Stjórn fiskveiða

Þriðjudaginn 12. janúar 1999, kl. 12:16:45 (3033)

1999-01-12 12:16:45# 123. lþ. 53.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 53. fundur, 123. lþ.

[12:16]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þyrfti að halda aðra ræðu til að svara fyrirspyrjanda. Ég spyr hann aftur í staðinn: Var það rétt tekið eftir að hann telur það vitlausa tillögu hjá mér að reyna að standa gegn stækkun flotans? (GE: ... sammála.) Nú, varstu sammála? Ágætt, það er gott að vita það. Ég trúði ekki hinu.

Ég lít þannig á og tók undir þær aðfinnslur og kvartanir sem komu fram í sjútvn., að við þyrftum lengri tíma til að fara í gegnum grásleppumálið, þar væru hlutir sem orkuðu mjög tvímælis og ekki sú knýjandi þörf, ekki sú nauð sem ræki okkur til þess að afgreiða það einmitt núna. Við ákváðum það sameiginlega að gefa okkur betri tíma til að reyna að höndla það hvernig við gætum helst orðið þeim að liði.

Ég lít þannig á, herra forseti, að ríkisstjórnin og stuðningsflokkar hennar hafi gert hárrétt, með því að grípa til þeirra ráðstafana að tryggja atvinnuréttindi og afkomu þeirra báta sem höfðu veiðileyfi skv. 5. gr. með því að flytja þau yfir í þá 6. og tryggja þannig að ekki færi saman veiðileyfi og veiðiheimild. Okkur ber skylda til þess og þetta áttum við að gera. Við viljum sýna íslenskri útgerð fram á að við, ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar, viljum standa vörð um atvinnuréttindi allra í útgerð. Við viljum ekki hafa nein vafaatriði þar um. Við teljum það nauðsynlegt, annars værum við að vinna efnahagslífinu gríðarlegt tjón. Svo koma hér menn og segja: Þetta var ekki nóg. Það er kannski væntanlegur einhver annar dómur, einhver annar skilningur. Það er nokkuð, herra forseti, sem við á Alþingi getum ekki tekið til umræðu og rætt. Ef slíkt gerist munum við að sjálfsögðu taka það þeim tökum sem efnið gefur tilefni til.