Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 15:52:02 (2961)

1999-01-11 15:52:02# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég hélt að öllum hefði verið það ljóst þegar ríkisstjórnin lagði fram þetta frv. að tilgangurinn var að koma í veg fyrir að það gæti orðið svo mikil fjölgun í kvótabátunum að ekkert lífsrými yrði eftir fyrir þá sem fyrir voru. Ég hélt að öllum hefði verið ljóst að þetta var gert til þess að koma í veg fyrir að það yrði svo mikill fjöldi skipa að enginn gæti lifað á því. Þess vegna var verið að takmarka þetta, þess vegna var verið að tryggja atvinnuréttindi þeirra sem voru þar fyrir. Svo geta menn deilt um það hversu vel hafi tekist til.

En ég spyr þess vegna hv. þm.: Er hv. þm. á móti því að við takmörkum þetta? Telur hún rétt að láta þetta vera opið öllum til krókaveiðanna? Telur hún rétt að hafa það þannig bara og bíða svo og sjá þangað til að enginn getur lifað af þessu, þangað til afkoman er orðin svo léleg að enginn hefur möguleika til að lifa af þessu?

Í öðru lagi langar mig til að spyrja hana: Hvaðan kemur hv. þm. það að segja í fréttum að það að Byggðastofnun hafi til ráðstöfunar aflaheimildir sé merking um spillingu? (SvG: Hvað segir þingmaðurinn um veiðileyfin?)