Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 22:00:29 (3013)

1999-01-11 22:00:29# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KPál
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[22:00]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Mig langar aðeins vegna þeirra orða sem fallið hafa hér frá hv. þm. Kristni Péturssyni og Einari Oddi Kristjánssyni um Hafrannsóknastofnun og rannsóknir á Íslandsmiðum að mótmæla orðfæri eins og hv. þm. Kristinn Pétursson notar hér um fiskifræðinga er hann talar um bull og að þeir séu ónothæfir til kennslu við Háskóla Íslands vegna þess að fræði þeirra séu bull. Hv. þm. sagði einnig í ræðustóli Alþingis að fiskifræðingar ættu að biðjast afsökunar vegna þess að þeirra fræðistörf og þeirra rannsóknir væru út úr kortinu.

Mér finnst þetta mjög stór orð um þá stétt vísindamanna sem hafa þróað hér upp einhverja virtustu vísindastofnun á sínu sviði í heiminum. Þeir eru viðurkenndir um allan heim fyrir nákvæmar, góðar og vel ígrundaðar vísindaniðurstöður og rannsóknir. Ég ætla ekki að gera lítið úr dugnaði og getu íslenskra sjómanna um allt land til þess að skapa hér hagsæld, en ég ætla bara að minna á það sem gamall sjómaður og útgerðarmaður að ég man hvernig ofveiðin var að ganga að Íslandsmiðum dauðum og menn neyddust til þess að fara úr skrapdagakerfi yfir í kvótakerfi. Ég man líka að það var af hreinni og klárri neyð þegar við fórum yfir í fiskveiðistjórnarkerfið 1990. Þá var búin að vera í gangi bæði sóknarstýring og aflamarksstýring samhliða í mörg ár og hafði bara ekki gengið upp.

Við sáum fram á algjört hrun í okkar helsta fiskstofni, þorskinum, og þá var gripið til þess neyðarúrræðis að skera niður aflaheimildirnar ár eftir ár þangað til að við vorum að veiða helmingi minna fyrir rest en við höfðum gert nokkrum árum áður.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson kom hér með frábæra hugmynd, að honum fannst, um óháða vísindanefnd einhverra manna sem ættu að vera Hafrannsóknastofnun til ráðuneytis. Ég vil minna á að Hafrannsóknastofnun hefur haft samráð við helstu fiskimenn þjóðarinnar og haldið samráðsfundi til að ræða útkomu ársins og hvernig fiskiráðgjöf sé best háttað þannig að sú ,,vísindanefnd`` hefur þegar verið sett á laggirnar.

Aðferðir fiskifræðinga við það að finna út magn í sjó hafa verið viðurkenndar og teknar upp annars staðar í heiminum, t.d. togararall, netarall, samráðsfundir, aflaskýrslur sem berast frá hverju einasta skipi, dagbækur og leiðangrar sem skip Hafrannsóknastofnunar fara um öll mið og rek seiða hefur verið kannað.

Hv. þm. sagði að stofnarnir væru staðbundnir og það er eins og þetta sé einhver kenning sem aldrei hafi nokkurn tíma komið upp áður. Það er búið að merkja fleiri þúsund seiði og þorska. Við vitum vel að seiðin rekur, í miklum seiðaárum t.d. getur þau rekið allt til Grænlands frá hrygningarstöðvunum fyrir sunnan land. Þau getur rekið allt til Grænlands og þessi fiskur kemur til baka aftur mörgum árum seinna, fimm til sjö árum síðar. Við vitum jafnframt að fiskar sem hafa verið merktir, til að mynda á Selvogsbanka, hafa nánast haldið sig innan sama radíuss. Það hefur verið kannað. Einn og einn fiskur hefur fundist austur við Færeyjar, við Austurland og eitthvað aðeins lengra, en það er sáralítið hlutfall. Það er því löngu komið fram að fiskurinn er staðbundinn. Eftir að hann er kominn á hrygningarslóð aftur fer hann ekkert svo mjög víða. Þessi kenning um að stofnarnir séu staðbundnir er því til staðar.

Ég ætla ekki að fara meira út í það, herra forseti, hvernig hv. þm. Kristinn Pétursson ræðst hér að Hafrannsóknastofnun. Ég ber fullt traust til hans að öðru leyti sem fiskverkanda og veit að hann hefur starfrækt gott fyrirtæki austur á Bakkafirði og margt í málflutningi hans er athyglivert. En svona málflutningur dæmir sig sjálfur og ég a.m.k. læt það ekki fara fram á þinginu óátalið að svona sé rætt um þessa virtu vísindastofnun.

Herra forseti. Um það mál sem hér er á dagskrá, frv. til laga um breyting á lögum um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum, má segja að frv. hæstv. sjútvrh. sem lagt var fram hafi verið breytt gríðarlega mikið og ljóst að þeim sem eru að koma að þessu eftir umfjöllun í sjútvn. sýnist við lestur frv. að búið sé að gera mjög einfalt mál flókið. Ef við lítum á 1. gr. frv. eða breytingartillögur sjútvn., þá er nú gert ráð fyrir því að við lýði verði a.m.k. fjórar aðferðir við að stýra sókn trillubátana í þau 13,75% sem þeir hafa af heildarmagninu. Þegar maður horfir á þetta til að byrja með þá finnst manni því að verið sé að búa þarna til skrímsli úr einföldu máli. Til þess að ná alvörustjórn á fiskveiðunum þá hef ég alltaf álitið að það eigi að hafa einfalt kerfi sem gangi upp frá báðum hliðum. Þá meina ég bæði gagnvart stóru og litlu skipunum. Þess vegna fannst mér þegar ég leit á þetta að við værum að leita langt yfir skammt. Þó verður að segjast, þegar maður les þetta, að ekki er allt sem sýnist að því leytinu til að með kerfinu, þrátt fyrir að búið sé að blanda þarna saman bæði aflamarkskerfi og sóknarmarkskerfi, sjáum við fram á að breytingarnar munu leiða til þess að innan ekki mjög langs tíma mun þessi breyting verða til þess að engir bátar verða eftir í sóknardagakerfi, nema í kerfi sem verður með seljanlegum sóknardögum. Ég held að við getum því sagt að þegar á heildina er litið þá muni þetta kerfi verða einfaldara í sniðum ef við lítum fram hjá þessum tveimur árum sem á að nota til þess að sýna fram á reynslu og breytingar á kerfinu. En það á þá eftir að koma í ljós hverjar þær verða innan kerfisins sjálfs.

Það eru náttúrlega nokkrir augljósir ókostir við þetta sem ég tel nauðsynlegt að laga. Fyrst og fremst er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því hve sóknardagar innan kerfisins verða flóknir við afgreiðslu. Útfærslan sem slík mun ekki einungis miðast við fjölda báta í kerfinu heldur mun verða farið eftir því hvað einstakir bátar eru stórir og hvað einstakir bátar hafa sótt mikið. Það eina sem virtist vanta var hvað einstakir bátar hafa stórar vélar. Framseljanlegir sóknardagar í þessu kerfi eru í mínum huga dálítið flókið fyrirbrigði og gefa slæma ímynd. Ekki er þar með sagt að ekki sé hægt að ráða fram úr þessu. En ég held að þegar menn fara að rýna í þetta kerfi þá treysti sér fáir til þess að fara í sóknardagana þar sem eingöngu má stunda handfæri. Því hugga ég mig við það að sú einföldun sem ég tel að verði með kerfinu komi á lengri tíma en ég hafði gert mér vonir um.

Ég veit af kynnum mínum við trillukarla sem núna eru á sóknardagakerfi að þeir vilja helst komast út úr því með einhverjum ráðum og hefðu helst viljað fá meiri breytingar á heildaraflamagni er þessu fylgir. En þau 20% sem koma til verða að teljast þó einhver leiðrétting svo flutningur þessara skipa yfir í kerfið sé með meiri sóma en annars hefði verið.

Eitt atriði sem lýtur að sókninni sjálfri verðum við að leiðrétta í þessu sóknarkerfi en samkvæmt þessu kerfi er leyfilegt að kaupa daga umfram þá 23 sem koma til með að verða til úthlutunar, reyndar eftir þessu flókna kerfi. Þarna eru bátar sem eru ekkert minni en bátar sem eru undir aflamarki eða undir þorskaflahámarki og það er óeðlilegt að þeir séu á öðru sóknarmunstri innan ársins en önnur sambærilega stór skip. Þess vegna mundi ég telja eðlilegt að taka út það ákvæði sem takmarkar sókn þessara báta, þessara handfærabáta sem verða á sóknardagakerfi, við tímabilið frá apríl til september. Bátar í hvoru tveggja kerfinu eru í raun með sambærilega burðargetu og sambærilegt flot þannig að ástæðulaust er að vera með mismunandi sóknarstýringu eða sóknarleiðbeiningar fyrir þá.

Mér finnst að í frv. sé komið inn á jákvæðar leiðréttingar eins og t.d. þær að aflamarksbátar í stóra kerfinu fái 15% viðbót við sinn afla. Mér finnst að hv. sjútvn. komi fram með breytingartillögu sem gerir ráð fyrir því að bátar undir 10 tonnum í því kerfi fái leiðréttingu. Þegar flokkur báta undir 10 tonnum varð til þá var hið svokallaða krókakerfi ekki til. Það er ekki fyrr en eftir 1990 að krókakerfið verður til með bátum undir 6 tonnum en hinir bátarnir eru komnir inn í stóra kerfið og flokkast undir stóra kerfið þó þeir séu undir 6 tonnum. Þeir hafa verið meðhöndlaðir í þeim flokki og fengið skerðingar samkvæmt því. Því er náttúrlega eðlilegt að tekið sé á öllum bátum sem flokkuðust eins fyrir 1990, þ.e. bátum 9,9 tonn tonn og minni. Ég tel eðlilegt að hv. sjútvn. taki sérstaklega á þessu máli.

[22:15]

Önnur ágæt leiðrétting sem orðið hefur með þessu breytingafrv. sjútvn. er til aflamarksbáta undir 200 tonnum. Þar er gert ráð fyrir því að landróðrabátar fái um 3.500 lestir af þorski, sem allir eru nú sammála um að geti virkað mjög jákvætt, einnig fyrir landvinnsluna, en hún hefur orðið mjög illa úti í þeirri þróun sem orðið hefur í fiskveiðiflotanum. Það er ekki beinlínis hægt að segja að það sé kerfið, heldur séu þetta spurningar um hvernig menn geti hámarkað arðinn. Hann hefur verið mestur í fullvinnsluskipum.

Í brtt. nefndarinnar er, herra forseti, talað um sérstakan pott hjá Byggðastofnun upp á 1.500 tonn. Ég tel slæmt að hafa slíkan pott, fyrst og fremst vegna reynslunnar sem við höfum haft af útdeilingum hjá Byggðastofnun. Byggðastofnun hafði undir höndum 500 tonna pott í tvö ár, --- ég er ekki að halda því fram að hann hafi verið misnotaður. Samkvæmt upplýsingum frá Byggðastofnun varð að hætta úthlutun úr pottinum vegna þess að engir féllu undir reglurnar. Því var pottinum dreift milli þeirra fáu skipa sem höfðu reyndar fengið úthlutun en stærstur hluti hans fór inn í kerfið í heild sinni, þannig að potturinn sjálfur nýttist ekki. Ég held að þarna hljóti frekar að verða um einhvern varasjóð að ræða og tek fyllilega undir það sem komið hefur fram, að ástand eins og á Breiðdalsvík fyrir austan, væri hugsanlega hægt að laga tímabundið með slíkri aðgerð, og færa aflaheimildir þangað úr slíkum potti. Ég er samt ekki endilega viss um að það takist. Kannski má þó segja að það sé tilraunarinnar virði. Ég geri því ekki neinar alvarlegar athugasemdir við þetta þó ég hræðist yfirleitt mikil afskipti af þróun sem markaður og viðskipti eiga að ráða. Sem landsbyggðarmaður tel ég þó nauðsynlegt að Byggðastofnun og Alþingi bregðist við þegar alvarleg byggðaröskun gæti átt sér stað og þá áður en byggðaröskunin er orðin.

Herra forseti. Af mörgu er að taka í málinu og búið að segja margt og flest erum við að endurtaka hér. Í þessu plaggi frá hæstv. sjútvn. er m.a. rætt um endurskoðun á fiskveiðistjórninni almennt. Þar virðist allt geta komið til, ekki einungis fiskveiðistjórnin heldur afleiðingar hennar. Sala á varanlegum aflaheimildum hefur leitt til þess, það er ekkert launungarmál, að hundruð milljóna hafa safnast á fárra manna hendur án þess að hægt hafi verið að sjá í rekstrartölum viðkomandi fyrirtækis að slíkur ofsagróði hefði átt að skapast. Þetta hefur sem eðlilegt er farið mjög fyrir brjóstið á þjóðinni.

Auðvitað viljum við, sem þekkjum útgerð og þá erfiðleika sem verið hafa samfara rekstri útgerða á Íslandi á undanförnum árum, að hægt sé að reka fyrirtækin með hagnaði. Við viljum að þeir sem fara út úr þessum rekstri geti farið þaðan með beint bak, borið höfuðið hátt og skapað sér nýja framtíð annars staðar. Auðvitað er það eðlilegt og löngu tímabært. Það er svo aftur annað mál hvort þetta sé ekki nokkuð langt gengið. Þessi gróði hefur ekki síst skapast vegna þess að við skattleggjum þetta hófsamlega. Skattlagningin hefur miðast við það að jafnvel sé hægt að komast niður í 10%. Mér fyndist eðlilegt að um slíka 10% skattlagningu á hagnaði af sölu, þá ekki einungis úr sölu sjávarútvegsfyrirtækja heldur af sölu alls staðar, hagnaði af Hagkaupum, apótekum eða öðru, ættu að gilda þær reglur að þegar gróðinn er orðinn svo umfangsmikill gildi almennar skattareglur eins og þær voru, þ.e. að 40 til 50%. Þar með mættum við þeirri óánægju og réttlátu reiði sem ríkt hefur meðal þjóðarinnar vegna þess hve mikill auður hefur safnast á hendur fárra útgerðarmanna sem hafa farið út úr greininni þar sem þeir gátu selt kvóta á uppsprengdu verði.

Annað sem ég vildi koma inn á varðandi endurskoðun á þeim málum sem snúa að fiskveiðistjórnuninni almennt er umgengnin um fiskimiðin og lögin um nytjastofna sjávar. Við sem höfum verið hér á þingi síðustu fjögur árin vitum að lögunum sem varða frystiskipin og meðferð á afla um borð hefur verið breytt verulega. M.a. var samþykkt hér á Alþingi fyrir tveimur árum síðan að það væri í valdi skipstjóranna sjálfra að meta hvaða afli væri verðmæti. Afla sem ekki teldist verðmætur, mætti henda fyrir borð. Ég mótmælti þessu á sínum tíma, enda vitum við að það hefur verið afskaplega afstætt í gegnum árin hvað er verðmætt og hvað einskis virði eins og við þekkjum. Grálúðan var einu sinni einskis virði en er nú mjög verðmæt. Sama má segja um tindabykkju, keilu og fleiri tegundir, skötusel og ýmsar sérstakar skepnur úr sjónum sem í dag teljast mjög verðmætar, þó áður hafi þær verið taldar ónýtar.

Fullvinnsluskip hafa farið mjög illa með afla. Nýtingin um borð í þessum skipum er hörmuleg eftir því sem maður fær fréttir af. Ef maður miðar við nýtingu í frystihúsum eða vinnslustöðvum sem þurfa að kaupa fiskinn á markaði, þá er skafið svo að hryggnum að hægt er að lesa Morgunblaðið í gegn. Aftur á móti er mér sagt að hryggurinn, í venjulegu fullvinnsluskipi sé alveg kringlóttur og menn höggvi framan og aftan af eins og þá lystir. Þetta er afskaplega alvarlegt og þær sögur sem maður heyrir eru þess eðlis að maður gerir ekki ráð fyrir að þær séu rangar, enda var lagt mjög mikið upp úr því að fá þessum lögum breytt. Illu heilli var það samþykkt hér í þinginu. Jafnframt var samþykkt að ákvæði um að öll fullvinnsluskip hefðu mjölvinnslur um borð, sem lengi hafði verið í lögunum, var einnig fellt út. Nú þurfa þessi skip ekki að hafa mjölvinnslu og þurfa ekki að hirða nema þann afla sem þau vinna. Ég held að þetta verðum við að endurskoða og skylda öll skip til að koma með allan þann afla sem kemur inn fyrir borðstokkinn að landi. Við vitum að það hefur verið heilmikill markaður, sem er enn að styrkjast, fyrir meltu og fyrir fóður í loðdýrarækt, eins fyrir lífefnaiðnað. Við erum því að henda miklum verðmætum vitandi vits. Þetta er einnig mjög slæmt fyrir ímynd okkar út á við. Þarna er því verk að vinna. Einnig er nauðsynlegt að um borð í venjulegum fullvinnsluskipum verði vigtun og eftirlit betra en verið hefur fram að þessu.

Herra forseti. Það sem ég tel einnig þurfa að skoða þegar við lítum á nýtingu og aðgang að fiskinum, er að stíga það skref að auka þann afla sem fer til landvinnslunnar. Það getum við að mínu viti ekki gert öðruvísi en að auka það magn sem fer í gegnum fiskmarkaðina. Ég tel að við verðum að gera það með því móti að skylda útgerðir til að setja a.m.k. 20--50% af öllum afla á fiskmarkað. A.m.k. verður að gera það í einhverjum skrefum. Það eru að sjálfsögðu einhverjir erfiðleikar við að snúa þróunini við, en við getum ekki látið fiskmarkaðina veslast upp eins og þeir eru því miður að gera núna. Sífellt fer minna magn á fiskmarkaðina, einfaldlega vegna þess að minna af fiski kemur til litlu bátanna en verið hefur. Leigumarkaðurinn er lélegri en hann var. Öll skip verða í dag að veiða a.m.k. helminginn af því sem þau fá úthlutað árlega í stað helmings annað hvort ár. Það hefur einfaldlega orðið til þess að leigumarkaðurinn varð miklu minni. Leiguverðið varð um leið hærra þannig að minni skip, sem hafa fóðrað fiskmarkaðina og landvinnsluna, hafa minna hráefni, minni afla.

Þetta tengist svo aftur þessu blessaða Kvótaþingi sem ég segi að sé hin allra versta miðstýring sem við höfum samþykkt hér. Þar gengur allt á afturfótunum og er ótrúlega dýrt. Þeir sem bjóða þarna í segja mér að í hvert skipti sem sett er inn tilboð þurfi að borga nokkur þúsund krónur, þótt þú fáir ekki neitt. Það skiptir engu máli hvort þú færð eitthvað eða ekki. Alltaf þarf að borga og setja sérstakar tryggingar til að fá að vera með, nákvæmlega eins og á fiskmörkuðum. Kvótaþingið hefur einungis aukið miðstýringu, sem er óeðlileg í þessu kerfi, og aukið kostnað þeirra sem átt hafa viðskipti á þessu sviði. Það hefur svo komið niður á fiskmörkuðum og þeim sem með miklu harðfylgi hafa getað aflað sér markaða í Evrópu, Bandaríkjunum og Japan, fyrir ótrúlega verðmætar fisktegundir. Það er hreint með ólíkindum hvað menn hafa náð að afla sér markaða fyrir fisk sem hefur verið keyptur fyrir óheyrilegt verð á mörkuðum, allt upp undir 200 kr. fyrir kílóið af þorski. Fyrir tveimur, þremur árum hefði enginn látið sér detta það í hug að þetta væri hægt. Þetta hafa menn hins vegar gert, hvernig sem þeir hafa farið að því.

Annað sem endurskoða þarf að nýju, í framhaldi af því sem ég hef sagt hér áður, er framsal aflaheimilda í stóra kerfinu. Þar hefur frjálsræðið verið takmarkað gríðarlega með Kvótaþinginu. Það verður að endurskoða ákvæðið um að veiða helminginn á hverju ári. Það er allt of mikið til að eðlilegur leigumarkaður nái að þróast. Eins og þetta var, virtist markaðurinn geta þróast vel. Við sáum það á Suðurnesjum, þar sem keypt voru nærri 20 þús. tonn á ári, það skapaði ekki atvinnuleysi á Vestfjörðum eða Norðurlandi eystra eða Norðurlandi vestra, þaðan sem megin hlutinn af þessu kom. Aftur á móti skapaði það mikla möguleika fyrir þá sem höfðu litlar aflaheimildir eins og á Suðurnesjum. Það fyrirkomulag skapaði mikla vinnu í landi og mikil umsvif á mörkuðum. Ég held að til að auka frjálsræðið í framsalinu verði að minnka veiðiskylduna að nýju, og fella út Kvótaþingið.

[22:30]

Herra forseti. Ég ætla ekki að tala öllu lengur í þessu máli. Þótt hægt sé að halda mjög langar ræður um sjávarútvegsmál eru takmörk fyrir því hvað á að eyða miklum tíma fyrir þjóðinni í þessari umferð. Það sem vakir fyrir mér er fyrst og fremst að styrkja og einfalda það stjórnkerfi sem fiskveiðarnar búa við. Í mínum huga er það þjóðarnauðsyn enda heldur ekkert annað en fiskveiðar uppi velferð í þessu landi og það hvernig á þeim er haldið. Við eigum að sjálfsögðu að læra af öðrum þjóðum. Ég hef heyrt það hér á ræðum manna, m.a. hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni að honum finnst að við eigum að læra af öðrum þjóðum sem fari aðrar leiðir en við, og sérstaklega hafði hann áhyggjur af framsalinu. Ég tek undir það að við eigum að læra af öðrum þjóðum en fram að þessu hafa aðrar þjóðir verið að læra af okkur. Við megum samt aldrei gleyma því að hlutur sjávarútvegs í hagkerfi þeirra ríkja sem við miðum okkur helst við er brot úr prósenti á meðan hér skiptir hann öllu máli. Hér er 75% vöruútflutnings sjávarafurðir en bara brot úr prósenti hjá öðrum þjóðum þannig að hjá þeim skiptir engu máli í sjálfu sér hvernig þessi stýring er. Þar getur það allt verið á tilraunastigi eins lengi og þeim sýnist. Hjá okkur skiptir þetta öllu máli og þess vegna getum við hvorki leikið okkur né tekið kollsteypur í tilraunaskyni eins og aðrir geta leyft sér. Vil ég ljúka máli mínu á því að minna á forsendur fyrir velferð þessarar þjóðar. Þær eru hagkvæm nýting fiskstofna og eðlileg stýring veiðanna.