Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 22:38:17 (3017)

1999-01-11 22:38:17# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[22:38]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Að segja það bull sem fiskifræðingar fara með í háskólanum kalla ég gífuryrði, hvað sem hv. þm. vill segja um það.

Í framhaldi af því sem sagt hefur verið um þetta mál get ég alveg af eigin reynslu staðfest að fiskifræðingar hafa ekki alltaf rétt fyrir sér. Við munum það vel sem vorum á síld á sjöunda áratugnum þegar síldin hvarf þrátt fyrir að virtustu fiskifræðingar teldu menn á að halda bara áfram því hún væri einhvers staðar. Staðreyndin var sú að þeir höfðu ekki rétt fyrir sér. Hún var ofveidd, hún var búin. Það er því alveg hárrétt að fiskifræðingar hafa ekki alltaf haft rétt fyrir sér og munu aldrei hafa alltaf rétt fyrir sér. Það er hreint útilokað. En engir aðrir geta þó komist nær því að hafa rétt fyrir sér en einmitt þeir. Það fannst mér koma mjög vel fram þegar hæstv. ráðherrar ríkisstjórna hér á árum áður tóku að sér fiskveiðiráðgjöfina, eða veiðiráðgjöfina skulum við segja, og hentu ráðgjöf fiskifræðinganna bara í ruslakörfuna. Afleiðingarnar urðu augljósar. Það var ofveiði. Ég man þá tíð að menn voru í miklum vandræðum með að ná þeim afla sem þeir fengu úthlutað. (KrP: Þetta er tómt bull.) Þetta er staðreynd og ég get alveg fært tölur fyrir því, nákvæmlega eins hv. þm. (Gripið fram í.) Ég er ekki með það hér í stólnum en ég þekki jafn vel hv. þm. hvað menn gengu langt á fiskstofna vegna vankunnáttu.