflamark báts sem er minni en 6 brl. eða brúttótonn til báts eða báta undir þeim stærðarmörkum. Ef bátur minni en 6 brl. eða brúttótonn verði stækkaður umfram þau mörk verði einungis heimilt að framselja þann hluta aflamarks bátsins sem leiddur verði af þeirri aflahlutdeild sem báturinn hafði fyrir stækkun til báta sem eru undir sömu stærðarmörkum.

4. Meiri hlutinn leggur til að þeir bátar sem stundað hafa veiðar með línu og handfærum með dagatakmörkunum eða þorskaflahámarki, aðrir en þeir sem velja fyrir 1. mars 1999 að fara inn í nýtt dagakerfi með framseljanlegum sóknardögum, skuli fá lengri aðlögun að aflamarkskerfi en frumvarpið gerir ráð fyrir. Þá verði sóknardagar þeirra fleiri en frumvarpið gerir ráð fyrir, þ.e. 32 fyrir báta sem stunda veiðar með línu og handfærum en 40 fyrir báta sem nota handfæri eingöngu.``

Gildir þessi dagafjöldi fyrir bæði fiskveiðiárin, það yfirstandandi og það næsta.

,,5. Meiri hlutinn leggur til að við reikning aflahlutdeildar hvers báts sem stundar veiðar með dagatakmörkunum verði skipt milli þeirra á grundvelli aflareynslu þannig að 80% ákvarðist á grundvelli fiskveiðiáranna 1996/1997 og 1997/1998 og 20% á grundvelli reiknaðs þorskaflahámarks skv. 2. gr. laga nr. 83/1995. Þó skuli enginn bátur fá minni aflahlutdeild en 500 kg, miðað við óslægðan fisk.

6. Meiri hlutinn leggur til að hlutur báta sem veiða með línu og handfærum eða handfærum eingöngu verður aukinn um 601 lest af þorski eða um liðlega 20% og skiptist þessi aflahlutdeild milli þeirra sem velja veiðar með krókaaflamarki og þeirra sem velja veiðar með handfærum með dagatakmörkunum. Verður hlutdeildinni skipt milli þeirra í samræmi við aflareynslu.

7. Meiri hlutinn leggur til að á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með 2005/2006 skuli úthluta tilteknu magni aflamarks til báta sem höfðu aflahlutdeild 1. desember 1998 og eru minni en 200 brúttótonn, enda hafi þeir landað þorski á fiskveiðiárunum 1996/1997 eða 1997/1998. Skuli úthlutun til einstakra báta miðast við heildaraflamark þeirra í þorskígildum talið. Skuli við útreikning miðað við aflahlutdeildarstöðu bátanna 1. desember 1998, úthlutað heildaraflamark fiskveiðiársins 1998/1999 og verðmætastuðla á því fiskveiðiári, þó þannig að enginn bátur fái meira en 100% aukningu á þorskaflahámarki og enginn hærri úthlutun en 10 lestir miðað við óslægðan fisk. Skuli heildaraflaheimildir einstakra skipa aldrei verða meiri en 450 þorskígildislestir eftir úthlutun. Meiri hlutinn leggur einnig til að óháð úthlutun samkvæmt framansögðu skuli úthlutað til aflamarksbáta minni en 6 brl. eða 6 brúttótonn, sem 1. september nk. hafa jafnháa eða hærri aflahlutdeild og 1. desember sl. og hafi landað þorskafla á fiskveiðiárunum 1996/1997 og 1997/1998, hækkun á aflahlutdeild þeirra um 15% í þorski.

8. Meiri hlutinn leggur til að á fiskveiðiárunum 1999/2000 til og með 2005/2006 hafi Byggðastofnun til ráðstöfunar aflaheimildir sem nemi 1.500 þorskígildislestum, miðað við óslægðan fisk, til að styðja byggðarlög sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarúvegi. Skuli þeim úthlutað í samráði við viðkomandi sveitarstjórnir. Skuli umræddar aflaheimildir dragast frá leyfðum heildarafla af þeim tegundum er þar um ræðir.

9. Meiri hlutinn leggur til að sjávarútvegsráðherra skipi nefnd til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða og skuli þeirri endurskoðun lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001. Gerir meiri hlutinn ráð fyrir að nefndin verði skipuð á breiðum grunni.``

Undir þetta nefndarálit rita Kristinn H. Gunnarsson formaður, Árni R. Árnason, Vilhjálmur Egilsson, Einar Oddur Kristjánsson, Hjálmar Árnason, Guðmundur Hallvarðsson og Stefán Guðmundsson.

Að lokum vil ég víkja að spurningu sem hv. 4. þm. Vestf. beindi til mín um hitt frv. sem við höfum haft til umfjöllunar undanfarnar vikur, svonefnt grásleppufrv. Ég get tekið að mér að bera boð milli hans og fulltrúa þingflokks hans í nefndinni. Frá því var greint í nefndinni og ákveðið að bíða með afgreiðslu þess máls um nokkurra vikna skeið, enda er það öðruvísi vaxið en þetta frv. og engin knýjandi þörf talin á að afgreiða það á næstu dögum. Verður það tekið til umræðu og umfjöllunar í nefndinni að nýju þegar þing kemur saman að loknu hléi og væntanlega afgreitt úr nefndinni fljótlega þar á eftir.