Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:00:22 (2995)

1999-01-11 20:00:22# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:00]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég virði þau sjónarmið sem fram komu í máli hv. þm. Hún gerir grein fyrir því að við höfum ólíka grundvallarafstöðu til þess sem hún vildi færa í umræðuna. Hún gengst við því að við séum ekki endilega sammála.

Mín sjónarmið eru þau að þegar þessum verðmætum var úthlutað, og ég hygg að hv. þm. geti rifjað það upp líka, þá var niðurstaðan sú að auðlindin væri fullnýtt og ekki væri aðgangur fyrir aðra, nema með því að ganga á atvinnuréttindi þeirra sem fyrir voru. Á atvinnuréttindunum höfðu einstaklingar og fyrirtæki grundvallað verulegar fjárfestingar, og það ástand sem ríkti fram að því, stjórnlaus starfsemi í ofnýttri auðlind, hafði orðið til þess að fyrirtækin voru í stórfelldum vandræðum. Langt fram yfir þann tíma áttu þessir menn engan kost, hvort sem menn voru einkaeigendur eða í félagi með öðrum, að fá full verðmæti út úr réttindunum. Það varð ekki fyrr en nú á síðustu árum.

Ég er ekki þeirrar skoðunar, herra forseti, að það gefi okkur neina heimild. Ég er alls kostar sannfærður um að það muni ekki heimilt nema þá gegn bótum á eignarréttarvörðum réttindum. Ég er ekki að tala um eign heldur um verðmæti, því að þessi réttindi hafa reynst í hendi allra vera verðmæt. Vöxtur verðmætanna, vel að merkja --- ég hygg við eigum að viðurkenna það --- hefur ekki byggst á að auðlindin hafi farið vaxandi. Aukning verðmætanna hefur mun fremur verið vegna aukins árangurs í rekstri þessara fyrirtækja.