Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 18:51:04 (2984)

1999-01-11 18:51:04# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SighB
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[18:51]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er ósköp eðlilegt að hæstv. ráðherra skreppi nú mjög títt í Heimdallargírinn því sá tími styttist sem hann hefur til ráðstöfunar til að geta það. Það er ekki víst að sá vinnustaður sem hann flyst á þegar hann fer úr þessum sal taki því mjög vel að menn skreppi í slíka gíra.

Hæstv. ráðherra sagði það að stjórnarandstaðan væri að gefa Hæstarétti langt nef. (Sjútvrh.: Ég sagði ...) Hvað kallar hæstv. ráðherra þau ummæli sem hann viðhafði sjálfur gegn 105 prófessorum sem létu í ljós álit sitt á málsmeðferð hans, er hann sagði að það sem fyrir þeim vekti væri að komast í heimilispeninga grásleppukarla? Kallar hann það ekki að gefa 105 prófessorum við Háskóla Íslands langt nef, ellegar þá Hæstarétti sjálfum? Sé þetta niðurstaða hæstv. ráðherra um afstöðu 105 prófessora, að það sem fyrir þeim vaki sé fyrst og fremst að komast í heimilispeninga grásleppukarla, réð þá ekki sama afstaða dómi fimm hæstaréttardómara? (Gripið fram í.) Maður skyldi nú halda það. Hver gefur þá hverjum langt nef?

Hæstv. ráðherra sagði að stjórnarandstaðan hefði engin þingmál flutt varðandi þau mál sem hér eru til umræðu. Ég lét í snarheitum taka saman fyrir mig hér frammi hvað stjórnarandstaðan hefur flutt mörg þingmál er varða þessi mál á kjörtímabilinu sem er að líða. Hún hefur flutt 18 þingmál. Flestöll frv. til laga um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða. Meginþemað í þessum 18 þingmálum hefur verið:

Í fyrsta lagi að taka undir það sjónarmið sem Hæstiréttur setti fram um að auka atvinnufrelsi þeirra sem vilja stunda sjó. Annar meginþátturinn í þessum 18 þingmálum stjórnarandstöðunnar er að auka atvinnuréttindi manna til sjósóknar eins og Hæstiréttur talar um að þurfi að gera.

Hinn meginþátturinn í þessum frumvörpum er að reyna að tryggja það sem Hæstiréttur orðar á þá leið að lögin eins og þau eru úr garði gerð núna komi í veg fyrir að drjúgur hluti landsmanna njóti sambærilegs hagræðis af nýtingu sameiginlegrar auðlindar og aukið atvinnufrelsi mundi leiða til.

Stjórnarandstaðan hefur því á þessu kjörtímabili lagt fram 18 þingmál sem varða þau atriði sem Hæstiréttur gerir að umfjöllunarefni í dómi sínum. Svo kemur hæstv. sjútvrh. og segir: Stjórnarandstaðan hefur ekkert til málanna að leggja.

En það eru fleiri en bara stjórnarandstæðingar sem hafa flutt mál til breytinga á lögum um stjórn fiskveiða í þessa átt. Hans eigin flokksmenn hafa gert það líka. Tveir hv. þm., þeir Guðjón Guðmundsson og Guðmundur Hallvarðsson, hafa flutt frumvörp hér á Alþingi um breytingar á lögum um stjórn fiskveiða. Þeir hafa viljað koma í veg fyrir það sem menn hafa kallað óeðlilegt brask með aflaheimildir sem menn þiggja úr hendi hæstv. ráðherra án endurgjalds. Það að halda því fram að hér liggi engar tillögur fyrir er algjörlega út í hött.

Herra forseti. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma í að ræða þessi mál hér og nú. Ég hef gert það áður. Flestum sjónarmiðum mínum, m.a. um hvernig túlka beri úrskurð Hæstaréttar, hefur þegar verið hreyft í þessari umræðu og gerð viðhlítandi skil. Ég vil minnast á nokkur atriði sem mér finnast fyrst og fremst athugaverð við frv. sem við eigum að afgreiða nú.

Í fyrsta lagi hefur frv. breytt um eðli og inntak frá því að það var lagt fram á Alþingi fyrir jólin, ásamt fylgifrv. sem enginn hefur séð hvernig eigi að afgreiða. Þá var sagt: Þetta eru viðbrögð við dómi Hæstaréttar, þau tvö frumvörp sem fram voru lögð á Alþingi. Það frv. sem nú kemur til 2. umræðu er ekki lengur viðbrögð við dómi Hæstaréttar fyrst og fremst. Meginefni þess varðar allt annað en dóm Hæstaréttar. Meginefni þess frv. er til að lappa upp á og plástra aflamarkskerfið án þess að taka það til heildarendurskoðunar. Allir þessir plástrar og uppálappanir, t.d. fjórir jöfnunarpottar sem búa á til, eiga ekkert skylt við niðurstöðu Hæstaréttar. Frv. hefur verið breytt frá því sem það upphaflega var í allt annað frv. sem þjónar öðru en að bregðast við dómi Hæstaréttar.

Í öðru lagi ætla ég að taka undir það sem hv. 6. þm. Norðurl. e., Svanfríður Jónasdóttir, sagði áðan. Ég bendi mönnum á að með þessu á að afnema síðustu leifarnar af frjálsum fiskveiðum á Íslandi og slá í gadda að enginn fái framar aðgang að fiskveiðum á Íslandi nema kaupa sér þann rétt. Enginn nýr aðili getur hafið fiskveiðar á Íslandi upp frá þessu nema hann kaupi sér réttinn til þess. Enginn í þessu kerfi getur aukið afla sinn nema að kaupa það fullu verði. Það verð sem menn eru að tala um í þessu sambandi er um eða yfir 90 kr. í leigu fyrir hvert þorskkíló innan ársins og yfir 800 kr. fyrir hvert kíló í varanlegum kvóta.

Virðulegi forseti. Þetta er veiðileyfagjald sem festa á í lögum. Enginn kemst inn í þetta kerfi framar nema hann sé annaðhvort reiðubúinn til þess að leigja sér aflaheimildir fyrir 92 kr. á kíló, eða kaupa þær varanlega fyrir 800 kr. á kíló. Allir þeir sem ekki eru reiðubúnir að hefja veiðar við þessa skilmála hafa verið útilokaðir. Með öðrum orðum er búið að lögfesta veiðileyfagjald í sjávarútvegi sem þeir einir njóta sem fengið hafa þessar aflaheimildir án endurgjalds. Þetta veiðileyfagjald þarf hver og ein ný kynslóð að greiða vilji hún stunda sjó eða eiga hlutdeild í útgerðarfyrirtæki. Hver kynslóð mun gera kröfu til þess, hún og erfingjar hennar, að fá fullt veiðileyfagjald fyrir þá eign sem hún telur sér í formi ókeypis aflaheimilda sem úthlutað hefur verið til afa, langafa eða langalangafa hennar. Hver ný kynslóð einstaklinga sem vill hefja sjósókn eða eignast hlutdeild í sjávarútvegsfyrirtæki verður eftirleiðis að greiða slíkar fjárhæðir, fyrir aðgang að auðlindinni, til þeirrar kynslóðar sem annaðhvort selur hlut sinn í fyrirtækjunum eða fær eign í sjávarútvegsfyrirtækjum í arf.

[19:00]

Það er því búið að lögleiða veiðileyfagjald af þessri stærð, það liggur fyrir. En það hefur verið ákveðið að þeir einir skuli fá að njóta þess veiðileyfagjalds sem fengu aflahlutdeildina til sín án endurgjalds. Þeir einir skulu fá að njóta verðmætisaukans sem kann að verða, þ.e. hækkananna frá því gjaldi sem nú er greitt fyrir aflaheimildir, þeir einir skuli fá að njóta verðmætisaukans sem eiga eða hafa átt aflaheimildir sem þeir hafa fengið að erfðum frá þeim sem þær fengu á sínum tíma án þess að greiða fyrir.

Það er því ekkert um það að ræða lengur að menn séu að rífast um hvort eigi að lögleiða veiðileyfagjald eða ekki. Það er búið að því. Síðustu frjálsu veiðunum á Íslandi hefur verið útrýmt og í staðinn sett inn gjald sem menn verða að greiða sem er svo hátt eins og hér um ræðir.

Í þriðja lagi er með frv. verið að búa til alveg nýja söluvöru sem enginn okkar hefur þekkt fyrr. Ekki er lengur stefnt að því að hægt sé að selja óveiddan fisk í sjónum, selja aflaheimildir, heimildir til þess að veiða óveiddan fisk í sjónum. Gert er ráð fyrir því að einnig sé hægt að selja daga sem verið er á sjó, þ.e. þeir aðilar sem hafa verið og verða í sóknarmarkskerfinu geta nú hafið sölu á leyfum til þess að vera úti á sjó í tiltekið marga daga. Talað er um það og hefur verið reiknað út af vísum mönnum að leyfi til að vera einn dag á sjó verði hægt að selja á 500 þús. kr. eftir að þetta frv. hefur verið afgreitt. Nú er ekki lengur verið að selja aflaheimildirnar, fiskinn í sjónum, nú er verið að selja leyfi til að halda úr höfn og til hafnar aftur, hvort sem menn veiða eitthvað á þeim dögum eða ekki. Gert er ráð fyrir því að það sem menn borgi fyrir dagana, dagpeningarnir sem gangi kaupum og sölum, séu af þessari stærðargráðu, 500 þús. kr. á dag.

Það er væntanlega fleira sem menn eru að selja. Ætli a.m.k. mjög margir af þessum einstaklingum njóti ekki sjómannafrádráttar í skattkerfinu? Það er eitt af því sem er verið að selja með þessum hætti vegna þess að sjómannafrádrátturinn fæst miðað við hve marga daga viðkomandi einstaklingur er lögskráður á sjó. Það er því ekki aðeins verið að opna möguleika fyrir því að selja heimild til þess að halda úr höfn og til hafnar. Það er líka verið að opna möguleika á því að selja skattalegt hagræði sem Alþingi hefur veitt þessari stétt. Hvaða einstaklingur, virðulegi forseti, hefur efni á því, sem horfir fram á það að þessu frv. afgreiddu, að tvísýnt er um hvort hann geti séð um mat og húsnæði fyrir sig og sína með þeim heimildum sem honum eru ætlaðar í þessu frv., hvaða einstaklingur mun geta staðist þá freistingu að selja sig út úr kerfinu ef hann fær 500 þús. kr. fyrir hvern dag sem honum er ætlaður þegar dagarnir sem honum eru ætlaðir eru í mesta lagi 23 og geta farið niður í lítinn hluta af þeirri lengd?

Í fjórða lagi er tekið upp kerfi sem er með ólíkindum. Hv. formaður sjútvn. leggur til að honum og sex öðrum félögum hans verði afhentar 1.500 lestir af þorski til þess að úthluta á einstaka aðila í byggðum hringinn í kringum landið. Með öðrum orðum leggur hann til, formaðurinn sem líka á sæti í stjórn Byggðastofnunar, að stjórn Byggðastofnunar, sem að mestum hluta er skipuð þingmönnum og að ég held sex stjórnarþingmönnum af sjö, séu fengin verðmæti upp á rúman 1 milljarð kr. sem þeir fái síðan að úthluta til einstaklinga sem eru þeim þóknanlegir með þeim aðferðum sem þeir kjósa sjálfir. Ekkert er sagt um í þessari afgreiðslu hvaða jafnræðisreglu eigi að gæta í því sambandi. Mönnum sem eru í erfiðleikum í sambandi við skort á aflaheimildum er einfaldlega vísað á að sækja til formanns sjútvn. og félaga hans um það sem þeir telja að sig vanti til að geta fleytt fram lífinu. Síðan er þeim tilkynnt að þessir ágætu menn ætli að afgreiða umsóknirnar eftir kosningar.

Ég segi, virðulegi forseti: Hvernig getur flokkur eins og Sjálfstfl. staðið að svona afgreiðslu? Hvernig getur flokkur sem kennir sig við frjálsan markaðsbúskap og jafnræði og frjálsa samkeppni staðið að því að afhenda sjö stjórnmálamönnum 1.500 tonn af þorski til frjálsrar úthlutunar til aðila sem þeim eru þóknanlegir? Hvernig halda menn, virðulegi forseti, að svona samfélag sem ætlar sér að starfa með þessum hætti, hvaða dóm það hlýtur að fá hjá öllum hugsandi mönnum, hjá öllum þeim sem trúa því að frjálsræði í atvinnulífi, frjáls samskipti og eðlilegt frjálsræði í atvinnurekstri sé lykillinn að leyndarmálinu?

Seljavallakvótinn var mikið umtalaður á sínum tíma, 500 tonn. Honum var úthlutað, og ætli sé ekki búið að selja hann nú að mestu leyti. Hér er talað um þrefalt stærri kvóta. Engin trygging er veitt fyrir því vegna þess að samkvæmt lögum er ekki hægt að úthluta byggðum kvóta heldur verður að úthluta veiðiheimildum til eigenda fiskiskipa. Hver er kominn til með að segja að sú pólitíska úthlutun sem stefnt er að gagnist viðkomandi byggðarlagi um nokkurn skapaðan hlut? Ja, hver getur veitt tryggingu fyrir því að nokkrum vikum eftir að þessum byggðakvóta hafi verið úthlutað sjái menn kostina besta í því einfaldlega að selja hann öðrum og þar með burt af viðkomandi stað?

Það er engin smá fjárhæð sem þarna er verið að úthluta. Einn milljarður króna, þrefaldur Seljavallakvótinn. Hv. formanni sjútvn. þykir hlýða að gera tillögu um að honum sjálfum verði falið að standa í þessari úthlutun. Þetta er nú, virðulegi forseti, ekki eitthvað sem hægt er að kenna við stefnu Tony Blair eða að færa sig inn á miðjuna eða haga sér eins og Schröder. Ekki aldeilis. Þetta er aðferðafræðin sem þeir notuðu í Sovétríkjunum í eina tíð, löngu áður en Tony Blair og Gerhard Schröder komu til sögunnar, þ.e. að fela ákveðnum valdsmönnum, pólitískum valdsmönnum, að úthluta þannig lífsgæðum.

Nokkur atriði í þessu frv. eru varhugaverð. Varhugaverðast finnst mér ákvæði b-liðar 7. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að þessir litlu bátar á aflamarki hefji nú um hávetur enn frekara kapphlaup í sókn eftir meðafla til að ávinna sér aflareynslu að loknu árinu 1999 sem muni geta nýst þeim þegar kemur að því að kvótasetja þær tegundir líka. Ég veit að hv. þm., formaður sjútvn., veit í hvaða lífshættu sjómenn á smábátum, ekki síst á Vestfjörðum, eru nú að stofna sér með kapphlaupinu um að afla sér veiðireynslu í þessum meðafla. Mér er kunnugt um að einn af helstu stuðningsmönnum hans kom að landi fyrir nokkrum dögum með rúmlega 10 sentimetra fríborð á bát sínum, sem hefði þýtt að ef eitthvað hefði verið að sjó, jafnvel þó ekki hefði verið annað en að þessi ágæti sjómaður hefði þurft að mæta stórum togara á siglingu, að öldurótið frá honum hefði stefnt lífi hans í mikla hættu.

Svona atburðir eru nú að gerast hringinn í kringum landið. Menn eru að fara á sjóinn um hávetur á þessum litlu bátum í kapphlaupi við dauðann til þess að reyna að ná sér í meðaflareynslu upp á framtíðina þegar kemur að því að meðafla verði úthlutað í kvóta. Og í b-lið 7. brtt. hv. sjútvn. er verið að magna þetta kapphlaup enn frekar. Ég verð að segja eins og er, herra forseti, að ég hef miklar áhyggjur af þessu og þakka guði fyrir það að þetta kapphlaup, sem okkur öllum þingmönnum úr sjávarbyggðunum á að vera kunnugt um, skuli ekki hafa leitt til alvarlegra slysa. Sú aðferð sem á að taka upp er hættuleg. Það er hættulegt að stefna þessum duglegu mönnum út í það kapphlaup sem fyrirsjáanlegt er að verður á næstu vikum og mánuðum um hávetur á Íslandi og það er eitt af því sem þetta stjórnkerfi fiskveiða hefur haft í för með sér að færa öryggismál sjómanna mjög víða í kringum landið 30 ár aftur í tímann. Menn eru að sækja á bátum sem sáust ekki fyrir tíu, fimmtán árum að væru gerðir út yfir háveturinn. Skipin sem menn voru að reyna að afla sér til þess að auka öryggi á sjó, stærri bátarnir, eru horfin. Í staðinn eru menn að reyna að bjarga sér á þessum litlu hornum sem eru stórháskaleg á þessum tíma árs. Og sjútvn. er að hvetja þetta kapphlaup enn frekar.

Þá væri líka ástæða fyrir hv. sjútvn. að huga að öðrum sambærilegum málum, þ.e. hvernig er háttað tryggingu þeirra sjómanna sem starfa við þennan bátaflota sem margir hverjir, beitingamenn á verktakasamningi og sjómenn án lögskráningar, voru látnir standa undir tryggingaráhættu sjálfir að öllu leyti. Ég held að ástæða væri fyrir sjútvn. að skoða þau mál sérstaklega um leið og hún skoðar þá auknu slysahættu sem hún er að stuðla að nú með þessum tillögum sínum.

[19:15]

Herra forseti. Ég sagði í upphafi að ég ætlaði ekki að tala langt mál að þessu sinni. En sú löggjöf sem við erum að sjá er þess eðlis að það er sjáanlegt að menn eru að reyna að leysa vanda einstakra aðila, jafnvel einstakra einstaklinga með því að burðast við að setja almennar reglur. Niðurstaðan er sú að þessi lagasetning er orðin svo flókin og illskiljanleg og svo mikið skæklatog og millimetrastríð, eins og hv. þm. Svavar Gestsson minntist á hér áðan, að það er ekki á færi kjarneðlisfræðinga að skilja þetta. Það er ekki einu sinni á færi forráðamanna LS sem eru þó allra kjarneðlisfræðinga gleggstir í því að skilja það sem fjallað er um smábátasjómenn. Það er ekki heldur á færi þeirra að átta sig á hvað þessi lagasetning þýðir nema með mikilli yfirlegu.

Eins og lagasetningin er núna úr garði gerð minnir hún mig um margt á þær lagasetningar sem afgreiddar voru á Alþingi á árunum eftir seinni heimsstyrjöldina, þ.e. þegar öllu atvinnulífi landsmanna var miðstýrt með flóknum lagasetningum þar sem ákveðið var nánast fyrir hvert fyrirtæki og hvern einstakling hvað menn mættu gera og hvað menn mættu ekki gera. Það voru skammtanir, það voru höft, það var ófrelsi, það voru miðstýringaraðferðir af því tagi sem er löngu búið að leggja niður í öllum öðrum atvinnugreinum en ekki þessari einu, sjávarútvegi.

Sú aðferð sem menn eru farnir að nota og sem þessi lagasetning mun festa í sessi er stjórnunaraðferð sem hefur ekki verið til á Íslandi hvað varðar aðrar atvinnugreinar svo áratugum skiptir. Lögin eru orðin svo mikil flækja að ómögulegt er að greiða úr þeim. Síðan eru menn að reyna að lappa upp á þau þegar menn reka sig á vanda einstakra fyrirtækja hér og annarra fyrirtækja þar með því að búa til plástra af því tagi sem þessir jöfnunarsjóðir eru og annað af því sem er meginefni þeirrar lagasetningar sem ætlast er til að við afgreiðum nú.

Þess vegna segi ég: Er ekki ástæða til þess á síðasta ári aldarinnar að sjávarútvegurinn fái sambærilega meðferð í íslenskri löggjöf og aðrar atvinnugreinar, þ.e. að sjávarútvegurinn fái leyfi til þess og þeir sem sjávarútveg stunda að nýta sama og sambærilegt atvinnufrelsi og menn fá í öðrum atvinnugreinum, hvort sem það heitir iðnaður eða þjónusta? Þetta skömmtunarkerfi hefur verið afnumið hvað varðar allar aðrar atvinnugreinar. Menn þurfa ekki lengur að sækja til einhverra sjö þingmanna um leyfi til þess að flytja inn. Menn þurfa ekki lengur að sækja til einhvers eins pólitísks ráðherra um leyfi til þess að kaupa eða selja gjaldeyri. Menn þurfa ekki lengur að leita til þingmannsins síns með beiðni um það að hann reyni að útvega honum lán í banka. Þessar þvinganir og hömlur sem við þekktum hér á áratugunum áður í öllum atvinnugreinum hafa allar verið afnumdar nema þessi. Enn er það svo að sjávarútveginum á að stjórna annaðhvort úr ræðustóli á Alþingi með ákvörðunum sjútvrh. uppi í ráðuneyti eða með úthlutun sjö pólitískra fulltrúa í stjórn Byggðastofnunar á verðmætum sem nema eitt þúsund milljónum króna.

Það er umhugsunarvert fyrir einstakling eins og hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, sem kennir sinnaskipti sín við sinnaskipti breska verkamannaflokksins og þýska sósíaldemó\-krataflokksins, að haldreipi hans í þessari umræðu og í þessari afgreiðslu skuli vera það að gera tillögu um að honum sjálfum og öðrum félögum hans verði fenginn réttur til þess að úthluta einum milljarði króna til þeirra einstaklinga í útgerð sem honum og félögum hans eru þóknanlegir. Ég er alveg sannfærður um ef þessi hv. þm. hefði sótt um inngöngu í verkamannaflokk Tony Blairs eða sósíaldemókrataflokk Gerhards Schröders hefði hann ekki fengið þar inngöngu því að það hefði enginn fengist til þess að mæla með þeirri inntökubeiðni.