Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 14:33:20 (2951)

1999-01-11 14:33:20# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[14:33]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er mikil einföldun að halda því fram að verðmæti sóknarréttar séu að koma til eða munu koma til eingöngu eftir að þetta frv. verður að lögum ef svo fer. Það vita þeir sem fylgjast með í íslenskum sjávarútvegi að kaupendur að sóknardagabátum hafa greitt fyrir þá báta verð sem nemur ekki bara verði bátsins heldur líka verði veiðiheimildarinnar. Ég hef dæmi um bát sem keyptur var á 11 millj. kr. og þar af voru greiddar 9 millj. fyrir veiðileyfið sjálft eða aðganginn að sóknardagapottinum. Það er nákvæmlega þetta sem sérfræðingar okkar í nefndinni eða sem komu fyrir nefndina eiga við þegar þeir segja að þetta er of há hindrun nýrra manna inn í sóknardagakerfið að þeir þurfi að kaupa veiðileyfi svona háu verði. Því verði að skilgreina réttindin og skipta þeim upp í smærri einingar, rétt eins og gert er í aflamarkskerfinu og ég hef ekki heyrt hv. þm. mæla mjög mikið gegn aflamarkskerfinu hingað til. Ég vil líka rifja upp að hv. þm. sat í ríkisstjórn og var ráðherra árið 1990 þegar lögum var breytt þannig að framsal var tekið upp í þeirri mynd sem það þekkist í dag og það kemur mér á óvart ef hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon ætlar að mæla gegn því en ég fagna því ef hann hefur skipt um skoðun á því máli.