Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 21:56:13 (3011)

1999-01-11 21:56:13# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[21:56]

Kristinn Pétursson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. 3. þm. Vestf. fyrir þessi orð. Ég held að það séu tvö ár síðan mér varð fyrst kunnugt um það að meðalvigt í þorski var farin að falla fyrir Vestfjörðum. Af því að ég rek fiskverkun keypti ég fimm kör af fiski núna í nóvember frá Vestfjörðum og ég hef ekki séð horaðri fisk í langan tíma. En ég get staðfest að ég deili þessum áhyggjum með honum.

Það er annað sem ég vil minnast á af því að ég er að svara þessu. Það er margt sem bendir til þess að það séu margir þorskstofnar á Íslandsmiðum. En þeim rannsóknum hefur ekkert verið sinnt. Í Kanada var vitað 1943 að þar væru a.m.k. sjö stofnar. Það var fiskifræðingur sem var Skoti sem hét Harald Thompson sem rannsakaði og merkti fiska við Kanada í 10 ár frá 1930--1940 og skilaði Government of Newfoundland skýrslu 1943, sem ég á, og 43% af öllum merktum fiski á 10 ára tímabili veiddist innan 10 mílna radíus frá merkingarstað. 93% veiddust innan 100 mílna radíus frá merkingarstað. Allar síðari rannsóknir á þessu svæði og DNA-greiningar hafa staðfest þessar rannsóknir. Þar er um staðbundinn þorskstofn að ræða. Því skyldi þorskstofninn hér ekki vera staðbundinn líka að einhverju leyti þó þeir flakki eitthvað á milli? Ef svo er, hæstv. forseti, að fiskstofnar séu staðbundnir, þorskstofnar séu margir hér, af hverju skyldi þá vera rétt að selja kvótann milli landshluta? Þetta er eitt af því sem þarf að athuga. Það þarf að setja meira fjármagn og ég mundi vilja einkavæða þessar rannsóknir meira, svo þetta sé ekki einhver lokaður klúbbur þriggja, fjögurra manna sem segja okkur alltaf allt en enginn þorir að gera neina athugasemd við. Yrði þetta frjálst og við tækjum upp frjálsar rannsóknir og frjálsar túlkanir hef ég trú á því að okkur mundi bera hratt fram á veginn í þessum málum.