Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 14:37:36 (2953)

1999-01-11 14:37:36# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[14:37]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var niðurstaða meiri hlutans þegar verið var að móta þessa tillögu að það kæmi til framkvæmda á næsta fiskveiðiári því það er fremur óhægt um vik að taka upp ný ákvæði af þessu tagi á miðju fiskveiðiári. Vilji hv. þm. hins vegar að breytingar verði á því má taka það til athugunar en ég get engu um það svarað. Þetta var niðurstaða okkar úr þessari vinnu á síðustu vikum. Það er alveg rétt að framsali veiðiheimilda fylgir sá ókostur að upp getur komið staða eins og gerist fyrir austan og hefur reyndar gerst áður á mörgum öðrum stöðum. Það er einmitt þess vegna sem fulltrúar stjórnarflokkanna vilja taka upp ákvæði af þessu tagi, til að geta brugðist við og lagt sitt af mörkum í því skyni að dugandi athafnamenn geti endurreist atvinnulíf á þeim stöðum þar sem svona fer.