Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 19:33:44 (2991)

1999-01-11 19:33:44# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[19:33]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég fékk ekki svar við spurningum mínum. Ég spurði: Hvað getur smábátasjómönnum og útgerðarmönnum orðið að gagni umfram það sem við höfum reynt að gera? Ég get ekki fengið það nokkuð heim og saman hvernig aukin atvinnuréttindi áttu að koma þeim að gagni. Við vorum einmitt að berjast fyrir því að reyna að vernda atvinnuréttindi þeirra.

Er það virkilega meining þingmannsins að það hefði orðið þeim að gagni að mikill fjöldi annarra hefði komið inn í þetta sama sóknarmark? Ég taldi það vera alveg öfugt, að okkur bæri skylda til þess að verja þá til þess að forða því að einhver ótölulegur fjöldi báta kæmi og færi að keppa um þetta sama. Við vorum að reyna að verja þá.

Ég hef ekki enn þá getað skilið og ekki fengið svar við spurningu minni: Hvað var það sem við gátum gert betur? Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að þessir kostir eru ekkert góðir. Ég geri mér fullkomlega grein fyrir því að mjög margir þeirra sem upp á síðkastið eða hin síðustu missiri og síðustu mánuði hafa verið að fjárfesta í þessu kerfi í þeirri von og þeirri vissu að það mundi haldast óbreytt munu standa frammi fyrir miklum erfiðleikum. Það vissi ég allt fyrir, þurfti ekki upplýsingar um það frá hv. þm.

En ég spyr enn og aftur, vegna þess að hv. þm. veit að við vorum að reyna að gera allt sem í okkar valdi stóð til þess að gera þetta þó bærilegt: Hefur hann eða einhver stjórnarandstöðuþingmaður nokkra efnislega tillögu í sínum fórum eða í sinni vitund sem getur komið að gagni og hver er hún þá?