Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:46:47 (2957)

1999-01-11 15:46:47# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:46]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það kom ekki á óvart að hv. þm. skyldi lýsa því yfir að að hennar mati væri rétt að gera víðtækari breytingar á frv. og það væri stefna stjórnarandstöðunnar að það skyldi gera og það væri afstaða stjórnarandstöðunnar að dómur Hæstaréttar hefði þá merkingu að einnig ætti að gera breytingar á 7. gr. fiskveiðistjórnarlaganna. Ekkert af þessu kom á óvart.

Hitt kom mjög á óvart að í ítarlegri ræðu skyldi talsmaður stjórnarandstöðunnar í umræðunni ekki víkja einu orði að því að þessum sjónarmiðum ætti að fylgja eftir með tillöguflutningi á Alþingi þannig að þingið gæti tekið afstöðu til ólíkra kosta í þessu efni. Ég segi fyrir mitt leyti, ég væri mjög fús til þess og hefði mikinn áhuga á því að fá að ræða þá kosti sem stjórnarandstaðan segist hafa í málinu. En því miður kom ekki fram í ræðu hv. þm. að það ætti að gefa þinginu kost á að ræða þessar mismunandi útfærslur. Ég vildi því fá að spyrja hv. þm.: Hvers vegna hefur þessum málflutningi ekki verið fylgt eftir með tillöguflutningi sem Alþingi og þjóðin geta þá tekið afstöðu til?