Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 22:32:44 (3014)

1999-01-11 22:32:44# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KrP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[22:32]

Kristinn Pétursson (andsvar):

Hæstv. forseti. Varðandi þau orð sem ég viðhafði um fiskifræði, eða öllu heldur fiskihagfræði, stærðfræðilega fiskifræði, vil ég taka fram ef það kom ekki nógu skýrt fram hjá mér að ég hef notað gögn Hafrannsóknastofnunar til að nálgast þær niðurstöður sem ég hef komist að. Ég hef því gefið þeim háa einkunn fyrir allar rannsóknir og öll rannsóknagögn. Hins vegar nota þeir ekki þessi gögn til að velta fyrir sér hvað hafi gerst í hafinu, heldur er reiknilíkanið alltaf spurt án þess að nokkur sé að hugsa hvað hafi gerst. Ég var að útskýra það í ræðunni áðan, hæstv. forseti, að þegar vaxtarhraði fellur þá túlkar reiknilíkanið það svo að veiðiskipin hafi drepið fiskana sem vantar í aflabókhaldið. Þetta er búið að gerast hvað eftir annað. Þetta gerðist hvað eftir annað við Kanada og þeir stigu alltaf eitt skref aftur á bak til að byggja upp stofninn og það endaði með því að stofninn hrundi. Í Kanada var keyrt vísindalega með 20% veiðistefnu eins og ég rakti hér úr viðtali við Jakob Jakobsson upp á punkt og prik. Eftir á komu menn og sögðu: Við höfum ofmetið stofninn. Svo komu þeir aftur þegar stofninn minnkaði. Þeir höfðu aftur ofmetið stofninn. Það var svo mikill smáfiskur á svæðinu við Kanada 1986 og 1987 að menn voru að sprengja trollin eftir að hafa togað í fimm mínútur. Þeir urðu að setja sérstakan leggglugga á trollin til að geta stundað veiðar án þess að sprengja trollin. Svo mikill smáfiskur var á ferðinni og það var alltaf verið að friða hann. Það mátti ekki veiða hann. Það var alltaf verið að bíða eftir að hann stækkaði. En hann hafði bara engan mat og þess vegna gekk dæmið ekki upp. Ég tel því að núverandi veiðiráðgjöf, miðað við reynsluna frá Kanada og Grænlandi, geti verið rússnesk rúlletta og að við getum alveg eins verið á stórhættulegri braut miðað við reynsluna. Ég er að tala um að hv. alþingismenn eigi að skoða hvað var sagt á hverjum tíma og hvað reyndist rétt. Það er jafnmikilvægt að aðskilja rannsóknir og veiðiráðgjöf eins og aðskilja dómsvald og umboðsvald, því að slíkir gífurlegir fjármunir eru hér á ferðinni varðandi það hvað veiða má mikinn þorsk að fyllsta ástæða er til að skilja á milli rannsókna og veiðiráðgjafar.