Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:30:00 (2989)

1999-01-11 19:30:00# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:30]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Nú má öllum vera ljóst að okkur er mikill vandi á höndum varðandi lífsrými það sem smábátunum er úthlutað og möguleika þeirra til rekstrarafkomu. Við höfum verið að reyna af fremsta megni að finna þann grundvöll sem gæti orðið til þess að þeir fengju haldið velli. Eins og hv. þm. veit þá hefur það verið okkar baráttumál og við höfum talið það réttmætt og mjög nauðsynlegt að reyna að viðhalda sóknarmarkinu, krókaleyfinu, áfram inni í íslenska fiskveiðistjórnarkerfinu. Við höfum gert allt sem í okkar valdi hefur staðið til þess að svo mætti verða.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þm.: Hvað er það sem honum finnst að við hefðum getað gert betur eða hvernig vildi hann sjá þetta gert? Telur hann að við höfum brugðist að einhverju leyti? Er einhver önnur útfærsla sem hann ætlar að mundi vera bátasjómönnum betri?

Mér er það fullkomlega ljóst að mjög mörgum þeirra sem gera út smábáta finnst enginn þessara kosta góður og ég er þeim alveg sammála. Þetta eru mjög rýrir kostir, mjög rýrir. En ég vil fá að vita það frá hv. þm. hvaða möguleika taldi hann að við, sem vorum að reyna að vinna í þessum málum, hefðum átt en nýttum okkur ekki?