Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 18:48:26 (2982)

1999-01-11 18:48:26# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[18:48]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 8. þm. Reykv. fyrir að staðfesta þann skilning að stjórnarandstaðan vilji gefa Hæstarétti langt nef. Mér býður þó í grun að hin rétta skýring sé sú að stjórnarandstaðan treysti sér ekki til að segja hvernig hún vill að brugðist verði við dómi Hæstaréttar.

Seinni hlutinn í þessari tillögu er þó enn merkilegri en sá fyrri. Þar er flutt vantraust á komandi sjútvrh. Sá sem gegnir því embætti í dag mun hætta á vori komanda. Hér er lagt til að framkvæmdarvaldið á þessu sviði verði flutt frá ráðuneytinu til Alþingis eftir næstu kosningar. Þar er lýst yfir vantrausti á þann sem tekur við.

Ég geri ekki ráð fyrir því að stjórnarandstaðan vilji lýsa yfir vantrausti á eigin ráðherra. Í reynd er þetta því yfirlýsing um að stjórnarandstaðan ætli ekki einu sinni að keppa að því að komast til valda að loknum næstu kosningum. Það er afar athyglivert að sjá það, ekki bara í ræðu heldur í skriflegu þingskjali sem lagt hefur verið fram.