Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 18:49:37 (2983)

1999-01-11 18:49:37# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[18:49]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það var sýnd mynd í sjónvarpinu um daginn. Það var nú ekki verulega mikið listaverk, hún hét Æi. Það var nú eiginlega eina orðið sem mér datt í hug undir þessari ræðu hæstv. sjútvrh. Æi. Það voru nú ekki mikil tíðindi í ræðu hans.

Það sem þarna er lagt til er að Alþingi vinni verkið. Í þessu máli, sem Hæstiréttur kveður upp dóm í, tel ég að ábyrgð Alþingis, að ég segi ekki sök þess, mjög mikla. Ég tel að þarna sé jafnt tekið, jafnvel frekar, á handaverkum Alþingis heldur en ríkisstjórnar endilega. Þess vegna skulum við ekki tala svona. Við skulum muna að Alþingi hefur fullveldisrétt yfir ráðherrunum og getur sett þá af er því sýnist. Málflutningur af þessu tagi er því ekki góður og miðað við að ég reyndi að vanda ræðu mína og flytja eins málefnalega ræðu og ég hafði vit til, þá varð ég fyrir vonbrigðum með ræðu og viðbrögð hæstv. sjútvrh. Ég held að hann meini ekki það sem hann sagði, ég held að hann hafi dottið óvart í Heimdallargírinn af gömlum vana.