Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:05:01 (2997)

1999-01-11 20:05:01# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:05]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þau sjónarmið sem hv. þm. endurtók breyta ekki þeim veruleika sem við búum við. Það kann að vera að framtíðarsýn hv. þm. sé að þessu kerfi verði gjörbreytt frá grunni. Ég verð að viðurkenna að ef það verður gert þá stöndum við frammi fyrir tveimur slæmum möguleikum. Verði farið eins að og þingmaðurinn nefnir er ljóst að veiðiréttindin verða aðeins til úthlutunar í skamman tíma í senn. Það býður upp á talsverða óvissu, efnahagslega óvissu, skamma framtíð fyrir fyrirtækin hverju sinni og þar með lakari afkomu þeirra og þeirra sem við þau starfa. Það býður líka upp á nánast hrun í endursöluverði þeirra fjárfestinga sem í liggja. Ég er ekki að tala um veiðiréttarverðmætin sjálf.

Hinn möguleikann tel ég sýnu verri fyrir okkur Íslendinga í ljósi þess að við erum eina þjóðin sem hefur fiskveiðar í svo miklum mæli að undirstöðu fyrir efnahagslífið. Fiskveiðar eru undirstaðan sem heldur uppi velferðarþjóðfélagi, fullburðugu efnahagslega, sem er að verða sambærilegt að lífskjörum við grannþjóðirnar sem við töldum lengi að stæðu okkur framar á því sviði. Ég tel ljóst að afleiðingar af versnandi afkomu í sjávarútvegi muni draga mjög úr efnahagslegum burðum okkar sem þjóðfélags, þ.e. þess sem við köllum þjóðarbú. Sameiginlegur efnahagur okkar er að mestu leyti reistur á mikilli og góðri afkomu í sjávarútvegi. Hann er að stórum hluta byggður á stöðugleika til nokkuð langs tíma.

Ég hygg að við mundum verða sammála um þetta ef við skoðuðum málin í því ljósi, fengjum gögnin í hendurnar. Þá mundum við vilja viðhalda stöðugleika til frambúðar. Spurningin er hvernig við förum að.