Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 20:58:43 (3006)

1999-01-11 20:58:43# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. minni hluta SvanJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[20:58]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir) (andsvar):

Herra forseti. Sem betur fer má ekki lesa annað af blaðaskrifum en það að forusta þeirra í Breiðdalsvík vilji gjarnan bregðast við málum eins og byggðarlög hafa hingað til brugðist við, þ.e. að efla framtak heima fyrir. Þeir vildu ganga inn í þau kaup sem var verið að gera á hlut Breiðdælinga í því fyrirtæki sem um ræðir þannig að þeir hafa sýnt að þeir hafi fullan hug á að bjarga sér.

Þetta er ekki ný hugmynd, segir hv. þm., og það er kannski það versta við hana, þetta er ekki ný hugmynd. Þetta er ekki bara gömul hugmynd heldur er hún illa útfærð og það eru ekki nema tvö ár síðan við lögðum niður byggðapott og hann var þá tveggja ára gamall. Ég verð því að segja það, herra forseti, að þingmanninum hefur ekki tekist að sannfæra þá sem hér stendur um ágæti þess að fara svona í hlutina. Það á að gera það öðruvísi, alls ekki svona.

Síðan langar mig rétt vegna þess að hv. þm. hefur verið að tala um banndagakerfi og ríkisútgerð af því að ég var talsmaður minnihlutaálits hv. sjútvn. þar sem viðhorf stjórnarandstöðunnar voru viðruð, þá kannast ég hvorki við banndaga né ríkisútgerð úr því nál. Ef það er að finna þar, vil ég gjarnan að mér verði bent á hvar það er vegna þess að ég get ekki sem talsmaður stjórnarandstöðunnar sætt mig við það að henni séu eignuð viðhorf sem hafa ekki komið fram.