Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:13:58 (3001)

1999-01-11 20:13:58# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, ÁRÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:13]

Árni R. Árnason (andsvar):

Herra forseti. Nú fagna ég orðum hv. andmælanda míns í þessari umræðu. Við erum nákvæmlega sammála um það sem hún nefndi nú. Það væri hentast þjóðfélaginu öllu, líka þeim sem á undanförnum missirum hafa talið sig standa utan við arðinn af fiskveiðum, sem ég að vísu tel þá misskilja. En það hentar okkur öllum að úthlutanir, í hvaða formi sem þær eru, standi til langs tíma. Það er meginatriði í sameiginlegum efnahagshagsmunum Íslendinga.

Hitt hef ég oft orðað í þessum stól og víðar og á við um þetta stjórnkerfi eins og önnur í landinu að einungis almennar reglur eiga að gilda. Öðruvísi verða engar reglur gagnsæjar, öðruvísi getur enginn vitað hvað við tekur að skömmum tíma liðnum. Ég er þeirrar skoðunar að við séum heldur á leið þangað en hitt. Ég verð að viðurkenna að dagakerfið, sem var í stjórnkerfinu fram að þessum dómi og fram að því að menn áttuðu sig á áhrifum af dómnum, var sérfyrirbrigði. Það var ekki almenn regla. Almenna reglan var að heimildir mættu menn færa á milli sín eftir því sem þeir sáu sér hagkvæmast. Þannig skilar kerfið meiri árangri fyrir þjóðarbúið.