Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 11. janúar 1999, kl. 23:04:27 (3020)

1999-01-11 23:04:27# 123. lþ. 52.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 52. fundur, 123. lþ.

[23:04]

Einar K. Guðfinnsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal reyna að svara þessum tveimur spurningum í þeim símskeytastíl sem andsvörin bjóða upp á. Í fyrsta lagi varðandi athafnafrelsið og það hvort ég teldi að með tillögum meiri hluta sjútvn. væri verið að skerða það frelsi. Nei, ég tel miðað við þær aðstæður sem sköpuðust við dóm Hæstaréttar og þá niðurstöðu sem menn komust að varðandi þann dóm að hér sé gengið eins langt í þá átt og hægt er að teikna upp fyrirkomulag sem festir í sessi, skulum við segja, þá reynslu sem veiðistjórnun smábáta hafði verið að búa til.

Það er alveg ljóst mál að talsverð breyting verður á stöðu smábáta við þá lagasetningu sem er núna í farvatninu. Það er augljóst mál og það þorskaflahámarkskerfi sem við höfum byggt upp verður ekki við lýði. Ég get alveg viðurkennt að mér er mikil eftirsjá að því en hins vegar er ljóst að miðað við stöðu mála er ekki hægt að verja það kerfi óbreytt. Sama er að segja um dagakerfið. Það var heldur ekki hægt að verja það óbreytt. Þetta mun því hafa í för með sér röskun en þetta mun hins vegar ekki gera að verkum að þessir smáútgerðarmenn hafi ekki athafnafrelsi til að stunda vinnu sína.

Hitt var það hvort meiri hluti sjútvn. væri betur til þess fallinn en Landssamband smábátaeigenda að verja hagsmuni þess hóps. Þá vil ég vekja athygli á því að í tillögum meiri hluta sjútvn., og það var einmitt það sem ég lagði mikla áherslu á, er boðið upp á valkosti og einn valkosturinn er sá að fara í meginatriðum inn í þann farveg sem Landssamband smábátaeigenda hafði komist að niðurstöðu um með hæstv. sjútvrh. Ég tel langeðlilegast og skynsamlegast að það sé í valdi sjómanna og útgerðarmannanna sjálfra að velja þær leiðir að tilteknum áfangastað sem þeir telja sjálfir skynsamlegastan.