Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 17:57:50 (2978)

1999-01-11 17:57:50# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[17:57]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Hvernig fóru ekkjurnar að fyrir 1983? Aumingja ekkjurnar. Þær sátu bara uppi með skuldirnar, höfðu engan kvóta til að selja. Hæstv. sjútvrh. fellur í þá gömlu gryfju að hann dæmir alla hluti út frá því að núverandi ástand sé óumflýjanlegt og óumbreytanlegt. Hvernig fóru ekkjurnar að fyrir 1983? Þá var bátur, þá var aðstaða, kannski einhver rekstur, kannski netaúthald og eitthvað til þess að selja upp í skuldirnar og þá voru skuldirnar gjarnan ekki meiri en það. Kvótinn hefur gerbreytt þessari mynd og það er hægt að reyna að negla menn svona og segja: Þetta gengur ekki því ef maður fellur frá, þá eru svo miklar skuldir á bátnum að það verður að mega selja kvótann líka. Auðvitað. Ef skuldirnar eru skrúfaðar upp miðað við að þorsktonnið sé á 450 þús. kr. hvert eða hvað það nú er, þá er það auðvitað í þannig aðstæðum sem menn eru, þá mundum við væntanlega reyna að snúa ofan af því með aðlögunartíma o.s.frv. En það eru ekki rök fyrir því að þessir hlutir þurfi að vera óumbreytanlegir um aldur og ævi.

Er það ekki þrátt fyrir allt þannig að það er heilbrigðast að hin eiginlegu efnislegu verðmæti séu það sem menn hafa í höndunum, tækin, búnaðurinn, reksturinn og það sem honum fylgir en ekki tilbúin reikningsleg verðmæti eins og kvótinn er auðvitað af því að hann er reikningsleg verðmæti? Hann er ekki efnislegur. Mér leiðist að menn skuli aldrei geta hafið sig upp úr því að ræða þetta eins og að framseljanlegur aflakvóti verði um aldur og ævi óumflýjanleg staðreynd í þessum efnum, jafnvel í smábátaútgerð.

Ég skal mæta sjútvrh. á miðri leið og bjóða 10 ára aðlögun ef við gætum bakkað út úr þessum ósköpum þannig að framsalsrétturinn minnkaði og maður gæti þrepað skuldirnar niður í leiðinni. Er það ekki líka kvótinn sem er bannað að veðsetja, er það ekki þannig? Var ekki hæstv. sjútvrh. að tala um hann? Það rekur sig eitt á annars horn ef út í það er farið.

Nei, það er ekki vegna þess að ég vilji fara illa með ekkjur smábátasjómanna sem kunna að falla frá á komandi árum sem ég vil ekki kyngja því að þetta þurfi að vera svona um aldur og ævi frekar en væntanlega t.d. hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson, flokksbróðir sjútvrh.