Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 14:41:24 (2956)

1999-01-11 14:41:24# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[14:41]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir minnihlutaáliti sjútvn. en þann minni hluta skipar ásamt mér hv. þm. Lúðvík Bergvinsson. Þetta álit liggur fyrir á þskj. 660.

Herra forseti. Við erum að fjalla um 343. mál. Frv. þetta og brtt. við lög um stjórn fiskveiða eru viðbrögð ríkisstjórnar Íslands og meiri hluta sjútvn. við dómi Hæstaréttar frá 3. des. 1998 í máli Valdimars Jóhannessonar gegn íslenska ríkinu. Það er mat minni hluta nefndarinnar að viðbrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta sjútvn. gangi í raun þvert á dóm Hæstaréttar.

Pólitísk viðbrögð ríkisstjórnarinar og meiri hluta sjútvn. við dómi Hæstaréttar eru þau að leggja fram frv. og brtt. sem miða að því að vernda enn frekar en áður atvinnuréttindi þeirra sem fyrir eru í greininni með því að skilgreina öll veiðiréttindi niður í framseljanlegar einingar, kvóta eða sóknardaga. Það er mat minni hlutans að með því að skilgreina veiðiréttinn þannig sé Alþingi í raun að lýsa því yfir að veiðiréttur í auðlindinni sé ríkari nú hjá þeim sem fá honum úthlutað en verið hefur. Við hljótum að spyrja, herra forseti, var það vilji Hæstaréttar? Var það það sem menn í raun og veru lásu út úr dómi Hæstaréttar?

Minni hlutinn óttast að með þessu sé verið að veikja ákvæði 1. gr. laga um stjórn fiskveiða um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum, auk þess að bótaréttur þeirra sem fá úthlutað aflahlutdeild í auðlindinni verði ríkari komi til þess að stjórnvöld vilji víkja frá núverandi úthlutunarkerfi og taka upp nýjar aðferðir við stjórnun á auðlindanýtingu sjávar. Það er einnig mat minni hlutans að sú spenna sem verið hefur í lögunum um stjórn fiskveiða vegna þeirrar mótsagnar sem felst í sameignarákvæði 1. gr. laganna annars vegar og nánast fullkomnum eignarrétti á veiðiheimildum hins vegar muni aukast verði tillögur ríkisstjórnar og meiri hluta sjútvn. að lögum. Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um það, herra forseti, að það er einmitt sú spenna sem hefur orsakað þá úlfúð, og þá óánægju og það ósætti sem hefur verið um lögin um stjórn fiskveiða. Það vekur mér undrun og fleirum að nú undir þessum kringumstæðum skuli gripið til aðgerða sem auka á þessa spennu frekar en hitt.

Með þessum breytingum er því stigið skref áfram á þeirri leið að einkavæða auðlindir sjávar við Íslandsstrendur. Minni hlutinn telur að með þessum viðbrögðum sé gengið þvert á dóm Hæstaréttar og að meiri hluti Alþingis sé á miklum villigötum sem geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir þróun íslensks samfélags.

Í fyrirliggjandi frv. og brtt. felst að ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis hefur ákveðið að láta allar röksemdir Hæstaréttar í umræddum dómi frá 3. desember sl. sem vind um eyru þjóta að undanskildri þeirri sem kveður á um að 5. gr. núgildandi fiskveiðistjórnarlaga fái ekki staðist ákvæði stjórnarskrárinnar eins og hún stendur nú. Aðrar röksemdir Hæstaréttar eru álitnar hafa litla sem enga þýðingu; í besta falli óheppilegur misskilningur dómenda við Hæstarétt.

[14:45]

Minni hlutinn fordæmir þessi vinnubrögð og viðbrögð meiri hlutans og telur að með þeim sé ríkisstjórnin og meiri hluti Alþingis að gefa Hæstarétti langt nef.

Samandregin virðast viðbrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hluta Alþingis vera þessi:

1. Öll veiðiréttindi, aflahlutdeild og sóknardagar, skulu skilgreind sem framseljanleg sérréttindi þeirra sem fyrir eru í kerfinu. Þessi niðurstaða er að okkar mati þveröfug við niðurstöðu Hæstaréttar þar sem grundvallaratriðin voru jafnræði og sameignarákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða.

2. Allar endurnýjunar- og úreldingarreglur þarf að afnema nema í smábátakerfinu. Þar virðist það ekki að dómi sérfræðinga og meiri hluta sjútvn. stangast á við dóm Hæstaréttar að viðhalda endurnýjunar- og úreldingarreglum. En þar virðist vera í lagi, samkvæmt þessari sérstöku lögfræði, að viðhalda þessum reglum út þetta fiskveiðiár og það næsta.

Herra forseti. Þessi niðurstaða er í besta falli afar sérkennileg en hlýtur líka að vera lögfræðilega hæpin því að ef hægt er að finna rök fyrir því að tilteknar reglur fari í bága við niðurstöðu Hæstaréttar þegar þær eiga við sum skip ætti það sama að eiga við um hin líka.

Svo í þriðja lagi, herra forseti, þá virðast viðbrögð ríkisstjórnarinnar og meiri hlutans vera þau að setja þurfi upp tímabundna millifærslusjóði. Og menn geta farið yfir álit Hæstaréttar og velt því fyrir sér hvar fram komi krafa um slíkt. Annar þessara sjóða á að vera fyrir aflamarksbáta undir 200 brúttótonnum að stærð, án tillits til þess af hverju kvóti manna er sá sem hann er. Hinn á að vera til úthlutunar hjá Byggðastofnun. Alls er um að ræða verðmæti sem nema a.m.k. 3 milljörðum kr. sem þannig verður stýrt í tiltekna farvegi árlega næstu sjö árin.

Minni hlutinn telur að engan veginn sé tryggt að jafnræðis verði gætt við þessar úthlutanir og minnir á álit sem áður hafa komið fram um ,,potta`` af þessu tagi sem í flestum tilfellum þykja ekki hafa náð þeim tilgangi sem að var stefnt.

Herra forseti. Það er ástæða til þess að rifja það upp að í upphafi þessa kjörtímabils var komið á laggirnar Byggðastofnunarpotti númer eitt. Hann var einungis upp á fimm hundruð lestir og gekk í tvö ár. Þá þótti hann ekki brúklegur lengur. Nú er settur á nýr pottur, þrefalt stærri og sú réttlæting á tilurð þessa nýja Byggðastofnunarpotts sem fram kom í máli formanns nefndarinnar er ekki sannfærandi, herra forseti. Það er ekki boðlegt að ákvæði eins og þetta, sem gætu snúist um ákveðin grundvallaratriði, séu sett inn á þeim hraða sem það er gert á milli umræðna í þinginu.

Menn eru að tala hér um umtalsvert magn sem úthlutað yrði af hálfu Byggðastofnunar fyrir umtalsverða peninga, milljarð, og menn telja að þetta þurfi ekki frekari ígrundunar við en þeirrar að þessu sé skellt inn í brtt. og síðan bara renni það hér í gegn.

Við hljótum hins vegar að spyrja ýmissa spurninga. Og þeim spurningum fjölgar vegna þeirrar stöðu sem nú er að koma upp, verði þetta frv. og þessar brtt. að lögum. Verði frv. og brtt. að lögum þá er komin upp sú staða að menn geta fengið veiðileyfi, a.m.k. til að hengja upp á vegg heima hjá sér. En menn geta líka keypt sér skip. Og hvar eiga þeir aðilar að fá kvóta, hvar eiga þeir að fá veiðirétt?

Það er alveg ljóst að sumir þeirra munu þurfa að kaupa sér hann. Munu aðrir fá úthlutað úr þessum potti Byggðastofnunar? Og hvernig tryggjum við að jafnræðis sé þá gætt? Ef þetta á að vera liður í svona byggðaverkefnum þar sem vinnslan kemur við sögu, hvernig getum við þá tryggt eðlilegar samkeppnisaðstæður? Og af því að það er ljóst að sums staðar eru menn að berjast í því að kaupa réttindi, hvernig getum við þá réttlætt það að einhverjir aðrir þurfi ekki að gera það? Snýst þetta ekki fyrst og fremst um það að allir hafi jafnan aðgang að veiðiréttinum, frekar en því að hér sé æ ofan í æ komið á úthlutunarkerfum og að þessu sinni geðþóttaúthlutunarkerfi til viðbótar?

Herra forseti. Þetta er eitt þeirra atriða sem ég tel að þurfi að skoða mun betur en gert hefur verið. Ef menn hafa áhuga á því að koma hér upp kerfi sem við getum kallað byggðakvótakerfi þá er rétt að við skoðum það sem slíkt. Þá getum við velt því fyrir okkur hvort ekki sé eðlilegra að slíkum kvóta væri úthlutað heima fyrir. Af hverju á stjórn Byggðastofnunar að fara að úthluta veiðiheimildum? Og eftir hvaða reglum ætlar hún að gera það?

Þó það komi fram í brtt. að það eigi að gerast í samráði við sveitarstjórnir þá er ekkert um það hvað á síðan frekar að leggja til grundvallar. Jú, ef menn hafa orðið fyrir áföllum vegna kerfisins. En ætli það séu ekki býsna margir sem telja sig hafa orðið fyrir slíkum áföllum? Og eru það þá bara áföll vegna kerfisins eða eru það áföll vegna samdráttar í afla? Eru það áföll af því að einhver seldi burtu skip og veiðiheimildir eða eru það áföll af því að reksturinn hefur gengið svo brösuglega? Eru það áföll vegna þess að brestir hafa orðið á mörkuðum erlendis? Eru það áföll vegna þess að ekki hefur verið haldið nógu vel á? Eru það áföll af því að menn fá ekki að gera það sem þeir vilja gera, eins og sveitarstjórnin í Breiðdalsvík sem vildi fá að ganga inn í kaupin en fékk ekki?

Til þess að við sem horfum á þetta gerast núna og sjáum fram á það að þetta ákvæði verði borið undir atkvæði á Alþingi, getum skoðað þetta og tekið afstöðu til þess þá þarf að svara býsna mörgum spurningum sem ekki hefur verið svarað. Og það er ekki fullnægjandi, herra forseti, að formaður nefndarinnar komi í ræðustól og segi okkur hvað honum finnst, jafnvel þó hann sitji líka í stjórn Byggðastofnunar. Það er ekki fullnægjandi. Það uppfyllir ekki þær kröfur sem við eigum að gera þegar verið er að setja ákvæði inn í lögin um stjórn fiskveiða, ákvæði um að flytja til mikil verðmæti. Við vitum ekki einu sinni hvaða kröfur á síðan að gera til þeirra sem fá þetta. Hvaða kröfur verða það? Verða þeir að sýna sínu byggðarlagi sérstakan trúnað? Verða þeir að landa aflanum á markaði? Verður að vinna aflann heima fyrir?

Herra forseti. Það væri hægt að standa hér daglangt og spyrja og velta vöngum. Það segir mér og býsna mörgum öðrum að þetta er einmitt ákvæði sem þarf að bíða og ef menn eru með hugmyndir um byggðakvóta þá skulum við skoða það í rólegheitum og við skulum gera þetta þannig að þetta verði ekki ákvæði sem kemur óorði á eitthvað sem heitir byggðastefna og landsbyggð, umfram það sem orðið er.

Það sem ég er hrædd við, herra forseti, er að menn setji vanhugsað inn í lögin ákvæði sem bera það í sér að ákvarðanir á grundvelli þeirra, af því að þau eru svo óljós og illa unnin, geti orkað tvímælis og þá er verr af stað farið en heima setið.

Gamli Byggðastofnunarpotturinn var með tiltölulega afmarkaðar reglur og þær voru ákvarðaðar hér og útfærðar nánar. En þær voru of afmarkaðar. Menn sögðu að þær væru of afmarkaðar. Þeim var ekki breytt heldur var potturinn lagður af. Þar sem sá pottur var lagður af hlýt ég líka að velta því fyrir mér af hverju þurfi þá aftur núna að taka upp nýjan pott, þrefalt stærri. Af hverju þarf að gera það núna? Það er alveg klárt að með þessum potti er verið að bregðast við þeim úthlutunarreglum sem eru í kerfinu. Af hverju er ekki frekar skoðað hvernig þessar úthlutunarreglur eru? Af hverju vilja menn fara inn í þetta skömmtunarfar sem hér er verið að leggja til?

Herra forseti. Ég held að okkur væri nær að skoða úthlutunarkerfið, reyna að leita jafnræðis í gegnum úthlutunarkerfið, gefa athafnamönnum, gefa áhugasömum, gefa kraftmiklum einstaklingum og félögum í byggðunum kost á því að fá aflaheimildir í gegnum réttlátt úthlutunarkerfi frekar en að fara í farveg sem þennan. Ég endurtek það, herra forseti, að ég tel að ef menn vilja fara í byggðakvóta af einhverju tagi þá eigi að ræða það sérstaklega sem aðferð til úthlutunar, en menn eigi ekki að koma að málinu eins og hér er gert, snara inn lítt hugsuðu ákvæði á milli umræðna og sjá síðan til hvað gerist. Það gengur ekki að mínu mati, herra forseti.

Við 1. umr. um viðbrögð ríkisstjórnarflokkanna við dómi Hæstaréttar kom strax fram það álit minni hluta sjútv. að þau frumvörp sem þá lágu fyrir svöruðu ekki dómi Hæstaréttar og væru því engan veginn fullnægjandi. Sú skoðun var þá þegar sett fram að taka bæri alla löggjöfina um stjórn fiskveiða til endurskoðunar enda til þess ærin rök að Alþingi freisti þess að setja réttlátari reglur en þær sem nú gilda um veiðiréttindi í lögsögunni og að þær breytingar þyrftu fyrst og fremst að lúta að reglum um úthlutun veiðiheimilda.

Yfirferð yfir málið í hv. sjútvn. og með þeim aðilum sem treystu sér til að setja fram ígrundað álit á þeim stutta tíma sem nefndinni var skammtaður hefur enn styrkt það álit minni hlutans að það þurfi að fara yfir alla löggjöfina og skoða úthlutunarkerfið sérstaklega. Og það verður að segjast eins og er, herra forseti, að æfingar meiri hluta sjútv. juku heldur ekki beinlínis traust á þeim aðgerðum sem grípa á til. Með viðbrögðum ríkisstjórnar og meiri hluta nefndarinnar er að mati minni hlutans ekki verið að mæta efnislegri niðurstöðu Hæstaréttar heldur velja þeir að lesa dóminn þannig að einungis sé um tiltekin og takmörkuð viðbrögð að ræða, viðbrögð sem byggjast á pólitískum viðhorfum og þeim vilja ríkisstjórnarflokkanna að einkavæða að fullu auðlindir sjávar.

Minni hlutinn bendir á að í forsendum dómsins undirstrikar Hæstiréttur ákvæði 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða þar sem kveðið er á um sameign þjóðarinnar á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Flestir hafa metið það svo að þannig hafi Hæstiréttur í raun styrkt sameignarákvæðið. Sér þess stað í tillögum ríkisstjórnarinnar eða meiri hlutans? Ég spyr.

Jafnframt vekur minni hlutinn athygli á þeirri staðreynd að með viðbrögðum sínum mæti meiri hlutinn hvorki því sem samkvæmt Hæstarétti, að sé lögð ,,fyrirfarandi tálmun við því, að drjúgur hluti landsmanna geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi`` né hinu sem kemur í framhaldi þ.e. ,,sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru``.

[15:00]

Herra forseti. Það breytir litlu um atvinnurétt manna frá því sem verið hefur þótt þeir megi kaupa sér skip og veiðileyfi upp á vegg. Skip og veiðileyfi hafa nefnilega alla tíð verið til sölu og eru enn. Þeir sem kaupa skip og veiðileyfi þurfa eftir sem áður að kaupa aðganginn að auðlindinni, aflamark eða sóknardaga, af þeim sem hafa fengið slíkan rétt afhentan á grundvelli skipaeignar á tilteknu tímabili. Ekki verður séð að efnisleg breyting verði að þessu leyti á högum þeirra sem vilja njóta atvinnuréttar í sjávarútvegi og eiga að geta gert það á grundvelli jafnræðis.

Þau frumvörp sem fyrir liggja svara ekki hinni efnislegu niðurstöðu dómsins og er ekki boðlegt að halda því fram, til að slá ryki í augun á fólki, að fimm hæstaréttardómarar hafi allir í senn misskilið lögin um stjórn fiskveiða og þau lykilhugtök sem þar eru á ferðinni, veiðileyfi og veiðiheimildir. Í dóminum er talað þannig um veiðiheimildir að flestir viðurkenna að orðalagið gefi vísbendingu um hvers sé að vænta ef frekar verður látið á það reyna hvort lögin standast svo breytt. Sérstaklega varðandi 5. gr. og úreldingarreglur.

Í lögfræðiálitum sem Landssamband smábátaeigenda og Samtök fiskvinnslu án útgerðar hafa aflað er á það bent að hvergi í dóminum sé minnst á úreldingu fiskiskipa, hvergi að löggjafanum sé óheimilt að grípa til þeirrar aðgerðar að takmarka stærð fiskiskipaflotans. Í dóminum segi einungis að ekki sé rétt að binda veiðileyfi við þau skip ein sem fengu veiðileyfi á tilteknum tíma.

Því ætti, herra forseti, að endurskoða lögin í heild því að ljóst er að til að ákvæði stjórnarskrár séu virt, svo og 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða, einkum í ljósi þess ákvæðis sem kveður á um sameign þjóðarinnar á fiskstofnum á Íslandsmiðum, herra forseti, þarf að endurskoða úthlutunarreglurnar. Annars verður óþolandi mismunun og óréttlæti áfram til staðar.

Minni hlutinn leggur því til, herra forseti, hið sama og verið hefur hér allt frá þeirri utandagskrárumræðu sem efnt var til eftir að dómur réttarins féll, að Alþingi endurskoði lögin um stjórn fiskveiða í ljósi dóms Hæstaréttar og þeirra viðhorfa sem þar koma fram. Sett verði sólarlagsákvæði í gildandi lög sem taki mið af þeim tíma sem þingið þarf til að endurskoða lögin og ganga frá frv. til nýrra laga.

Auk þess sem fram kemur í rökstuðningi Hæstaréttar í máli nr. 145/1998 verði eftirtalin atriði alþingismönnum leiðarljós:

Í fyrsta lagi segir í 1. gr. gildandi laga um stjórn fiskveiða: að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, að stuðlað verði að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og traustri atvinnu og byggð í landinu og að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.

Og það er athyglisvert, herra forseti, og ástæða til þess að vekja athygli á því vegna þess hvernig þær hugmyndir sem hér er fjallað um eru settar eru fram af hálfu ríkisstjórnar og meiri hluta sjútvn. Þetta eru þau ákvæði sem eru í gildandi grein laga um stjórn fiskveiða.

Það sem í öðru lagi á að vera alþingismönnum leiðarljós við endurskoðun laganna um stjórn fiskveiða, er það sem Hæstiréttur segir og nú vitna ég beint í dóminn:

,,Með þessu lagaákvæði er lögð fyrirfarandi tálmun við því, að drjúgur hluti landsmanna geti, að öðrum skilyrðum uppfylltum, notið sama atvinnuréttar í sjávarútvegi eða sambærilegrar hlutdeildar í þeirri sameign, sem nytjastofnar á Íslandsmiðum eru.``

Í ljósi þessa þarf nýtt úthlutunarkerfi veiðiheimilda sem stenst jafnræðisreglu og jafnar aðgengi þeirra sem eru í útgerð eða vilja hasla sér völl að þeim veiðiheimildum sem í boði eru. Í dómi Hæstaréttar er rætt um sambærilega hlutdeild í sameigininni og því verður að mæta með auðlindagjaldi sem getur myndast við uppboð veiðiheimilda eða veiðileyfagjaldi sem lagt yrði á með öðrum hætti.

Og í þriðja lagi, herra forseti, ættu þær alþjóðlegu samþykktir sem Ísland hefur skuldbundið sig til að framfylgja og varða auðlindanýtingu og sjálfbæra þróun að vera alþingismönnum leiðarljós. Hér vísa ég til Ríó-yfirlýsingarinnar en einnig loftslagssamningsins og Kyoto-bókunarinnar, en losun koltvíoxíðs vegna eldneytisnotkunar fiskiskipa var á árinu 1997 33% af heildarlosun okkar. Hömlulaus stækkun flotans samræmist því greinilega illa því markmiði að stemma stigu við auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda, einkanlega í ljósi þeirra markmiða sem Kyoto-bókunin leggur okkur á herðar, að hafa náð árið 2008.

Herra forseti. Ég hef lokið því að fara yfir nál. en undir það skrifar ásamt mér Lúðvík Bergvinsson. Guðný Guðbjörnsdóttir hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu. Svavar Gestsson hefur einnig setið fundi nefndarinnar. Hann er hér staddur og mun gera nánari grein fyrir viðhorfum sínum.

Herra forseti. Ég lét þess getið þegar ég kom upp í dag til að fjalla um störf þingsins að ekki hefði gefist tóm til þess í nefndinni, vegna þess hraða sem verið hefur á vinnunni, að fara yfir þau álit sem nefndinni hafa verið send. Þess hefði þó sannarlega verið þörf vegna þess að þar koma fram ýmis atriði sem hefðu getað verið gott veganesti. Sumir komu á fund nefndarinnar og fylgdu máli sínu úr hlaði, aðrir gerðu það ekki. Ég vil nefna, herra forseti, nokkur þeirra atriða sem fram hafa komið frá umsagnaraðilum sem sendu inn erindi.

Ég vil byrja á því að vísa til þess sem fram kemur í umsögn Vélstjórafélags Íslands. Það tekur undir þá breytingu sem frv. gerir ráð fyrir varðandi krókabátana. Nú er auðvitað spurning hvort það gengur eftir miðað við þær brtt. sem hér eru. Það sem máli skiptir er að Vélstjórafélagið er með fyrirvara við að heildarhlutur smábátanna verði aukinn frá því sem nú er. Rauði þráðurinn, herra forseti, í umsögnum þeirra sjómannafélaga sem komið hafa að er sá að hlutur sjómanna á aflamarksskipum verði að þessu sinni varinn en ekki á hann gengið vegna breytinga í smábátakerfinu eins og áður.

Sjómannasamband Íslands telur að frumvarpið hafi ekkert með dóminn að gera og að ekki sé tekið á þeim efnisatriðum sem dómurinn fjallar um. Sjómannasambandið bendir á að úthluta megi veiðiheimildum að nýju eftir ákveðnum reglum til þeirra skipa sem hafa verið að veiða síðustu ár. Jafnframt mætti setja inn í lögin að endurúthlutun fari fram, t.d. á fimm ára fresti. Stjórn Sjómannasambandsins varar við því að réttur smábátasjómanna verði enn aukinn á kostnað umbjóðenda sambandsins. Þetta, herra forseti, er eitt af því sem hefði mátt skoða nánar, þ.e. ábendingar um nýjar reglur við úthlutun veiðiheimilda. Menn eru í raun að biðja um aðra hugmyndafræði en þá sem unnið hefur verið eftir, að menn fái veiðiheimildum úthlutað, eins og Hæstiréttur orðar það, gagnvart veiðileyfunum sem rekja rétt sinn til skipaeignar á tilteknum tíma. Mönnum hefur fundist það óréttlátt vegna þess að þá hefur ekki skipt máli hvort menn nýta þennan rétt eða ekki. Ég hygg að samandregið megi segja að gagnrýnendur vilji sjá reglur sem miða úthlutun við að menn veiði upp í kvóta sinn, hvernig svo sem hann er fenginn, hvort sem hann er keyptur eða honum úthlutað ókeypis. Menn vilja ekki horfa upp á það að hægt sé að braska, hægt sé að versla með úthlutun veiðiheimilda ef menn ætli sér ekki að nýta þær.

Farmanna- og fiskimannasamband Íslands rifjar upp ábendingar sínar við setningu laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, um ósamræmi í frv. sem segja að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar á sama tíma og einstakir handhafar veiðiréttar hafi umtalsverðar tekjur af sölu á óveiddum fiski. Stjórn Farmanna- og fiskimannasambandsins vitnar til nýsamþykktrar ályktunar um ,,að með einhliða rétti útgerða til veiðileyfis og aflakvóta væri gengið á atvinnurétt sjómanna og fólks í sjávarbyggðum um allt land sem atvinnu hefði af fiskvinnslu.`` Sambandsstjórnin skorar á ríkisstjórn og Alþingi að endurskoða algerlega lögin um stjórn fiskveiða.

Farmanna- og fiskimannasambandið vísar í annað sem Hafrannsóknarstofnun gerir eðlilega líka að umtalsefni, en það eru vannýttir fiskstofnar. Spurningin er auðvitað hvort hægt sé eða vilji til að takmarka sókn í þá stofna sem ekki hafi ekki tekist að veiða. Farmanna- og fiskimannasambandið minnir á vannýtta fiskstofna og telur, eins og segir í texta þeirra, ,,að eigi verði þessum fiskstofnum hætta búin þó jafnræði og frjáls veiðiréttur gildi með veiðileyfi og fiskveiðar í þessum fisktegundum``.

Hér eru þeir að tala um, herra forseti: ýsu, skarkola, ufsa, steinbít, Íslandssíld, loðnu, humar og úthafsrækju. Dæmi svo hver fyrir sig um hvort óhætt sé að hleypa ótölulegum fjölda nýkeyptra skipa með ný veiðileyfi í þessa stofna.

Fundur sambandsstjórnar Farmanna- og fiskimannasambandsins lýsir yfir vanþóknun á framkomnu frv. og segir að það sé klætt í felubúning til þess ætlaðan að koma í kring breytingum á lögum um veiðar smábáta.

Þeir eru síðan með tilteknar ábendingar um breytingar við lögin sem varða upplýsingasöfnun Fiskistofu, sem ég sé ekki í tillögum meiri hlutans.

Hins vegar er augljóst, herra forseti, af þessu áliti að Farmanna- og fiskimannasambandið telur ekki að frv. eða þær tillögur sem hér liggja fyrir séu til að svara dómi Hæstaréttar heldur, eins og hér segir: ,,klætt í felubúning til þess ætlaðan að koma í kring breytingum á lögum um veiðar smábáta``.

Alþýðusamband Íslands lætir sig málið varða og telur að meginatriði dóms Hæstaréttar hafi verið reglur um úthlutun leyfa til veiða í atvinnuskyni, að þær hafi falið í sér brot á jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Ranglætið er fólgið í því að aðrir aðilar en þeir sem áttu skip þegar kvótakerfið var tekið upp skuli ekki eiga kost á að fá úthlutað veiðiheimildum. ASÍ telur að frv. þetta gangi ekki að neinu leyti gegn því ástandi að útvalinn hópur útgerðarmanna haldi áfram að hafa einkarétt á nýtingu sameignar þjóðarinnar. Alþýðusambandið bendir á leiðir til að mæta jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar, að úthluta fiskveiðiheimildum að nýju til þeirra skipa sem hafi verið að veiðum síðustu árin. Þá mætti úthluta viðbótarheimildum á annan hátt, segir Alþýðusambandið, t.d. dæmis með sölu eða uppboðsformi svo nýjum aðilum sé kleift að komast inn í greinina á jafnréttisgrundvelli.

[15:15]

Þá telur Alþýðusambandið einnig hugmynd að setja ákvæði inn í lögin um að endurúthlutun að hluta eða fullu færi fram með reglulegu millibili, t.d. á fimm ára fresti. Hér er enn á ný, herra forseti, tilraun til þess að finna leiðir til að mæta óánægju með það ástand að menn skuli fá úthlutað veiðirétti sem þeir nýta ekki en geta selt öðrum.

Landssamband smábátaeigenda sendi inn tvær umsagnir, herra forseti. Fyrst kom frá þeim umsögn sem að var mati minni hluta nefndarinnar mjög sérkennileg vegna þess að þar var landssambandið að fjalla um samkomulag sem þeir höfðu gert við hæstv. sjútvrh. um mál sín eða umbjóðenda sinna. Út frá því, herra forseti, má a.m.k. segja að stór hluti þeirra brtt. sem liggja fyrir hafa lítið sem ekkert með dóm Hæstaréttar að gera, einfaldlega vegna þess að viðræður voru komnar í gang og samkomulag lá fyrir um tilteknar breytingar á smábátahluta laganna um stjórn fiskveiða á milli landssambandsins og sjútvrh.

Rétt er að það komi fram að þetta samkomulag hefur aldrei verið kynnt í sjútvn. Enn vitum við fulltrúar minni hlutans ekkert hvað stendur í þessu samkomulagi en við höfum leitt líkur að því hvað það sé vegna þeirrar umsagnar sem við fengum frá landssambandinu og orða sem hafa verið látin falla. Það er afskaplega sérkennilegt að vera í þessari stöðu en svona er þetta. Seinni umsögn landssambandsins fjallaði einmitt um það þegar tillögur meiri hluta nefndarinnar voru komnar fram að það samkomulag sem þeir höfðu gert við hæstv. sjútvrh. væri sýnu betra fyrir umbjóðendur þeirra. Menn geta rétt ímyndað sér hvernig það er að vera í nefnd sem er að fjalla um málið og hafa þessar upplýsingar en vita ekkert um hvað samkomulagið snýst. Þetta hlýtur að vera að hluta til af tímaskorti, herra forseti, þar sem ekki var hægt að greina nefndinni frá þessu samkomulagi en það hefði vissulega þurft að gerast vegna þess að það hefur a.m.k. átt dálítinn þátt í bæði þeim vendingum sem málið hefur tekið og þeirri umfjöllun sem það hefur fengið.

Landssamband útgerðarmanna kvótalítilla skipa bendir einnig á að Hæstiréttur fjalli ekki eingöngu um hið almenna veiðileyfi heldur einnig og ekki síður um veiðiheimildir og telur hverjum manni ljóst að hið almenna veiðileyfi veiti engan aðgang að auðlindinni. Þeir telja að verð skipa muni falla eins og gerðist við afnám línutvöföldunar og að verð á aflaheimildum og hlutdeild muni hækka. Jafnframt spyrja þeir ef kvótaeigendum einum á að vera kleift að stunda veiðar við Ísland, eins og þar stendur: ,,Er þá víst að áhugi þeirra snúi að því að sjá landvinnslunni fyrir hráefni?`` Þeir fullyrða að strandveiðiflotinn hafi staðið fyrir jafnari hráefnisöflun fyrir landvinnsluna.

Þeir telja að engum manni detti í hug í fullri alvöru að einhver geti stundað utankvótaveiðar eingöngu enda komi 2. mgr. 3. gr. laga nr. 57/1996, um umgengni um nytjastofna sjávar, í veg fyrir slíkt. En þar segir, herra forseti:

,,Óheimilt er að hefja veiðiferð skips sem leyfi hefur til veiða í atvinnuskyni nema skipið hafi aflaheimildir sem telja má líklegt að dugi fyrir afla í ferðinni með hliðsjón af þeim veiðarfærum sem notuð eru.``

Og þeir halda hér áfram:

,,Getur Alþingi sett skorður við veiðum þar sem heildarafli sem Hafró mælir með næst ekki? Og það þess heldur að aðgangur sé takmarkaður við tiltekin skip en með því að útiloka önnur?``

Þá bendir Landssamband útgerðarmanna kvótalítilla skipa á jöfunarsjóðinn sem tæki sem mætti nota til annarra hluta en verið hefur og segjast hafa um það ákveðnar skoðanir sem tengjast landvinnslunni á landsbyggðinni en það munu m.a. vera hugmyndir um afla sem veiddur er samkvæmt úthlutun úr úr jöfnunarsjóði, þ.e. að þær veiðiheimildir verði óframseljanlegar og öllum afla landað á markað til að gera vinnslunni kleift að komast í það hráefni. Þeir telja frv. þetta og þau lög sem samþykkt verða á grundvelli þess muni koma kvótaeigendum einum til góða.

Landssamband ísl. útvegsmanna sendi umsögn sína einnig og lýsti áhyggjum af því ef skipum án veiðiheimilda fjölgaði og bentu á að kolmunnaskip í eigu útlendinga en skráð á Íslendinga ættu greiða leið inn í landið til veiða í þeim stofni. Fleiri hafa nefnt þennan ótta við að þessi opnun á skipafjölda í landhelginni gæti haft í för með sér að einhverjum erlendum aðilum þætti akkur í því að koma með skip inn í landhelgina, munstra þau á einhvern Íslending sem væri tilbúinn til leiksins og hefja síðan veiðar. Menn geta velt því fyrir sér hvort þetta á að vera mikið áhyggjuefni en ég hef orðið þess vör í umfjöllun fólks að menn telja ástæðu til að hafa áhyggjur af þessu af tveimur ástæðum. Annars vegar þeirri að auðvitað eigi ekki að vera til bakdyr inn í lögsöguna til að hefja veiðar á vannýttum stofnum eða stofnum sem aðrir hafa ekki nýtt og hins vegar sé þetta afskaplega slæmt þegar menn horfa til útblásturs eða mengunarreglna, horfa til loftslagssamningsins og þeirra skuldbindinga sem við þurfum að horfa til.

Vinnumálasamband samvinnufélaganna telur að ekki muni ætlast til þess að frv. verði metið sem almenn og langvarandi heildarúrræði í fiskveiðistjórnarmálum þjóðarinnar. Það sé greinilega bein viðbrögð við hæstaréttardómi og tekið saman undir ströngum tímatakmörkum og hljómar þetta í góðum takti við það sem aðrir hafa verið að segja.

Samtök fiskvinnslu án útgerðar sendu einnig umsögn sína til nefndarinnar. Þeir telja að forustumenn ríkisstjórnarinnar ásamt sjútvrh. hafi með yfirlýsingum sínum um dóminn og hlutverk Hæstaréttar berskjaldað pólitíska andstöðu við dómsniðurstöðuna og telja þau alvarlega ámælisverð. Frv. og grg. þess séu þessu sama marki brennd. Stjórn Samtaka fiskvinnslu án útgerðar mótmælir harðlega framangreindum túlkunum á niðurstöðum dómsins. Að mati lögfræðinga þeirra kemur dómurinn ekki í veg fyrir að stjórnvöld geti með almennum, lögbundnum ákvæðum komið fram þeim markmiðum sem lúta að því að viðhalda jafnvægi milli afkastagetu fiskiskipaflotans og afrakstursgetu fiskstofna. Samtök fiskvinnslu án útgerðar telja að í frv. birtist það pólitíska markmið að allir skuli í kvóta og þeir lýsa harðri gagnrýni á þessar lagabreytingar.

Verslunarráðið telur að í lagafrv. felist lágmarksviðbrögð við dómi Hæstaréttar. Almennt sé fylgi við aflamarkskerfið innan raða Verslunarráðsins enda skapi það mesta hagkvæmni af þeim stjórnkerfum sem rannsökuð hafi verið. Hitt sé óumdeilt að svo lengi sem takmarka þurfi aðgang að tiltekinni auðlind verði nýtingarrétturinn að verðmæti í viðskiptum, sama hvaða aðferð sé notuð til takmörkunar.

Þjóðhagsstofnun sendi einnig inn umsögn þar sem það álit þeirra kom fram að aflamarkskerfið henti best til að stjórna veiðunum. Síðan vísa þeir á einstakar greinar frv. sem þeir telja að leiði til aukins hagræðis í fiskveiðum og m.a. leggjast þeir gegn því ákvæði frv. að búa til lokaðan smábátapott og benda á að mikilvægt sé fyrir athafnalíf einstakra byggðarlaga að val á skipakosti til að veiða þær aflaheimildir sem útgerðarmenn í byggðarlaginu ráða yfir ákvarðist af hagkvæmni og takmarkist sem minnst af sérreglum. Umsögn Þjóðhagsstofnunar laut eðlilega fyrst og fremst að því hvort frv., eins og það lá fyrir þá, væri til þess að auka hagkvæmni í veiðunum og virtist þeim svo vera. Þeir eru hins vegar ekki að taka afstöðu til viðbragða við dómi Hæstaréttar.

Hafrannsóknarstofnun heldur sig sömuleiðis við fagsvið sitt og sendir umsögn bæði varðandi það mál sem við erum nú að fjalla um og eins varðandi grásleppuna sérstaklega og hirði ég ekki um að fjalla um það frekar. En þeir vekja athygli á þeirri rökstuddu skoðun að tilhneiging til brottkasts verðminni afla sé meiri meðal kvótalítilla skipa en þeirra sem rúmar aflaheimildir hafa. Almennt telur stofnunin þó að frv. ætti ekki að ógna þeim fisktegundum sem heyra undir aflamarkskerfið þó að sóknin kunni að verða óhagkvæmari. Stofnunin telur upp svokallaðar utankvótategundir sem yrði hægt að sækja óheft í samkvæmt frv. og vísar jafnframt í árlega skýrslu stofnunarinnar um ástand og horfur þar sem fram kemur að ástand þessara stofna allra er ekki vel þekkt þó svo virðist að enginn þeirra sé það stór að hann þoli að marki meiri sókn en verið hefur.

Ástæða er til þess, herra forseti, að við geymum þessi orð í minni okkar eða huga þegar við erum að breyta lögunum um stjórn fiskveiða í þá veru að hér geti kvótalausum skipum fjölgað að miklum mun.

Fjórðungssamband Vestfirðinga skorar á stjórnvöld að fara sér hægt og ígrunda vel allar leiðir áður en lagabreyting er gerð.

Strandveiðifélagið Krókur á Barðaströnd krefst þess að komi til kvótasetningar verði aflareynsla látin ráða aflaúthlutun eins og áður hefur verið gert og hver bátur fái þriggja ára veiðireynslu í utankvótategundum áður en að úthlutun þeirra kemur.

Smábátafélagið Klettur mætti á fund nefndarinnar til að tala máli aflamarksbátanna og lögðu þeir fram gögn máli sínu til stuðnings þar sem fram kemur að langur vegur er frá því að skerðing sú sem smábátar á aflamarki urðu fyrir hafi verið bætt. Og þeim sýnist af frv. að enn eigi að skerða hlut þeirra. Það hefur komið fram síðan, herra forseti, ef ég hef lesið umsagnirnar rétt, að hluti af því samkomulagi sem hæstv. sjútvrh. var búinn að gera við Landssamband smábátaeigenda gekk út að bæta þessa skerðingu, og ef ég skil rétt það sem sagt hefur verið, þá muni meiri hluti sjútvn. hafa fallist á að taka hluta af þeirri bót sem búið var að semja um og setja inn í brtt. sínar, en einungis hluta. Væri fróðlegt að heyra frekar af samkomulaginu.

Það kom fram í gögnum sem fulltrúar Smábátafélagsins Kletts lögðu fram að bátur sem var með kvóta upp á rúmlega 23 þorskígildislestir, aðallega þorsk sem var 80% veiðireynslu áranna 1988 og 1989, sem voru tvö bestu ár af þremur, fær nú úthlutað rúmlega 13 þorskígildistonnum. Þarna er gríðarlegur munur á. Neðst fór þessi bátur í rúm tíu tonn fiskveiðiárið 1992 og 1993. Ekkert hefur verið selt af þessum báti og hann fékk hlutdeild í 40% þegar línutvöföldunin var afnumin. Hann hefur hins vegar orðið fyrir skerðingum, bæði þegar krókabátunum var úthlutuð hlutdeild upp á 13,75% af heildaraflanum og einnig þegar þorskaflahámarksbátarnir hafa verið að bæta við sig í öðrum tegundum með þeim afleiðingum að aðrir hafa þá verið skertir.

Sú skerðing sem þessi bátur og aðrir sambærilegir aflamarksbátar hafa orðið fyrir þýðir að þótt heildaraflinn væri nú orðinn sá sami og var þegar hann var upphaflega kvótasettur með rúmlega 23 þorskígildistonnum nær hann aðeins 16 tonnum núna. Munurinn er nánast þriðjungur. Jöfnun úr jöfnunarpotti hefur alla tíð síðan miðast við stöðu mála 1991 þegar þessir bátar höfðu verið skertir svo stórlega sem þessi saga staðfestir í rauninni. Ástæða er til að þetta komi fram vegna stöðu málsins og vegna þess að þessir aðilar fluttu mál sitt mjög einarðlega á fundi nefndarinnar og skildu eftir mikil gögn.

[15:30]

Umhvrn. sendi inn umsögn eða lagði fram minnisblað þar sem farið er yfir losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipaflotanum. Það var kallað eftir þessum upplýsingum vegna ótta sem menn hafa af stórfelldri stækkun fiskiskipaflotans. Þar kom fram, eins og gerð var grein fyrir í minnihlutaáliti sjútvn., að heildarlosun koltvíoxíðs vegna eldsneytisnotkunar fiskiskipa var árið 1997 33% af heildarlosun koltvíoxíðs og hafði þá á nokkrum árum aukist um 24%. Aukin vinnsla úti á sjó er talin hafa verið til mikillar aukningar á þessu tímabili á sama tíma og aflamarkskerfið hefur hins vegar stuðlað að samdrætti. Þessa hluti þurfa menn því að fara að skoða svolítið öðruvísi en verið hefur vegna þess að þeir arðsemisútreikningar sem menn hafa verið tilbúnir til þess að líta til þegar metið hefur verið hvort borgaði sig frekar að fara í landvinnslu eða sjóvinnslu, hljóta óhjákvæmilega að skekkjast þegar útblástur gróðurhúsalofttegunda fer að spila inn. En eins og menn þekkja af þeirri umræðu þá er allt eins víst að úr möguleikum til mengunar verði gerðir framseljanlegir kvótar á milli landa, a.m.k. til að byrja með, og það er ljóst að þær þjóðir sem hafa verið að velta þessum málum fyrir sér og reyna fyrir sér með önnur úrræði en bein stjórnvaldsfyrirmæli, hafa beitt þeirri aðferð að láta menn borga eða umbuna þeim eftir því hvernig þeir standa að sínum mengunarmálum. Ég er handviss um að þetta sé atriði sem við eigum eftir að þurfa að skoða á alveg nýjan hátt á næstu árum og menn þurfa að hafa í huga bæði við afgreiðslu þessa frv. og annarra.

Skipstjóra- og stýrimannafélagið Bylgjan á Ísafirði leggur áherslu á að ekki verði lengur gengið á atvinnurétt sinna sjómanna með millifærslum á milli aflakerfa og eru þeir þá að tala fyrir hönd þeirra rúmlega 500 sjómanna sem eru á aflamarksskipum sem gerð eru út frá Vestfjörðum.

Smábátafélagið Farsæll í Vestmannaeyjum mótmælti því að netaveiðar yrðu almennt leyfðar á smábátum.

Útvegsmannafélag Suðurnesja fjallaði um það að ekki yrði tekið meira af aflaheimildum aflamarksskipa til að auka enn við hlut smábáta, eins og ítrekað hafi verið gert á undanförnum árum.

Síðan, eins og hv. þm. Hjörleifur Guttormsson vék að áðan, sendi hann erindi til nefndarinnar. Við það var heft erindi sem hafði borist frá forustu á Breiðdalsvík vegna þeirra atburða sem þar eru að gerast. Þar er fyrirtæki úr öðrum landshluta að kaupa stóran hlut í fyrirtæki sem hefur haldið uppi meginatvinnu þar á staðnum. Um það mál hef ég þegar fjallað, hef þegar komið að því lítillega a.m.k. En það er ástæða til þess að menn skoði svolítið hvernig forsvarsmenn þess sveitarfélags vilja beita sér í málinu. Ég met það svo að þeir vilji fyrst og fremst fá aðgang að veiðiheimildum, þeir séu ekki að biðja um ölmusu af neinu tagi en vilji komast inn í eðlilega úthlutun veiðiheimilda. Þeir eru að búa sig undir stofnun félags til þess, enda hefur komið fram áður að þeir voru tilbúnir til að ganga inn í þau kaup sem fram fóru.

Ég hef margsagt það í umæðum um stjórn fiskveiða þegar verið er að breyta lögum, herra forseti, að vart sé hægt að fara í kommusetningu í þessari löggjöf öðruvísi en svo að menn séu að hreyfa til tugmilljónir, jafnvel milljarða, og þess vegna, einkum nú þar sem allur veiðiréttur á að verða framseljanlegur, sé full ástæða til að menn velti fjárhagshlið þessara mála fyrir sér.

Auk þess að sitja í sjútvn. Alþingis sit ég líka í hv. menntmn. Þar eru menn að bítast um upphæðir allt niður í 300 þús. kr. vegna verkefna á landsbyggðinni m.a., verkefna sem við erum öll sannfærð um að skipta miklu máli fyrir þau lífsgæði sem í því felast að búa þar. Þar eru litlir peningar til ráðstöfunar þó svo að allir séu sammála um mikilvægið. Það er hvorki hægt að verða við öllum þeim umsóknum sem berast né öllu því sem þar er farið fram á. Það er langur vegur þar frá þó að flestir sem yfir fara geti verið sammála um að þetta séu mikilvæg verkefni og þau séu nákvæmlega langflest til þess fallin að auðga mannlífið og gera þann kost fýsilegri að starfa um allt Ísland, að búa á Íslandi öllu.

Það er síðan svolítið annað uppi á teningnum þegar við fjöllum um lögin um stjórn fiskveiða. Þar er ekki beðið um úttekt á því hversu miklir fjármunir séu undir þegar verið er að breyta lögum og ég hef það á tilfinningunni, herra forseti, að menn hafi satt að segja sáralítinn áhuga á því að vita það, og kannski er best að vita það ekki. Núna við þessa breytingu er verið að búa til nokkra potta, bæði potta til varanlegrar úthlutunar og millifærslupotta. Millifærslupottarnir tveir, þ.e. annars vegar jöfnunarpotturinn sem á að taka til báta allt að 200 lesta stærð og Byggðastofnunarpotturinn, verða með veiðiheimildir sem hægt er að meta upp á um 3 milljarða kr. Og finnst mönnum skrýtið þótt beðið sé um skýrar reglur eða ákvæði sem kalla á það að jafnræðisreglan sé virt eða samkeppnisstaða einstakra fyrirtækja?

Ég hef satt að segja aldrei skilið af hverju menn hafa verið því svo frábitnir að ræða um virði þeirra aflaheimilda sem verið er að hreyfa til þegar við erum að breyta þessum lögum. Þeir sem starfa í þessari atvinnugrein eru ekki feimnir við það að ræða hversu miklir peningar þetta eru. Þeir eru líka vanir að vinna með þessi verðmæti sem slík. Það er búið að venja þá á það, a.m.k. þá sem eru í aflamarkskerfinu, og nú stendur til að gera þá sem eru að vinna í dagakerfinu jafnvíga á það að fjalla um öll fiskveiðiréttindi sem peningamál.

Þetta hefur kerfið leitt af sér. Eftir þessu hefur verið kallað. Og það er hlægilegt, herra forseti, að Alþingi skuli þá ekki treysta sér til þess að ræða hlutina á þessum grunni. Við erum núna að loka þeim hring að gera öll fiskveiðiréttindi þeirra tegunda á Íslandsmiðum sem hámarksafli er á að framseljanlegri söluvöru. Og þá eigum við að nefna þau verðmæti við erum hér að fjalla um. Það er fullkomlega óþolandi fyrir þá sem eru jafnframt að fjalla um velferðarmálin í þinginu, hvort heldur það eru almannatryggingar, heilbrigðismálin að öðru leyti eða mennta- og menningarmál, að þegar þessir stóru hagsmunir koma til sögunnar þá skuli enginn vilja vita um hversu mikla peninga er að ræða, hversu miklir fjármunir eru hér til umfjöllunar, á meðan við erum látin bítast nánast um þúsundkallana þegar velferðarkerfið er annars vegar. Þetta er ekki forsvaranlegt, herra forseti, og ég er handviss um að þingmenn margir hverjir vilja ræða þessa hluti á öðrum grunni en verið hefur. Og þeim sem starfa í greininni er enginn greiði gerður með því að fara með þetta eins og leyndarmál. Við skulum bara tala um hlutina eins og þeir eru. Það er venjulega best.

Herra forseti. Ég fór fram á það í störfum nefndarinnar að Þjóðhagsstofnun svaraði nokkrum spurningum um tillögur meiri hluta sjútvn. um sóknardaga og millifærslusjóði. Það var reyndar svolítið erfitt. Þjóðhagsstofnun fékk sendar spurningarnar en ekki brtt. og það var hluti af þeim erfiðleikum sem við var að etja í nefndarstarfinu að brtt. voru ekki til sýnis. Eigi að síður voru þær niðurstöður sem komu úr þessum spurningum áhugaverðar. Ég ætla að fara yfir það, herra forseti, hverjar spurningarnar voru og hvaða svör bárust vegna þess að ég held að rétt sé að við séum með þetta algerlega á hreinu.

Fyrsta spurningin fjallaði um það hvað afli krókabáta ykist með fjölgun sóknardaga úr 9 í 23 miðað við meðalafla á sóknardag á síðasta fiskveiðiári. Það kom í ljós, herra forseti, að meðalafli í þessum kerfum, sóknardagakerfunum, var annars vegar 1,5 tonn og hins vegar 1,2 tonn og út frá þeim forsendum var svar þeirra það að aflinn ykist um 6 þúsund tonn á ári. Ég spurði þá í framhaldinu hvers virði það magn væri miðað við leigu innan árs og miðað við varanlega sölu á verðlagi annars vegar í flokki þorskaflahámarksbáta og hins vegar í flokki aflamarksbáta.

Í stuttu máli er hægt að segja það að hér var verið að tala um upphæðir frá 250 milljónum upp í 5 milljarða. Við erum að tala þarna um að ákveðinn bátaflokkur geti bætt við sig 6 þúsund tonnum í veiði og í varanlegri sölu, miðað við verð á varanlegum aflaheimildum, eru það 5 milljarðar.

Það getur vel verið að enginn hrökkvi við og öllum finnist þetta sjálfsagt. Nei, það er reyndar ekki þannig. Okkur finnst þetta nefnilega ekki sjálfsagt. Okkur finnst þetta ekki sjálfsagt. Við eigum að ræða það.

Ég spurði líka um aflaheimildir millifærslusjóðsins sem Byggðastofnun á að fá til úthlutunar. Þar var svarið 1 milljarður. Svo spurði ég um hvaða gangverði mætti gera ráð fyrir á framseljanlegum sóknardegi, bæði við varanlega sölu og við leigu innan ársins. Þá var vísað til úttektar í Dagblaðinu, vegna þess að auðvitað var DV eins og aðrir fjölmiðlar komið á tærnar yfir þessum málum vegna þess að þeir vita að þó að Alþingi hafi kannski ekki áhuga á að ræða þetta þá vill þjóðin fá að vita hvaða verðmætum er hér verið að deila milli aðila. Það kom fram að aðili sem þeir báðu um að reikna skaut á það að leigudagurinn yrði ígildi 1 tonns af fiski. Ég var að segja áðan að veruleikinn hefði verið sá að það var frá 1,2 upp í 1,5 tonn. Og hann giskaði á að dagurinn mundi hugsanlega verða á 500 þús. kr. Þetta er nokkuð sem menn ættu að gera sér grein fyrir um leið og þeir breyta kerfinu. Um þetta höfum við hins vegar ekki fjallað formlega í nefndinni.

Herra forseti. Það sem hér er verið að gera, ef menn ætla að samþykkja það frv. og brtt. sem liggja fyrir, er að hvorki er verið að tryggja réttlæti né vinnufrið. Hvort tveggja er mjög alvarlegt. Ég ætla að víkja að vinnufriðnum.

Það er alveg ljóst að þeir sem vinna í sjávarútvegi hafa velflestir fengið nóg af þeim ófriði sem staðið hefur um fiskveiðistjórnarkerfið og þær úthlutunarreglur sem þar hafa verið. Það kom líka fram hjá Landssambandi smábátaeigenda í umsögn þeirra að þeirra umbjóðendur vilja fá tryggara vinnuumhverfi. Það sem hér á að gera, þær lagabreytingar sem hér eiga að fara fram, tryggja ekki vinnufrið. Þær tryggja miklu frekar að það verður um áframhaldandi dómsmál að ræða. Það verður áframhaldandi og vaxandi ólga í samfélaginu vegna þessara reglna. Þó að menn skildu þetta með framsal á fiski sem væri enn syndandi í sjónum, þá voru þeir ósáttir við það. En menn skilja ekki framsal á dögum og verða seint sáttir við það. Hér er því ekki verið að tryggja vinnufrið.

Viðbrögð ríkisstjórnarinnar styrkja í rauninni það sem hefur verið kallað gjafakvótakerfi. Þau auka óréttlætið og ólguna á meðan þjóðin bíður þess að sameignarákvæði 1. gr. um stjórn fiskveiða fari að virka og að jafnræðis verði gætt. Það hefur komið fram, herra forseti, að við viljum endurskoða lögin í ljósi dóms Hæstaréttar þannig að kröfunni um jafnræði og réttláta skiptingu verði svarað.

Að lokum, herra forseti. Það er merkilegur fylgifiskur þessa frv., sem er ástæða til þess að vekja athygli á, að búið er að ákveða veiðileyfagjald. Nú liggur það naglfast fyrir. En það á að renna til þeirra sem hafa fengið úthlutun ókeypis, hafa fengið gjafakvóta á forsendum sem hljóta að teljast hæpnar sé litið til dóms Hæstaréttar.

[15:45]

Af hverju er búið að ákveða veiðileyfagjald, herra forseti? Jú, núna er allur veiðiréttur á Íslandsmiðum framseljanlegur. Þeir aðilar sem koma nýir inn í kerfið komast hvergi að, öðruvísi en að kaupa veiðiréttinn sérstaklega. Hann á að kaupa sérstaklega, bútaðan niður í smásölueiningar, ekki hefur enn þá fengist gefið upp hversu litlar þær eininga þurfa að vera, það er eitt af því sem ekki er ljóst. Hversu litlar þurfa einingarnar að vera til að vera passlega stórar fyrir það smásölukerfi sem verið er að koma á með auðlindina í öllum tilvikum?

En það er alveg klárt, herra forseti, nú er búið að ákveða veiðileyfagjaldið, gallinn er hins vegar sá að það á ekki að renna til eigenda auðlindarinnar, það á ekki að renna til þjóðarinnar sem er samkvæmt 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða eigandi fiskstofnanna við landið. Nei, það á að renna til þeirra sem fyrir eru í kerfinu og, herra forseti, það er vond niðurstaða.