Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 11:39:28 (3025)

1999-01-12 11:39:28# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[11:39]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Tillögur stjórnarliða um byggðakvóta eru viðbragð við ákveðnum afleiðingum af kerfinu. Mér finnst mjög ósanngjarnt af þingmönnum jafnaðarmanna að gagnrýna þessa tillögu okkar svo mjög sem raun ber vitni án þess að þeir hafi sjálfir neinar aðrar tillögur fram að færa um það hvernig þeir vilja bregðast við þessari afleiðingu af kvótakerfinu.

Af því að það kom fram í máli hv. ræðumanns að ekki væri samkomulag milli stjórnarliða í sjútvn. vil ég bera það til baka. Fullt samkomulag er um afgreiðslu málsins og hefur verið mjög gott samstarf milli þingmanna stjórnarflokkanna í þessu máli.

Ég vil svo segja að lokum, af því það kom fram hjá hv. þm. að verið væri að hvetja til óskynsamlegrar sjósóknar í svartasta skammdeginu á tiltölulega litlum bátum, að það er í raun og veru þvert á móti það sem felst í tillögu nefndarinnar. Nefndin er einmitt að leggja fram tillögur um að beina sjósókninni frá þessum árstíma og upp úr þessum litlu bátum. Annars vegar með því að setja það skilyrði fyrir sóknardagakerfi að á því sé einungis róið á tímabilinu 1. apríl til til 30. sept. og þar með að stöðva veiðar þessara smáu báta yfir háveturinn sem hafa verið leyfðar hingað til og sem merkilegt nokk hefur verið gagnrýnt að við skyldum leggja til að takmarka sóknina á þessum tíma, bæði á Alþingi og af fulltrúum Landssambands smábátaeigenda. Það er dálítið merkileg afstaða, herra forseti.

Í öðru lagi felst í tillögu meiri hluta sjútvn. að heimilt verður að stækka þorskaflahámarksbáta að loknum aðlögunartíma upp úr sex tonnum. Með því erum við að beina sjósókninni á þessum bátum úr þeirri stærð sem hún er í í dag yfir í stærri og öruggari báta.