Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 22:40:16 (3018)

1999-01-11 22:40:16# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EKG
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[22:40]

Einar K. Guðfinnsson:

Virðulegi forseti. Eins og kunnugt er ræðum við sjávarútvegsmálin núna í ljósi þess dóms sem féll í Hæstarétti í upphafi desembermánaðar og leiddi til þess að hæstv. ríkisstjórn lagði fram frv. til að eyða þeirri óvissu sem skapaðist í kjölfar dómsins.

Það sem greinilega hefur komið fram í þeirri umfjöllun sem átt hefur sér stað frá því frv. hæstv. ríkisstjórnar var lagt fram er að dómurinn fjallaði um 5. gr. laganna. Það hygg ég sé ótvíræð niðurstaða af þeirri efnislegu umfjöllun sem málið hefur fengið, m.a. í hv. sjútvn. Alþingis. Ég átti þess kost að sitja þar fund eina dagstund og er alveg sannfærður eftir að hafa farið ofan í þau mál í framhaldi af því að um það fjallaði í raun og veru hin efnislega niðurstaða dómsins. Ég vek athygli á því að í lok dómsins segir svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Með hliðsjón af framansögðu verður ekki talið, að sjávarútvegsráðuneytinu hafi verið rétt að hafna umsókn áfrýjanda um almennt og sérstakt veiðileyfi á þeim forsendum, sem lagðar voru til grundvallar í bréfi þess 10. desember 1996. Verður synjun ráðuneytisins því felld úr gildi.`` Síðan kemur setningin: ,,Hins vegar er ekki í þessu dómsmáli tekin afstaða til þess, hvort ráðuneytinu hafi að svo búnu borið að verða við umsókn áfrýjanda, en málið er einungis höfðað til ógildingar á ákvörðun ráðuneytisins en ekki til viðurkenningar á rétti áfrýjanda til að fá tilteknar veiðiheimildir í sinn hlut.``

Mér sýnist þetta mál vera afar skýrt. Það er í raun og veru í dómsniðurstöðunni verið að fjalla um 5. gr. og það er kjarni þessa máls. Að vísu er það svo þegar maður les í gegnum dóminn, aðfararorðin, rökstuðninginn og þá efnislegu umfjöllun sem þar fer á undan, að hægt er að velta fyrir sér hvað ýmislegt í þeim orðum muni þýða og hvort þar sé skírskotun til annarra greina laganna, svo sem 7. gr. Það verður hins vegar ekki skorið úr um það hvað afstöðu Hæstaréttar áhrærir nema með sjálfstæðu dómsmáli en við erum auðvitað fyrst og fremst og eingöngu hér að bregðast við hinni raunverulegu, efnislegu niðurstöðu hæstaréttardómsins. Á það vil ég leggja áherslu vegna þess að þetta skiptir það sem á eftir kemur mjög miklu máli. Menn hafi verið að tala um að þetta sé þröng túlkun, en ég hafna því. Ég held þetta sé hvorki þröng túlkun né víð túlkun, þetta er almenn túlkun. Þetta er bara niðurstaða af því að fara yfir efnisatriði dóms Hæstaréttar.

Þrátt fyrir að ýmsir hafi látið í veðri vaka að það feli ekki í sér mjög róttæka ákvörðun að taka til endurskoðunar sérstaklega 5. gr. laganna þá er það nú svo engu að síður vegna þess að 5. gr. er í raun og veru sú grein sem hugtakið ,,veiðileyfi`` hvílir á. Það er efnisleg niðurstaða þeirra sérfræðinga sem hæstv. ríkisstjórn kvaddi til, m.a. tveggja háskólakennara á þessu sviði. Niðurstaða þeirra er sú að þetta leiði til þess að útgáfa veiðileyfa verði að vera með allt öðrum hætti og þar með sé ekki hægt að takmarka stærð flotans með þeim aðferðum a.m.k. sem við höfum tíðkað. Þetta er auðvitað gríðarleg breyting, m.a. vegna þess að ef við skoðum þetta í löndunum í kringum okkur þá er ástandið allt öðruvísi þar. Ég var t.d. fyrir nokkrum dögum að lesa mjög athyglisverða samantekt eftir ungan mann á sjávarútvegsstefnu Evrópusambandsins þar sem greinilega kom fram að eitt af því sem þeir töldu þar vera stóra verkefnið varðandi mótun sjávarútvegsstefnunnar til lengri tíma var að ná utan um flotastærðina, tryggja að flotinn minnkaði en stækkaði ekki. Sóknarmáttur hans yrði minni á morgun en hann var í gær. Þar var út af fyrir sig engin efnisleg umræða um það hvort þetta væri heimilt, hvort þetta leiddi til einhverrar mismununar eða eitthvað svoleiðis, heldur var umræðan eingöngu um að þetta væri það sem þyrfti að gera af nauðsynlegum ástæðum sem tilgreindar voru og menn nánast gáfu sér. Þetta finnst mér vera athyglisvert og nauðsynlegt að við vekjum athygli á.

[22:45]

Ljóst er að niðurstaða dómsins og sú túlkun sem menn hafa kallað þrönga setti stöðu smábátaútgerðarinnar í mikið uppnám. Smábátaútgerðinni hefur að verulegu leyti verið stjórnað með allt öðru fyrirkomulagi en hjá þeim hluta flotans, stærsta hluta flotans, sem lotið hefur aflamarkskerfinu. Það er ljóst að túlkun dómsins og niðurstaða setti stöðu þessara báta í mikið uppnám.

Þetta er grafalvarlegt mál vegna þess að við erum að fjalla um gríðarlega hagsmuni. Við erum ekki aðeins að tala um atvinnuhagsmuni einstakra útgerðarmanna, sem þó eru mjög ríkir. Um það bil þúsund útgerðarmenn eiga smábáta sem falla undir þetta kerfi. Bara af þeim ástæðum er um gríðarlega mikla hagsmuni að ræða. Við erum sem sagt ekki aðeins að ræða um atvinnuhagsmuni þessa fjölmenna hóps heldur einnig um lífshagsmuni heilla byggðarlaga. Það er kannski stóra málið í þessu sambandi. Hvernig við ætlum að verja til frambúðar byggðarlög sem hafa byggt sig upp í kringum það atvinnu- og athafnafrelsi og svigrúm sem fiskveiðistjórn smábátakerfisins hefur búið við.

Það gekk ekki þrautalaust að koma því á en eins og ég sýndi fram á við 1. umr. þessa máls hefur kerfið skapað gríðarlega mikla viðspyrnu víða um byggðir landsins. Við skulum ekki gleyma að þegar við komum þessu á var það gert í mikilli andstöðu við sterk öfl í þjóðfélaginu, öfl sem vildu hrópa þetta niður, töldu þetta einskis vert og til lítils. Þau töldu fyrirkomulagið á skjön við allt sem þyrfti að gera í þessu þjóðfélagi. Reynslan segir okkur hins vegar að þetta var bráðnauðsynlegt og skapaði vörn fyrir byggðarlög sem ella hefðu staðið mjög illa.

Í ljósi þeirrar umræðu er sérkennilegt að hlusta á dylgjur svo áhrifamikils manns sem formaður Landssambands ísl. útvegsmanna er, en þær höfum við heyrt í fjölmiðlum undanfarna sólarhringa. Fyrst kemur formaður Landssambands ísl. útvegsmanna og lætur í veðri vaka, án þess að nefna nein nöfn, án þess að nefna beinlínis hvað átt sé við, að mikil óheilindi séu á bak við starfsemi meiri hluta sjútvn. Starf nefndarinnar hafi miðað að því að skara eld að tiltekinni köku sem þessum einstöku nefndarmönnum átti að vera þóknanleg, og eitthvað í þessum dúr. Í dag upplýsti sami maður að hér væri átt við að þær breytingar sem meiri hluti hv. sjútvn. væri að gera væru sérstaklega þóknanlegar ótilteknum útgerðum í útgerðarplássinu Bolungarvík.

Nú skulum við velta fyrir okkur hverju er verið að ýja að. Í framhaldi af þeim miklu vandræðum sem dunið hafa yfir sjávarútveg á Vestfjörðum, m.a. í Bolungarvík, hefur verið reynt að bregðast við með þeim aðferðum sem mönnum hafa helst verið tiltækar, þ.e. að fara í veiðistjórnunarkerfi sem hefur verið ódýrara og auðveldara að komast inn í, veiðistjórnunarkerfi smábátanna. Vegna þess að þar var skapað tiltekið svigrúm, möguleikar sem nýttust sérstaklega þeim byggðarlögum sem best lágu við þorskveiðimiðunum, þá gátu þessi byggðarlög þrátt fyrir vandræði sín snúist til varnar og skapað sér ný sóknarfæri. Menn fjárfestu í dagabátum og þorskaflahámarksbátum. Niðurstaðan varð sú að mönnum tókst að auka að nýju landaðan afla á þessum stöðum, m.a. í Bolungarvík, sem formaður Landssambands ísl. útvegsmanna var að reyna að gera tortryggilegt í fjölmiðlum.

Þegar við veltum þessari umræðu fyrir okkur er ástæða til að geta þess að formaður Landssambands ísl. útvegsmanna ólmaðist gegn fiskveiðistjórninni, sem búin var til í kringum smábátana, af sérstakri heift og önuglyndi á sínum tíma. Hann fann þessu kerfi allt til foráttu. Hefðu hann og hans nótar fengið sínu framgengt þá væru mikil vandræði og mikil vá í byggðum landsins, ekki síst á Vestfjörðum.

Hversu mikill sannleikur getur verið í þessum efnum? Ég hef undir höndum lista yfir þá báta sem hafa svokallað þorskaflahámark. Þeir eru rétt um 400. Þó sæmileg fjölgun hafi orðið á bátum á Vestfjörðum og sæmileg fjölgun á bátum í heimabyggð minni þá veit ég að þeir eru ekki 400, þorskaflahámarksbátarnir. Það sem formaður Landssambands ísl. útvegsmanna lét í veðri vaka í fjölmiðlunum í kvöld, að sérstaklega væri hyglað tilteknum útgerðum í tilteknu sjávarplássi með tillögum meiri hluta sjútvn., er auðvitað eins og hver önnur firra.

Sem betur fer var vilji meiri hluta sjútvn. að verja sem best rekstrargrundvöll smábátaútgerðarinnar í heild, tryggja að hún ætti sér áframhaldandi lífsmöguleika, ekki síst til þess að standa undir þeirri mikilvægu atvinnustarfsemi sem hún hefur staðið undir á síðustu missirum. Það er vissulega lofsvert að að því verki var unnið.

Það væri alvarlegt ástand víða í byggðum landsins, ekki síst á Vestfjörðum, ef ekki tækist að skapa þessum mikilvæga útgerðarflokki traustan rekstrargrundvöll. Auðvitað má deila endalaust um hvernig skynsamlegast sé að fara í þetta mál. Við blasir að hagsmunir manna í þessu kerfi eru ákaflega margvíslegir. Menn eru mjög misjafnlega staddir hverju sinni er lögum er breytt í sjávarútveginum. Menn hafa aflað sér reynslu, unnið eftir ákveðnum forsendum, án þess að fyrir lægi að þær forsendur hefðu í för með sér afleiðingar sem löggjöfin þyrfti síðan að breyta. Því er ekkert óeðlilegt að í fyrsta lagi sé reynt gera breytingar sem eru á valdi hagsmunaaðilanna sjálfra, starfandi útgerðarmanna og sjómanna, að velja þær leiðir sem þeir telja skynsamlegastar og hagkvæmastar. Í öðru lagi á að reyna að búa til umþóttunartíma, aðdraganda sem menn geta farið inn í og búið sig undir breyttar aðstæður. Þetta atriði lagði ég höfuðáherslu á í ræðu minni við 1. umr. þessa máls. Þessir margvíslegu hagsmunir eru auðvitað að koma í ljós. Þær viðræður sem ég hef átt við fjöldann allan af smáútgerðarmönnum, trillukörlum, upp á síðkastið, hafa sannfært mig um að eina leiðin sé sú að hafa sem flesta valkosti opna sem menn geti þá leitað í og leiði til tiltekins ástands. Mér sýnist að meiri hluti hv. sjútvn. hafi reynt að gera það. Menn gera sér grein fyrir því að afar flókið er að beina öllum inn í einn og sama farveginn, þrátt fyrir að það sé reynt með bestu manna yfirsýn og vandað eins vel og mögulegt er.

Ég fullyrði, á grundvelli þessara samtala, að um þessa niðurstöðu eigi að vera hægt að skapa viðunandi sátt. Ég býst ekki við því að allir verði sammála. Það held ég að gerist aldrei í þessum efnum. Þó held ég að hægt sé að komast nálægt því að vera bærilega sáttur. Mér sýnist að ekki sé um að ræða þann grundvallarágreining, til að mynda við samtök smábátaeigenda, að nokkur setji sig í stellingar gegn þeirri niðurstöðu sem meiri hluti sjútvn. hefur komist að.

Mig langar í lokin að koma að einu atriði sem nokkuð hefur verið til umfjöllunar. Það er spurningin um að deila út 1.500 tonnum árlega til sérstakra byggðaaðgerða. Auðvitað gætum við ímyndað okkur að til þess ætti ekki að þurfa að koma, í besta heimi allra heima, að deila út 1.500 tonnum með þessum hætti. Skelfing væri gaman að upplifa þá stund að geta fullyrt að til þess muni ekki þurfa að koma og þau vandræði ekki skapast í sjávarútvegsbyggðum landsins, að bregðast þurfi við erfiðum aðstæðum. En því miður hræða sporin. Við höfum afar sára reynslu frá vissum stöðum, sem ekki þarf sérstaklega að tína hér til, sem gríðarlegar hremmingar hafa dunið yfir, m.a. vegna þess að á grundvelli núverandi löggjafar hefur sífellt verið aukið á kröfuna um meiri hagræðingu og lægri tilkostnað. Fyrirtæki hafa verið sameinuð til að draga úr kostnaði og aflaheimildir sameinaðar. Það hefur leitt til þess að á endanum hefur það bitnað á einhverjum og í ýmsum tilvikum á smáum og veikum sjávarútvegsbyggðum. Við þekkjum bara allt of vel dæmin af þessu.

Auðvitað hefur það reddast að lokum, eitthvað gerst sem hefur leitt til þess að menn hafa kraflað sig áfram. En ég fullyrði, út frá mjög sárri og biturri reynslu af svæði sem ég þekki afar vel, að það hefði verið gott á sínum tíma að geta hraðað viðreisn atvinnulífsins í þessum byggðum með því að hafa til að dreifa aflaheimildum sem hægt hefði verið að nýta sem afl til að snúa við neikvæðri þróun.

Ég fullyrði það og þekki af eigin reynslu að tiltekin byggðarlög í landinu sem hafa orðið fyrir gríðarlegu áfalli vegna þess að aflaheimildirnar hafa horfið þaðan, m.a. í kjölfar meintrar hagræðingar í sjávarútvegi, hafa orðið fyrir slíku höggi. Þó að allt líti þokkalega út á yfirborðinu þá hafa þessi byggðarlög ekki borið þess bætur. Þess vegna segi ég: Það er mjög eðlilegt við slíkar aðstæður, sem við höfum því miður dæmi um, að menn reyni að hafa einhvern viðbúnað.

Í þessu sambandi vil ég vekja athygli á till. til þál. um stefnu í byggðamálum sem nú er til umfjöllunar í allshn. Alþingis. Hún var rædd fyrr á þessu þingi. Þar er sérstaklega vikið að aðstæðum sem þessum. Í 4. tölul. þessarar þáltill. er m.a. sagt svo, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sköpuð verði skilyrði til þess að styðja sérstaklega aðgerðir á afmörkuðum svæðum þar sem veruleg röskun verður á atvinnuháttum og búsetu. Sérstaklega verði hugað að aðgerðum í byggðum þar sem atvinnulíf er fábreytt og útgerð á í vök að verjast.``

Hér er þeirri almennu stefnumótun sem þarna var sett fram svarað á vissan hátt. Það er ekkert óeðlilegt að ríkisvaldið hafi tiltæk úrræði til þess að bregðast við með skipulegum hætti þegar vá skellur yfir í einstökum byggðarlögum. Þá er þjóðfélagslega mjög dýrt að þurfa að standa hjá án þess að geta sig hrært. Ég tel því mjög eðlilegt að hafa úrræði af þessu tagi.

Við höfum dálitla reynslu af þessu frá því settur var upp svokallaður Byggðastofnunarpottur, 500 tonn. Það er rangt sem hér var haldið fram áðan, að hann hafi ekki reynst vel. Hann reyndist prýðilega og kom að mjög góðum notum í þeim byggðarlögum orðið höfðu fyrir mestri skerðingu. Byggðastofnun mótaði afmarkaðar og vel skilgreindar reglur. Miðað við að þar var deilt út 500 tonnum var ótrúlega mikil sátt um það mál. Þau tilvik sem menn fundu að voru miklu færri en ég hafði a.m.k. látið mér detta í hug.

Ástæðan fyrir því að við tókum þá ákvörðun að leggja þetta niður var að menn höfðu náð vopnum sínum í þorskaflahámarkinu. Það kerfi var miðað við að styðja og efla þorskaflahámarksbáta. Við höfðum náð vopnum okkar í þorskaflahámarkinu þannig að tilefnið til að deila þessum aflaheimildum út var ekki til staðar. Þá varð niðurstaða Alþingis sú að deila aflaheimildunum varanlega til þeirra báta sem höfðu að nokkru notið þessa áður en einnig til báta --- og nú nauðsynlegt að leggja áherslu á það --- undir 6 tonnum að stærð sem fiskað höfðu á aflamarki. Þar var líka reynt að koma til móts við báta sem allir virðast vera sammála um, ég er a.m.k. einn þeirra, að hafi orðið mjög illa úti í fiskveiðistjórnarkerfinu sem við höfum búið við undanfarin ár.

[23:00]

Virðulegi forseti. Auðvitað er út af fyrir sig hægt að hafa uppi miklar umræður um þetta mál. Það er þess eðlis að það gefur tilefni til langrar umræðu í sjálfu sér. Þetta er grundvallarmál, þetta snertir mikilvægustu atvinnugrein okkar, þetta snertir stöðu landsbyggðarinnar og mun hafa mikil áhrif á lífskjör okkar í framtíðinni hvernig við skipuleggjum sjávarútveg okkar.

Lögin um stjórn fiskveiða eru auðvitað mjög umdeilanleg, svo ekki sé meira sagt, og við erum mörg sem höfum uppi miklar efasemdir um mjög marga hluti í þeim lögum þótt á mismunandi forsendum sé eins og gengur og hefur auðvitað komið glögglega fram. Þess vegna vil ég segja að lokum að ég fagna sérstaklega þeirri niðurstöðu meiri hluta sjútvn. að styrkja ákvæðið um endurskoðun laganna sem ýjað var að, getum við sagt, í frv. sem hæstv. sjútvrh. lagði fram. Ég tel að sú niðurstaða sem hv. meiri hluti sjútvn. leggur til geri það að verkum að nú fari af stað ferli, vinna við það að endurskoða þessi lög, skoða þau frá grunni, líta sérstaklega á öll þau álitamál sem við þekkjum og mjög mörg hefur borið á góma með einum eða öðrum hætti í umræðunni í dag og í kvöld. Ég tel það sé raunhæft markmið sem hér er sett fram, að þessi nefnd ljúki störfum sínum fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001. Kannski finnst einhverjum að þetta sé langur tími, ég er ekki sammála því. Ég held að þessi vinna sé þess eðlis að hún þurfi mikillar vandvirkni við og tíminn er fljótur að líða eins og við vitum og það er að mörgu að hyggja. Ég held þess vegna að við sem höfum haft sitthvað við framkvæmd núverandi kerfis að athuga hljótum að fagna þessari niðurstöðu og ég held að fyrir sjávarútveginn í heild sé þetta ákaflega mikilvægt vegna þess að sjávarútvegurinn hefur af ýmsum ástæðum, m.a. og ekki síst vegna þeirrar almennu óánægju sem er með marga þætti stjórnkerfisins, búið við ákveðna óvissu sem nauðsynlegt er að draga úr vegna hagsmuna sjávarútvegsins sjálfs og þjóðarinnar. Þess vegna er mikilvægt að mínu mati að setja skipulega af stað endurskoðun laganna og ég tek fram að ég vænti mikils af þeirri endurskoðun.