Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:31:33 (2990)

1999-01-11 19:31:33# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:31]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal fúslega viðurkenna að það er mitt mat að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sé fullur af velvilja í garð smábátasjómanna og hafi viljað vernda kerfið um frjálsar veiðar. Hann gat það hins vegar ekki vegna þess að í flokki hans eru önnur viðhorf sem réðu. Hann réð ekki við málið. Ég skal fúslega viðurkenna að ég tel að hann hafi viljað gera betur.

Í öðru lagi tel ég að þessi lausn sem hann og félagar hans hafa fundið hér, geri ekkert til þess að hjálpa þessu fólki. Ég tel að mjög margir þeirra sem hafa fjárfest á undanförnum tveimur árum í smábátum í þeirri trú að þeir yrðu varðir, miðað við það kerfi sem gilt hefur fram til þessa, stefni nú í gjaldþrot. Þeir munu ekki geta staðið við þær kvaðir sem þeir hafa tekið á sig vegna kaupa á bátum sínum og þó þeir selji allt sem þeir geta selt, bátinn og aflamöguleikana, þá mun þá vanta fleiri milljónir upp á að geta staðið undir þeim skuldbindingum sem þeir tóku á sig í þeirri trú að þetta kerfi yrði varið.

Í þriðja lagi höfum við stjórnarandstæðingar sagt það hér að við teljum að með dómi Hæstaréttar hafi verið hrundið þeirri aðferð sem notuð hefur verið til þess að úthluta ekki bara veiðileyfum heldur líka veiðiheimildum. Hæstiréttur bendir á tvær aðferðir til þess að takast á við það vandamál, annars vegar með því að auka atvinnurétt fólks sem vill stunda sjóinn og hins vegar með því að tryggja að þorri landsmanna geti haft sambærilegar nytjar á sameiginlegri auðlindi. Þetta eru þær tillögur sem við vildum að yrðu skoðaðar, en ekki að látið yrði staðar numið við þá brotalausn sem hv. meiri hluti sjútvn. hefur lagt hér fyrir okkur.